Framlag Kjarnans á árinu 2014
Kjarninn er fimm ára í vikunni. Af því tilefni verður rifjað upp það helsta sem hann hafði til málanna að leggja á hverju því starfsári sem hann hefur verið til, á hverjum degi í þessari viku. Í dag er farið yfir árið 2014.
Ýmsar breytingar voru gerðar hjá Kjarnanum í kringum áramótin 2013/2014 til að skerpa á persónuleika miðilsins. Á meðal þeirra var sú að pistlavettvangurinn „Kjaftæði“ hóf göngu sína. Þar skrifuðu ýmsir pistlahöfundar sem nær allir áttu það sameiginlega að hafa ekki látið neitt af sér kveða á þeim vettvangi áður, hnífbeitta, hæðna og stórskemmtilega þjóðfélagsádeilupistla.
Sá sem vakti mesta athygli var Hrafn Jónsson, sem varð á skömmum tíma vinsælasti og fyndnasti pistlahöfundur íslenska internetsins, sannkallaður John Oliver hins bundna máls. Kjaftæðispistlar Hrafns gengu svo vel að Kjarninn gaf þá út á bók í lok árs 2016, sem heitir „Útsýnið úr fílabeinsturninum – Kjörtímabil með augum Hrafns Jónssonar.“
Í janúar 2014 greindi Kjarninn frá því að með ítarlegum hætti frá ýmsum hliðum fjárfestingaleiðar Seðlabanka Íslands og þeim áhrifum sem hún hafði. Á meðal þeirra upplýsinga sem komu þá fram voru hversu margir innlendir aðilar hefðu nýtt sér leiðina og hvað þeir væru að kaupa.
Fjárfestingaleiðin var gífurlega umdeild framkvæmd sem Seðlabankinn beitti til minnka hina svokölluðu snjóhengju, krónueignir erlendra aðila sem fastar voru innan fjármagnshafta og gerðu stjórnvöldum erfitt fyrir að vinna að frekari losun þeirra hafta. Samkvæmt henni gátu þeir sem samþykktu að koma með gjaldeyri til Íslands skipt þeim í íslenskar krónur á hagstæðara gengi en ef þeir myndu gera það í næsta banka. Mun hagstæðara gengi.
Þeir sem tóku á sig „tapið“ í þessum viðskiptum voru aðilar sem áttu krónur fastar innan hafta en vildu komast út úr íslenska hagkerfinu með þær. Þeir sem „græddu“ voru aðilar sem áttu erlendan gjaldeyri en voru tilbúnir að koma til Íslands og fjárfesta fyrir hann. Seðlabankinn var síðan í hlutverki milligönguaðila sem gerði viðskiptin möguleg. Líkt og verslun sem leiddi heildsala og neytendur saman.
Alls fóru fram 21 útboð eftir fjárfestingaleiðinni frá því í febrúar 2012 til febrúar 2015, þegar síðasta útboðið fór fram. Alls komu um 1.100 milljónir evra til landsins á grundvelli útboða fjárfestingarleiðarinnar, sem samsvarar um 206 milljörðum króna.
94 innlendir aðilar komu með peninga inn í íslenskt hagkerfi í gegnum útboð fjárfestingarleiðar Seðlabanka Íslands. Peningar þeirra námu 35 prósent þeirrar fjárhæðar sem alls komu inn í landið með þessari leið, en hún tryggði um 20 prósent afslátt á eignum sem keyptar voru fyrir peninganna á Íslandi. Alls fengu þessir aðilar 72 milljarða króna fyrir þann gjaldeyri sem þeir skiptu í íslenskar krónur samkvæmt skilmálum útboða fjárfestingarleiðarinnar. Afslátturinn, eða virðisaukningin, sem þeir fengu með þessu umfram það ef þeir hefðu skipt gjaldeyrinum á skráðu gengi Seðlabankans er um 17 milljarðar króna.
Seðlabankinn hefur aldrei viljað upplýsa um hverjir það voru sem fengu að nýta sér þessa leið og segir að honum sé það ekki heimilt vegna þagnarskylduákvæðis í lögum um starfsemi bankans.
GAMMA og ungir fangar
Fasteignamarkaðurinn var kominn á mikið flug á árinu 2014 og margir sem sáu tækifæri til að hagnast mjög á því sem var að eiga sér stað á þessum tíma. Kjarninn birti í lok janúar úttekt á íbúðauppkaupum sjóða á vegum GAMMA. Á þeim tíma voru íbúðirnar orðnar 350 og Gísli Hauksson, þáverandi forstjóri GAMMA, sagði í samtali við Kjarnann að markmiðið væri að koma á fót öflugu leigufélagi að skandinavískri fyrirmynd. Hann vildi ekki upplýsa hverjir það væru sem hefðu fjárfest í þessu verkefni GAMMA en sagði að lífeyrissjóðir landsins væru þar fyrirferðamiklir.
GAMMA hélt áfram að bæta hratt við íbúðum og keypti nú í öðrum hverfum líka. Til varð Almenna leigufélagið. Það hagnaðist um 1,5 milljarð króna á árinu 2017 og eignir félagsins voru metnar á 42 milljarða króna í lok þess árs og íbúðirnar sem það átti orðnar vel yfir eitt þúsund talsins.
Kjarninn skrifaði töluvert um þjónustusamninginn sem gerður var við meðferðarheimilið Háholt snemma árs 2014. Til hafði staðið að loka heimilinu í ljósi þess að eftirspurnin eftir plássi þar var nær engin var einingin ekki talin rekstrarhæf.
Áður en að því kom tók ný ríkisstjórn við í landinu, ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Og þann 8. nóvember 2013 fól velferðarráðuneytið, sem nú var stýrt af Eygló Harðardóttur, Barnaverndarstofu að ganga til viðræðna um nýjan samning um rekstur meðferðarheimilis í Háholti þar sem gert yrði ráð fyrir að heimilið fengi það tímabundna hlutverk að vista fanga undir 18 ára aldri sem dæmdir væru til óskilorðsbundinnar refsingar.
Samkomulagið sem um ræðir var fyrst og fremst rökstutt með því að vista ætti fanga undir aldri sem dæmdir höfðu verið til óskilorðsbundinnar refsingar á Háholti. Það yrði nokkurs konar fangelsi fyrir unga glæpamenn, enda kveði Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna á um að börn megi ekki afplána með fullorðnum. Samkomulagið var undirritað 6. desember 2013 og í kjölfarið var gerður þjónustusamningur sem gildir til 1. september 2017.
Einn einstaklingur var vistaður á Háholti í kjölfar dóms frá því að þjónustusamningurinn var gerður. Sú vist stóð yfir í nokkra mánuði.
Þjónustusamningurinn við Háholt kostaði um og yfir 150 milljónir króna á ári, samkvæmt upplýsingum frá Barnaverndarstofu. Samanlagt kostuðu árin þrjú sem hann náði yfir því á milli 450-500 milljónir króna. Á þeim tíma hafa að jafnaði 1-3 einstaklingar verið vistaðir á Háholti að jafnaði. Innritaðir einstaklingar voru sex á árinu 2014, þrír árið 2015 og sex á árinu 2016. Til samanburðar má nefna að 112 einstaklingar voru innritaðir í meðferðarúrræði Barnaverndarstofu á árinu 2016 til viðbótar við 47 sem nutu meðferðar á árinu, en höfðu innritast 2015.
Karlar sem stýra fé og leyniskýrslur
Í febrúar 2014 birti Kjarninn í fyrsta sinn niðurstöðu í úttekt sinni á því hvernig kynjaskipting er hjá þeim sem stýra fé eða stunda fjárfestingar á Íslandi. Hún náði til æðstu stjórnenda viðskiptabanka, sparisjóða, lífeyrissjóða, skráðra félaga, óskráðra tryggingafélaga, lánafyrirtækja, verðbréfafyrirtækja og -miðlana, framtakssjóða, orkufyrirtækja, greiðslustofnana, Kauphallar og lánasjóða. Niðurstaða var sláandi: karlar stýra 93 prósent þeirra.
Kjarninn hefur framkvæmt úttektina á hverju ári síðan þá, nú síðast í febrúar 2018. Niðurstaðan var sú karlar stýra enn peningum á Íslandi, og þar með ráða þeir hvaða hugmyndir fá að verða að veruleika. Fyrir hverja níu karla sem sitja í æðstu stjórnendastöðum í íslenskum peningaheimi er einungis ein kona í sambærilegri stöðu. Staðan hefur ekkert lagast á síðustu fimm árum þrátt fyrir lagabreytingar og mikla opinbera áherslu á jafnan hlut kynjanna.
Kjarninn var meðal nokkurra fjölmiðla á heimsvísu sem birtu afhjúpandi umfjöllun um leyniskýrslu um TISA-viðræðurnar svokölluðu, en með TISA-samkomulagi milli þjóðríkja heimsins var markmiðið að akua frelsi í viðskiptum. Í skjölunum sem Kjarninn birti kom meðal annars fram að starfsmenn fjármálafyrirtækja ættu að fá sérmeðferð þegar þeir væru á ferðalagi milli landa og að ríkisstjórnir gætu ekki leyst til sín eignir sem áður höfðu verið einkavæddar.
Þöggun háskólamanna
Í maí greindi Kjarninn frá áður óbirtri niðurstöðu könnunar sem sýndi að sjötti hver háskólamaður sagðist hafa komið sér hjá því að tjá sig við fjölmiðla vegna ótta við viðbrögð valdafólks úr stjórnmála- og efnahagslífi. Þá taldi meirihluti aðspurðra háskólamanna að akademísku frelsi fræði- og vísindamanna á Íslandi starfi ógn af gagnrýni eða hótunum frá valdafólki í stjórnmálum og efnahags- og atvinnulífi.
Í umfjöllun Kjarnans greindi Jón Steinsson, þá dósent í hagfræði við Columbia-háskóla, frá því að vegna opinberrar gagnrýni sem hann hefði sett fram á annars vegar Davíð Oddsson og Sjálfstæðisflokkinn og hins vegar kvótakerfið hafi skilaboðum verið komið til hans um að hann væri búinn að brenna allar brýr að baki sér og gæti aldrei fengið vinnu á Íslandi. Jón sagði líka frá því að áhrifamaður í íslensku atvinnulífi hefði send bréf til deildarforseta Columbia-háskólans þar sem hann gerði athugasemdir við skrif Jóns í íslenska miðla.„Ef þessir menn reyna ða hafa áhrif á yfirmann hagfræðideildar í Columbia, sem þeir hafa augljóslega engin tök á, þá getur maður bara ímyndað sér hvernig það er þegar einhver í háskólum á Íslandi skrifar eitthvað svona.“
Allir dagar verða Kjarnadagar
Í október urðu eðlisbreytingar á starfsemi Kjarnans þegar nýr og öflugur fréttavefur Kjarnans var settur í loftið. Samhliða var útgáfu stafræna tímaritsins hætt og ritstjórn Kjarnans hóf að sinna daglegri fréttaþjónustu. Viðmiðin voru þó áfram þau sömu: áhersla á gæði og dýpt. Samhliða fór líka í loftið morgunpóstur Kjarnans, sem hefur notið mikilla vinsælda alla tíð síðan.
Mánuði síðar var útfærsla á stærsta máli þáverandi ríkisstjórnar, Leiðréttingunni, kynnt. Lagafrumvörp vegna aðgerðarinnar höfðu verið lagt fram í mars sama ár. Kjarninn hefur alla tíð verið í fararbroddi við að greina afleiðingar þeirra aðgerðar sem snerist um að greiða tugi milljarða króna úr ríkissjóði til hluta þeirra landsmanna sem skulduðu verðtryggð lán á ákveðnu tímabili. Það gerði hann í nóvember 2014 líka með ítarlegum fréttaskýringum, dæmum sem sýndu að leiðréttingin var í sumum tilvikum að lenda hjá fólki sem þurfti ekkert á henni að halda og greindi í skoðanaskrifum.
Borgun og lekamálið
Hinn 27. nóvember 2014 flutti Kjarninn fréttir af því að Landsbankinn hefði selt 31,2 prósent hlut í Borgun, bak við luktar dyr, til valinna fjárfesta. Nákvæmar upplýsingar fylgdu fréttinni, sem Magnús Halldórsson skrifaði, um eigendurna sem fengu að kaupa hlutinn í lokuðu söluferli, og var hún byggð á stofnfundargerðum, samningum um viðskiptin, og upplýsingum sem aflað hafði verið með sjálfstæðri heimildarvinnu. Úr varð eitt stærsta fréttamál síðustu ára sem endaði með því að bankastjóri Landsbankans var rekinn úr starfi og að Landsbankinn höfðaði mál til að reyna að endurheimta það fé sem hann taldi sig hafa verið svikinn um í málinu.
Undir lok árs var svo stærsta fréttamál ársins 2014, lekamálið svokallaða, leitt til lykta með því að Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi innanríkisráðherra, sagði af sér embætti. Það gerðist í kjölfar þess að Gísli Freyr Valdórsson, fyrrverandi aðstoðarmaður hennar, hafði játað að leka trúnaðarupplýsingum úr ráðuneytinu um hælisleitendur til fjölmiðla í nóvember 2013. Fyrir það hlaut hann skilorðsbundinn dóm. Kjarninn tók virkan þátt í umfjöllun um málið, sem var einstakt í Íslandssögunni.