Óflokkað

Hrunið: Kröfuhafar komu til að berjast gegn „operation fuck the foreigners“

Haustið 2008, í kjölfar bankahrunsins fylltist allt á Íslandi af útlendingum í jakkafötum. Sumir voru viðskiptahákarlar sem skynjuðu neyðina og vildu kanna hvort þeir gætu keypt verðmætar eignir á brunaútsölu til að skapa sér skammtímagróða. Aðrir voru að undirbúa jarðveginn fyrir að hagnast til langtíma á vandræðum Íslendinga. En langflestir voru fulltrúar þeirra fjármálastofnana sem höfðu tapað gríðarlega miklum fjármunum og vildu tryggja að virði þeirra eigna sem þó voru eftir héldist.

Höfundur hitti tvo þeirra fimmtudaginn 13. nóvember 2008 á skrifstofu almannatengils í miðborg Reykjavíkur. Mennirnir tveir voru fyrstu fulltrúar kröfuhafa sem hann hitti hérlendis eftir bankahrunið. Þeir áttu eftir að verða mun fleiri þegar fram liðu stundir.

Annar mannanna, snyrtilegur Svíi, hét Oscar Lund og starfaði hjá Fortis bankanum. Hinn var Barry G. Russell, sem stýrir fjármála- og skuldaendurskipulagningastarfsemi alþjóðlegu lögfræðistofunnar Bingham McCutchen, sem síðar varð Akin Gump. Hann og samstarfsmenn unnu svo mikið fyrir kröfuhafana að innan stjórnsýslunnar og þrotabúanna gekk stofan hans lengi undir nafninu „Bill-ham“ (bill þýðir reikningur á ensku).

Auglýsing

Russell er gríðarlega reynslumikill í því að takast á við aðstæður á borð við þær sem sköpuðust á Íslandi á þessum tíma og hafði verið ráðinn fyrir hönd skuldabréfaeigenda bankanna, sem var auðvitað síbreytilegur hópur en að stærstum hluta vogunarsjóðir, til að gæta hagsmuna þeirra. Hann er einn þeirra fulltrúa erlendra kröfuhafa sem fór mest fyrir alla tíð síðan. Í við­tali við Við­skipta­blaðið árið 2015, þegar búið var að semja við kröfuhafa föllnu bankanna um stöðugleikasamninganna, sagði Bene­dikt Gísla­son, einn lykilmannanna í íslenska haftahópnum, að Russell hefði unnið nauð­syn­legt starf í sam­skiptum fram­kvæmda­hóps og kröfu­hafa. „Þeir voru allir með sama lög­fræði­lega ráð­gjafann. Ég held að sá ráð­gjafi hafi staðið sig vel í að reyna að koma sínum umbjóð­endum í skiln­ing um það að mark­miðin væru ekki til umræðu, en ólíkar leiðir að sama mark­miði gætu gengið [...] Þetta sam­tal var upp­byggi­legt og að mínu mati átti Barry Russell þátt í því að gera það þannig.“

Reyndu að selja ákveðna hugmynd

Á fundinum í nóvember 2008  talaði Lund að mestu leyti fyrir hönd þeirra félaga. Alltaf þegar Russell skaut einhverju inn var það með miklum þunga en Lund lét gamminn geisa. Það var augljóst frá fyrstu mínútu að hann ætlaði að selja ákveðna hugmynd um hvað kröfuhafarnir vildu gera á Íslandi.

Sigurður Hannesson og Benedikt Gíslason voru lykilmenn í hópnum sem samdi fyrir hönd íslenska ríkisins við kröfuhafa föllnu bankanna.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Hugmyndirnar sem Lund talaði fyrir voru á þann veg að erlendu kröfuhafarnir vildu stofna eignarhaldsfélag utan um eignir gömlu bankanna. Kröfum yrði síðan breytt í hlutafé og með því myndu þeir koma að bankarekstri á Íslandi sem eigendur í íslensku bönkunum. Í þessum hópi yrðu margir stórir alþjóðlegir bankar og þannig yrði að veruleika draumur margra á Íslandi um aðkomu erlendra banka að íslenskum bankarekstri.

„Hverjir eiga íslensku bankana?“ spurði Lund. „Eru það þeir sem veita þeim starfsleyfi eða þeir sem fjármagna starfsemi þeirra?“ Augljóst var að hann og Russell voru ekki í vafa með svarið við þessari spurningu: Þegar bankar fara í þrot þá eiga kröfuhafarnir þá. Á þessum tíma, svona skömmu eftir neyðarlagasetninguna, var afstaða þeirra einnig skýr á þann veg að með neyðarlögunum og breyttu kröfuhafaröðinni sem þau höfðu í för með sér hefði ríkið tekið eignir þeirra ófrjálsri hendi og sett inn í nýju bankana. Leikreglunum hefði verið breytt eftir á og ríkið þjóðnýtt eignir. Sú aðgerð hefði mismunað útlendingum en hyglað Íslendingum. Það rímar raunar ágætlega við þá upplifun sem íslenskir ráðamenn sem komu að málinu höfðu. Einn stjórnarþingmanna sagði að neyðarlagasetningin og stofnun nýju bankanna utan um eignir sem teknar hefðu verið út úr þrotabúum þeirra hefði gengið undir nafninu „operation fuck the foreigners“. Þá setningu þarf varla að þýða.

Vildu vinda ofan af neyðarlagasetningunni

Inntakið í boðskap Lunds og Russells var þetta: Kröfuhafar hafa efni á því að afskrifa afganginn af kröfum sínum gagnvart Íslandi og hverfa frá landinu fyrir fullt og allt. Ísland hefur hins vegar ekki efni á því að þeir fari frá landinu með þeim hætti. Þess vegna vilji þeir vinna með Íslendingum að uppbyggingu. Á landinu væru innviðir sterkir og mikil tækifæri: „Ísland er ríkt land þangað til það ákveður að það sé það ekki,“ sagði Lund.

Auglýsing

Í grófum dráttum vildu þeir að undið yrði ofan af þeirri leið sem farin var þegar búnir voru til nýir og gamlir bankar. Þeir vildu einfaldlega að gömlu bönkunum yrði áfram haldið í starfsemi, að kröfuhafar myndu koma að þeim sem eigendur og að skuldabréf yrðu aftur jafn rétthá innlánum í kröfuhafaröð. Þannig yrði komið í veg fyrir að eignir myndu rýrna að verðgildi og kröfuhafarnir gætu þar með hámarkað virði eigna sinna. Þeir höfðu miklar áhyggjur af því að skilanefndirnar sem skipaðar voru yfir þrotabú föllnu bankanna myndu selja út eignir langt undir raunvirði. Í því sambandi bentu þeir réttilega á að skuldabréf á íslensku bankana, sem þá þegar gengu kaupum og sölum, væru að seljast langt undir heildarvirði þeirra.

„Ef ég á að setja þetta upp í líkingu þá erum við stödd í þorpi og allt þorpið brennur. Við erum einungis með nægilegt vatn til að bjarga tveimur byggingum og það þarf að ákveða hvaða byggingar það eiga að vera. Ef þú ert ekki með neina sérstaka hugmynd um hvernig þorpið ætti að líta út eftir að björgunaraðgerðum er lokið þá er mjög erfitt að mynda sér skoðun á hvaða byggingum á að bjarga. Viltu bjarga kirkjunni eða verslunarmiðstöðinni? Viltu að skólinn eða ráðhúsið verði miðpunktur alls? Það er alltaf hætta á að þú bjargir rangri byggingu, ekki þeirri sem fellur best að heildarmyndinni,“ sagði Lund.

Skemmst er frá því að segja að hugmyndir þeirra félaga fengu engan hljómgrunn hjá íslenskum stjórnvöldum. Stjórnvöld voru, réttilega, í rústabjörgunarleiðangri þar sem heilt þjóðfélag var undir og höfðu engar áhyggjur af því hvort kröfuhafar fengju eitthvað til baka eða ekki.

Fulltrúar kröfuhafanna líktu sér við slökkviliðslið sem þyrfti að ákveða hvaða byggingum ætti að bjarga.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Það reyndist á endanum happadrjúg afstaða. Stjórnvöld héldu sínu striki þrátt fyrir að þrjár afar ólíkar ríkisstjórnir hafi setið frá hruni og þar til stöðugleikasamningarnir voru gerðir árið 2015.

Þegar íslenska ríkið samdi við kröfu­hafa föllnu bank­anna um þær eignir sem þeir þurftu að skilja eftir til að mega fara með aðrar eignir sínar út úr íslensku hag­kerfi, var áætlað virði þeirra eigna sem ríkið fékk í sinn hlut, svo­kall­aðar stöð­ug­leika­eign­ir, áætlað 384,3 millj­arðar króna.

Virði þess­ara eigna hefur hækkað umtals­vert síðan að þær voru afhent­ar, í byrjun árs 2016 og áætlað er að í lok þessa árs verði það 457,8 millj­arðar króna. Það þýðir að eign­irnar hafa hækkað um 73,6 millj­arða króna í virði frá því að ríkið fékk þær í hend­ur.

Fréttaskýringin byggir að hluta til á efni sem birtist áður í bókinni Ísland ehf - Auðmenn og áhrif eftir hrun eftir Magnús Halldórsson og Þórð Snæ Júlíusson.

Kanntu vel við Kjarnann?

Frjáls framlög lesenda eru mikilvægur þáttur í rekstri Kjarnans. Þau gera okkur kleift að halda áfram að taka þátt í umræðunni á vitrænan hátt og greina kjarnann frá hisminu fyrir lesendur. 

Kjarninn er fjölmiðill sem leggur sig fram við að upplýsa og skýra út það sem á sér stað í samfélaginu með áherslu á gæði og dýpt. 

Okkar tryggð er aðeins við lesendur. Við erum skuldbundin ykkur og værum þakklát ef þið vilduð vera með í að gera Kjarnann enn sterkari. 

Ef þú kannt vel við það efni sem þú lest á Kjarnanum viljum við hvetja þig til að styrkja okkur. Þinn styrkur er okkar styrkur.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar