Mynd: Nasdaq Iceland

Ríkið er stærsti lánveitandi Heimavalla

Stór hluti þeirra eigna sem stærsta leigufélagið á almennum markaði, Heimavellir, á voru áður í eigu félaga eða stofnana í eigu ríkisins. Rúmlega helmingur allra vaxtaberandi skulda félagsins eru við Íbúðalánasjóð. Meðal annars er um að ræða lán sem eiga að fara til félaga sem eru ekki rekin í hagnaðarskyni.

Hluta­bréf í Heima­völl­um, einu umdeildasta félag lands­ins, voru tekin til við­skipta í Kaup­höll Íslands í gær. Ástæða þess að Heima­vellir er umdeilt félag er eðli þeirrar starf­semi sem félagið stund­ar. Á örfáum árum hefur það eign­ast um tvö þús­und íbúð­ir, leigt þær út og haft af því mik­inn hagn­að. Á sama tíma hefur ríkt mik­ill skort­ur, og ákveðið neyð­ar­á­stand, á hús­næð­is­mark­aði á Íslandi.

Það ástand hefur gert það að verkum að leigj­endum hefur fjölgað um tíu þús­und á sjö árum og fjöldi þeirra er nú áætl­aður um 50 þús­und. Meiri­hluti leigj­enda, alls 57 pró­­­sent, er á leig­u­­­mark­aðnum af nauð­­­syn og 80 pró­­­sent leigj­enda vilja kaupa sér íbúð, en geta það ekki. Ein­ungis 14 pró­­­sent leigj­enda vilja vera á leig­u­­­mark­aði. Þriðji hver leigj­andi borgar meira en helm­ing af ráð­­­stöf­un­­­ar­­­tekjum sínum í leigu og fáir tekju­lágir leigj­endur geta safnað sér spari­­­­­fé, sam­kvæmt könnun sem Íbúða­lána­sjóður lét gera fyrir skemmstu.

Áður en að félag er skráð á markað þarf það að taka sam­an, og birta skrán­ing­ar­lýs­ingu með ítar­legum upp­lýs­ingum um sig. Í skrán­ing­ar­lýs­ingu Heima­valla, sem er dag­sett 23. apr­íl, er að finna ítar­legar upp­lýs­ingar um það hvernig félagið hefur vaxið á und­an­förnum árum og hvernig það hefur fjár­magnað sig. Og þar kemur fram að þessi stærsti ein­staki leik­andi á almenna íbúð­ar­mark­aðnum hefur keypt stærstan hluta íbúða sinna á und­an­förnum árum af íslenska rík­inu. Þegar fjár­mögnun Heima­valla er skoðuð kemur í ljós að það eru fjár­mála­fyr­ir­tæki í eigu íslenska rík­is­ins sem eru helstu lán­veit­endur þess.

Ríkið stærsti selj­and­inn

Heima­vellir er ekki gam­alt félag. Það var stofnað árið 2015 í kjöl­far þess að nokkur minni leigu­fé­lög, sem áttu sam­tals 191 íbúð, runnu sam­an. Það hefur síðan stækkað hratt, meðal ann­ars með því að kaupa eign­ar­söfn af Íbúða­lána­sjóði, sem er í eigu íslenska rík­is­ins. Stærsta við­bótin kom þó síðla árs 2016 þegar Heima­vellir eign­uð­ust 716 íbúðir á Ásbrú, gamla varn­ar­liðs­svæð­inu á Mið­nes­heiði, með því að sam­ein­ast félag­inu Ása­byggð, sem hét áður Háskóla­vell­ir. Það hafði eign­ast flestar þeirra árið 2008 þegar þær voru keyptar af Kadeco, félagi í eigu íslenska rík­is­ins. Kadeco hafði verið stofnað til að taka við fast­eignum á svæð­inu í kjöl­far þess að banda­ríski her­inn yfir­­gaf her­­stöð­ina á Mið­­nes­heið­i. 

Úr fjárfestakynningu Heimavalla.

Því er ljóst að stærsti selj­andi fast­eigna til Heima­valla á starfs­tíma félags­ins eru tvö félög í eigu íslenska rík­is­ins, ann­ars vegar Kadeco og hins vegar Íbúða­lána­sjóð­ur.

Lang­flestar íbúðir sem Heima­vellir eiga eru á suð­vest­ur­horn­inu. Á höf­uð­borg­ar­svæð­inu á félagið 567 íbúð­ir. Flestar þeirra, eða 336, telj­ast litlar enda undir 90 fer­metrum að stærð. Með­al­stærð íbúða Heima­valla á svæð­inu er 83,8 fer­metr­ar.

Sam­tals sam­anstendur því eigna­safn Heima­valla af 1.968 íbúðum og 78 pró­sent þeirra tekna sem félagið hefur af útleigu þeirra falli til vegna íbúða sem eru að í mesta lagi 45 mín­útna akstur frá höf­uð­borg­ar­svæð­inu eða stað­settar á því. Þetta umfang gerir Heima­velli að stærsta ein­staka aðil­anum sem er til staðar á almennum leigu­mark­aði á Íslandi í dag, en áætlað er að hlut­fall leigj­enda á Íslandi sé allt að 23 pró­sent allra sem þurfa þak yfir höf­uð­ið.

Umfangið fimm­fald­ast á tveimur árum

Í skrán­ing­ar­lýs­ingu Heima­valla er hægt að nálg­ast mikið af upp­lýs­ingum um stöðu þess. Þar kemur m.a. fram að fjár­fest­inga­eign­ir, sem eru hús­næði í útleigu eða í bygg­ingu, sem eru í eigu Heima­valla hafi verið metið á 10,2 millj­arða króna í lok árs 2015. Síðan þá hefur félagið bætt við sig veru­legu magni slíks og virði þess um síð­ustu ára­mót var metið á 53,5 millj­arða króna. Umfang félags­ins hefur því rúm­lega fimm­fald­ast á tveimur árum.

Leigu­tekjur Heima­valla hafa vaxið um rúm­lega 2,5 millj­arða króna frá lokum árs 2015 og fram til síð­ustu ára­móta, en þær voru um 3,1 millj­arður króna í fyrra. Þegar rekstr­ar­kostn­aður þeirra eigna sem félagið leigir út er tal­inn frá voru hreinar leigu­tekjur á síð­asta ári 2,1 millj­arður króna. Þær voru 380 millj­ónir króna árið 2015.

Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Heimavalla, og Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, þegar viðskipti með bréf í félaginu hófust í gærmorgun.
Mynd: Nasdaq Iceland

Leigu­tekjur félags­ins á hvern fer­metra hafa líka hækkað umtals­vert á milli áranna 2016 og 2017, eða um 20 pró­sent. Á sama tíma jókst útleigu­hlut­fallið úr 93,2 pró­sent í 95,8 pró­sent. Með öðrum orðum þá er nán­ast allt sem Heima­vellir á í útleigu.

Rekstr­ar­hagn­aður Heima­valla áður en búið er að borga af lánum og borga skatta var 9,8 millj­arðar króna á síð­ustu þremur árum. Sá hagn­aður er til­kom­inn með tvennum hætti.

Í fyrsta lagi vegna leigu­tekna, sem raktar voru hér að ofan, og í öðru lagi vegna „mats­breyt­inga fjár­fest­inga­eigna“, sem á manna­máli þýðir hækkun á hús­næð­is­verði. Þær mats­breyt­ingar hafa verið sam­tals um 7,4 millj­arðar króna á árunum 2015 og út árið 2017.

Hagn­aður Heima­valla, sem er eign hlut­hafa eftir að búið er að greiða af lánum og skatta,   hefur líka vaxið feyki­lega hratt á síð­ustu árum. Árið 2015 var hann 63,2 millj­ónir króna en á síð­ustu tveimur árum var hann 2,2 og 2,7 millj­arðar króna. Sam­an­lagt hefur félagið því skilað 4,9 millj­arða króna hagn­aði á árunum 2016 og 2017.

Með lán sem eiga að stuðla að „við­ráð­an­legum kjörum“ fyrir leigj­endur

Stór hluti þeirra upp­kaupa á hús­næði sem átt hefur sér stað í gegnum Heima­velli er fjár­magn­aður með lán­um. Alls eru hreinar vaxta­ber­andi skuldir félags­ins 34,8 millj­arða króna og eig­in­fjár­hlut­fall þess í eignum sínum því um 31,4 pró­sent. Það hefur hækkað mikið á síð­ustu árum með hækk­andi fast­eigna­verði og stækkun Heima­valla, en það var ein­ungis 10,5 pró­sent í lok árs 2015. Það þýðir að 89,5 pró­sent af því sem keypt var hafði verið tekið að láni. Vert er að taka fram að hluti þeirra lána kom frá móð­ur­fé­lag­inu Heima­völlum leigu­fé­lagi en að teknu til­liti til þeirra lána hækk­aði eig­in­fjár­hlut­fallið 2015 í 21,1 pró­sent, og láns­hlut­fallið fer í 78,9 pró­sent, sam­kvæmt upp­lýs­ingum í skrán­ing­ar­lýs­ing­unni.



Heima­vellir hafa aldrei borgað út arð. Félagið stefnir þó á að gera það „þegar rekstur félags­ins er kom­inn í jafn­væg­i“. Það er nefni­lega ekki ein­falt að greiða út arð úr Heima­völlum eins og er. Stór hluti af núver­andi fjár­mögnun Heima­valla er í formi lána frá Íbúða­lána­sjóði sem veitt hafa verið á grund­velli reglu­gerðar um lán­veit­ingar sjóðs­ins frá árinu 2013 til sveita­fé­laga, félaga og félaga­sam­taka sem ætl­aðar eru til bygg­ingar eða kaupa á leigu­í­búð­um. Mark­mið þeirrar reglu­gerðar er að „stuðla að fram­boði á leigu­í­búðum fyrir almenn­ing á við­ráð­an­legum kjöru­m“.

Skulda Íbúða­lána­sjóði tæpa 19 millj­arða

Í skrán­ing­ar­lýs­ingu Heima­valla segir að til að „upp­fylla form- og efn­is­skil­yrði Reglu­gerð­ar­innar mega félög sem veitt hafa verið slík lán ekki vera rekin í hagn­að­ar­skyni og úr þeim má hvorki greiða arð né arðsí­gild­i“. Slík lán eru veitt til 50 ára.

Um síð­ustu ára­mót skuld­uðu Heima­vellir 18,6 millj­arða króna í slík lán. Það eru rúm­lega helm­ingur af öllum vaxta­ber­andi skuldum félags­ins.

Í skrán­ing­ar­lýs­ing­unni segir að stefna Heima­valla sé að „end­ur­fjár­magna þessi lán á næstu miss­erum enda telja stjórn­endur að félag­inu muni bjóð­ast betri kjör og skil­málar á mark­aði. Ekki er á þessu stigi hægt að segja til um hvenær slíkri end­ur­fjár­mögnun mun ljúka né á hvaða kjörum hún mun bjóð­ast. Sú hætta er fyrir hendi að félag­inu tak­ist ekki að end­ur­fjár­magna lánin á kjörum sem það telur ásætt­an­leg. Komi til þess, og félagið ákveður að eiga eign­irnar áfram, munu við­kom­andi dótt­ur­fé­lög áfram þurfa að lúta skil­yrðum Reglu­gerð­ar­inn­ar, þ.m.t. banni við greiðslu arðs eða arðsí­gild­is.“ Þar kemur einnig fram að skrán­ing félags­ins á markað sé mik­il­vægur liður í því að end­ur­fjár­magna lán­in.

Til við­bótar við Íbúða­lána­sjóð er nefndur einn annar lán­veit­andi Heima­valla í lýs­ing­unni. Það er Lands­bank­inn, sem er nán­ast að öllu leyti í eigu íslenska rík­is­ins.

Heima­vellir tóku yfir félög sem Íbúða­lána­sjóður hafði lánað

Íbúða­lána­sjóður stað­festir í svari við fyr­ir­spurn Kjarn­ans um fjár­mögnun Heima­valla að sjö dótt­ur­fé­lög Heima­vall­ar­sam­steypunnar – þau eru alls 17 – séu með leigu­í­búð­ar­lán upp á 18,6 millj­arða króna hjá sjóðn­um. Þar segir einnig að þessar lán­veit­ingar hafi að langstærstum hluta upp­haf­lega verið til smærri leigu­fé­laga víðs­vegar um land­ið, allt frá Vest­fjörðum til Aust­ur­lands og Suð­ur­nesja. Þau leigu­fé­lög hafi Heima­vellir síðan yfir­tekið á síð­ari stig­um.

Heimavallarsamsteypan.
Mynd: Úr skráningarlýsingu Heimavalla.

Sjóð­ur­inn segir að hluti af þessum lán­um, alls um átta millj­arðar króna, sé sam­kvæmt reglu­gerð­inni sem sam­þykkt var árið 2013. Rest­in, um 10,6 millj­arðar króna, séu svokölluð almenn leigu­í­búða­lán en um þær lán­veit­ingar hafi gilt mun rýmri reglur en gildi í dag. Þegar þeim hafi verið breytt með lögum hafi verið  „sett sem skil­yrði að rekstur félaga sem tækju leigu­í­búða­lán væri með hags­muni leigu­taka að leið­ar­ljósi og skorður settar fyrir því með hvaða hætti heim­ilt væri að ráð­stafa hagn­að­i“.

Búið að ná hámarks­stærð

Miðað við áætl­anir Heima­valla, sem birtar eru í skrán­ing­ar­lýs­ingu fyr­ir­tæk­is­ins, þá hefur fjöldi íbúða sem félagið ætlar að eign­ast náð nán­ast hámarki. Í lok árs 2018 er búist við því að þær verði 2.026 en fækka svo niður í 1944 á árinu 2019 með sölu ákveð­inna eigna. Árið 2020 eiga þær að vera 2.026.

Heima­vellir hafa fest kaup á tals­verðum fjölda nýbygg­inga sem koma munu til afhend­ingar á næstu tveimur árum. „Alls er um að ræða 301 íbúð í Reykja­vík, Kópa­vogi, Mos­fellsbæ og Hafn­ar­firði. Að auki er félagið að láta end­ur­inn­rétta rými sem áður hýstu setu­stofur á Ásbrú sem skilar 28 stúd­íó­í­búðum til við­bótar við fyrr­nefndar 301. Nýjar íbúðir félags­ins eru við Hlíð­ar­enda (póst­nr. 101) og Ofan­leiti í Reykja­vík (póst­nr. 103), Eini­velli í Hafn­ar­firði (póst­nr. 221) og Boða­þing í Kópa­vogi (póst­nr. 203).

Sam­hliða kaupum á nýjum íbúðum hefur félagið unnið mark­visst að því að end­ur­skipu­leggja eigna­safn sitt. Í þessu felst að óhent­ugar leigu­ein­ingar eru seldar og hag­kvæm­ari íbúðir keyptar í stað­inn. Á árinu 2017 seldi félagið 240 íbúðir úr eigna­safn­inu sem voru að mestu stórar og/eða stakar íbúðir eða aðrar eignir sem sýndu sig vera óhent­ugar til útleigu. Það er mark­mið félags­ins að eiga sem mest heilar hús­eignir eða fjöl­býl­is­hús þar sem meiri­hluti íbúð­anna eru í eigu Heima­valla. Rekstur heillra hús­eigna er mun hag­kvæm­ari en rekstur stakra íbúða. Félagið mun vinna áfram að end­ur­skipu­lagn­ingu safns­ins á næstu miss­erum þar sem áhersla verður lögð á að selja út stakar íbúðir og stórar íbúðir sem ná ekki fram­legð­ar­mark­miðum félags­ins.“

Útboð olli von­brigðum og verðið tók dýfu á fyrsta degi

Eign­ar­hald Heima­valla er nokkuð dreift. Stærsti ein­staki eig­and­inn er Stál­skip ehf. með 8,59 pró­senta hlut. Það félag var í ára­tugi útgerð­ar­fé­lag en seldi kvóta og skip í upp­hafi árs 2014 og breytti sér í kjöl­farið í fjár­fest­ing­ar­fé­lag. Eig­endur eru enn sama fjöl­skylda og átti Stál­skip á árum áður, hjónin Guð­rún Lár­us­dóttir og Ágúst Sig­urðs­son og börn þeirra.

Heimavellir eiga 567 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu og til stendur að fjölga þeim á næstu misserum.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Við­skipta­fé­lag­arnir Tómas Krist­jáns­son og hjónin Finnur Reyr Stef­áns­son og Stein­unn Jóns­dóttir eiga sitt­hvor 7,54 pró­sentin í félag­inu í gegnum félögin Gana og Snæ­ból ehf. Þá á sami hópur 95 pró­sent í Klasa ehf. sem á 3,85 pró­sent í Heima­völl­um. Sam­an­lögð eign þess­ara þriggja félaga er því 18,93 pró­sent. Aðrir stórir einka­fjár­festar eru m.a. félag í eigu Magn­úsar Pálma Örn­ólfs­son­ar, félag í eigu Róberts Wessman og Hilm­ars Þórs Krist­ins­sonar og félag í eigu Jóns Ármanns Guð­jóns­son­ar. Þá eiga þrjú íslensk trygg­inga­fé­lög; Sjó­vá, VÍS og Trygg­inga­mið­stöðin hlut í félag­inu auk nokk­urra minni líf­eyr­is­sjóða.

Í hluta­fjár­út­boð­inu sem haldið var í síð­asta mán­uði voru boðnir til sölu 750 millj­ónir hluta í Heima­völlum en heim­ild var til að stækka útboðið upp í 900 millj­ónir hluta ef eft­ir­spurn gæfi til­efni til. Það gerði hún ekki.

Fjár­festar áttu að gera til­boð á bil­inu 1,38- 1,71 krónur á hlut fyrir stærstan hluta þess sem var til sölu. Nið­ur­staðan varð sú að vegið með­al­tal var 1,39 krónur á hlut, eða mjög nálægt lægri mörk­un­um. Ekki reynd­ist þörf á að stækka úboðið enda ekki eft­ir­spurn eftir því að kaupa umfram­hlutafé á því verði sem von­ast var eft­ir. Athygli vakti t.d. að áhugi ann­arra líf­eyr­is­sjóða en þeirra sem þegar voru í eig­enda­hópnum var lit­ill sem eng­inn.

Bréf Heima­valla voru svo tekin til við­skipta í gær­morgun í Kaup­höll­inni og verðið í lok dags var ell­efu pró­sentum lægra en með­al­tals­gengið í útboð­inu. Eftir fyrsta dag á mark­aði lækk­aði heild­ar­virði Heima­valla í 13,9 millj­arða króna.

Með skrán­ingu á markað ávinnst þó tvennt fyrir hlut­hafa Heima­valla. Í fyrsta lagi þá getur félagið mögu­lega end­ur­fjár­magnað skuldir sínar við Íbúða­lána­sjóð vegna lán­veit­inga sem áttu að fara til þeirra sem reka ekki hagn­að­ar­drifna starf­semi, og þar með aflétt hömlum sem eru á arð­greiðslum úr félag­inu. Í öðru lagi skap­ast selj­an­leiki á bréf­um, meðal ann­ars með við­skipta­vaka, sem gefur þeim hlut­höfum sem vilja selja hluti sína leið til þess. Í ljósi þess að hækk­anir á fast­eigna­verði hafa ein­ungis numið 0,9 pró­sentum á síð­asta hálfa árinu eftir að hafa farið upp um tugi pró­senta frá því að Heima­vellir voru stofn­að­ir, gæti það verið leið sem ein­hverjir þeirra munu vilja nýta sér.

Ath. Í upp­runa­legu útgáfu frétta­skýr­ing­ar­innar stóð að Kadeco hefði verið lagt nið­ur. Það er ekki rétt. Hið rétta er að starf­semi félags­ins hefur verið breytt. Skýr­ing­unni hefur verið breytt í sam­ræmi við þetta.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar