Lestur Fréttablaðsins í fyrsta sinn undir 40 prósent frá árinu 2001
Lestur allra dagblaða á Íslandi fer fallandi. Mest lesna blað landsins, Fréttablaðið, er nú með tæplega 40 prósent færri lesendur en það var með fyrir rúmum áratug. Lestur Morgunblaðsins hefur farið úr 43 prósentum í 25 prósent síðan að nýir ritstjórar tóku við árið 2009.
Lestur Fréttablaðsins er kominn undir 40 prósent. Samkvæmt nýjustu birtu könnun Gallup á lestri prentmiðla lesa 39,9 prósent landsmanna fríblaðið, sem dreift er í 85 þúsund eintökum sex daga vikunnar inn á heimili fólks á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Það mældist síðast með undir 40 prósent lestur á landinu öllu í október 2001, hálfu ári eftir að fyrsta tölublað þess kom út. Frá október 2002 og fram í desember 2015 mældist lestur Fréttablaðsins alltaf yfir 50 prósent. Í apríl 2007 mældist hann til að mynda 65,2 prósent.
Sögulega hefur lestur blaðsins ætið verið mestur á höfuðborgarsvæðinu, enda fer þorri dreifingar þess fram þar. Í júní síðastliðnum fór lesturinn þar undir 50 prósent.
Yngri hluti þjóðarinnar er sá sem er að frekar að verða afhuga lestri blaðsins. Í júní 2008 lásu 66,1 prósent Íslendinga á aldrinum 18 til 49 ára Fréttablaðið. Það hlutfall er í dag 32,4 prósent og hefur aldrei mælst lægra í birtum könnunum Gallup.
Samsteypa brotin upp
Fréttablaðið var lengi hluti af stærsta einkareknu fjölmiðlasamsteypu landsins, 365 miðlum. Hún var brotin upp seint á síðasta ári þegar ljósvakamiðlar hennar, fjarskiptastarfsemi og fréttavefurinn Vísir voru seld til Vodafone á Íslandi, sem í dag heitir Sýn. Það félag tók við hinum keyptu eignum í desember 2017. Rekstur Fréttablaðsins og nýs fréttavefs var í kjölfarið settur í félagið Torg ehf. sem er í eigu 365 miðla.
Í tengslum við þá sölu var gerður samstarfssamningur sem í fólst að efni Fréttablaðsins, sem er ekki hluti af kaupunum, ætti áfram birtast á Vísi.is. Upphaflega var samningurinn til 44 mánuði en hann var styttur vegna krafna frá Samkeppniseftirlitinu. Nýr vefur Fréttablaðsins, frettabladid.is, var svo opnaður í febrúar 2018. Á honum birtist einnig efni úr Fréttablaðinu. Það birtist því eins á tveimur mismunandi fréttavefum.
Frá því að ljósvakamiðlar 365 miðla og Vísir voru seld út úr samsteypunni hefur lestur Fréttablaðsins dregist saman í hverjum einasta mánuði. Blaðið er samt sem áður enn mest lesna dagblað landsins.
Auglýst til sölu
Greint var frá því í vikunni að Fréttablaðið væri til sölu. Ástæðan er sögð skilyrði sem Samkeppniseftirlitið setti þegar eigendur blaðsins seldu áðurgreindar eignir til Sýnar. Þá fékk eigandinn, 365 miðlar, 30 mánuði, frá og með 8. október 2017, til að selja annað hvort Fréttablaðið eða hlut sem hann fékk afhentan í Sýn, fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækis sem skráð er á markað. Um komandi mánaðarmót hefur eigandinn því eitt og hálft ár til að ganga frá slíkri sölu til að skilyrðin séu uppfyllt.
Eigendurnir segjast ekki hafa tekið ákvörðun um hvor eignin sé seld en ljóst sé að það taki lengri tíma að selja óskráða eign en skráða, og því hafi þessi skref verið stigin nú. Heimildir Kjarnans herma að minnsta kosti þrír hópar fjárfesta séu að skoða kaup á miðlinum.
Morgunblaðið úr 43 prósentum í 25 prósent
Lestur Morgunblaðsins, stærsta áskriftarblaðs landsins, er einnig í sögulegri lægð þrátt fyrir að það sé nú í raun fríblað flesta fimmtudaga, þegar því er dreift inn á öll heimili á höfuðborgarsvæðinu án endurgjalds. Blaðið var stofnað fyrir tæpum 105 árum og hefur verið risi í íslenskum fjölmiðlum alla tíð síðan.
Árið 2009, þegar nýir eigendur tóku við blaðinu og núverandi ritstjórar þess, Davíð Oddsson og Haraldur Johannessen, voru ráðnir, lásu 43 prósent landsmanna blaðið. Nú lesa 25 prósent þeirra Morgunblaðið og hafa aldrei verið færri. Blaðið hefur gengið mjög erfiðlega rekstrarlega á undanförnum árum og tapaði til að mynda 284 milljónum krónum í fyrra. Það þýðir að samanlagt tap á rekstri útgáfufélags blaðsins, Árvakri, er um 1,8 milljarðar króna frá því að nýir eigendur komu að útgáfunni fyrir rúmum níu árum síðan. Þeir eru flestir tengdir sjávarútvegi.
Lestur Morgunblaðsins er enn lægri hjá lesendum undir fimmtugu. Einungis 16,5 prósent þeirra lesa blaðið.
Viðskiptablaðið ekki með minni lestur frá 2011
Vikublöðin tvö sem Gallup mælir lestur á, DV og Viðskiptablaðið, eru einnig að glíma við hratt fallandi lestur. Nú segjast 9,3 prósent aðspurðra lesa DV sem er minnsti lestur sem mælst hefur frá því í maí í fyrra.
Viðskiptablaðið mælist nú með 7,4 prósent lestur sem er minnsta hlutfall sliks sem það hefur mælst með frá því að það kom aftur inn í mælingar Gallup á árinu 2011.
Báðir þessir miðlar eru að glíma við það að Íslendingar á aldrinum 18 til 49 ára eru ólíklegri til að lesa blaðið en þeir sem eldri eru. Í þeim aldurshópi lesa 6,2 prósent DV en 6,1 prósent Viðskiptablaðið. Í tilfelli Viðskiptablaðsins er það slakasta mæling í þeim aldurshópi sem mælst hefur frá árinu 2011.
Hratt minnkandi auglýsingakaka
Þrátt fyrir þann mikla samdrátt sem orðið hefur á lestri dagblaða fá þeir enn stærstan hluta af íslensku ayglýsingasölukökunni. Í tölum sem Fjölmiðlanefnd birti í júlí, og sýndu stöðuna á árinu 2017, kom fram að 28 prósent allra allra keyptra auglýsing birtust í prentmiðlum. Vefmiðlar voru með 17,9 prósent auglýsinga. Þetta er nokkuð önnur staða en víðast hvar í Evrópu, þar sem vefmiðlar eru stærstu seljendur auglýsinga.
Í tölum sem Hagstofa Íslands birtist kemur þó skýrt fram að gríðarlegur samdráttur hefur verið á sölu auglýsinga í prentmiðla á undanförnum árum. Samkvæmt þeim tölum var hlutdeild fréttablaða í auglýsingatekjum fjölmiðla 57 prósent árið 2006, en var komin niður í 40 prósent árið 2016.
Auk ofangreindra kemur fríblaðið Mannlíf út vikulega og er dreift frítt inn á heimili á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur ekki tekið þátt í opinberum mælingum Gallup. Kjarninn er í samstarfi við Birting, útgáfufélag Mannlífs, sem í felst að efni af miðlinum birtist í Mannlífi.