Erlendum ríkisborgurum fjölgað um 5.480 það sem af er ári
Á 21 mánuði hefur erlendum ríkisborgurum fjölgað um 43 prósent á Íslandi. Hlutfallslega er aukningin mest í Reykjanesbæ þar sem útlendingar er nú nánast fjórðungur íbúa. Fjöldi þeirra hefur nær fjórfaldast á innan við sjö árum.
Í lok árs 2011 voru erlendir ríkisborgarar sem bjuggu hérlendis 20.930 talsins. Í lok september síðastliðins voru þeir 43.430. Fjöldi slíkra sem búa á Íslandi hefur því aukist um 22.500 frá þeim tíma, eða um tæplega 108 prósent. Erlendir ríkisborgara sem búa hérlendis hafa aldrei verið fleiri.
Mest hefur aukningin verið á síðustu tæpu tveimur árum. Frá árslokum 2016 hefur erlendum ríkisborgurum á Íslandi fjölgað um 13.050, eða um 43 prósent.
Á fyrstu níu mánuðum ársins 2018 fjölgaði erlendum ríkisborgurum hérlendis um 5.480 talsins. Það eru fleiri en búa í sveitarfélaginu Fjarðarbyggð, þar sem íbúafjöldinn er 5.090.
Í lok september voru erlendir ríkisborgarar 12,2 prósent 355.620 íbúa landsins. Til samanburðar voru þeir 6,5 prósent íbúa þess í árslok 2011.
Þetta má lesa út út nýjum mannfjöldatölum frá Hagstofu Íslands.
24,2 prósent íbúa Reykjanesbæjar erlendir
Sem fyrr er mjög misskipt hvar erlendir ríkisborgarar setjast að á landinu. Hlutfallslega búa flestir í Reykjanesbæ. Í lok árs 2011 bjuggu þar 1.220 erlendir ríkisborgarar og voru 8,6 prósent íbúa sveitarfélagsins. Í dag búa 18.830 manns í Reykjanesbæ og erlendir ríkisborgarar þar eru 4.570. Því eru 24,2 prósent íbúa Reykjanesbæjar erlendir ríkisborgarar. Það hlutfall var 20 prósent um síðustu áramót og vex því feikilega hratt. Það liggur því fyrir að fjöldi erlendra ríkisborgara sem búa í Reykjanesbæ hefur nánast fjórfaldast á innan við sjö árum.
Flestir erlendir ríkisborgarar búa í Reykjavík, eða alls 17.940. Þeim hefur fjölgað um 8.750 frá árslokum 2011, eða um 95,2 prósent. Þá voru þeir átta prósent borgarbúa en eru í dag 14 prósent þeirra. Frá byrjun árs 2017, eða á 21 mánuði, hefur erlendum ríkisborgurum sem búa í Reykjavík fjölgað um 5.440 talsins. Það eru 810 fleiri en búa á Seltjarnarnesi í dag.
60 bæst við á Seltjarnarnesi og í Garðabæ
Talandi um Seltjarnarnes þá heldur það sveitarfélag áfram, ásamt Garðabæ, að vera þau sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu sem erlendir ríkisborgarar setjast síst að í. Alls búa 340 erlendir ríkisborgarar á Seltjarnarnesi en 690 í Garðabæ. Það þýðir að erlendir ríkisborgarar eru 7,3 prósent þeirra 4.610 sem búa á Seltjarnarnes en 4,2 prósent þeirra 16.190 sem búa í Garðabæ.
Á fyrstu níu mánuðum ársins 2018 hefur erlendum ríkisborgurum á höfuðborgarsvæðinu fjölgað um 3.340 og eru nú 26.540. Það þýðir að 57 prósent allra erlendra ríkisborgara sem setjast hér að flytja á höfuðborgarsvæðið.
Af þeim 3.340 erlendu ríkisborgurum sem bæst hafa við höfuðborgarsvæðið á árinu hafa einungis 60 samanlagt sest að á Seltjarnarnesi og í Garðabæ.
Spá gerir ráð fyrir áframhaldandi aukningu
Lítið lát verður á þessum miklu samfélagsbreytingum ef marka má mannfjöldaspá Hagstofu Íslands sem birt var í október. Þar kom fram að búast megi við því að þeim sem flytja til Íslands umfram þá sem flytja á brott verði 20.883 talsins frá byrjun árs 2018 og til loka árs 2022, samkvæmt miðspá. Lágspá stofnunarinnar gerir ráð fyrir að aðfluttum fjölgi um 12.252 en háspáin 29.323 á þessu fimm ára tímabili.
Hinir aðfluttu verða fyrst og fremst erlendir innflytjendur samkvæmt spánni og fleiri íslenskir ríkisborgarar munu áfram flytja frá landinu en til þess. Í byrjun árs 2018 voru erlendir ríkisborgarar sem bjuggu hérlendis, líkt og áður sagði, 37.950 talsins. Lágspáin gerir ráð fyrir að þeim fjölgi um 32,3 prósent, miðspáin gerir ráð fyrir að þeim fjölgi um 64,5 prósent fram til loka árs 2022 og háspáin gerir ráð fyrir því að þeim fjölgað um 77,2 prósent.
Því má búast við að í lok árs 2022 verði erlendir innflytjendur hérlendis 58.833 til 67.273 talsins hið minnsta ef annað hvort mið- eða háspá Hagstofunnar verða að veruleika. Það myndi þýða að erlendir ríkisborgarar yrðu 15,6 til 17,4 prósent allra íbúa landsins. Um síðustu áramót voru þeir 10,9 prósent þeirra.