Mikið hefur verið rætt um geðheilbrigðismál á undanförnum misserum. Fólk sem glímt hefur við andleg veikindi, aðstandendur, félagasamtök og fleiri hafa tekið þátt í þeirri umræðu og hefur ný ríkisstjórn lofað því að geðheilbrigðismál muni hafa forgang. Háskóli Íslands hefur brugðist við kalli nemenda um aukna geðheilbrigðisþjónustu. Í febrúar hófst hópnámskeið í hugrænni atferlismeðferð sem hefur verið gagnreynt og á að hjálpa nemendum sem glíma við kvíða og þunglyndi.
Sálfræðiþjónusta þarf að vera til staðar innan skólans
Rúmlega þriðjungur háskólanema á Íslandi mælist með miðlungs eða alvarleg einkenni þunglyndis. Um 20% nemenda mælist einnig með kvíðaeinkenni en oft er talað um að kvíði og þunglyndi haldist í hendur.
Þetta sýnir rannsókn sem gerð var í Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri og Háskólanum í Reykjavík í lok síðasta árs. Rannsóknina framkvæmdu þau Andri Hauksteinn Oddsson og Halldóra Björg Rafnsdóttir, sálfræðingar.
Samkvæmt þessu eru rúmlega 4133 nemendur Háskóla Íslands þunglyndir. Ýmsar hugmyndir hafa flogið á milli manna um af hverju þetta sé svona en orsakirnar hafa ekki verið rannsakaðar sérstaklega. Niðurstöður þessarar rannsóknar eru hins vegar svipaðar erlendum rannsóknum, segir Halldóra Björg en hún og Andri Hauksteinn ræddu niðurstöðurnar í Morgunútvarpinu á Rás 2 í janúar. Andri Hauksteinn sagði í því viðtali að oft væri litið til háskólanema sem forréttindahóps í samfélaginu en umhverfi þeirra sé engu að síður mjög krefjandi. Halldóra Björg sagði einnig að margir nemendur geri sér ekki grein fyrir einkennum geðraskana og leiti sér því síður aðstoðar. Hún sagði það nauðsynlegt að sálfræðiþjónusta standi nemendum til boða innan skólans.
Nemendur hafa kallað eftir breytingum
Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur sett geðheilbrigðismál í forgang undanfarin misseri og barist fyrir því að sálfræðiþjónusta verði aukin við skólann. Elísabet Brynjarsdóttir, formaður Stúdentaráðs, skrifaði pistil, sem birtist á Vísi í apríl á síðasta ári þar sem hún ræddi meðal annars um mikilvægi fræðslu á geðheilbrigði fyrir nemendur og að fræðsla geti aukið líkur á að fólk leiti sér aðstoðar. „En hvað gerist svo þegar að unga fólkið leitar sér aðstoðar? Aðgengi að sálfræðiþjónustu við Háskóla Íslands er verulega skert. Við Háskóla Íslands starfar einn sálfræðingur í hálfu stöðugildi. Hálft stöðugildi sálfræðings fyrir tæplega 12.500 manns. Til samanburðar má nefna að viðmið samtaka bandarískra skólasálfræðinga (NASP) gera ráð fyrir heilu stöðugildi sálfræðings fyrir hverja 1.000 nemendur,” sagði Elísabet.
Staðalímynd um hinn fátæka námsmann skaðleg
Elísabet sagði einnig í erindi, sem hún hélt á Háskólatorgi í mars, að það væri skaðlegt að staðalímyndum um fátæka námsmenn væri ennþá haldið á lofti. Hún sagði það ekki eðlilegt að nemendur sem séu í krefjandi námi nái ekki endum saman, eigi ekki kost á raunhæfu húsnæði eða geðheilbrigðisþjónustu. „Nýverið fór ég einmitt sjálf til sálfræðings. Tíminn kostaði 14.000 krónur. Þannig ef ég ætla að halda áfram að fara til sálfræðings og ljúka þeirri meðferð, verður það líklega í kringum 150.000 krónur. Þetta er auðvelt reikningsdæmi. 150.000 krónur fyrir einstakling á Lín er frekar stór pakki,“ sagði Elísabet í erindi sínu.
Þrír af hverjum fjórum finna fyrir streitu
Könnun sem gerð var á meðal nemenda á Heilbrigðisvísindasviði gefur til kynna að þrír af hverjum fjórum nemendum finni fyrir streitu. Elísabet Brynjarsdóttir, formaður Stúdentaráðs er einnig formaður sviðsráðs Heilbrigðisvísindasviðs. „Það sem við tökum svona helst út úr þessari könnun er að 110 einstaklingar af 809 höfðu þurft að seinka sér eða taka hlé á námi vegna álags og aðeins 85 einstaklingar af 809, sem eru um 10%, vita hvaða úrræði eru í boði við Háskóla Íslands. 22% sem svöruðu könnuninni voru með greinda geðröskun og sömuleiðis höfðu um 78% haft einbeitingarleysi eða átt erfitt með minni síðustu tvær vikur,” sagði Elísabet í samtali við Student.is í janúar, þegar hún kynnti niðurstöður könnunarinnar fyrir Stúdentaráði.
Breskir háskólanemar einnig í vandræðum
Geðheilbrigði háskólanema hefur líka verið rannsakað í Bretlandi. Háskólanemar þar hafa einnig fundið fyrir kvíða- og þunglyndiseinkennum. Í grein sem birtist á vefsíðu The Guardian kemur fram að níu af hverjum tíu háskólanemum í Bretlandi eiga erfitt með að aðlagast háskólaumhverfinu. Flestir segjast eiga erfitt með að aðlagast auknum kröfum í náminu en margir upplifa einnig einangrun, fjárhagserfiðleika og erfiðleika við að búa á eigin vegum. Jon Wakeford, höfundur greinarinnar, segir að nú sé tími til kominn að háskólar setji geðheilbrigðismál nemenda sinna í forgang.
Andlegri líðan ungs fólks á Íslandi hefur farið hrakandi
Undanfarin ár hefur embætti landlæknis rannsakað andlega heilsu þjóðarinnar og kemur þar í ljós að henni virðist fara hrakandi ár frá ári. Ungt fólk er þar meira áberandi en aðrir aldurshópar og virðist andlegri líðan þeirra hraka mest. Í fréttum Stöðvar 2 þann 15. mars kom fram að sífellt fleira ungt fólk upplifi einmanaleika og óhamingju. Sigrún Daníelsdóttir, verkefnastjóri hjá Landlækni, sagði þar samfélagsmiðla geta haft eitthvað um þetta að segja. Þar sé mikið af efni sem búi til óraunhæfar væntingar hjá ungu fólki. Með því að bera sig saman við aðra á samfélagsmiðlum sem manni finnst hafa það betra en maður sjálfur þá sé auðvelt að verða meira einmana eða einangraður.
Um helmingur íslenskra ungmenna hugsað um að enda líf sitt
Á Íslandi taka 11 til 13 af hverjum hundrað þúsund íbúum líf sitt á hverju ári. Árið 1991 var fyrst farið að skrá tíðni sjálfsvíga hér á landi en hún hefur lítið breyst síðan þá. Í tveimur rannsóknum sem framkvæmdar voru í upphafi þessarar aldar kemur í ljós að um helmingur íslenskra ungmenna á aldrinum 16-25 ára hefur haft sjálfsvígshugleiðingar. Af þessum hópi hafði einn af hverjum tíu gert eitthvað til þess að skaða sig. Þetta sagði Engilbert Sigurðsson, yfirlæknir á geðsviði Landspítala, í samtali við Arnhildi Hálfdánardóttur á Fréttastofu RÚV í september.
Tæp 40% nemenda eru 19-25 ára
Miðað við 20. febrúar 2018 er heildarfjöldi nemenda í Háskóla Íslands 12.526. Af þessum fjölda eru tæp 40% á aldrinum 19-25 ára, eða 4.637 nemendur. 3.074 nemendur eru á aldrinum 26-30 eða 25%.
Vilja auka þjónustuna
Stjórnendur Háskóla Íslands hafa heyrt köll nemenda undanfarin misseri og hafa ákveðið að bregðast við. Í febrúar hófst hópnámskeið í hugrænni atferlismeðferð við skólann, nemendum að kostnaðarlausu. Um er að ræða sex vikna langt námskeið, einu sinni í viku, tvær klukkustundir í senn.
„Við erum að bregðast við stúdentum og Stúdentaráði sem hafa kallað eftir þessu í svolítinn tíma,“ segir Róbert H. Haraldsson, Sviðstjóri kennslumála. Róbert segir Stúdentaráð hafa sett geðheilbrigðismál á oddinn undanfarin misseri en einnig sé horft til biðlista sem hafi myndast hjá sálfræðingum á vegum sálfræðideildarinnar og hjá náms- og starfsráðgjöf.
Aðspurður út í rannsókn Halldóru Bjargar og Andra Hauksteins, þar sem kom í ljós að um þriðjungur háskólanema sé þunglyndur, segist Róbert hafa tekið eftir umræðunni í samfélaginu um geðheilbrigðismál ungs fólks en að háskólinn sé ekki einungis að bregðast við niðurstöðum þeirrar rannsóknar heldur helst því sem nemendur hafa verið að kalla eftir undanfarið. „Við vildum sjá hvernig nemendur myndu bregðast við og það virðast vera mjög góð viðbrögð enn sem komið er og kannski kemur jafnvel enn þá meira,” segir Róbert. Fyrirmyndin að námskeiðinu sem boðið verður upp á sé úrræði sem hafi verið þróað og reynt á Landspítalanum og heilsugæslunni.
Róbert segir markmiðið að geta séð strax hvernig reynist að bjóða nemendum upp á námskeið af þessu tagi og meta í kjölfarið hvernig hægt sé að bæta þjónustuna enn frekar í haust. „Þetta er sem sagt aðeins stærra en þegar fólk er kannski 8-12 manns saman í hóp. Það er verið að ná til stærri hóps með gagnreyndri aðferð þar sem fólk fær kennsluefni og þetta er leitt af mjög færum sálfræðingum,“ segir Róbert.
Námskeiðið fer vel af stað
Fjóla Katrín Steinsdóttir og Eva Rós Gunnarsdóttir, sálfræðingar á Landsspítalanum hafa umsjón með námskeiðinu. Fjóla Katrín segir það byrja vel. „Það eru um 20 nemendur á námskeiðinu hjá okkur. Við erum búin með tvö skipti og það eru fjögur eftir. En þetta fer vel af stað,“ segir Fjóla.
Aðeins 10% þekkja úrræðin
Róbert segir það vonbrigði að svo fáir nemendur séu meðvitaðir um þau úrræði sem í boði eru við skólann. „Það er óheppilegt ef svo er. Ég vona að við höfum verið að kynna þetta betur. Því það er rétt, við erum náttúrulega með ýmislegt í gangi. Við erum með námsráðgjöf þar sem er sálfræðingur í 50% starfi. Við erum með sálfræðiráðgjöf í gegnum sálfræðideildina. En ég var nú að vona að það væru fleiri sem þekktu úrræðin en 10%,” segir Róbert. Hann segir mikilvægt að átta sig á hversu víðfeðmur vandinn er svo hægt sé að einbeita sér að því að leysa hann. „Og við gerum það að einhverju leyti til dæmis með því að sjá hvort það séu langir biðlistar í úrræðin sem við bjóðum upp á. Ég hef nú séð þetta svolítið þannig að þetta sé ekki bara spurning um eitthvað eitt útspil. Það sem við byrjum á núna er að fá þessa reyndu sálfræðinga til að bjóða upp á þetta úrræði. Það hefur verið reynt annar staðar. Það skilar árangri. Það að vísu þarf að skima fyrir það því það gagnast ekki öllum. Það eru vandamál sem nemendur hafa sem þarf að fást við í einkameðferð eða í minni hópum”.
„Við teljum að það sé líka þörf á að styrkja sálfræðiráðgjöf við skólann. Það er í farvatninu. Að styrkja það starf, sem er gott, en það þarf bara að bæta við það.” Róbert segir að það þurfi einnig að skoða námsumhverfi nemenda. „Þetta er náttúrulega líka spurning um húsnæði, námslán, álag. Það er margt sem kemur inn í þetta.“
Úrræði sem á að hjálpa nemendum
Róbert bendir einnig á að þetta nýja námskeið sé nokkuð stórt verkefni. „Þetta er hópmeðferðarúrræði, það er ekki bara eitthvað pínulítið verið að segja frá heldur er þetta hugræn atferlismeðferð, gagnreynd. Þetta eru 6 vikur þar sem þú færð gögn og námsefni og ef nemendur koma þannig út úr skimuninni að þetta sé úrræði sem geti gagnast þeim þá á þetta að hjálpa þeim. Þetta á að vera úrræði sem hjálpar töluvert. Þetta er eitthvað sem hefur verið prófað,“ segir Róbert að lokum.
Höfundur er nemi í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands.