Root

Kaninn kann þetta: Nýliðavalið í NFL 2018

Liðin í ameríska fótboltanum völdu sér nýja leikmenn um síðustu helgi. Mörgum liðum tókst vel til við að styrkja leikmannahóp sinn. Venju samkvæmt var nokkuð um dramatík og tveggja klúta sögur einstakra leikmanna. Kjarninn fór yfir valið, helstu hetjusögur og hitar upp fyrir komandi tímabil.

Árlega er haldið draft (nýliðaval) í NFL deildinni í ameríska fótboltanum. Þar gefst liðum deildarinnar tækifæri til að bæta nýjum hæfileikaríkum leikmönnum við liðsheild sína.


Draft day er kannski ekki alveg á pari við Ofurskálina eða Superbowl í alþjóðlegum vinsældum en samt sem áður afar vinsæll hjá aðdáendum íþróttarinnar og kærkomin afþreying meðan beðið er eftir að deildin hefjist að nýju að hausti.


NFL draftið hefur breyst í tímanna rás, eftir því sem deildin hefur stækkað bæði að umfangi og vinsældum. Nýjar reglur og viðmið eru iðulega tekin upp til að sjá til þess að valið sé sem sanngjarnast og stuðli að heilbrigðri samkeppni innan deildarinnar.

Hvernig gengur þetta fyrir sig?

Hvert lið í deildinni, alls 32 talsins, fá einn valrétt í hverri umferð en umferðirnar eru sjö í nýliðavalinu. Liðið sem endaði í neðsta sæti á síðasta tímabili byrjar valið og þannig raðast þau þar til sigurvegari Ofurskálarinnar á síðata valrétt.

Draftið er haldið að vori til á ári hverju, frá fimmtudegi til laugardags. Aðeins ein umferð fer fram á fimmtudagskvöldi og hefur hvert lið tíu mínútur til að velja sinn leikmann. Önnur og þriðja umferð fer fram á föstudegi og umferðir fjögur til sjö á laugardegi. Tíminn sem liðin hafa til að velja sér leikmann minnkar frá hverri umferð til þeirrar næstu. Fari liðin fram yfir tímann geta þau áfram valið sér leikmann, en eiga það á hættu liðin á eftir því í röðinni velji leikmann sem þau hafa augastað á.

Liðin geta skipt á valrétti sín á milli, allt eftir því hversu mikla þörf þeir hafa á nýjum og sterkum leikmönnum. Þó að lítið sjáist af samningaviðræðum milli liðanna bak við tjöldin liggur fyrir að þessar örfáu mínútur sem hvert lið hefur til umráða til að velja leikmennina geta verið afar dramatískar, enda erfitt fyrir liðin að sjá fyrir hvaða leikmenn verða á lausu þegar kemur að þeim í röðinni að velja.


Hvert lið er með fulltrúa á staðnum þar sem valið fer fram sem er í stanslausu sambandi við stjórnendur liðanna í höfuðstöðvum þeirra. Þegar stjórendurnir hafa ákveðið hvað skal velja skrifa fulltrúarnir nafnið, leikvallarstöðu og skóla leikmannsins niður á blað og afhenda NFL starfsmanni valið. Um leið og starfsmaðurinn fær blaðið í hendurnar er valið orðið formlegt og klukkan fer að telja niður fyrir val næsta liðs. Strax í kjölfarið eru aðrir látnir vita af valinu sem að lokum og mjög fljótlega eftir þetta er gert opinbert af forseta NFL deildarinnar.

Hverjir eiga möguleika á því að vera draftaðir eða valdir?

Til að eiga möguleika á því að komast í hóp þeirra sem koma til greina í nýliðavalinu þurfa leikmenn að hafa lokið grunnskóla eða high school fyrir minnst þremur árum og uppfylla akademísk og önnur skilyrði, eins og til dæmis að hafa ekki þegið greiðslu fyrir íþróttaiðkun sína.

Fulltrúar deildarinnar kanna og staðfesta hvort leikmenn eigi séns á að koma til greina í valinu, og skoðar þannig bakgrunn um það til 3.000 háskólaleikmanna á ári hverju.

Valið er nokkuð einfalt á að líta fyrir áhugamenn. Að baki því eru þó ótrúlegar rannsóknir liðanna á getu nýliðanna, umfangsmiklar prófanir á kastgetu þeirra, styrk, snerpu og öllu því sem til þarf til að skara fram úr í NFL deildinni. Að auki eru sér reglur um svokallaða free agenta sem losna frá liðunum.

Vel heppnað val á einum einstökum leikmanni getur og hefur breytt stefnu liða bæði þegar kemur að árangri þeirra og vinsældum. Liðin gera sitt besta til að meta leikmenn til framtíðar og hvaða val sem er getur orðið að næstu NFL stórstjörnu. Einstaklingur sem valinn er í sjöttu umferð gæti allt eins orðið að næsta Tom Brady.

Valið í ár - dramatísku hápunktarnir

Roger Goodell forseti NFL. Mynd: EPANýliðavalið í ár fór fram á heimavelli Kúrekanna frá Dallas á AT&T Stadium í Texas. Forseti NFL deildarinnar Roger Goodell er ávallt kynnir og þrátt fyrir að það sé fastur liður eins og venjulega að hlusta á alla áhorfendur hvar sem í liði þeir standa í deildinni sameinast í hatri á manninum, þá venst það aldrei að fylgjast með múgæsingnum sem fer af stað þegar hann gengur á svið í nýliðavalinu á ári hverju. Þúsundir aðdáenda íþróttarinnar og einstakra liða öskra og baula  á Goodell, sem er samtímis hataðasti maður NFL íþróttarinnar og sá valdamesti.

Ár hvert eru ávallt nokkrum tugum leikmanna raðað á mismunandi lista álitsgjafa og kunnáttumanna eftir getu, það er að segja þeir sem skora hæst í sínum stöðum og búist er við að verði þeir fyrstu til að vera valdir. Það á það til að vera bæði einstaklega dramatískt og pínlegt þegar leikmenn sem búist er við að fari fljótt sitja eftir án liðs í gegnum val eftir val.

Oftast eru leikmennirnir viðstaddir og fá afhenta treyju síns liðs um leið og þeir eru valdir. Stuðningsmenn hvers liðs fjölmenna alltaf, sérstaklega á fimmtudagskvöldinu og því er mikið um dýrðir og lófaklapp þegar bestu leikmennirnir eru valdir hver á fætur öðrum.

En sumt er merkilegra í draftinu en annað fyrir ýmsar sakir.

Ryan Shazier: Don't call it a comeback!

Stærsta stund nýliðavalsins í ár var hreint ekki neinn þeirra ekki nýliðaval heldur einfaldlega einn þeirra einstaklinga sem kom upp á svið í valinu.

Ryan Shazier, leikmaður Pittsburg Steelers, slasaðist eftirminnilega illa í leik liðsins gegn Cincinnati Bengals í desember síðastliðnum. Svo virtist sem Shazier gæti ekki hreyft fæturnar eftir tæklingu og var færður strax á spítala. Leikmaðurinn hafði hlotið áverka á mænu og lamast fyrir neðan mitti. Hann gekkst síðar undir aðgerðir og hefur verið á batavegi en mun ekki spila á þessari leiktíð.


Shazier mætti hins vegar gangandi upp á svið í fyrstu umferð til að kynna val sinna manna í Steelers. Hann fór ekki hratt yfir né var hann stöðugur en gekk þó ákveðnum skrefum að með unnustu sína sér til halds og trausts að púltinu. Aðeins fjórum mánuðum eftir meiðsli sem orsökuðu mænuskaða, krefjandi aðgerðir sem enduðu í hjólastól stóð Shazier uppi á sviði og kynnti þann leikmann sem fyrstur bættist við lið Pittsburg Steelers,  varnarmaðurinn Terrell Edmunds. Áhorfendur, eðli málsins samkvæmt, fögnuðu honum ákaft og ekki var þurrt auga í salnum. Þeir eru ekki margir sem hafa trú á því að Shazier spili nokkurn tímann framar en hann segist stefna ótrauður á endurkomu.


Shaquem Griffin: Hetjusagan

Seattle Seahawks völdu í fimmtu umferð tvíburann og varnarmanninn Shaquem Griffin, sem ekki væri í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að Shaquem er einhentur.


Shaquem missti vinstri höndina þegar hann var fjögurra ára gamall. Í móðurkviði flæktist vefur um höndina sem gerði það að verkum að blóðflæðið skertist. Fyrstu ár ævi hans einkenndust af gríðarlegum sársauka, sem meðal annars urðu til þess að barnungur Griffin ætlaði að skera af sér höndina til að lina þjáningarnar. Fjögurra ára fékk hann nóg og var höndin fjarlægð af skurðlæknum.

Seahawks hafði nælt sér í bróður hans, Shaquill, í þriðju umferð í nýliðavalinu í fyrra. Tvíburabræðurnir spiluðu saman á skólastyrk fyrir UCF háskólann í Flórída og gengu til liðs við skólann á þeim forsendum að þeir vildu vera saman í liði.  Tímabilið í fyrra, eftir að Shaquill hafði verið draftaður í nýliðavalinu en ekki Shaquem var því það fyrsta sem þeir eyddu ekki saman á vellinum. Shaquem fór aftur til UCF og kláraði skólaárið með háskólaliðinu án taps á leiktíðinni. Í prufunum sem NFL heldur fyrir nýliðana fyrir draftið, þar sem þeir sýna hvað í þeim býr með sprettum, lyftingum, köstum og öðru sem til þarf í sportið, sýndi Shaquem sínar bestu hliðar og vakti feiknar mikla athygli.

Shaquem hafði eytt bæði föstudags og laugardagskvöldinu í nýliðavalinu á vallarsvæðinu þar sem valið fór fram, gangandi um á rauða teppinu og horfandi á yfir 100 leikmenn verða fyrir valinu hjá mismundandi liðum, án þess að heyra eigið nafn lesið upp. Fjölskyldan ákvað því á síðasta degi valsins að eyða kvöldinu heima á hóteli.

Ég get ekki andað!

Símtalið kom rétt eftir hádegi á laugardag. Seattle Seahawks, lið bróður hans, höfðu valið hann í fimmtu umferð, 141 val þessa drafts. Einu svörin sem Shaquem gat gefið verðandi þjálfara sínum og og framkvæmdastjóra Seahawks voru: „Ég get ekki andað!“


David Akers og Vince Young: Höfum gaman að þessu

David Akers er ekki nýliði sem var valinn um síðustu helgi. Hann er fyrrverandi sparkari hjá Philadelphia Eagles (sem unnu deildina í vor fyrir þá sem voru búnir að gleyma því, sem eru líklegast flestir) og tók að sér að kynna val liðsins í annarri umferð. Svona líka.

Akers nýtti tímann uppi á sviði í Dallas vel og náði öllum að óvörum að verða óvinsælli og uppskera meira baul og öskur frá Texasbúum heldur en Roger Goodell.

Hey Dallas, síðast þegar þið komust í Ofurskálina voru þessir nýliðar ekki einu sinni fæddir!

„What’s up Dallas?,“ öskraði Akers og sagðist hafa heyrt í Dallasbúum í Philadelphiu í fyrra og taldi upp hvaða titla Eagles hefði unnið á síðasta tímabili. Hann tók svo til við að sá salti í sárin. „Hey Dallas, síðast þegar þið komust í Ofurskálina voru þessir nýliðar ekki einu sinni fæddir!“

Akers kynnti síðan val sinna manna í Eagles sem völdu sóknarmanninn Dallas Goedert og gekk svo af sviðinu eftir að ljúka atriði sínu með góðu „Go Birds“!

Vince Young stal einnig senunni uppi á sviði, en það með nokkuð öðrum hætti en David Akers.

Young var gert að tilkynna val síns liðs, Tennessee Titans, í annarri umferð en liðið valdi varnarmanninn Harold Landry. Young var í meiriháttar vandræðum með að bera fram hið einfalda nafn Harold sem kom út eins og Honor eða Arnold. Twitter lét sitt ekki eftir liggja og hafði vægast sagt gaman að.


Hverjir unnu nýliðavalið?

Flestir sérfræðingar virðast vera á einu máli um að Denver Broncos hafi komið mjög vel undan nýliðavalinu. Mörg lið vantaði leikstjórnanda sem gerði það að verkum að sá leikmaður sem talinn var bestur þeirra sem voru í boði, varnarmaðurinn Bradley Chubb, stóð þeim til boða í fimmta vali í fyrstu umferð. Broncos náðu að bæta við sig nokkrum fleiri góðum leikmönnum síðar í valinu, sem nokkrir eiga möguleika á byrjunarliðssætum í vetur. Stjórnendur Denver geta hið minnsta verið nokkuð sáttir við helgina.

Tampa Bay Buccaneers gerðu ef til vill engar gloríur en það er ljóst eftir valið að varnarlína liðsins verður ofboðslega erfið að eiga við fyrir andstæðinga þeirra í NFC deildinni. Hinn litríki stærðarinnar varnarmaður Vita Vea (Tevita Tuli’aki’ono Tulpulotu Mosese Va’hae Fehoko Faletau Vea), ásamt tveimur öðrum minni spámönnum í vörnina, ætti að styrkja nú þegar feiknar sterka vörn liðsins. Hvort það verði nóg skal ósagt látið.

Lið New York Giants hefur einnig verið nefnt sem lið sem gerði vel um helgina. Liðið átti annan valrétt í fyrstu umferð og nældi sér þar í sóknarmanninn Saquon Barkley og að auki Will Hernandez en báðir voru þeir taldir meðal þeirra 15 bestu sem í boði voru. Báðir ættu að geta orðið byrjunarliðsmenn strax. Leikmennirnir bætast í sóknarlínu sem inniheldur nú þegar Odell Beckham, Sterling Shepard og Evan Engram, auk leikstjórnandans Eli Manning, verður erfið fyrir hvaða vörn sem er að takast á við.

Alls voru fimm leikstjórendur í valinu teknir í fyrstu umferð. Af fyrstu tíu nýliðunum sem voru valdir voru fjórir leikstjórnendur. Cleveland Browns tóku Baker Mayfield frá Oklahoma í fyrsta vali fyrstu umferðarinnar. New York Giants tóku eins og áður sagði Saquon Barkley en í þriðja vali tóku grannar þeirra í New York Jets leikstjórnandann Sam Darnold og Cleveland bættu við sig bakverðinum Denzel Ward í fjórða vali. Leikstjórnandinn Lamar Jackson var síðan valinn af Baltimore Raven í síðasta vali fyrstu umferðar.

Svo langt í að þetta byrji!

Áður en við vitum af verður grill- og ferðasumarið búið, börnin byrjuð aftur í skólanum, trampólínið komið í bílskúrinn, brjálæðið um verslunarmannahelgina og á menningarnótt blessunarlega liðið hjá og rútínan hafin að nýju.

Þá verður loksins hægt að setjast niður á notalegu haustkvöldi, reyndar nótt á okkar tíma, opna Budlight, leyfa sér ostasnakk eftir miðnætti án samviskubits og horfa á upphafsleik næsta tímabils þann 7. september milli ríkjandi meistara Philadelphia Eagles og Atlanta Falcons í Philadelphia í þessari íþrótt allra íþrótta.

Þangað til er hægt að fylgjast með æfingaleikjum liðanna á undirbúningstímabilinu en þeir leikir hefjast í byrjun ágúst.

Ef það er ekki nóg má benda á að þegar hefur verið opnað fyrir deilarskráningar í Fantasy!

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnFanney Birna Jónsdóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar