Mynd: Skjáskot/RÚV Oddvitar í RVK

Tímarnir eru að gjörbreytast í Reykjavíkurborg

Konur verða ráðandi í Reykjavík næstu fjögur árin. Aldrei áður hefur borgarstjórn endurspeglað fjölbreytileika borgarbúa með jafn skýrum hætti og í þeim átta framboðum sem kjörin voru. Sumir eru sigurvegarar og aðrir töpuðu illa. En ekkert er fyrirliggjandi um hvernig næsti borgarstjórnarmeirihluti verði samsettur.

Borgarstjórnarkosningarnar eru afstaðnar og niðurstaða þeirra er margþætt. Alls náðu átta flokkar kjöri og hafa aldrei verið fleiri. Meirihlutinn er fallinn. Enginn augljós meirihluti er til að taka við. Og nær allir flokkarnir átta túlka þar af leiðandi niðurstöðuna með sínu nefi.

Ein allra áhugaverðasta niðurstaða kosninganna er sú að konur verða í miklum meirihluta í Reykjavík næsta kjörtímabil. Alls eru 15 þeirra 23 borgarfulltrúa sem kjörnir voru í gær konur. Og sex þeirra átta framboða sem náðu kjöri eru leidd af konum. Einungis risarnir tveir, flokkarnir sem gera tilkall til borgarstjórastólsins í krafti stærðar sinnar, Sjálfstæðisflokkur og Samfylking, eru leiddir af körlum. Þá voru tveir frambjóðendur sem fæddir eru í öðru landi kjörnir í borgarstjórn og nýr yngsti borgarfulltrúi sögunnar er af blönduðum uppruna.

Ljóst er að mikilla breytinga er að vænta við stjórnun Reykjavíkurborgar. Ný öfl með nýjar áherslur munu koma að henni óháð því hvaða meirihluti verður á endanum myndaður.

Kjarninn rýndi í stöðuna daginn eftir enn einar sögulegu kosningarnar.

Hver vann?

Það eru margir sem telja sig sigurvegara kosninganna í Reykjavík. Sjálfstæðisflokkurinn bætti við sig 5,1 prósentustigi milli kosninga. Það er langmesta bætingin hjá þeim flokkum sem sátu í borgarstjórn á kjörtímabilinu sem er að líða. Sjálfstæðisflokkurinn er líka orðinn stærsti flokkurinn í höfuðborginni að nýju og niðurstaða hans er betri en nær allar kannanir, og raunar allur aðdragandi kosninganna, benti til. Í þessu ljósi vann Sjálfstæðisflokkurinn augljósan sigur.

En niðurstaðan, 30,8 prósent, er líka næst versta niðurstaðan Sjálfstæðisflokks í Reykjavík frá upphafi borgarstjórnarkosninga. Hún er til að mynda lakari en árið 2010, þegar flokkurinn fékk 33,6 prósent. Sjálfstæðisflokkurinn fékk átta borgarfulltrúa kjörna. Líkt og rakið er betur hér að neðan er ekki auðsótt fyrir hann að mynda starfhæfan meirihluta með þeim fjölda.

Sósíalistaflokkurinn var augljós sigurvegari, og getur sagt slíkt án nokkurs fyrirvara. Hann náði 6,4 prósent atkvæða og Sanna Magdalena Mörtudóttir er í kjölfarið í mjög sterkri stöðu í borgarstjórn. Sigurinn er bæði sá að Sósíalistaflokkurinn er eini flokkurinn sem náði inn kjörnum fulltrúa sem er ekki með fulltrúa á Alþingi í dag, og hefur því ekki aðgengi að þeim hundruð milljóna sem hinir sjö flokkarnir sem sitja munu í borgarstjórn næsta kjörtímabilið er skammtað af fjárlögum ár hvert.

Sósíalistar ráku þess í stað mjög árangursríka, einbeitta, skýra og stílhreina baráttu í gegnum samfélagsmiðla fyrir sáralítið fé sem vakti mikla og verðskuldaða athygli. 

Sanna þótti líka standa sig afburðavel í öllum kosningaþáttum sem hún kom fram í í aðdraganda kosninga og þrátt fyrir að vera yngsti borgarfulltrúi sögunnar – hún er ný orðin 26 ára – þá var hún oft eins og fullorðni einstaklingurinn í herberginu þegar aðrir oddvitar tókust á með hefðbundnum hætti. Þá þótti Sanna hafa svarað spurningu Einars Þorsteinssonar fréttamanns í oddvitaumræðunum á föstudag, þar sem hann spurði um viðskiptasögu Gunnars Smára Egilssonar, með mjög afgerandi og eftirtektarverðum máta. Hin mikla umræða sem skapaðist í kringum spurninguna á samfélagsmiðlum spilaðist mjög upp í hendurnar á Sósíalistaflokknum og átti ugglaust þátt í því að fylgi þeirra varð á endanum mun meira en allar spár höfðu gert ráð fyrir. Svar Sönnu var hennar „Sæland-augnablik“, en mörgum er í fersku minni þegar Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, grét í oddvitaþætti daginn fyrir kosningar í fyrra með sambærilegum afleiðingum á fylgi hennar flokks.

Sanna Magdalena Mörtudóttir og flokkur hennar er einn helsti sigurvegari kosninganna.
Mynd: Bára Huld Beck

Miðflokkurinn og Flokkur fólksins eru einnig sigurvegarar í Reykjavík einfaldlega vegna þess að þau náðu fólki inn í fyrsta sinn. Á landsvísu má slá því föstu að Miðflokkurinn sé stóri sigurvegari kosninganna og nær flokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að skjóta niður rótum mjög víða.

Píratar bæta einnig við sig fylgi á milli kosninga og er eini flokkurinn í meirihluta sem gerir það. Þau geta verið mjög sátt með að ná inn tveimur öflugum konum í borgarstjórn, þeim Dóru Björt Gunnarsdóttur og Sigurborgu Ósk Haraldsdóttur, þótt að endanlegt prósentufylgi hafi verið aðeins lægra en kannanir og spár bentu til. Það er reyndar orðið að venju hjá Pírötum.

En stóri sigurvegari kosninganna í Reykjavík hlýtur að vera Viðreisn. Flokkurinn er orðinn þriðji stærsti flokkurinn í borginni eftir að hafa boðið sig þar fram í fyrsta sinn og er með tvo borgarfulltrúa. Sigur flokksins er líka fólgin í því að hafa náð að staðsetja sig þannig að geta hótað samstarfi við andstæðar fylkingar innan borgarinnar til að ná fram öllu því sem hann vill ná fram í komandi meirihlutasamstarfi, sem er nær ómögulegt án hans.

Hverjir tapa?

Vinstri græn guldu afhroð í kjördæmi formanns síns, forsætisráðherrans Katrínar Jakobsdóttur. Einungis 2.700 manns kusu flokkinn í Reykjavík. Til samanburðar kusu 14.477 einstaklingar Vinstri græn í þingkosningum fyrir sjö mánuðum síðan. Flokkurinn fékk einungis 4,3 prósent atkvæða og einn kjörinn fulltrúa, Líf Magneudóttur. Hann er næstminnstur allra þeirra framboða sem náðu kjöri í gær.

Ástæðurnar sem nefndar hafa verið eru mýmargar. Sú háværasta er sú að verið sé að refsa Vinstri grænum fyrir stjórnarsamstarf í landsmálunum við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk og að þessi slátrun sem átti sér stað í borgarstjórnarkosningunum sýni svart á hvítu að ólgan innan flokksins sé miklu meiri en leiðtogar hans vilja af láta. Það sjáist líka á því að framboð sem stillir sér vinstra megin við Vinstri græn, Sósíalistaflokkurinn, fékk miklu betri kosningu en sá flokkur sem hefur svo gott sem verið skrásett vörumerki yst á vinstri ásnum síðastliðna tæpa tvo áratugi. Önnur ástæða sé sú að meiri óánægja hafa verið á meðal borgarbúa með stjórnarsamstarfið í Reykjavík en meirihlutinn gerði sér grein fyrir og sú þriðja að stefnumál og framboðslisti Vinstri grænna, og sérstaklega oddviti hans, hafi einfaldlega ekki höfðað til fólks.

Samfylkingin tapar líka illa. Þótt flokkurinn sé næst stærstur og hafi náð 25,9 prósent atkvæða þá missti hann heil sex prósentustig af fylgi milli borgarstjórnarkosninga. Auk þess hlýtur sú tilfinning að vera ráðandi hjá leiðtogum Samfylkingarinnar að þau hafi einfaldlega verið of værukær á lokametrum baráttunnar, þegar kannanir sýndu uppgang en ekki samdrátt í fylgi. Á sama tíma var vel fjármögnuð  og -mönnuð kosningavél Sjálfstæðisflokksins mallandi á fullu við að gera það sem hún gerir betur en nokkur annar í íslenskum stjórnmálum, að hringja skipulega í þúsundir sem mögulega gætu kosið flokkinn og auglýsa grimmt þau stefnumál sem vitað var að almenn óánægja var með frammistöðu meirihlutans í (t.d. leikskólamál). Vitað var að dræm kjörsókn myndi vinna með Sjálfstæðisflokknum þar sem hann sækir fylgi sitt frekar til eldri kjósenda sem eru líklegri til að skila sér á kjörstað. Allt þetta gekk eftir og við marklínuna skaust helsti keppinautur Samfylkingarinnar upp en hún sjálf niður.

Litlu munaði að staðan yrði enn verri. Guðrún Ögmundsdóttir, sjöundi maður Samfylkingar, var síðasti kjörni borgarfulltrúinn og níundi maður Sjálfstæðisflokks, Jórunn Pála Jónasdóttir, var næsti maður inn. Hefði sá viðsnúningur orðið væri nánast borðleggjandi að Samfylking gæti ekki leitt nýjan meirihluta.

Sá möguleiki er þó enn fyrir hendi þrátt fyrir ósigurinn í gær og er jafnvel líklegri en sá að erkióvinurinn Sjálfstæðisflokkur leiði slíkan, vegna gengis annarra flokka. Heildarniðurstaðan í kosningunum vann því með möguleikum Samfylkingarinnar til að komast til valda þótt eigin frammistaða hennar hafi verið slök.

Dagur B. Eggertsson og Samfylkingin misstu flugið á síðustu metrunum og eru einn þeirra flokka sem flokkast sem taparar kosninganna.
Mynd: Bára Huld Beck

Þá er ónefndur Framsóknarflokkurinn, sem fékk 3,2 prósent atkvæða og náði ekki inn manni í Reykjavík. Í ljósi þess að um er að ræða kjördæmi varaformannsins og vonarstjörnunnar Lilju Alfreðsdóttur, og þess að Framsóknarflokkurinn er rúmlega 100 ára gamall flokkur með sterka innviði og mikla reynslu af kosningum, hlýtur niðurstaðan að vera verulegt áhyggjuefni. Rifja má upp að Halldór Ásgrímsson heitinn, þáverandi formaður Framsóknarflokksins, ákvað að draga sig í hlé úr stjórnmálum í kjölfar borgarstjórnarkosninganna 2006, þegar Framsókn fékk 6,1 prósent atkvæða. Halldór sagði meðal annars að hann væri að axla ábyrgð á lakri stöðu flokksins í þeim kosningum með því að stiga til hliðar.

Hver er staðan?

Ljóst er að það má túlka niðurstöðu kosninganna sem ákall um breytingar. Meirihlutinn er kolfallinn og tvær burðarstoðir hans tapa umtalsverðu. Það er hins vegar ekki jafn skýrt hverjar þeir breytingar eigi að vera.

Sjálfstæðisflokkurinn rak kosningabaráttu sem hverfðist lengi vel mikið í kringum það að bjóða upp á meira malbik og greiðara aðgengi fyrir einkabílinn ásamt uppbyggingu húsnæðis í útjaðri borgarinnar. Þessi afstaða var í beinni andstöðu við gildandi aðalskipulag og þá stefnu sem meirihlutinn hefur rekið í borginni, sem snýst um aukna þéttingu byggðar og ríkari áherslur á almenningssamgöngur, fólk sem hjólar og þá sem nota tvo jafnfljóta til að komast milli staða.

Miðflokkurinn og Flokkur fólksins stilltu sér mjög upp með sambærilega afstöðu í skipulags-, húsnæðis- og samgöngumálum. Til einföldunar þá snérist sú afstaða um að vera gegn borgarlinu og þéttingu byggðar.

Eyþór Arnalds gerir tilkall til þess að verða næsti borgarstjóri Reykjavíkur.
Mynd: Bára Huld Beck

Stefnumál Viðreisnar í þessum málaflokkum rímuðu hins vegar mjög vel við áherslur fráfarandi meirihluta. Flokkurinn vildi borgarlínu og annars konar hágæða almenningssamgöngur. Hann vildi vinna áfram með þéttingu byggðar og setja nýjar stofnvegaframkvæmdir í stokk. Þá vill Viðreisn hvetja til orkuskipta í bílaflotanum með ýmsum hvataaðgerðum, fjölga hjólastígum, stækka gjaldskyld bílastæðasvæði, studdu lengingu gjaldskyldutíma og afnám á hámarki á fjölda leigubíla. Þegar kemur að einu máli sem var nánast ekkert rætt í nýyfirstöðnum kosningum en er stórpólitísk átakamál, veru flugvallarins í Vatnsmýri, er afstaða Viðreisnar skýr: „Finna þarf innanlandsflugi nýja staðsetningu í grennd við höfuðborgina, með þægindi og öryggi allra landsmanna að leiðarljósi. Flugvöllurinn verður áfram í Vatnsmýri þangað til að sú staðsetning liggur fyrir. Viðreisn telur að nýr flugvöllur í Hvassahrauni sé lausn sem skoða þurfi til hlítar.“ 

Viðreisn vill auk þess fjölga félagslegu húsnæði um 350 á kjörtímabilinu.

Hvaða meirihlutar eru í boði?

Staðan í borginni eftir kosningar er þannig að sitjandi meirihluti er með tíu borgarfulltrúa og allir þrír flokkarnir sem mynda hann hafa útilokað samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Til vinstri við fráfarandi meirihluta situr Sósíalistaflokkurinn sem hefur líka útilokað slíkt samstarf. Ganga verður út frá því, þar til að annað kemur í ljós, að þær opinberu yfirlýsingar um þá útilokum muni halda.

Því stendur Viðreisn frammi fyrir að geta unnið til hægri með íhaldssamari flokkunum Sjálfstæðisflokki, Miðflokki og Flokki fólksins. Miðað við stefnuskrá Viðreisnar, meðal annars þau lykilmál sem talin eru upp hér að ofan, er erfitt að sjá slíkan meirihluta verða að veruleika, og enn erfiðara að sjá um hvað hann ætti að snúast annað en að komast að völdum. Annar hvor aðilinn, Viðreisn eða hinir flokkarnir, þyrftu að minnsta kosti að gera slíkar málamiðlanir í lykilmálum á um kúvendingu yrði að ræða. Slíkt færi væntanlega illa í kjósendur þeirra.

Viðreisn getur líka unnið til vinstri og ráðið því hversu langt í þá átt flokkurinn er tilbúinn að þoka sér. Samanlagt eru Samfylking, Píratar og Viðreisn, allt stjórnmálaöfl sem skilgreina sig sem frjálslynda miðjuflokka – með ellefu borgarfulltrúa og þurfa bara einn til viðbótar frá Vinstri grænum, Sósíalistum eða Flokki fólksins til að mynda meirihluta. Áherslur þessara flokka í mörgum lykilmálum ríma auk þess vel saman. Viðmælendur Kjarnans innan flokkanna segja að slíkt samstarf sé alltaf augljós fyrsti kostur í ljósi samlægðar á málefnaáherslur.

Viðreisn getur hins vegar, líkt og formaðurinn Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði í Silfrinu fyrr í dag, selt sig mjög dýrt við myndum ofangreindra meirihluta og komið stórum áherslumálum sínum í öndvegi. Þá getur flokkurinn einnig stýrt því hver sest í borgarstjórastólinn velji hann að vinna til vinstri. 

Annar möguleiki er auðvitað sá að myndaður verði mjög vinstrisinnaður meirihluti Samfylkingar, Vinstri grænna, Sósíalista, Pírata og Flokks fólksins. Hann myndi hafa eins manns meirihluta. Það yrði stórt pólitískt veðmál fyrir Samfylkingu og Pírata að fara inn í slíkan meirihluta, sem myndi augljóslega vera með mjög sterkar félagslegar áherslur, með tilheyrandi aukningu í fjárútlátum, sem fyrir fram gefið er að myndu stuða mjög marga borgarbúa.

Hvernig sem fer er ljóst að höfuðborgin fær nýtt stjórnendateymi á næstu dögum. Og tímarnir eru að breytast í Reykjavík.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar