MYND:EPA

Guns N´Roses spila á Laugardalsvelli í sumar

Þann 24. júlí næstkomandi spilar ein vinsælasta, og goðsagnakenndasta, rokkhljómsveit sögunnar á Íslandi. Axl Rose, Slash, Duff McKagan og hinir mæta á Laugardalsvöll.

Bandaríska rokkhljómsveitin Guns N´Roses, sem selt hefur yfir 100 milljón plötur á ferli sínum, mun halda tónleika á Laugardalsvelli 24. júlí næstkomandi. Um verður að ræða stærstu tónleika sem haldnir hafa verið hérlendis. Miðasala hefst 1. maí næstkomandi og mun kosta 18.900 krónur á tónleikanna. Hún fer fram á vefsíðunni  www.show.is og hefst stundvíslega klukkan 10 fyrir hádegi. Teymið á bakvið Secret Soltice-hátiðina stendur að tónleikunum.

Í tilkynningu vegna þessa segir að sviðið sjálft á tónleikunum verði 65 metra breitt með risaskjáum á hliðinum. Svið, ljós og hljóðkerfi verður flutt inn erlendis frá. „Lagt verður sérstakt gólf á grasið á Laugardalsvelli til þess að vernda völlinn fyrir öllu álagi vegna tónleikahaldsins. 

Auglýsing

Það mun taka um það bil viku að setja upp völlinn fyrir tónleikana og það eru 35 gámar sem þarf að flytja inn til landsins.  Rúmlega 150 manns ferðast með hljómsveitinni hingað til lands til að sjá um uppsetningu í samvinnu við íslenskt framleiðsluteymi.“

Slagaraframleiðsla

Guns N´Roses var stofnuð árið 1985 og sló í gegn með frumburðinum „Appetite for Destruction“ sem kom út tveimur árum síðar. Hún hefur selst í yfir 30 milljónum eintaka síðan að hún kom út og er enn þann dag í dag sú fyrsta plata hljómsveitar eða tónlistarmanns sem selst hefur best. Á meðal laga plötunnar sem náðu feikilegum vinsældum eru „Welcome to the Jungle“, „Paradise City“ og „Sweet Child o´Mine“.

Í september 1991 gaf hljómsveitin svo út tvíburaplötunar „Use Your Illusion I&II“. Í aðdraganda þeirrar útgáfu, og eftir hana, fór Guns N´Roses á 28 mánaða langt tónleikarferðalag um allan heiminn sem átti eftir að taka sinn toll. Alls hélt hljómsveitin 192 tónleika í 27 löndum á þeim tíma. Um er að ræða eitt lengsta, ef ekki lengsta, samfellda tónleikaferðalag sögunnar.

Báðar plöturnar slógu í gegn og hafa selst í yfir 35 milljónum eintaka samtals um heim allan. Á meðal laga þeirra sem fólk ætti að muna eftir eru epísku ballöðusmellirnir „Don´t Cry“, „November Rain“ og „Estranged“. Þar var einnig að finna lög á borð við „Civil War“, „14 years“, „Yesterdays“ og tökulögin „Knockin´on Heavens Door“ og „Live and Let Die“.

Ósætti... 

Ósætti milli hljómsveitameðlima gerði það hins vegar að verkum að hljómsveitin leystist upp á árunum 1994 til 1999. Mest munaði um það þegar gítarleikarinn goðsagnakenndi Slash, annar leiðtoga Guns N´Roses, hætti í sveitinni í október 1996. Hinn leiðtoginn, söngvarinn sérlundaði Axl Rose hélt hljómsveitinni hins vegar starfandi, að minnsta kosti annað veifið, með nýjum liðsmönnum.

Svona litu liðsmenn út árið 1987 þegar „Appetite for Destruction“ kom út.
Mynd: GNR

Árið 2008 gaf Guns N´Roses, sem var þá í raun bara Axl Rose, út plötuna „Chinese Democracy“ sem hafði verið meira en áratug í vinnslu og kostað um 1,4 milljarð króna í framleiðslu. Það gerir hana að langdýrustu rokkplötu allra tíma. Almennt álit aðdáenda og gagnrýnenda er að þeim fjármunum hafi ekki verið vel  varið.

...og endurkoma

Árið 2016, 20 árum eftir að Slash hætti í Guns N´Roses, var tilkynnt um að sættir hefðu náðst. Slash, bassaleikarinn Duff McKagan og Dizzy Reed gengu aftur í hljómsveitina og boðuðu „Not in This Lifetime…“ tónleikaferðalagið. Auk þeirra þriggja var Axl Rose vitanlega með auk gítarleikarans Richard Fortus, trommarans Frank Ferrer og hljómborðsleikarans Mellisu Reese.

Sú tónleikaferð stendur enn yfir og er nú á leiðinni til Íslands. Hún hefur halað inn tæplega 50 milljörðum króna sem gerir hana að fjórða arðbærasta tónleikarferðalagi allra tíma. Alls hafa um 4,4 milljónir manna séð hljómsveitina á umræddu tónleikaferðarlagi, þar sem Guns N´Roses hafa haldið 125 tónleika.

Kanntu vel við Kjarnann?

Við á Kjarnanum þökkum lesendum fyrir það traust sem þeir sýna með því að styrkja Kjarnann. 

Frjáls framlög frá lesendum hafa vaxið jafnt og þétt síðustu árin og eru mikilvæg tekjustoð undir reksturinn. Þau gera okkur kleift að halda áfram að taka þátt í umræðunni og greina kjarnann frá hisminu. 

Við tökum hlutverk okkar sem fjölmiðill í þjónustu almennings alvarlega. Kjarninn birti 409 fréttaskýringar og 2.367 fréttir á árinu 2019. Kjarninn er vettvangur umræðu og á nýliðnu ári voru 539 skoðanagreinar birtar, stærstur hluti þeirra aðsendar greinar. 

Okkar tryggð er aðeins við lesendur. Við erum skuldbundin ykkur og værum þakklát ef þið vilduð vera með í að gera Kjarnann enn sterkari.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar