Mynd: Mannlíf bandaríkin og kína
Mynd: Mannlíf

Raunveruleikinn bankar á dyrnar

Alþjóðamál koma öllum við með einum eða öðrum hætti. Ísland er þar ekki eyland, þrátt fyrir einangraða landfræðilega eyríkisstöðu í Atlantshafinu. Miklar sviptingar í alþjóðastjórnmálum og alþjóðaviðskiptum koma upp að Íslandsströndum með einum eða öðrum hætti á næstunni.

Það hefur stundum verið sagt um alþjóða­væð­ing­una að hennar helsta ógn sé hún sjálf og afleið­ingar henn­ar. Banda­ríkin má segja að end­ur­spegli alþjóða­væddan heim betur en nokkur annar staður í ver­öld­inni.

Þar eru kraftar úr öllum áttum og flest af stærstu og áhrifa­mestu alþjóða­væddu fyr­ir­tækjum heims­ins. En á stórum svæð­um, ekki síst í hinum svo­nefndu mið­ríkj­um, hefur efna­hags­vandi verið við­var­andi á stórum svæð­um, sem rekja má til þess að störf hafa færst frá þeim svæðum til ann­arra landa. Þetta á ekki síst við um verk­smiðju- og fram­leiðslu­störf.

Á mörgum svæðum hefur und­an­far­inn ára­tugur verið sér­stak­lega erf­iður bæði félags- og efna­hags­lega. Þrátt fyrir hátt atvinnustig, þá hefur engu að síður verið erfitt fyrir stóra hópa að ná endum saman og lifa með reisn. Fjár­málakreppan fyrir ára­tug hafði mikil áhrif á lífs­kjör í mið­ríkj­unum og hafa und­an­farin tíu ár verið eyði­merk­ur­ganga fyrir marga.

Gylfi Zoega, pró­fessor í hag­fræði, gerði þessa þróun að umtals­efni í grein í Vís­bend­ingu á dög­un­um, og sagði meðal ann­ars að upp­gangur ein­angr­un­ar­stefnu í stjórn- og efna­hags­málum ætti meðal ann­ars rætur í þessum erf­iðu aðstæð­um. „Or­sakir vin­­sælda þjóð­ern­is­hreyf­­ing­anna hafa verið rann­sak­aðar und­an­farin ár og hefur komið í ljós að fylgi þeirra má rekja til hópa kjós­­enda sem van­­treysta hinum hefð­bundnu flokkum og hræð­­ast breyt­ing­­ar. Þessir kjós­­endur eru yfir­­­leitt eldri, búsettir í strjál­býli, minna mennt­aðir og telja hags­munum sínum ógnað af inn­­­flutn­ingi vinn­u­afls og alþjóða­við­­skipt­­um. Þetta á einnig við í Banda­­ríkj­un­­um. Hlut­­skipti hvíta minn­i­hlut­ans í Banda­­ríkj­unum sem ekki hefur háskóla­­próf er ekki gott. Dán­­ar­­tíðni innan hóps­ins hefur farið hækk­­andi um nokk­­urt skeið, þannig eru dán­­ar­líkur fimm­tugs hvíts manns sem ekki hefur háskóla­­próf nú hærri en föður hans þegar hann var á sama aldri. Ástæð­una má rekja til lyfja­notk­un­ar, mis­­­not­k­unar á áfengi og sjálfs­morða. Þannig hafa hvítir Banda­­ríkja­­menn sem ekki hafa háskóla­­próf það að jafn­­aði slæmt og verra en kyn­slóð for­eldra hafði það. Á meðan for­eldr­­ar, afar og ömmur höfðu betur launuð störf í iðn­­aði þá þarf núlif­andi kyn­slóð að láta sér nægja lágt launuð störf í þjón­ust­u­­geir­an­­um. Heilsu­kvillar er algengir, t.d. er tíðni krónískra verkja há, og lyfjum er þá beitt til þess að bæta líð­an, t.d. opíóðar og heróín. Lyfja­mis­­­notkun fylgir oft í kjöl­far­ið,“ sagði í grein Gylfa.

Seðla­bank­inn gal­inn?

Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti hefur inn­leitt alveg nýja tíma í efna­hags­lífi heims­ins. Þó einn maður stjórni ekki alþjóða­væddum heimi við­skipta þá eru áhrif Banda­ríkj­anna miklu meiri en allra ann­arra ríkja. Sér­stak­lega ef litið er til þeirrar stað­reynd­ar, að meira en 60 pró­sent af gjald­eyr­is­forða heims­ins er í Banda­ríkja­dal. Vaxta­stig í Banda­ríkj­unum hefur því mikil áhrif á fjár­magns­kostnað þjóð­ríkja og fyr­ir­tækja, og þannig óbeint almenn­ings. Hag­stjórnin í Banda­ríkj­unum er ekk­ert einka­mál Banda­ríkj­anna heldur mik­il­vægt mál fyrir heim­inn allan, og Ísland er að sjálf­sögðu inn í því mengi.

Donald Trump hefur innleitt nýja tíma í efnahagslífi heimsins.
Mynd: EPA

Við­skipta­sam­band Íslands og Banda­ríkj­anna hefur marg­fald­ast á und­an­förnum fimm árum og má ekki síst rekja það til tíðra heim­sókna erlendra ferða­manna frá Banda­ríkj­unum til Íslands. Banda­rískir ferða­menn eru nú lang­sam­lega stærsti ein­staki hópur ferða­manna sem heim­sækir landið og standa undir nærri fjórð­ungi heild­ar­fjöld­ans þessi miss­er­in. Þetta skiptir veru­lega miklu máli fyrir hag­kerfið og má sem dæmi nefna að erlend korta­velta í hag­kerf­inu hefur þre­fald­ast frá árinu 2013, farið úr rúm­lega 90 millj­örðum í rúm­lega 260 millj­arða í fyrra, sam­kvæmt upp­lýs­ingum frá Ferða­mála­stofu.

Vöru­við­skipti hafa einnig farið vax­andi en ljóst er þó að mikil tæki­færi liggja í því fyrir mörg útflutn­ings­fyr­ir­tæki að ná betri árangri á þeim stóra og fjöl­breytta mark­aði sem Banda­ríkin eru.

Fyrsta efna­hags­höggið

Hér má sjá hvernig fjöldi ferðamanna eftir þjóðríkjum hefur verið að þróast.Nú þegar kjör­tíma­bil Trump er að verða hálfnað hefur hann og starfs­lið hans verið að upp­lifa fyrstu „slæmu“ hag­töl­urn­ar. Ávöxtun á hluta­bréfa­mark­aði er nú komin aftur fyrir það sem hún var fyrir ári síðan og miklar blikur á lofti á fjár­mála­mörk­uð­um. Seðla­banki Banda­ríkj­anna er mitt inn í vaxta­hækk­un­ar­ferli, sam­kvæmt spá bank­ans, og það er Trump for­seta ekki að skapi. „Seðla­bank­inn er orð­inn gal­inn,“ sagði hann með hendur á lofti í við­tali á dög­un­um, og sagði vext­ina þurfa að lækka. Jer­ome Powell, núver­andi seðla­banka­stjóri, átti að vera hans mað­ur, en Trump hefur nú látið hafa eftir sér í tvígang á skömmum tíma, að hann sé far­inn að sjá eftir að skipa hann. „Obama fékk að njóta þess að vera með núll pró­sent vext­i,“ sagði Trump í við­tali við Fox News, og kvart­aði sáran yfir vaxta­stig­inu.

Allt bendir til þess að vext­irn­ir, sem nú eru 2,25 pró­sent, muni halda áfram að hækka, eftir næstum ára­tuga­langt tíma­bil þar sem vextir voru við núllið. Þetta þýðir að fjár­magns­kostn­aður eykst í hag­kerf­inu, sem getur leitt til kóln­un­ar, ekki síst á fast­eigna­mark­aði. Þau ein­kenni eru víða þegar komin fram.

Spá Seðla­banka Banda­ríkj­anna gerir ráð fyrir að vaxta­stig geti hækkað í þrjú pró­sent næsta árið, ekki síst þar sem verð­bólgu­þrýst­ingur hefur farið vax­andi í Banda­ríkj­unum eftir olíu­verðs­lækk­anir og einnig aukna eft­ir­spurn almennt í Banda­ríkj­un­um.

Tölu­verðrar spennu hefur því gætt í efna­hags­bú­skap Banda­ríkj­anna að und­an­förnu og hafa skatta­lækk­an­irnar virkað eins og skamm­tímainn­spýt­ing inn í hag­kerf­ið. Veru­legur halli á rekstri rík­is­sjóðs er áfram við­var­andi. Ljóst er að þann vanda vilja yfir­völd í Banda­ríkj­unum ekki takast á við og ætla að senda reikn­ing­inn inn í fram­tíð­ina. Það er ekki breyt­ing frá því sem verið hefur und­an­farin ár, en hall­inn hefur þó sjaldan eða aldrei verið meiri en nú.

Atvinnu­leysi í Banda­ríkj­unum er með minnsta móti, og hefur mælst í kringum 4 pró­sent að und­an­förnu. Í raun svipar hag­tölum Banda­ríkj­anna veru­lega mikið til taln­anna sem sáust á milli 1965 og 1975. Það má einnig segja að hug­mynda­bar­áttan sé í algleym­ingi nú eins og þá, með þá Ric­hard Nixon og Don­ald Trump í umdeildum for­seta­hlut­verk­um.

Skamm­tíma inn­spýt­ing

Skatta­lækk­anir hafa haft veru­lega mikil áhrif á banda­rískt efna­hags­líf að und­an­förnu og hafa þau komið fram með ýmsum hætti.

Áhrifa­mesta breyt­ingin er lækkun á skatti á fyr­ir­tæki úr 35 pró­sent í 21 pró­sent. Mark­miðið með breyt­ing­unni var að fá fyr­ir­tæki til að fjár­festa meira, einkum þau sem hafa verið með mikið fjár­magn utan Banda­ríkj­anna, en auk þess verður heldur ekki fram­hjá því horft að þessi lækkun kemur sér afar vel fyrir hlut­hafa og ríkt fólk.

Það ein­fald­lega situr meira eftir í vas­anum hjá því eftir þessa breyt­ingu, og það munar veru­lega miklu frá því sem áður var. Hjá milli­tekju­fólki og fátækum hafa skatta­breyt­ing­arnar lítil áhrif, en þó þyng­ist staða þeirra sem allra verstu kjörin hafa, þar sem breyt­ing­arnar eru taldar ýta veru­lega undir eft­ir­spurn til skamms tíma með til­heyr­andi verð­lags­hækk­un­um.

Áhrifin af þessum breyt­ingum - einkum lækk­unar fyr­ir­tækja­skatts­ins - eru óljós til fram­tíðar lit­ið. Það sem flækir grein­ingar á þeim áhrifum eru ekki síst aðrar aðgerðir stjórn­valda sem geta vegið á móti því sem að var stefnt. Þar kemur ekki síst tolla­stríðið til sög­unn­ar.

Risarnir berj­ast

Nú þegar hafa banda­rísk yfir­völd gripið til stór­tækra aðgerða sem ætlað er að styrkja stöðu Banda­ríkj­anna til fram­tíð­ar. Deildar mein­ingar eru um hvort það tekst með þeim vopnum sem nú er beitt, svo ekki sé fastar að orði kveð­ið. Trump og stjórn hans hefur sér­stak­lega beint spjót­unum að Kína og hefur þegar sett á inn­flutn­ings­tolla á þús­undir vöru­teg­unda.

Þeir tollar sem vega þyngst eru 10 og 25 pró­sent tollar á ál og stál. Sam­tals eru upp­hæð­irnar upp á um 300 millj­arða Banda­ríkja­dala, eða sem nemur um 36 þús­und millj­arða króna.

Í byrjun vik­unnar kom þó í ljós að stöku fyr­ir­tæki í Kína hafa fengið und­an­þágur á þessum toll­um, og fá að flytja inn vörur til Banda­ríkj­anna fram­hjá þessum toll­um. Ekki hafa verið gefnar skýr­ingar á þessum form­legum und­an­þágum en Eliza­beth War­ren, þing­maður Demókrata, lagði fram fyr­ir­spurnir varð­andi þær til við­skipta­ráðu­neytis Banda­ríkj­anna í vik­unni.

Sam­kvæmt umfjöllun Wall Street Journal leikur grunur á því að und­an­þág­urnar séu til félaga sem eru með kín­versk dótt­ur­fé­lög, en enda­eig­endur séu aðrir en kín­verskir aðil­ar. Það mun eflaust skýr­ast síðar hvað þarna er á ferð­inni.

Hót­anir um fleiri aðgerð­ir, til að styrkja hag Banda­ríkj­anna í við­skiptum við Kína, eru síðan á borð­inu. Það eru ekki öll kurl komin til grafar enn. Óhætt er að segja að fjár­festar í Banda­ríkj­unum hafi tekið þessum aðgerðum illa, sé horft til hluta­bréfa­mark­aðar og fjár­fest­ingar inn­an­lands. Hún hefur verið að dala, þrátt fyrir að einka­neysla auk­ist í takt við vænt­ingar þar um.

Í skrifum Gylfa Zoega um áhrifin af við­skipta­stríði Kína og Banda­ríkj­anna kemur fram að ekk­ert bendi til ann­ars, en að áfram verði eytt um efni fram. Og þá bendir hann einnig á að tolla­stríð séu oftar en ekki til bölv­un­ar, fyrir heild­ina: „Rík­­is­­stjórn Trump hefur lagt á tolla á inn­­­flutn­ing frá Kína, Kanada og Evr­­ópu­­sam­­band­inu.  Þessi lönd hafa síðan svarað í sömu mynt. Með toll­unum á að minnka við­­skipta­halla Banda­­ríkj­anna við Kína og flytja störf frá Kína til Banda­­ríkj­anna. Ekki er lík­­­legt að toll­­arnir bæti hag Banda­­ríkj­anna. Í fyrsta lagi er veru­­legur hluti af inn­flutn­ingi frá Kína fram­­leiddur af banda­rískum fyr­ir­tækjum í Kína sem þá nota ódýrt vinn­u­afl. Far­símar Apple fyr­ir­tæk­is­ins eru fram­­leiddir í Kína og verða þá tollar til þess að hækka verð á þeim fyrir banda­ríska neyt­end­­ur. Í öðru lagi geta banda­rísk fyr­ir­tæki brugð­ist við toll­unum með því að flytja fram­­leiðslu til þriðja rík­­is, t.d. Víetnam. Í þriðja lagi gætu þau flutt fram­­leiðsl­una til Banda­­ríkj­anna en látið vélar og tölvur um fram­­leiðsl­una en ekki inn­­­lent vinn­u­afl. Það sem mestu máli skiptir er þó að við­­skipta­halli þjóðar felur í sér að hún eyðir um efni fram, þjóð­­ar­út­­­gjöld eru meiri en þjóð­­ar­fram­­leiðsla. Tollar breyta hér engu um. Við­­skipta­halli Banda­­ríkj­anna minnkar ein­ungis ef Banda­­ríkja­­menn fara að spara meira, opin­ber sparn­aður er auk­inn eða fjár­­­fest­ing minn­k­­ar. Minni sparn­aður í við­­skipta­löndum hefur sömu áhrif, aukin útgjöld í Þýska­landi, svo dæmi sé tek­ið, myndi minnka við­­skipta­af­­gang þess lands og þá einnig við­­skipta­halla Banda­­ríkj­anna, sparn­aður í síð­­­ar­­nefnda land­inu myndi aukast. Skatta­­lækk­­­anir Trump minnka opin­beran sparnað sem að öðru óbreyttu eykur á við­­skipta­hall­ann.“

Hvernig eiga íslensk stjórn­völd að snúa sér?

Umfang þess­ara breyt­inga á alþjóða­væddu við­skipta­lífi er óþekkt í seinni tíð, og því mun miklu skipta fyrir lítil ríki með opin tengsl við umheim­inn, eins og Ísland, að greina stöðu mála rétt og leita tæki­færa. Að und­an­förnu hafa íslensk stjórn­völd stigið við­bót­ar­skref til að styrkja við­skipta­sam­band við Kína, meðal ann­ars með sér­stökum samn­ingum á sviði orku­mála, sjáv­ar­út­vegs- og land­bún­að­ar. Upp­hæð­irnar eru miklar og hlaupa tugum millj­arða, ef það tekst að styrkja við­skipta­sam­band­ið. Orku­samn­ingar Car­bon Recycl­ing og Arctic Energy eru upp á 25 millj­arða króna, svo dæmi sé tek­ið. Kín­verskur mark­aður hefur verið ört vax­andi og með auknum tengslum þangað getur Ísland styrkt efna­hag lands­ins.

Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, stendur fyrir Arctic Circle ráðstefnunni.
Mynd: Úr safni

Fleiri tæki­færi eru einnig á borð­inu og mátti greina það á Arctic Circle ráð­stefn­unni, sem Ólafur Ragnar Gríms­son, fyrr­ver­andi for­seti, stendur fyr­ir, að aukin við­skipti á norð­ur­slóðum í fram­tíð­inni yrðu með einum eða öðrum hætti með aðkomu Kín­verja og einnig Rússa. Ísland er þarna í mið­punkti sam­bands við ríki sem lengi hafa átt í stirðu sam­bandi við Banda­rík­in, og kannski aldrei eins og nú. Í þess­ari stöðu fel­ast bæði tæki­færi og hættur því raun­veru­leik­inn ber alltaf að dyrum að lokum og það er ekki til neitt sem heitir að vera vinur allra á tímum þar sem vax­andi spennu gætir í alþjóða­mál­un­um. Ísland er hins vegar um margt í merki­legri stöðu. Við­skipta­sam­bandið við Banda­ríkin eru marg­fald­ast á sama tíma og stigin hafa verið stór skref í átt að frek­ari við­skiptum við Kína. Þó Evr­ópa sé okkar stærsti mark­að­ur, og EES samn­ing­ur­inn mik­il­væg­asti við­skipta­samn­ingur Íslands í þeim skiln­ingi, þá liggja mikil tæki­færi í því að renna sterk­ari stoðum undir við­skiptin til risanna í austri og vestri. Það kann að vera að þeir séu óvin­ir, í augna­blik­inu og eigi í við­skipta­stríði, en litla Ísland virð­ist hafa góða mögu­leika til rækta sam­bandið með sjálf­stæðum hætti í báðar átt­ir. Og þannig styrkja við­skipta­lífið til fram­tíð­ar.

Ekki er allt sem sýnist: Skrifað frá Seattle

Ég segi stundum við vini mína, heima á Íslandi, að Bandaríkin séu ekki ein heild. Það verði að muna að innan ríkja Bandaríkjanna eru mörg hundruð ólík hagkerfi sem ýmist eigi í vandræðum eða blómstri. Hér í Seattle hefur t.d. verið einhver lygilegasta uppsveifla sem komið hefur fram í nútímasögu Bandaríkjanna.

Á einungis 20 árum hefur hagkerfið í Washington ríki, sem er aðeins með rúmlega 7 milljónir íbúa, margfaldast að stærð og mikil umbylting orðið á innviðum sömuleiðis.

Þar skipta „undantekningar“ frá meginreglunum miklu máli. Frumkvöðlastarf tæknifyrirtækja, með Microsoft og Amazon í broddi fylkingar, hefur skapað meira en 120 þúsund bein störf, flest vel borgandi og umhverfisvæn. Óbein störf í kringum fyrirtækin skipta þúsundum sömuleiðis. Regluverkið á svæðinu hefur vitaskuld notið góðs af þessu, og það sama má segja um samfélagslega uppbyggingu og innviði.

Á þessu svæði eru skattar lágir, ekkert útsvar eins og við þekkjum á Íslandi, heldur eru tekjur sveitarfélaga að mestu komnar frá veltusköttum. Þar er 9 prósent veltuskattur áhrifamikill og síðan tiltölulega háir fasteignaskattar, einkum söluskattar á viðskipti með húsnæði. Með þessum hætti eru opinberir skólar fjármagnaðir og öll opinber þjónusta, svo til.

Ólíkt mörgum öðrum svæðum í Bandaríkjunum þá eru samfélagslegir innviðir sterkir. Fólk má ekki gleyma því, að Bandaríkin eru óvenjulegur staður hvað þetta varðar, það er að regluverkin milli ríkja, og jafnvel borga, eru afar ólík oft og tíðum. Alhæfingar um Bandaríkin sem heild missa marks af þessari ástæðu, þar sem ekki er allt sem sýnist í fyrstu.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnMagnús Halldórsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar