Mynd: Skjáskot/RÚV Oddvitar í RVK
Mynd: Skjáskot/RÚV

Tímarnir eru að gjörbreytast í Reykjavíkurborg

Konur verða ráðandi í Reykjavík næstu fjögur árin. Aldrei áður hefur borgarstjórn endurspeglað fjölbreytileika borgarbúa með jafn skýrum hætti og í þeim átta framboðum sem kjörin voru. Sumir eru sigurvegarar og aðrir töpuðu illa. En ekkert er fyrirliggjandi um hvernig næsti borgarstjórnarmeirihluti verði samsettur.

Borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­arnar eru afstaðnar og nið­ur­staða þeirra er marg­þætt. Alls náðu átta flokkar kjöri og hafa aldrei verið fleiri. Meiri­hlut­inn er fall­inn. Eng­inn aug­ljós meiri­hluti er til að taka við. Og nær allir flokk­arnir átta túlka þar af leið­andi nið­ur­stöð­una með sínu nefi.

Ein allra áhuga­verð­asta nið­ur­staða kosn­ing­anna er sú að konur verða í miklum meiri­hluta í Reykja­vík næsta kjör­tíma­bil. Alls eru 15 þeirra 23 borg­ar­full­trúa sem kjörnir voru í gær kon­ur. Og sex þeirra átta fram­boða sem náðu kjöri eru leidd af kon­um. Ein­ungis risarnir tveir, flokk­arnir sem gera til­kall til borg­ar­stjóra­stóls­ins í krafti stærðar sinn­ar, Sjálf­stæð­is­flokkur og Sam­fylk­ing, eru leiddir af körl­um. Þá voru tveir fram­bjóð­endur sem fæddir eru í öðru landi kjörnir í borg­ar­stjórn og nýr yngsti borg­ar­full­trúi sög­unnar er af blönd­uðum upp­runa.

Ljóst er að mik­illa breyt­inga er að vænta við stjórnun Reykja­vík­ur­borg­ar. Ný öfl með nýjar áherslur munu koma að henni óháð því hvaða meiri­hluti verður á end­anum mynd­að­ur.

Kjarn­inn rýndi í stöð­una dag­inn eftir enn einar sögu­legu kosn­ing­arn­ar.

Hver vann?

Það eru margir sem telja sig sig­ur­veg­ara kosn­ing­anna í Reykja­vík. Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn bætti við sig 5,1 pró­sentu­stigi milli kosn­inga. Það er lang­mesta bæt­ingin hjá þeim flokkum sem sátu í borg­ar­stjórn á kjör­tíma­bil­inu sem er að líða. Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn er líka orð­inn stærsti flokk­ur­inn í höf­uð­borg­inni að nýju og nið­ur­staða hans er betri en nær allar kann­an­ir, og raunar allur aðdrag­andi kosn­ing­anna, benti til. Í þessu ljósi vann Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn aug­ljósan sig­ur.

En nið­ur­stað­an, 30,8 pró­sent, er líka næst versta nið­ur­staðan Sjálf­stæð­is­flokks í Reykja­vík frá upp­hafi borg­ar­stjórn­ar­kosn­inga. Hún er til að mynda lak­ari en árið 2010, þegar flokk­ur­inn fékk 33,6 pró­sent. Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn fékk átta borg­ar­full­trúa kjörna. Líkt og rakið er betur hér að neðan er ekki auð­sótt fyrir hann að mynda starf­hæfan meiri­hluta með þeim fjölda.

Sós­í­alista­flokk­ur­inn var aug­ljós sig­ur­veg­ari, og getur sagt slíkt án nokk­urs fyr­ir­vara. Hann náði 6,4 pró­sent atkvæða og Sanna Magda­lena Mörtu­dóttir er í kjöl­farið í mjög sterkri stöðu í borg­ar­stjórn. Sig­ur­inn er bæði sá að Sós­í­alista­flokk­ur­inn er eini flokk­ur­inn sem náði inn kjörnum full­trúa sem er ekki með full­trúa á Alþingi í dag, og hefur því ekki aðgengi að þeim hund­ruð millj­óna sem hinir sjö flokk­arnir sem sitja munu í borg­ar­stjórn næsta kjör­tíma­bilið er skammtað af fjár­lögum ár hvert.

Sós­í­alistar ráku þess í stað mjög árang­urs­ríka, ein­beitta, skýra og stíl­hreina bar­áttu í gegnum sam­fé­lags­miðla fyrir sára­lítið fé sem vakti mikla og verð­skuld­aða athygl­i. 

Sanna þótti líka standa sig afburða­vel í öllum kosn­inga­þáttum sem hún kom fram í í aðdrag­anda kosn­inga og þrátt fyrir að vera yngsti borg­ar­full­trúi sög­unnar – hún er ný orðin 26 ára – þá var hún oft eins og full­orðni ein­stak­ling­ur­inn í her­berg­inu þegar aðrir odd­vitar tók­ust á með hefð­bundnum hætti. Þá þótti Sanna hafa svarað spurn­ingu Ein­ars Þor­steins­sonar frétta­manns í odd­vitaum­ræð­unum á föstu­dag, þar sem hann spurði um við­skipta­sögu Gunn­ars Smára Egils­son­ar, með mjög afger­andi og eft­ir­tekt­ar­verðum máta. Hin mikla umræða sem skap­að­ist í kringum spurn­ing­una á sam­fé­lags­miðlum spil­að­ist mjög upp í hend­urnar á Sós­í­alista­flokknum og átti ugg­laust þátt í því að fylgi þeirra varð á end­anum mun meira en allar spár höfðu gert ráð fyr­ir. Svar Sönnu var hennar „Sæland-augna­blik“, en mörgum er í fersku minni þegar Inga Sæland, for­maður Flokks fólks­ins, grét í odd­vita­þætti dag­inn fyrir kosn­ingar í fyrra með sam­bæri­legum afleið­ingum á fylgi hennar flokks.

Sanna Magdalena Mörtudóttir og flokkur hennar er einn helsti sigurvegari kosninganna.
Mynd: Bára Huld Beck

Mið­flokk­ur­inn og Flokkur fólks­ins eru einnig sig­ur­veg­arar í Reykja­vík ein­fald­lega vegna þess að þau náðu fólki inn í fyrsta sinn. Á lands­vísu má slá því föstu að Mið­flokk­ur­inn sé stóri sig­ur­veg­ari kosn­ing­anna og nær flokkur Sig­mundar Dav­íðs Gunn­laugs­sonar að skjóta niður rótum mjög víða.

Píratar bæta einnig við sig fylgi á milli kosn­inga og er eini flokk­ur­inn í meiri­hluta sem gerir það. Þau geta verið mjög sátt með að ná inn tveimur öfl­ugum konum í borg­ar­stjórn, þeim Dóru Björt Gunn­ars­dóttur og Sig­ur­borgu Ósk Har­alds­dótt­ur, þótt að end­an­legt pró­sentu­fylgi hafi verið aðeins lægra en kann­anir og spár bentu til. Það er reyndar orðið að venju hjá Píröt­um.

En stóri sig­ur­veg­ari kosn­ing­anna í Reykja­vík hlýtur að vera Við­reisn. Flokk­ur­inn er orð­inn þriðji stærsti flokk­ur­inn í borg­inni eftir að hafa boðið sig þar fram í fyrsta sinn og er með tvo borg­ar­full­trúa. Sigur flokks­ins er líka fólgin í því að hafa náð að stað­setja sig þannig að geta hótað sam­starfi við and­stæðar fylk­ingar innan borg­ar­innar til að ná fram öllu því sem hann vill ná fram í kom­andi meiri­hluta­sam­starfi, sem er nær ómögu­legt án hans.

Hverjir tapa?

Vinstri græn guldu afhroð í kjör­dæmi for­manns síns, for­sæt­is­ráð­herr­ans Katrínar Jak­obs­dótt­ur. Ein­ungis 2.700 manns kusu flokk­inn í Reykja­vík. Til sam­an­burðar kusu 14.477 ein­stak­lingar Vinstri græn í þing­kosn­ingum fyrir sjö mán­uðum síð­an. Flokk­ur­inn fékk ein­ungis 4,3 pró­sent atkvæða og einn kjör­inn full­trúa, Líf Magneu­dótt­ur. Hann er næst­minnstur allra þeirra fram­boða sem náðu kjöri í gær.

Ástæð­urnar sem nefndar hafa verið eru mýmarg­ar. Sú háværasta er sú að verið sé að refsa Vinstri grænum fyrir stjórn­ar­sam­starf í lands­mál­unum við Sjálf­stæð­is­flokk og Fram­sókn­ar­flokk og að þessi slátrun sem átti sér stað í borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­unum sýni svart á hvítu að ólgan innan flokks­ins sé miklu meiri en leið­togar hans vilja af láta. Það sjá­ist líka á því að fram­boð sem stillir sér vinstra megin við Vinstri græn, Sós­í­alista­flokk­ur­inn, fékk miklu betri kosn­ingu en sá flokkur sem hefur svo gott sem verið skrá­sett vöru­merki yst á vinstri ásnum síð­ast­liðna tæpa tvo ára­tugi. Önnur ástæða sé sú að meiri óánægja hafa verið á meðal borg­ar­búa með stjórn­ar­sam­starfið í Reykja­vík en meiri­hlut­inn gerði sér grein fyrir og sú þriðja að stefnu­mál og fram­boðs­listi Vinstri grænna, og sér­stak­lega odd­viti hans, hafi ein­fald­lega ekki höfðað til fólks.

Sam­fylk­ingin tapar líka illa. Þótt flokk­ur­inn sé næst stærstur og hafi náð 25,9 pró­sent atkvæða þá missti hann heil sex pró­sentu­stig af fylgi milli borg­ar­stjórn­ar­kosn­inga. Auk þess hlýtur sú til­finn­ing að vera ráð­andi hjá leið­togum Sam­fylk­ing­ar­innar að þau hafi ein­fald­lega verið of væru­kær á loka­metrum bar­átt­unn­ar, þegar kann­anir sýndu upp­gang en ekki sam­drátt í fylgi. Á sama tíma var vel fjár­mögn­uð  og -mönnuð kosn­inga­vél Sjálf­stæð­is­flokks­ins mallandi á fullu við að gera það sem hún gerir betur en nokkur annar í íslenskum stjórn­mál­um, að hringja skipu­lega í þús­undir sem mögu­lega gætu kosið flokk­inn og aug­lýsa grimmt þau stefnu­mál sem vitað var að almenn óánægja var með frammi­stöðu meiri­hlut­ans í (t.d. leik­skóla­mál). Vitað var að dræm kjör­sókn myndi vinna með Sjálf­stæð­is­flokknum þar sem hann sækir fylgi sitt frekar til eldri kjós­enda sem eru lík­legri til að skila sér á kjör­stað. Allt þetta gekk eftir og við marklín­una skaust helsti keppi­nautur Sam­fylk­ing­ar­innar upp en hún sjálf nið­ur.

Litlu mun­aði að staðan yrði enn verri. Guð­rún Ögmunds­dótt­ir, sjö­undi maður Sam­fylk­ing­ar, var síð­asti kjörni borg­ar­full­trú­inn og níundi maður Sjálf­stæð­is­flokks, Jór­unn Pála Jón­as­dótt­ir, var næsti maður inn. Hefði sá við­snún­ingur orðið væri nán­ast borð­leggj­andi að Sam­fylk­ing gæti ekki leitt nýjan meiri­hluta.

Sá mögu­leiki er þó enn fyrir hendi þrátt fyrir ósig­ur­inn í gær og er jafn­vel lík­legri en sá að erkió­vin­ur­inn Sjálf­stæð­is­flokkur leiði slík­an, vegna gengis ann­arra flokka. Heild­ar­nið­ur­staðan í kosn­ing­unum vann því með mögu­leikum Sam­fylk­ing­ar­innar til að kom­ast til valda þótt eigin frammi­staða hennar hafi verið slök.

Dagur B. Eggertsson og Samfylkingin misstu flugið á síðustu metrunum og eru einn þeirra flokka sem flokkast sem taparar kosninganna.
Mynd: Bára Huld Beck

Þá er ónefndur Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn, sem fékk 3,2 pró­sent atkvæða og náði ekki inn manni í Reykja­vík. Í ljósi þess að um er að ræða kjör­dæmi vara­for­manns­ins og von­ar­stjörn­unnar Lilju Alfreðs­dótt­ur, og þess að Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn er rúm­lega 100 ára gam­all flokkur með sterka inn­viði og mikla reynslu af kosn­ing­um, hlýtur nið­ur­staðan að vera veru­legt áhyggju­efni. Rifja má upp að Hall­dór Ásgríms­son heit­inn, þáver­andi for­maður Fram­sókn­ar­flokks­ins, ákvað að draga sig í hlé úr stjórn­málum í kjöl­far borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­anna 2006, þegar Fram­sókn fékk 6,1 pró­sent atkvæða. Hall­dór sagði meðal ann­ars að hann væri að axla ábyrgð á lakri stöðu flokks­ins í þeim kosn­ingum með því að stiga til hlið­ar.

Hver er stað­an?

Ljóst er að það má túlka nið­ur­stöðu kosn­ing­anna sem ákall um breyt­ing­ar. Meiri­hlut­inn er kol­fall­inn og tvær burð­ar­stoðir hans tapa umtals­verðu. Það er hins vegar ekki jafn skýrt hverjar þeir breyt­ingar eigi að vera.

Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn rak kosn­inga­bar­áttu sem hverfð­ist lengi vel mikið í kringum það að bjóða upp á meira mal­bik og greið­ara aðgengi fyrir einka­bíl­inn ásamt upp­bygg­ingu hús­næðis í útjaðri borg­ar­inn­ar. Þessi afstaða var í beinni and­stöðu við gild­andi aðal­skipu­lag og þá stefnu sem meiri­hlut­inn hefur rekið í borg­inni, sem snýst um aukna þétt­ingu byggðar og rík­ari áherslur á almenn­ings­sam­göng­ur, fólk sem hjólar og þá sem nota tvo jafn­fljóta til að kom­ast milli staða.

Mið­flokk­ur­inn og Flokkur fólks­ins stilltu sér mjög upp með sam­bæri­lega afstöðu í skipu­lags-, hús­næð­is- og sam­göngu­mál­um. Til ein­föld­unar þá snérist sú afstaða um að vera gegn borg­arl­inu og þétt­ingu byggð­ar.

Eyþór Arnalds gerir tilkall til þess að verða næsti borgarstjóri Reykjavíkur.
Mynd: Bára Huld Beck

Stefnu­mál Við­reisnar í þessum mála­flokkum rím­uðu hins vegar mjög vel við áherslur frá­far­andi meiri­hluta. Flokk­ur­inn vildi borg­ar­línu og ann­ars konar hágæða almenn­ings­sam­göng­ur. Hann vildi vinna áfram með þétt­ingu byggðar og setja nýjar stofn­vega­fram­kvæmdir í stokk. Þá vill Við­reisn hvetja til orku­skipta í bíla­flot­anum með ýmsum hvata­að­gerð­um, fjölga hjóla­stíg­um, stækka gjald­skyld bíla­stæða­svæði, studdu leng­ingu gjald­skyldu­tíma og afnám á hámarki á fjölda leigu­bíla. Þegar kemur að einu máli sem var nán­ast ekk­ert rætt í nýyf­ir­stöðnum kosn­ingum en er stórpóli­tísk átaka­mál, veru flug­vall­ar­ins í Vatns­mýri, er afstaða Við­reisnar skýr: „Finna þarf inn­an­lands­flugi nýja stað­setn­ingu í grennd við höf­uð­borg­ina, með þæg­indi og öryggi allra lands­manna að leið­ar­ljósi. Flug­völl­ur­inn verður áfram í Vatns­mýri þangað til að sú stað­setn­ing liggur fyr­ir. Við­reisn telur að nýr flug­völlur í Hvassa­hrauni sé lausn sem skoða þurfi til hlít­ar.“ 

Við­reisn vill auk þess fjölga félags­legu hús­næði um 350 á kjör­tíma­bil­inu.

Hvaða meiri­hlutar eru í boði?

Staðan í borg­inni eftir kosn­ingar er þannig að sitj­andi meiri­hluti er með tíu borg­ar­full­trúa og allir þrír flokk­arnir sem mynda hann hafa úti­lokað sam­starf við Sjálf­stæð­is­flokk­inn. Til vinstri við frá­far­andi meiri­hluta situr Sós­í­alista­flokk­ur­inn sem hefur líka úti­lokað slíkt sam­starf. Ganga verður út frá því, þar til að annað kemur í ljós, að þær opin­beru yfir­lýs­ingar um þá úti­lokum muni halda.

Því stendur Við­reisn frammi fyrir að geta unnið til hægri með íhalds­sam­ari flokk­unum Sjálf­stæð­is­flokki, Mið­flokki og Flokki fólks­ins. Miðað við stefnu­skrá Við­reisn­ar, meðal ann­ars þau lyk­il­mál sem talin eru upp hér að ofan, er erfitt að sjá slíkan meiri­hluta verða að veru­leika, og enn erf­ið­ara að sjá um hvað hann ætti að snú­ast annað en að kom­ast að völd­um. Annar hvor aðil­inn, Við­reisn eða hinir flokk­arn­ir, þyrftu að minnsta kosti að gera slíkar mála­miðl­anir í lyk­il­málum á um kúvend­ingu yrði að ræða. Slíkt færi vænt­an­lega illa í kjós­endur þeirra.

Við­reisn getur líka unnið til vinstri og ráðið því hversu langt í þá átt flokk­ur­inn er til­bú­inn að þoka sér. Sam­an­lagt eru Sam­fylk­ing, Píratar og Við­reisn, allt stjórn­mála­öfl sem skil­greina sig sem frjáls­lynda miðju­flokka – með ell­efu borg­ar­full­trúa og þurfa bara einn til við­bótar frá Vinstri græn­um, Sós­í­alistum eða Flokki fólks­ins til að mynda meiri­hluta. Áherslur þess­ara flokka í mörgum lyk­il­málum ríma auk þess vel sam­an. Við­mæl­endur Kjarn­ans innan flokk­anna segja að slíkt sam­starf sé alltaf aug­ljós fyrsti kostur í ljósi sam­lægðar á mál­efna­á­hersl­ur.

Við­reisn getur hins veg­ar, líkt og for­mað­ur­inn Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dóttir sagði í Silfr­inu fyrr í dag, selt sig mjög dýrt við myndum ofan­greindra meiri­hluta og komið stórum áherslu­málum sínum í önd­vegi. Þá getur flokk­ur­inn einnig stýrt því hver sest í borg­ar­stjóra­stól­inn velji hann að vinna til vinstri. 

Annar mögu­leiki er auð­vitað sá að mynd­aður verði mjög vinstri­s­inn­aður meiri­hluti Sam­fylk­ing­ar, Vinstri grænna, Sós­í­alista, Pírata og Flokks fólks­ins. Hann myndi hafa eins manns meiri­hluta. Það yrði stórt póli­tískt veð­mál fyrir Sam­fylk­ingu og Pírata að fara inn í slíkan meiri­hluta, sem myndi aug­ljós­lega vera með mjög sterkar félags­legar áhersl­ur, með til­heyr­andi aukn­ingu í fjár­út­lát­um, sem fyrir fram gefið er að myndu stuða mjög marga borg­ar­búa.

Hvernig sem fer er ljóst að höf­uð­borgin fær nýtt stjórn­enda­teymi á næstu dög­um. Og tím­arnir eru að breyt­ast í Reykja­vík.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar