Raunveruleikinn bankar á dyrnar
Alþjóðamál koma öllum við með einum eða öðrum hætti. Ísland er þar ekki eyland, þrátt fyrir einangraða landfræðilega eyríkisstöðu í Atlantshafinu. Miklar sviptingar í alþjóðastjórnmálum og alþjóðaviðskiptum koma upp að Íslandsströndum með einum eða öðrum hætti á næstunni.
Það hefur stundum verið sagt um alþjóðavæðinguna að hennar helsta ógn sé hún sjálf og afleiðingar hennar. Bandaríkin má segja að endurspegli alþjóðavæddan heim betur en nokkur annar staður í veröldinni.
Þar eru kraftar úr öllum áttum og flest af stærstu og áhrifamestu alþjóðavæddu fyrirtækjum heimsins. En á stórum svæðum, ekki síst í hinum svonefndu miðríkjum, hefur efnahagsvandi verið viðvarandi á stórum svæðum, sem rekja má til þess að störf hafa færst frá þeim svæðum til annarra landa. Þetta á ekki síst við um verksmiðju- og framleiðslustörf.
Á mörgum svæðum hefur undanfarinn áratugur verið sérstaklega erfiður bæði félags- og efnahagslega. Þrátt fyrir hátt atvinnustig, þá hefur engu að síður verið erfitt fyrir stóra hópa að ná endum saman og lifa með reisn. Fjármálakreppan fyrir áratug hafði mikil áhrif á lífskjör í miðríkjunum og hafa undanfarin tíu ár verið eyðimerkurganga fyrir marga.
Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði, gerði þessa þróun að umtalsefni í grein í Vísbendingu á dögunum, og sagði meðal annars að uppgangur einangrunarstefnu í stjórn- og efnahagsmálum ætti meðal annars rætur í þessum erfiðu aðstæðum. „Orsakir vinsælda þjóðernishreyfinganna hafa verið rannsakaðar undanfarin ár og hefur komið í ljós að fylgi þeirra má rekja til hópa kjósenda sem vantreysta hinum hefðbundnu flokkum og hræðast breytingar. Þessir kjósendur eru yfirleitt eldri, búsettir í strjálbýli, minna menntaðir og telja hagsmunum sínum ógnað af innflutningi vinnuafls og alþjóðaviðskiptum. Þetta á einnig við í Bandaríkjunum. Hlutskipti hvíta minnihlutans í Bandaríkjunum sem ekki hefur háskólapróf er ekki gott. Dánartíðni innan hópsins hefur farið hækkandi um nokkurt skeið, þannig eru dánarlíkur fimmtugs hvíts manns sem ekki hefur háskólapróf nú hærri en föður hans þegar hann var á sama aldri. Ástæðuna má rekja til lyfjanotkunar, misnotkunar á áfengi og sjálfsmorða. Þannig hafa hvítir Bandaríkjamenn sem ekki hafa háskólapróf það að jafnaði slæmt og verra en kynslóð foreldra hafði það. Á meðan foreldrar, afar og ömmur höfðu betur launuð störf í iðnaði þá þarf núlifandi kynslóð að láta sér nægja lágt launuð störf í þjónustugeiranum. Heilsukvillar er algengir, t.d. er tíðni krónískra verkja há, og lyfjum er þá beitt til þess að bæta líðan, t.d. opíóðar og heróín. Lyfjamisnotkun fylgir oft í kjölfarið,“ sagði í grein Gylfa.
Seðlabankinn galinn?
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur innleitt alveg nýja tíma í efnahagslífi heimsins. Þó einn maður stjórni ekki alþjóðavæddum heimi viðskipta þá eru áhrif Bandaríkjanna miklu meiri en allra annarra ríkja. Sérstaklega ef litið er til þeirrar staðreyndar, að meira en 60 prósent af gjaldeyrisforða heimsins er í Bandaríkjadal. Vaxtastig í Bandaríkjunum hefur því mikil áhrif á fjármagnskostnað þjóðríkja og fyrirtækja, og þannig óbeint almennings. Hagstjórnin í Bandaríkjunum er ekkert einkamál Bandaríkjanna heldur mikilvægt mál fyrir heiminn allan, og Ísland er að sjálfsögðu inn í því mengi.
Viðskiptasamband Íslands og Bandaríkjanna hefur margfaldast á undanförnum fimm árum og má ekki síst rekja það til tíðra heimsókna erlendra ferðamanna frá Bandaríkjunum til Íslands. Bandarískir ferðamenn eru nú langsamlega stærsti einstaki hópur ferðamanna sem heimsækir landið og standa undir nærri fjórðungi heildarfjöldans þessi misserin. Þetta skiptir verulega miklu máli fyrir hagkerfið og má sem dæmi nefna að erlend kortavelta í hagkerfinu hefur þrefaldast frá árinu 2013, farið úr rúmlega 90 milljörðum í rúmlega 260 milljarða í fyrra, samkvæmt upplýsingum frá Ferðamálastofu.
Vöruviðskipti hafa einnig farið vaxandi en ljóst er þó að mikil tækifæri liggja í því fyrir mörg útflutningsfyrirtæki að ná betri árangri á þeim stóra og fjölbreytta markaði sem Bandaríkin eru.
Fyrsta efnahagshöggið
Nú þegar kjörtímabil Trump er að verða hálfnað hefur hann og starfslið hans verið að upplifa fyrstu „slæmu“ hagtölurnar. Ávöxtun á hlutabréfamarkaði er nú komin aftur fyrir það sem hún var fyrir ári síðan og miklar blikur á lofti á fjármálamörkuðum. Seðlabanki Bandaríkjanna er mitt inn í vaxtahækkunarferli, samkvæmt spá bankans, og það er Trump forseta ekki að skapi. „Seðlabankinn er orðinn galinn,“ sagði hann með hendur á lofti í viðtali á dögunum, og sagði vextina þurfa að lækka. Jerome Powell, núverandi seðlabankastjóri, átti að vera hans maður, en Trump hefur nú látið hafa eftir sér í tvígang á skömmum tíma, að hann sé farinn að sjá eftir að skipa hann. „Obama fékk að njóta þess að vera með núll prósent vexti,“ sagði Trump í viðtali við Fox News, og kvartaði sáran yfir vaxtastiginu.
Allt bendir til þess að vextirnir, sem nú eru 2,25 prósent, muni halda áfram að hækka, eftir næstum áratugalangt tímabil þar sem vextir voru við núllið. Þetta þýðir að fjármagnskostnaður eykst í hagkerfinu, sem getur leitt til kólnunar, ekki síst á fasteignamarkaði. Þau einkenni eru víða þegar komin fram.
Spá Seðlabanka Bandaríkjanna gerir ráð fyrir að vaxtastig geti hækkað í þrjú prósent næsta árið, ekki síst þar sem verðbólguþrýstingur hefur farið vaxandi í Bandaríkjunum eftir olíuverðslækkanir og einnig aukna eftirspurn almennt í Bandaríkjunum.
Töluverðrar spennu hefur því gætt í efnahagsbúskap Bandaríkjanna að undanförnu og hafa skattalækkanirnar virkað eins og skammtímainnspýting inn í hagkerfið. Verulegur halli á rekstri ríkissjóðs er áfram viðvarandi. Ljóst er að þann vanda vilja yfirvöld í Bandaríkjunum ekki takast á við og ætla að senda reikninginn inn í framtíðina. Það er ekki breyting frá því sem verið hefur undanfarin ár, en hallinn hefur þó sjaldan eða aldrei verið meiri en nú.
Atvinnuleysi í Bandaríkjunum er með minnsta móti, og hefur mælst í kringum 4 prósent að undanförnu. Í raun svipar hagtölum Bandaríkjanna verulega mikið til talnanna sem sáust á milli 1965 og 1975. Það má einnig segja að hugmyndabaráttan sé í algleymingi nú eins og þá, með þá Richard Nixon og Donald Trump í umdeildum forsetahlutverkum.
Skammtíma innspýting
Skattalækkanir hafa haft verulega mikil áhrif á bandarískt efnahagslíf að undanförnu og hafa þau komið fram með ýmsum hætti.
Áhrifamesta breytingin er lækkun á skatti á fyrirtæki úr 35 prósent í 21 prósent. Markmiðið með breytingunni var að fá fyrirtæki til að fjárfesta meira, einkum þau sem hafa verið með mikið fjármagn utan Bandaríkjanna, en auk þess verður heldur ekki framhjá því horft að þessi lækkun kemur sér afar vel fyrir hluthafa og ríkt fólk.
Það einfaldlega situr meira eftir í vasanum hjá því eftir þessa breytingu, og það munar verulega miklu frá því sem áður var. Hjá millitekjufólki og fátækum hafa skattabreytingarnar lítil áhrif, en þó þyngist staða þeirra sem allra verstu kjörin hafa, þar sem breytingarnar eru taldar ýta verulega undir eftirspurn til skamms tíma með tilheyrandi verðlagshækkunum.
Áhrifin af þessum breytingum - einkum lækkunar fyrirtækjaskattsins - eru óljós til framtíðar litið. Það sem flækir greiningar á þeim áhrifum eru ekki síst aðrar aðgerðir stjórnvalda sem geta vegið á móti því sem að var stefnt. Þar kemur ekki síst tollastríðið til sögunnar.
Risarnir berjast
Nú þegar hafa bandarísk yfirvöld gripið til stórtækra aðgerða sem ætlað er að styrkja stöðu Bandaríkjanna til framtíðar. Deildar meiningar eru um hvort það tekst með þeim vopnum sem nú er beitt, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Trump og stjórn hans hefur sérstaklega beint spjótunum að Kína og hefur þegar sett á innflutningstolla á þúsundir vörutegunda.
Þeir tollar sem vega þyngst eru 10 og 25 prósent tollar á ál og stál. Samtals eru upphæðirnar upp á um 300 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 36 þúsund milljarða króna.
Í byrjun vikunnar kom þó í ljós að stöku fyrirtæki í Kína hafa fengið undanþágur á þessum tollum, og fá að flytja inn vörur til Bandaríkjanna framhjá þessum tollum. Ekki hafa verið gefnar skýringar á þessum formlegum undanþágum en Elizabeth Warren, þingmaður Demókrata, lagði fram fyrirspurnir varðandi þær til viðskiptaráðuneytis Bandaríkjanna í vikunni.
Samkvæmt umfjöllun Wall Street Journal leikur grunur á því að undanþágurnar séu til félaga sem eru með kínversk dótturfélög, en endaeigendur séu aðrir en kínverskir aðilar. Það mun eflaust skýrast síðar hvað þarna er á ferðinni.
Hótanir um fleiri aðgerðir, til að styrkja hag Bandaríkjanna í viðskiptum við Kína, eru síðan á borðinu. Það eru ekki öll kurl komin til grafar enn. Óhætt er að segja að fjárfestar í Bandaríkjunum hafi tekið þessum aðgerðum illa, sé horft til hlutabréfamarkaðar og fjárfestingar innanlands. Hún hefur verið að dala, þrátt fyrir að einkaneysla aukist í takt við væntingar þar um.
Í skrifum Gylfa Zoega um áhrifin af viðskiptastríði Kína og Bandaríkjanna kemur fram að ekkert bendi til annars, en að áfram verði eytt um efni fram. Og þá bendir hann einnig á að tollastríð séu oftar en ekki til bölvunar, fyrir heildina: „Ríkisstjórn Trump hefur lagt á tolla á innflutning frá Kína, Kanada og Evrópusambandinu. Þessi lönd hafa síðan svarað í sömu mynt. Með tollunum á að minnka viðskiptahalla Bandaríkjanna við Kína og flytja störf frá Kína til Bandaríkjanna. Ekki er líklegt að tollarnir bæti hag Bandaríkjanna. Í fyrsta lagi er verulegur hluti af innflutningi frá Kína framleiddur af bandarískum fyrirtækjum í Kína sem þá nota ódýrt vinnuafl. Farsímar Apple fyrirtækisins eru framleiddir í Kína og verða þá tollar til þess að hækka verð á þeim fyrir bandaríska neytendur. Í öðru lagi geta bandarísk fyrirtæki brugðist við tollunum með því að flytja framleiðslu til þriðja ríkis, t.d. Víetnam. Í þriðja lagi gætu þau flutt framleiðsluna til Bandaríkjanna en látið vélar og tölvur um framleiðsluna en ekki innlent vinnuafl. Það sem mestu máli skiptir er þó að viðskiptahalli þjóðar felur í sér að hún eyðir um efni fram, þjóðarútgjöld eru meiri en þjóðarframleiðsla. Tollar breyta hér engu um. Viðskiptahalli Bandaríkjanna minnkar einungis ef Bandaríkjamenn fara að spara meira, opinber sparnaður er aukinn eða fjárfesting minnkar. Minni sparnaður í viðskiptalöndum hefur sömu áhrif, aukin útgjöld í Þýskalandi, svo dæmi sé tekið, myndi minnka viðskiptaafgang þess lands og þá einnig viðskiptahalla Bandaríkjanna, sparnaður í síðarnefnda landinu myndi aukast. Skattalækkanir Trump minnka opinberan sparnað sem að öðru óbreyttu eykur á viðskiptahallann.“
Hvernig eiga íslensk stjórnvöld að snúa sér?
Umfang þessara breytinga á alþjóðavæddu viðskiptalífi er óþekkt í seinni tíð, og því mun miklu skipta fyrir lítil ríki með opin tengsl við umheiminn, eins og Ísland, að greina stöðu mála rétt og leita tækifæra. Að undanförnu hafa íslensk stjórnvöld stigið viðbótarskref til að styrkja viðskiptasamband við Kína, meðal annars með sérstökum samningum á sviði orkumála, sjávarútvegs- og landbúnaðar. Upphæðirnar eru miklar og hlaupa tugum milljarða, ef það tekst að styrkja viðskiptasambandið. Orkusamningar Carbon Recycling og Arctic Energy eru upp á 25 milljarða króna, svo dæmi sé tekið. Kínverskur markaður hefur verið ört vaxandi og með auknum tengslum þangað getur Ísland styrkt efnahag landsins.
Fleiri tækifæri eru einnig á borðinu og mátti greina það á Arctic Circle ráðstefnunni, sem Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti, stendur fyrir, að aukin viðskipti á norðurslóðum í framtíðinni yrðu með einum eða öðrum hætti með aðkomu Kínverja og einnig Rússa. Ísland er þarna í miðpunkti sambands við ríki sem lengi hafa átt í stirðu sambandi við Bandaríkin, og kannski aldrei eins og nú. Í þessari stöðu felast bæði tækifæri og hættur því raunveruleikinn ber alltaf að dyrum að lokum og það er ekki til neitt sem heitir að vera vinur allra á tímum þar sem vaxandi spennu gætir í alþjóðamálunum. Ísland er hins vegar um margt í merkilegri stöðu. Viðskiptasambandið við Bandaríkin eru margfaldast á sama tíma og stigin hafa verið stór skref í átt að frekari viðskiptum við Kína. Þó Evrópa sé okkar stærsti markaður, og EES samningurinn mikilvægasti viðskiptasamningur Íslands í þeim skilningi, þá liggja mikil tækifæri í því að renna sterkari stoðum undir viðskiptin til risanna í austri og vestri. Það kann að vera að þeir séu óvinir, í augnablikinu og eigi í viðskiptastríði, en litla Ísland virðist hafa góða möguleika til rækta sambandið með sjálfstæðum hætti í báðar áttir. Og þannig styrkja viðskiptalífið til framtíðar.
Ekki er allt sem sýnist: Skrifað frá Seattle
Ég segi stundum við vini mína, heima á Íslandi, að Bandaríkin séu ekki ein heild. Það verði að muna að innan ríkja Bandaríkjanna eru mörg hundruð ólík hagkerfi sem ýmist eigi í vandræðum eða blómstri. Hér í Seattle hefur t.d. verið einhver lygilegasta uppsveifla sem komið hefur fram í nútímasögu Bandaríkjanna.
Á einungis 20 árum hefur hagkerfið í Washington ríki, sem er aðeins með rúmlega 7 milljónir íbúa, margfaldast að stærð og mikil umbylting orðið á innviðum sömuleiðis.Þar skipta „undantekningar“ frá meginreglunum miklu máli. Frumkvöðlastarf tæknifyrirtækja, með Microsoft og Amazon í broddi fylkingar, hefur skapað meira en 120 þúsund bein störf, flest vel borgandi og umhverfisvæn. Óbein störf í kringum fyrirtækin skipta þúsundum sömuleiðis. Regluverkið á svæðinu hefur vitaskuld notið góðs af þessu, og það sama má segja um samfélagslega uppbyggingu og innviði.
Á þessu svæði eru skattar lágir, ekkert útsvar eins og við þekkjum á Íslandi, heldur eru tekjur sveitarfélaga að mestu komnar frá veltusköttum. Þar er 9 prósent veltuskattur áhrifamikill og síðan tiltölulega háir fasteignaskattar, einkum söluskattar á viðskipti með húsnæði. Með þessum hætti eru opinberir skólar fjármagnaðir og öll opinber þjónusta, svo til.
Ólíkt mörgum öðrum svæðum í Bandaríkjunum þá eru samfélagslegir innviðir sterkir. Fólk má ekki gleyma því, að Bandaríkin eru óvenjulegur staður hvað þetta varðar, það er að regluverkin milli ríkja, og jafnvel borga, eru afar ólík oft og tíðum. Alhæfingar um Bandaríkin sem heild missa marks af þessari ástæðu, þar sem ekki er allt sem sýnist í fyrstu.