Mynd: Kjarninn.

Rússíbanareið Guðmundar

Útgerðarmaðurinn Guðmundur Kristjánsson er sá einstaklingur sem er með mest undir, þegar kemur að skuldum við íslensku ríkisbankana, Landsbankann og Íslandsbanka. Óhætt er að segja að undanfarinn áratugur hafi verið rússíbanareið hjá Guðmundi.

Á þessum degi fyrir áratug, 7. september 2008. Rafmagnað andrúmsloft á fjármálamörkuðum víða um heim. Augun voru ekki bara á tölunum sem bárust frá Wall Street - þar sem verðhrun einkenndi markaði og lánalínur banka lokuðust - heldur voru stjórnvöld í hverju ríkinu á fætur öðru að boða til neyðarfunda með forsvarsmönnum banka, seðlabanka og stærstu fyrirtækja. Stormur var í aðsigi. Viku síðar, þegar Lehman Brothers bankinn féll, sköpuðust aðstæður sem Ben Bernanke, þáverandi bankastjóri Seðlabanka Bandaríkjanna, hefur lýst sem tæpasta vaði í nútíma efnahagssögu heimsins.

Spyrnt frá botni

Ekki þarf að fjölyrða um þetta tímabil sem tók við, en á litla Íslandi urðu dramatískir atburðir þegar fjármálakerfið hrundi á þremur dögum, 7. til 9. október, og neyðarlögum og fjármagnshöftum var beitt til að marka upphafið af endurreisn hagkerfisins. Það þurfti að finna botninn til að spyrna sér upp að nýju.

Í þessum aðstæðum hófst ekki aðeins endurreisn hagkerfisins heldur líka endurreisn á fjárhag heimila, fyrirtækja og í sumum tilvikum viðskiptavelda á íslenskan mælikvarða.

Viðskiptaveldi Guðmundar Kristjánssonar, sem oftast er kenndur við Brim, er eitt þeirra sem stóð höllum fæti eftir hrunið, svo ekki sé meira sagt. Skuldir langt umfram eignir.

Óhætt er að segja tiltektin á fjárhag þeirra félaga hafa dregið dilk á eftir sér, þar sem hluthafafundur Vinnslustöðvarinnar samþykkti 25. júní síðastliðinn að leggja fram rannsóknarbeiðni á næsta hluthafafundi Landsbankans, sem beinist að því hvernig á því stendur að Guðmundur og félög hans hafi fengið milljarða afskrifaða hjá bankanum - og fengið að kaupa útgerðarfélagið Brim á 205 milljónir króna út úr gjaldþrota móðurfélagi sínu.

Á sama tíma hafa lánveitingar til hans aukist um tugi milljarða og umsvifin sömuleiðis. Guðmundur stendur nú eftir með fulla vasa fjár - og miklar skuldir - og við stýrið hjá HB Granda, en í tilkynningu til kauphallar hefur verið boðaður frekari vöxtur félagsins. 

Guðmundur sagði taprekstur á fyrri hluta ársins óviðunandi, í tilkynningu til kauphallar 29. ágúst. „Veiðar má auka með auknum veiðiheimildum og arðsemina má bæta með breytingum á skipum og flota. Verið er að skoða fjárfestingar í vinnslu og tæknibúnaði sem ættu að hafa jákvæð áhrif á reksturinn þegar fram í sækir. Einnig er í athugun að auka samstarf á sviði markaðs- og sölumála og jafnvel fjárfesta í erlendum sölufélögum,“ sagði Guðmundur meðal annars í tilkynningu. 

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri og aðaleigandi HB Granda.
Brim Seafood

Eigið fé HB Granda nemur um 250 milljónum evra, eða sem nemur um 31 milljarði króna en markaðsvirði félagsins nemur nú 56,5 milljörðum króna.

Guðmundur og Sigurgeir B. Kristgeirsson (oftast nefndur Binni), forstjóri Vinnslustöðvarinnar, hafa lengi deilt, og hafa þær deilur síst verið á undanhaldi. Beiðnin, sem fjallað er um í hliðardálki þessar greinar, tengist þessum deilum beint en þau atriði sem gerð er krafa um að verði skoðuð og krufin til mergja hafa þó einnig verið til umræðu innan Landsbankans að undanförnu, samkvæmt heimildum Kjarnans. 

Náið er fylgst með hverju skrefi þegar kemur að skuldum Guðmundar við bankann og passað upp á veðstaða sé trygg svo að áhætta aukist ekki óhóflega.

Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs Landsbankans, vildi ekki tjá sig um málefni einstakra viðskiptavina bankans en sagði næsta hluthafafund bankans fyrirhugaðan næsta vor, í mars mánuði. Engir aðrir hluthafafundir hefðu verið boðaðir. Gera má ráð fyrir að þá verði rannsóknarbeiðnin lögð fram og um hana fjallað.  

Sögulegt yfirtökutilboð

Nú, tæpum áratug eftir hrunið, sem gjörbreytti forsendum viðskiptaveldis Guðmundar eins og margra annarra, er hann einn umsvifamesti fjárfestir landsins og gerði í júní sögulegt yfirtökutilboð í næst stærsta útgerðarfyrirtæki landsins á eftir Samherja, HB Granda, sem jafnframt er eina útgerðarfyrirtækið sem skráð er á aðallista kauphallarinnar.

Hinn 18. apríl var tilkynnt um það að Brim hefði keypt rúmlega þriðjungshlut í HB Granda af félögunum Vogun hf. og Fiskveiðifélaginu Venusi fyrir 21,7 milljarða króna, en viðskiptin voru formlega frágengin í byrjun maí. Hvalur hf. er eigandi Vogunar en Venus á 43 prósent hlut í Hval hf. Eigendur Venusar eru Kristján Loftsson og Birna Loftsdóttir.

Umfang viðskiptanna var yfir lögbundnu marki um yfirtökuskyldu, sem miðast við 30 prósent hlut í félagi, og því virkjaðist hún í kjölfar þess að tilkynnt hafði verið um viðskipti.

Tilboðið kom flestum stærstu fjárfestum á íslenskum hlutabréfamarkaði í opna skjöldu, þar á meðal nokkrum íslenskum lífeyrissjóðum. Meðal íslenskra lífeyrissjóða hefur lengi verið það sjónarmið uppi, að æskilegast væri fyrir sjóðina að dreifa eignum sjóðanna meira meðal fyrirtækja í sjávarútvegi, en íslenskir lífeyrissjóðir eiga lítið sem ekkert í íslenskum útgerðarfyrirtækjum en þau eru flest með þröngt eignarhald, oft innan fjölskyldna. Þar er HB Grandi hins vegar undantekning, enda er félagið eina sjávarútvegsfyrirtækið sem skráð er á markað.

Einn viðmælenda Kjarnans, sem starfar hjá íslenskum lífeyrissjóði, sagðist hafa furðað sig á því hvernig þetta hefði borið að og svo hefði virst sem lítið hefði verið hugsað um það, að yfirtökuskylda hefði myndast. Hafði þetta ekki verið hugsað til enda? Voru peningar til fyrir þessu?

Í samtölum við bæði eftirlitsaðila og banka hefur Guðmundur sagt, að vitaskuld hafi það legið fyrir, að yfirtökuskyldan myndi virkjast við kaupin á hlut Hvals. Fyrir liggur þó, að yfirtökutilboðið var ekki fjármagnað þegar yfirtökuskyldan varð virk og hófust mikil fundarhöld hjá bönkum, lögmannstofum sem komu að málinu og mörgum stærstu hluthöfum HB Granda um leið og þetta varð ljóst, samkvæmt heimildum Kjarnans.

Afskriftir og lánafyrirgreiðsla

Beiðnin sem samþykkt var á hluthafafundi Vinnslustöðvarinnar í júní á sér ekki mörg fordæmi í íslensku viðskiptalíf, ef þá einhver. Hluthafafundurinn samþykkti að Vinnslustöðin og félagið Seil ehf. muni saman á næsta hluthafafundi Landsbankans hf. bera fram kröfu um rannsókn á fyrirgreiðslu Landsbankans sem snýr að Guðmundi. Vinnslustöðin og Seil eru hluthafar Landsbankans og má rekja þá eignaraðild til yfirtöku Landsbankans á Sparisjóði Vestmannaeyinga. Orðrétt segir í rannsóknarbeiðninni, eins og hún var borin fram á fundinum: „Seil og Vinnslustöðin hf., sem eru hluthafar í Landsbankanum hf., leggja til við hluthafafund Landsbankans hf. með vísan tl 1. mgr. 97. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög að fram fari rannsókn á skuldaafskriftum bankans gagnvart félögum, tengdum Guðmundi Kristjánssyni. Rannsakað verði hvort um óeðlilega undirverðlagningu hafi verið að ræða þegar félagi tengt Guðmundi var veitt heimild til að kaupa Brim hf. út úr gjaldþrota móðurfélagi sínu, Línuskipum ehf., kt. 411104-2710, og skilja Línuskip ehf. (nú XX26 ehf) eftir sem eignalaust félag með milljarðaskuld við bankann, sem að stærstum hluta er í eigu íslensku þjóðarinnar. Núverandi móðurfélag Brims hf. er í dag í eigu félags sem einnig heitir Línuskip ehf., með kennitölu 500797-2669, og hét áður Útgerðarfélag Akureyinga. Þá lýtur rannsóknarbeiðnin einnig að því hvernig hagsmunir bankans eru tryggðir þegar fyrir liggur að eignarhlutur Brims hf. í Vinnslustöðinni er skráður á umtalsverðu yfirverði miðað við fyrirliggjandi verðmöt á VSV. Beiðnin nær einnig til fleiri atriða sem þykir rétt og eðlilegt að kanna í tengslum við þessi viðskipti, bæði í nútíð og fortíð.“

Á hluthafafundinum, í tengslum við það þegar rannsóknarbeiðnin var til umræðu, var því haldið fram að Landsbankinn hefði afskrifað um 16 milljarða króna vegna Guðmundar Kristjánssonar og félaga hans, skömmu eftir hrunið, en að Brim hafi verið keypt á 205 milljónir út úr móðurfélagi sínu, sem síðan hafi farið í þrot.

Brim hf. á 32,88 pró­senta hlut í Vinnslu­stöðinni. Eig­end­ur Brims sam­kvæmt árs­reikn­ingi fyr­ir 2016 eru Línu­skip með 46,9 pró­senta hlut, Stilla út­gerð með 36,89 pró­sent og Fiskines með 14,63 pró­senta hlut.

Seil ehf. og Brim eiga alls sam­tals nærri 74 pró­sent alls hluta­fjárs Vinnslu­stöðvar­inn­ar, en Seil er stærsti hlut­haf­inn með 40,89 pró­senta eign­ar­hlut í VSV. Líf­eyr­is­sjóður Vest­manna­eyja á 5,64 pró­sent og sjö ein­stak­ling­ar bú­sett­ir í Vest­manna­eyj­um eiga á milli 1,54 til 3,33 pró­senta hlut. Aðrir minna.

Að lokum fór það svo, að eigendur ríflega 90 prósent hlutafjár ákváðu að selja ekki hlutinn og gerðu um það samkomulag við Brim. Þetta gerði það að verkum, að auðveldara var um vik að klára afgreiðslu viðskiptanna gagnvart bönkum, enda ekki hrist fram úr erminni að leggja fram trygg veð og eignir fyrir lánafyrirgreiðslu í bönkum upp á 65 milljarða króna. 

Samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti ber lánastofnunum að ábyrgjast tilboð til hluthafa, og því er aðkoma þeirra nauðsynleg. Íslandsbanki, sem ríkið á að öllu leyti, kom til skjalanna með Landsbankanum og voru viðskiptin þannig afgreidd með afgerandi aðkomu ríkisbankanna beggja.

Breytingar á stjórnendateymi

Fljótlega eftir að Brim hafði orðið kjölfestuhluthafi í HB Granda var Vilhjálmur Vilhjálmsson, sem hafði verið farsæll forstjóri félagsins um árabil, rekinn úr starfi og tók Guðmundur við stjórnartaumunum sem forstjóri.

Þetta olli deilum í stjórn félagsins og töldu tveir stjórnarmenn félagsins, Rannveig Rist, forstjóri álvers Rio Tinto Alcan í Straumsvík, og Anna G. Sverrisdóttir, ekki rétt að fara út í þessar aðgerðir, á meðan ekki var kominn botn í yfirtökutilboð Brims í hlutafé HB Granda.

Rannveig var sérstaklega ósátt við hvernig að þessu var staðið, og samkvæmt heimildum Kjarnans taldi hún þetta ekki samræmast góðum stjórnarháttum eða lögum sem stjórnir ættu að starfa eftir. Hún brást fljótt við og sagði sig úr stjórn með formlegri tilkynningu þar um. Fyrir utan óánægju með afgreiðslu málsins þá hafði Vilhjálmur átt gott samstarf við stjórn og stjórnendur félagsins, og var brotthvarf hans ekki vel séð af þeim ástæðum.

Deildar meiningar hafa verið um það meðal lögmanna, hvort það hafi verið lagalegur réttur fyrir hendi, til að reka Vilhjálm, en ákvörðunin hefur þó ekki haft neina eftirmála að hálfu eftirlitsaðila. Guðmundur leit sjálfur svo á að betra væri fyrir hluthafa, sem ættu eftir að taka afstöðu til yfirtökutilboðsins, að vita hver yrði við stýrið í fyrirtækinu í framtíðinni. Það er hann sjálfur.

Rannveig Rist sagði sig úr stjórn HB Granda.

Markaðsvirði félagsins er nú 56,5 milljarðar króna, tæplega tíu milljörðum minna en yfirtökutilboðið hljóðaði upp á, og er Brim hf. stærsti eigandi félagsins með rúmlega 35 prósent hlut. 

Frekari breytingar á forystu fyrirtækisins hafa haldið áfram. Brynjólfur Eyjólfsson, framkvæmdastjóri markaðssviðs HB Granda, var látinn fara á dögunum, og tók Guðmundur við störfum hans tímabundið, samhliða forstjórastarfinu, á meðan endurskoðun á sölu- og marksstarfi stendur yfir.

Samkeppniseftirlitið er enn með það til skoðunar, hvort myndast hafi yfirráð með kaupum Brims á kjölfestuhlut í félaginu. HB Granda barst erindi frá Samkeppniseftirlitinu í júlí þar sem óskað var eftir sjónarmiðum félagsins vegna skoðunar á því hvort myndast yfirráð í skilningi  samkeppnislaga.

Enginn sem er stærri áhætta

Í viðskiptum snúast hlutirnir fyrst og síðast um peninga. Ljóst var strax frá upphafi, þegar yfirtökuskyldan hafði verið virkjuð, að Landsbankinn, sem hefur lengi verið helsti viðskiptabanki Guðmundar og viðskiptaveldis hans, gæti ekki fullfjármagnað yfirtökutilboðið.

Ástæðan var sú að áhætta bankans gagnvart Guðmundi var þá komin upp í þak þess sem hún mátti vera.

Samkvæmt heimildum Kjarnans eru ekki fleiri dæmi eins og þetta, það er um svo mikla áhættu gagnvart einum einstaklingi og félögum hans - þar sem hann er langstærsti eigandi - hjá ríkisbönkunum eftir hrun. Enginn einstaklingur hefur jafn mikla áhættu í bókum stærstu bankanna, samkvæmt heimildum Kjarnans.

Greint var frá því í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins, að skuldir Guðmundar væru komnar upp í þakið hjá Landsbankanum en reglur Fjármálaeftirlitsins (FME) gera ráð fyrir að áhættuskuldbinding gagnvart einum viðskiptavini geti ekki farið yfir 25 prósent af eiginfjárgrunni bankans.

Landsbankinn, sem íslenska ríkið á ríflega 98 prósent hlut í, á mikið undir því að reksturinn gangi vel hjá Guðmundi og að hann geti borgað tugmilljarða skuldir til baka, en áhætta Landsbankans gagnvart Guðmundi var komin í 45 milljarða króna um mitt þetta ár.

Eitt af því sem hefur komið til greina er að Brim selji eignir, til að létta á skuldum og losi um fé. Það eru helst tæplega þriðjungshlutur í Vinnslustöðinni, en hann hefur verið til sölu lengi. Ekki hefur þó fundist kaupandi sem tilbúinn er að borga það fyrir hlutinn sem Guðmundur hefur viljað fá fyrir hann. Einnig hefur Ögurvík, fyrirtækið sem Brim keypti í júlí 2016, verið til sölu. Innan íslensks sjávarútvegs hefur það verið nefnt, að HB Grandi gæti keypti það félag og styrkt sinn rekstur í leiðinni, með aukinni stærðarhagkvæmni. Það myndi mögulega einnig styrkja stöðu Guðmundar í leiðinni, og þannig væri mögulegt að slá tvær flugur í einu höggi í fjárhagslegu tilliti.

Má ekki mikið útaf bregða

Sé horft til skuldastöðu Brims, miðað við ársreikning félagsins árið 2016, þá námu þær tæplega 31 milljarði króna og eru þær að mestu við Landsbankann. Langtímaskuldir voru 27 milljarðar. Samkvæmt ársreikningnum var EBITDA – rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta – um 1,7 milljarðar. Skuldir námu því átjánfaldri EBITDU sem ekki telst sérlega góð rekstrarafkoma.

Eignir félagsins, þar af aflaheimildir upp á 25,5 milljarða, námu tæplega 60 milljörðum í árslok 2016 og var eigið fé þess tæplega 23 milljarðar á sama tíma.

Eins og í öðrum útflutningsgreinum er gengi íslensku krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum stór og mikil breyta í rekstrinum. Sterkt gengi krónunnar, ofan í hækkandi launa- og olíukostnað, hefur gert rekstur sjávarútvegsfyrirtækja meira krefjandi undanfarin misseri. Komi til þess að gengi krónunnar veikist á næstunni - sem margir telja líklegt í ljósi þess hve raungengið er og hefur verið sögulega sterkt í langan tíma - þá mun það geta haft mikil áhrif á helstu stærðir í viðskiptaveldi Guðmundar. 

Líklega yrði það þá til hins betra, þó kollsteypur á gengi geti sett allt á annan endann eins og gerðist fyrir tæpum áratug, með hruni fjármálakerfisins og krónunnar, á sama tíma og alþjóðamarkaðir féllu saman, og skópu farveginn fyrir þá rússíbanareið sem segja má að viðskiptaveldi Guðmundar hafi farið í gegnum.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnMagnús Halldórsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar