Nýskráning dísil- og bensínbíla verði ólögmæt eftir 2030 á Íslandi
Ríkisstjórnin kynnti metnaðarfulla áætlun í loftlagsmálum í dag sem gerir ráð fyrir að Ísland geti staðið við markmið Parísarsamkomulagsins og orðið kolefnishlutlaust. Því verður náð með orkuskiptum í samgöngum og kolefnisbindingu.
Samkvæmt aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftlagsmálum til ársins 2030 á ráðast í orkuskipti í samgöngum, með sérstakri áherslu á rafvæðingu í vegakerfinu. Þá verður ráðist í átak í kolefnisbindingu þar sem skógrækt og landgræðsla verða í lykilhlutverki og markvisst dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda með endurheimt votlendis. Áætlunin samanstendur af alls 34 aðgerðum á sviðum sem snerta málaflokka alls sjö ráðuneyta, en verkefnastjórnin sem vann aðgerðaráætlunina var með fulltrúa úr hverju þeirra innanborðs. Aðgerðirnar eru stjórnvaldsaðgerðir, svo sem reglusetning, hagrænar aðgerðir, fjármögnuð verkefni eða styrkir af hálfu ríkisvaldsins.
Markmiðið með áætluninni, sem var kynnt í Austurbæjarskóla í dag, er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að aukinni kolefnisbindingu þannig að Ísland geti staðið við markmið Parísarsamningsins til 2030 og náð markmiðum ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi árið 2040.
Áætlunin sem kynnt var í dag er fyrsta útgáfa aðgerðaráætlunarinnar. Sú næsta mun líta dagsins ljós strax á næsta ári.
6,8 milljarða kostnaður á næstu fimm árum
Til þess að ná skammtímamarkmiðum áætlunarinnar verður 6,8 milljörðum króna varið í valdar aðgerðir á næstu fimm árum. Samkvæmt áætluninni eru stærstu tækifæri Íslendinga til að ná skuldbindingunum Parísarsamkomulagsins bundin í því að skipta olíu út fyrir umhverfisvænni orkugjafa.
Í samantekt á niðurstöðum verkefnastjórnarinnar segir að til að nýta þetta tækifæri verði meðal annars verulega „aukið við fjárfestingar og innviði vegna rafvæðingar í samgöngum en áætlað er að verja 1,5 milljarði króna á næstu fimm árum til uppbyggingar innviða fyrir rafbíla, rafvæðingu hafna og fleiri nauðsynlegra aðgerða í orkuskiptum hér á landi. Ívilnunum fyrir rafbíla og aðra visthæfa bíla verður viðhaldið og nýjum ívilnunum komið á vegna almenningsvagna, dráttarvéla og fleiri þyngri ökutækja. Hvatar til að fjárfesta í ökutækjum sem losa lítinn koltvísýring verða efldir. Kolefnisgjald verður áfram hækkað og almenningssamgöngur styrktar í samræmi við samgönguáætlun.“
Auk þess stendur til, í fyrsta sinn, að innleiða þá stefnu að bílar sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti verði ólöglegir frá og með árinu 2030, eða eftir rúm ellefu ár. Þar sé verið að fylgja fordæmi nágrannaríkja á borð við Noreg, Frakkland og Bretland. Tekið er fram að gætt verði sérstaklega að hugsanlegum undanþágum, til dæmis á stöðum þar sem erfitt kann að vera að nota aðra bíla en þá sem ganga fyrir bensíni og dísil.
Rafbílum og tengitvinnbílum hefur fjölgað mjög hratt á Íslandi á síðustu árum. Samkvæmt upplýsingum á vef Orku náttúrunnar voru 94 rafbílar og þrír tengitvinnbílar skráðir á Íslandi í apríl 2014. Þeir eru nú samtals 7.687. Uppistaðan í þeim fjölda eru þó tengitvinnbílar (5.326), sem hafa bæði rafhreyfil og bensín- eða dísilvél sem aflgjafa. Nýir slíkir bílar verða væntanlega einnig ólöglegir hérlendis eftir 2030. Skráðir rafbílar á Íslandi eru í dag 2.361.
Endurheimt votlendis
Til stendur að nota um fjóra milljarða króna á næstu fimm árum í að endurheimta votlendi, birkiskóga, kjarrlendi, stöðva jarðvegseyðingu og stuðla að frekari landgræðslu og nýskógrækt til að vinna sérstaklega að því markmiði að gera Ísland kolefnishlutlaust árið 2040.
Þá verður um 500 milljónum króna varið til nýsköpunar vegna loftslagsmála og verður sérstakur Loftslagssjóður stofnaður til að halda utan um þau verkefni. Um 800 milljónum króna verður varið í margvíslegar aðgerðir, svo sem rannsóknir á súrnun sjávar og aðlögun að loftslagsbreytingum, bætt kolefnisbókhald, alþjóðlegt starf og fræðslu.
Í niðurstöðusamantektinni segir að hluti aðgerðanna séu þegar komnar í vinnslu og að aðrar séu nánast fullmótaðar. Sumar þeirra þurfi þó á samráði að halda við aðila utan stjórnkerfis og á eftir að útfæra nánar. „Áætlunin verður sett í samráðsgátt Stjórnarráðsins til umsagnar og uppfærð í ljósi ábendinga, auk þess sem boðið verður til samráðs um mótun einstakra aðgerða með fulltrúum atvinnulífs, félagasamtaka, sveitarfélaga og annarra. Þetta er því fyrsta útgáfa áætlunarinnar. Strax á næsta ári lítur önnur útgáfa dagsins ljós. Framlögin eru tryggð í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2019-2023, en verða nánar útfærð í frekari mótun aðgerða. “