Óflokkað

Hrunið: Kröfuhafar komu til að berjast gegn „operation fuck the foreigners“

Haustið 2008, í kjölfar bankahrunsins fylltist allt á Íslandi af útlendingum í jakkafötum. Sumir voru viðskiptahákarlar sem skynjuðu neyðina og vildu kanna hvort þeir gætu keypt verðmætar eignir á brunaútsölu til að skapa sér skammtímagróða. Aðrir voru að undirbúa jarðveginn fyrir að hagnast til langtíma á vandræðum Íslendinga. En langflestir voru fulltrúar þeirra fjármálastofnana sem höfðu tapað gríðarlega miklum fjármunum og vildu tryggja að virði þeirra eigna sem þó voru eftir héldist.

Höf­undur hitti tvo þeirra fimmtu­dag­inn 13. nóv­em­ber 2008 á skrif­stofu almanna­teng­ils í mið­borg Reykja­vík­ur. Menn­irnir tveir voru fyrstu full­trúar kröfu­hafa sem hann hitti hér­lendis eftir banka­hrun­ið. Þeir áttu eftir að verða mun fleiri þegar fram liðu stund­ir.

Annar mann­anna, snyrti­legur Svíi, hét Oscar Lund og starf­aði hjá Fortis bank­an­um. Hinn var Barry G. Russell, sem stýrir fjár­mála- og skulda­end­ur­skipu­lagn­inga­starf­semi alþjóð­legu lög­fræði­stof­unnar Bing­ham McCutchen, sem síðar varð Akin Gump. Hann og sam­starfs­menn unnu svo mikið fyrir kröfu­haf­ana að innan stjórn­sýsl­unnar og þrota­bú­anna gekk stofan hans lengi undir nafn­inu „Bill-ham“ (bill þýðir reikn­ingur á ensku).

Russell er gríð­ar­lega reynslu­mik­ill í því að takast á við aðstæður á borð við þær sem sköp­uð­ust á Íslandi á þessum tíma og hafði verið ráð­inn fyrir hönd skulda­bréfa­eig­enda bank­anna, sem var auð­vitað síbreyti­legur hópur en að stærstum hluta vog­un­ar­sjóð­ir, til að gæta hags­muna þeirra. Hann er einn þeirra full­trúa erlendra kröfu­hafa sem fór mest fyrir alla tíð síð­an. Í við­tali við Við­­skipta­­blaðið árið 2015, þegar búið var að semja við kröfu­hafa föllnu bank­anna um stöð­ug­leika­samn­ing­anna, sagði Bene­dikt Gísla­­son, einn lyk­il­mann­anna í íslenska hafta­hópn­um, að Russell hefði unnið nauð­­syn­­legt starf í sam­­skiptum fram­­kvæmda­hóps og kröf­u­hafa. „Þeir voru allir með sama lög­­fræð­i­­lega ráð­gjafann. Ég held að sá ráð­gjafi hafi staðið sig vel í að reyna að koma sínum umbjóð­endum í skiln­ing um það að mark­miðin væru ekki til umræðu, en ólíkar leiðir að sama mark­miði gætu gengið [...] Þetta sam­­tal var upp­­­bygg­i­­legt og að mínu mati átti Barry Russell þátt í því að gera það þannig.“

Reyndu að selja ákveðna hug­mynd

Á fund­inum í nóv­em­ber 2008  tal­aði Lund að mestu leyti fyrir hönd þeirra félaga. Alltaf þegar Russell skaut ein­hverju inn var það með miklum þunga en Lund lét gamm­inn geisa. Það var aug­ljóst frá fyrstu mín­útu að hann ætl­aði að selja ákveðna hug­mynd um hvað kröfu­haf­arnir vildu gera á Íslandi.

Sigurður Hannesson og Benedikt Gíslason voru lykilmenn í hópnum sem samdi fyrir hönd íslenska ríkisins við kröfuhafa föllnu bankanna.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Hug­mynd­irnar sem Lund tal­aði fyrir voru á þann veg að erlendu kröfu­haf­arnir vildu stofna eign­ar­halds­fé­lag utan um eignir gömlu bank­anna. Kröfum yrði síðan breytt í hlutafé og með því myndu þeir koma að banka­rekstri á Íslandi sem eig­endur í íslensku bönk­un­um. Í þessum hópi yrðu margir stórir alþjóð­legir bankar og þannig yrði að veru­leika draumur margra á Íslandi um aðkomu erlendra banka að íslenskum banka­rekstri.

„Hverjir eiga íslensku bankana?“ spurði Lund. „Eru það þeir sem veita þeim starfs­leyfi eða þeir sem fjár­magna starf­semi þeirra?“ Aug­ljóst var að hann og Russell voru ekki í vafa með svarið við þess­ari spurn­ingu: Þegar bankar fara í þrot þá eiga kröfu­haf­arnir þá. Á þessum tíma, svona skömmu eftir neyð­ar­laga­setn­ing­una, var afstaða þeirra einnig skýr á þann veg að með neyð­ar­lög­unum og breyttu kröfu­hafaröð­inni sem þau höfðu í för með sér hefði ríkið tekið eignir þeirra ófrjálsri hendi og sett inn í nýju bank­ana. Leik­regl­unum hefði verið breytt eftir á og ríkið þjóð­nýtt eign­ir. Sú aðgerð hefði mis­munað útlend­ingum en hyglað Íslend­ing­um. Það rímar raunar ágæt­lega við þá upp­lifun sem íslenskir ráða­menn sem komu að mál­inu höfðu. Einn stjórn­ar­þing­manna sagði að neyð­ar­laga­setn­ingin og stofnun nýju bank­anna utan um eignir sem teknar hefðu verið út úr þrota­búum þeirra hefði gengið undir nafn­inu „oper­ation fuck the for­eigner­s“. Þá setn­ingu þarf varla að þýða.

Vildu vinda ofan af neyð­ar­laga­setn­ing­unni

Inn­takið í boð­skap Lunds og Russells var þetta: Kröfu­hafar hafa efni á því að afskrifa afgang­inn af kröfum sínum gagn­vart Íslandi og hverfa frá land­inu fyrir fullt og allt. Ísland hefur hins vegar ekki efni á því að þeir fari frá land­inu með þeim hætti. Þess vegna vilji þeir vinna með Íslend­ingum að upp­bygg­ingu. Á land­inu væru inn­viðir sterkir og mikil tæki­færi: „Ís­land er ríkt land þangað til það ákveður að það sé það ekki,“ sagði Lund.

Í grófum dráttum vildu þeir að undið yrði ofan af þeirri leið sem farin var þegar búnir voru til nýir og gamlir bank­ar. Þeir vildu ein­fald­lega að gömlu bönk­unum yrði áfram haldið í starf­semi, að kröfu­hafar myndu koma að þeim sem eig­endur og að skulda­bréf yrðu aftur jafn rétthá inn­lánum í kröfu­hafaröð. Þannig yrði komið í veg fyrir að eignir myndu rýrna að verð­gildi og kröfu­haf­arnir gætu þar með hámarkað virði eigna sinna. Þeir höfðu miklar áhyggjur af því að skila­nefnd­irnar sem skip­aðar voru yfir þrotabú föllnu bank­anna myndu selja út eignir langt undir raun­virði. Í því sam­bandi bentu þeir rétti­lega á að skulda­bréf á íslensku bankana, sem þá þegar gengu kaupum og söl­um, væru að selj­ast langt undir heild­ar­virði þeirra.

„Ef ég á að setja þetta upp í lík­ingu þá erum við stödd í þorpi og allt þorpið brenn­ur. Við erum ein­ungis með nægi­legt vatn til að bjarga tveimur bygg­ingum og það þarf að ákveða hvaða bygg­ingar það eiga að vera. Ef þú ert ekki með neina sér­staka hug­mynd um hvernig þorpið ætti að líta út eftir að björg­un­ar­að­gerðum er lokið þá er mjög erfitt að mynda sér skoðun á hvaða bygg­ingum á að bjarga. Viltu bjarga kirkj­unni eða versl­un­ar­mið­stöð­inni? Viltu að skól­inn eða ráð­húsið verði mið­punktur alls? Það er alltaf hætta á að þú bjargir rangri bygg­ingu, ekki þeirri sem fellur best að heild­ar­mynd­inn­i,“ sagði Lund.

Skemmst er frá því að segja að hug­myndir þeirra félaga fengu engan hljóm­grunn hjá íslenskum stjórn­völd­um. Stjórn­völd voru, rétti­lega, í rústa­björg­un­ar­leið­angri þar sem heilt þjóð­fé­lag var undir og höfðu engar áhyggjur af því hvort kröfu­hafar fengju eitt­hvað til baka eða ekki.

Fulltrúar kröfuhafanna líktu sér við slökkviliðslið sem þyrfti að ákveða hvaða byggingum ætti að bjarga.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Það reynd­ist á end­anum happa­drjúg afstaða. Stjórn­völd héldu sínu striki þrátt fyrir að þrjár afar ólíkar rík­is­stjórnir hafi setið frá hruni og þar til stöð­ug­leika­samn­ing­arnir voru gerðir árið 2015.

Þegar íslenska ríkið samdi við kröf­u­hafa föllnu bank­anna um þær eignir sem þeir þurftu að skilja eftir til að mega fara með aðrar eignir sínar út úr íslensku hag­­kerfi, var áætlað virði þeirra eigna sem ríkið fékk í sinn hlut, svo­­kall­aðar stöð­ug­­leika­­eign­ir, áætlað 384,3 millj­­arðar króna.

Virði þess­­ara eigna hefur hækkað umtals­vert síðan að þær voru afhent­­ar, í byrjun árs 2016 og áætlað er að í lok þessa árs verði það 457,8 millj­­arðar króna. Það þýðir að eign­­irnar hafa hækkað um 73,6 millj­­arða króna í virði frá því að ríkið fékk þær í hend­­ur.

Frétta­skýr­ingin byggir að hluta til á efni sem birt­ist áður í bók­inni Ísland ehf - Auð­menn og áhrif eftir hrun eftir Magnús Hall­dórs­son og Þórð Snæ Júl­í­us­son.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar