Mörgum Íslendingum þykir stjórnarkreppan í Svíþjóð beinlínis furðuleg. Við eigum erfitt með að skilja að sænskir stjórnmálamenn skuli ekki bara geta „hugsað aðeins út fyrir boxið“, talað sig saman og myndað stjórn. Þótt stjórnin sem nú ræður á Íslandi hafi þótt ólíkleg fyrir kosningar, er enginn tiltakanlega hneykslaður á því að flokkarnir yst til hægri og vinstri hafi fundið leið til að vinna saman. Af hverju er þetta ekki alveg eins hægt í Svíþjóð? Af hverju sitja Svíar svona pikkfastir í blokkapólitíkinni?
Svarið er vissulega að hluta til að finna í blokkapólitíkinni og þeirri hefð sem ríkt hefur óslitið í sextíu og fimm ár. Svo langur tími er nefnilega liðinn síðan síðustu samsteypustjórn yfir miðjuna var slitið árið 1957. Tage Erlander var þá forsætisráðherra og með Sósíaldemókrötum í stjórn var Bondeförbundet undir forystu Gunnars Hedlund, sem klauf stjórnina 1957 og sama ár var nafni flokksins breytt í Centerpartiet eða „Miðflokkurinn“. Þeim flokki stýrir nú Annie Lööf.
Alla tíð síðan hafa pólitísku blokkirnar verið tvær og nokkuð skýrt afmarkaðar. Frá því er þó ein skýr undantekning, því á árunum 1995-1998 studdi Centerpartiet ríkisstjórn Sósíaldemókrata. Þess ber þó að geta að Centerpartiet er almennt talið hafa færst talsvert til hægri frá þessum tíma, fyrst þegar Maud Olofsson leiddi flokkinn inn í Alliansen og síðan hefur Annie Lööf hallast enn frekar í sömu átt.
Erfitt að svíkja gefin loforð
Blokkapólitíkin er þó alls ekki eina ástæðan fyrir því hve treglega gengur að mynda stjórn í Svíþjóð. Þótt vel megi tína til fleiri samverkandi ástæður má hiklaust fullyrða að orðheldni stjórnmálaleiðtoga vegi hér mjög þungt. „Kúltúrinn“ (hvort sem menn vilja kalla hann menningu eða hefð) er talsvert öðruvísi þar en hér. Ráðherrar neyðast vafningalaust til að segja af sér eftir víxlspor, sem hér þættu varla fréttnæm nema kannski daglangt og flokksleiðtogi sem hefur gefið yfirlýsingu fyrir kosningar, á afar erfitt með að víkja frá henni eftir kosningar.
Íslenskir flokksforingjar lenda ekki í slíkri klemmu. Flokkarnir „ganga óbundnir til kosninga“ segja menn hér. Það væri algerlega óhugsandi í Svíþjóð, þar sem bæði þykir sjálfsagt og eðlilegt að kjósendur hafi skýra valkosti.
Svíþjóðardemókratar
Tilkoma Svíþjóðardemókrata gjörbreytti hinu pólitíska landslagi. Rætur flokksins liggja m.a. í nýnasistasamtökum og hann fer ekki í felur með kynþátta- og þjóðernishyggju sína. Flokkurinn á sér þannig ekkert ósvipaðar rætur og Dansk folkeparti í Danmörku eða Fremskridspartiet í Noregi. Þeir flokkar eru hins vegar fyrir löngu orðnir fullgildir þátttakendur í stjórnmálunum og engum dettur í hug að útiloka þá frá áhrifum af prinsippástæðum, eins og gert hefur verið í Svíþjóð.
Að öllum líkindum má gera ráð fyrir að þróunin verði á endanum svipuð í Svíþjóð, en til þess þarf sennilega lengri tíma en enn hefur gefist. Svíþjóðardemókratar náðu ekki inn á þing fyrr en 2010, en hafa síðan vaxið mjög hratt. Segja má að þeim hafi hreinlega ekki unnist tími til að snurfusa og mýkja ásýnd sína á sama hátt og gerst hefur í Danmörku og Noregi og á sama hátt hefur hvorki almenningi né stjórnmálamönnum unnist tími til að sætta sig við þessa byltingu á stjórnmálasviðinu.
Hinn hraði vöxtur Svíþjóðardemókrata stafar að hluta til af vaxandi andstöðu við straum innflytjenda, ekki síst eftir flóttamannabylgjuna 2015. En sú andlitslyfting sem Jimmy Åkeson gerði á flokknum 2011 hafði trúlega engu minni áhrif. Svíþjóðardemókratar skilgreina sig nú ekki sem flokk þjóðernissinna heldur sem „íhaldssaman félagshyggjuflokk á þjóðlegum grunni“. Hugtakið „socialconservativism“ er sótt aftur á 19. öld og felur sér viðurkenningu íhaldsmanna á skyldu samfélagsins til að sjá öllum fyrir viðunandi lífsviðurværi.
Það er ekki síst á þessum grundvelli sem Svíþjóðardemókratar hafa sótt mikinn fjölda kjósenda til Sósíaldemókrata og viss áhersla á velferðarsamfélagið er nokkuð áberandi í málflutningi þeirra. Sé litið til kosningaúrslita virðist einmitt sem Sósíaldemókratar hafi tapað einna mestu fylgi til þessa nýja flokks. Síðast en ekki síst ber svo að geta þess að Svíþjóðardemókratar hafa sópað til sín óánægjufylgi fjölmargra kjósenda, sem ekki bera lengur traust til stjórnmálamanna og vilja bara fá „eitthvað nýtt“.
En þrátt fyrir vissar félagslegar áherslur standa Svíþjóðardemókratar ákveðið hægra megin á langflestum sviðum. Það er helst afstaða þeirra til aldraðra og öryrkja sem gæti skipað þeim til vinstri og þeir leggja vel að merkja ekki áherslu á lækkun skatta. En meðan þeim er haldið alveg áhrifalausum reynir auðvitað ekki á mögulegan mun á orðum og athöfnum.
Desembersamkomulagið
Í kosningunum 2014 fengu Svíþjóðardemókratar nærri 13% atkvæða og nógu marga þingmenn til þess að hvorug blokkin hafði meirihluta án stuðnings þeirra. Enginn hinna flokkanna tók þó í mál að starfa með þeim. Fjórflokkabandalagið Alliansen, sem flokkarnir í bláu blokkinni mynduðu formlega fyrir kosningarnar 2006 og setið hafði að völdum í tvö kjörtímabil, fékk nú færri þingmenn en rauðgræna blokkin og hinn nýi leiðtogi Sósíaldemókrata, Stefan Löfven, var kosinn forsætisráðherra. Þingmenn borgaraflokkanna sátu hjá við atkvæðagreiðsluna og Svíþjóðardemókratar voru því áhrifalausir þótt þeir greiddu atkvæði á móti.
En í desember hitnaði í kolunum. Alliansflokkarnir lögðu fram sameiginlegt fjárlagafrumvarp gegn frumvarpi stjórnarinnar og fengu það samþykkt með tilstyrk Svíþjóðardemókrata. Stefan Löfven hugðist tafarlaust boða til nýrra kosninga, en úr því varð ekki, heldur var gert samkomulag, sem átti að tryggja áhrifaleysi Svíþjóðardemókrata. Sú blokk, sem hafði fleiri þingmenn, skyldi fá kjörinn forsætisráðherra og hlutleysi í atkvæðagreiðslu um fjárlagafrumvarp sitt. Þessu samkomulagi var ætlað að standa til kosninga 2022 eða í tvö kjörtímabil.
Samkomulagið varð ekki langlíft. Flokksþing Kristdemokraterna hafnaði því í október 2015 og Anna Kinberg Batra, nýr leiðtogi Moderaterna, gekk skrefinu lengra og gaf þeirri hugmynd undir fótinn síðla árs 2016 að vinna með Svíþjóðardemókrötum í þeim málum, þar sem flokkarnir ættu samleið, ásamt því að fella stjórn Löfvens með stuðningi Svíþjóðardemókrata. Svo langt voru flokksfélagar hennar ekki tilbúnir að ganga og haustið 2017 sagði Kinberg Batra af sér formennsku og Ulf Kristersson tók við.
Desembersamkomulagið var engu að síður virt út kjörtímabilið og frjálslyndu flokkarnir, C og L, höfnuðu því aldrei formlega. Það gerðu rauðgrænu flokkarnir ekki heldur og þess vegna má gera ráð fyrir að Stefan Löfven hefði vikið kurteislega fyrir nýrri Alliansstjórn og veitt henni samsvarandi hlutleysi, ef bláa blokkin hefði orðið stærri en sú rauða.
Lok lok og læs
Þessi tilgáta getur líka skýrt yfirlýsingagleði flokksleiðtoga C og L fyrir kosningar. Fylgi Sóíaldemókrata í kosningunum í september kom nokkuð á óvart og varð talsvert meira en kannanir höfðu sýnt. Þegar upp var staðið fékk sitjandi stjórn einu þingsæti meira en Alliansflokkarnir. Um leið sátu Annie Lööf og Jan Björklund pikkföst í þeim læsingum sem hingað til hafa alveg komið í veg fyrir myndun nýrrar stjórnar.
Um Centerpartiet og Liberalerna gildir allt öðru máli. Annie Lööf og Jan Björklund voru bæði formenn flokka sinna fyrir síðustu kosningar og til viðbótar eru kjósendur þessara flokka stórum mun andsnúnari Svíþjóðardemókrötum en kjósendur hinna Alliansflokkanna tveggja. Lööf og Björklund hvikuðu aldrei frá því í kosningabaráttunni að útiloka algerlega allt samstarf við Svíþjóðardemókrata, þar með talið að sætta sig við stuðning þeirra. Þetta hefur í reynd útilokað nýja Alliansstjórn og til vinstri hafa Lööf og Björklund neitað að sætta sig við Löfven sem forsætisráðherra.
Tíminn vinnur gegn læsingum
Nú hefur þingforsetinn, Andreas Norlén, lýst því yfir að hann muni leggja fram formlega tillögu um Stefan Löfven sem forsætisráðherra mánudaginn 3. desember og að kosið verði 5. desember, nema Löfven biðji um frest. Í raun jafngildir þetta því að fela Löfven stjórnarmyndunarumboð í annað sinn, en þó með nokkru strangari tímamörkum.
Möguleikinn á slíkri stjórnarmyndun er aðeins einn, sem sé samsteypustjórn Sósíaldemókrata og C-L-flokkanna með þáttöku eða stuðningi Umhverfisflokksins (MP). Það er ekki alveg óhugsandi að þessi langi frestur sé til vitnis um að slíkar þreifingar séu þegar byrjaðar. Bæði Lööf og Björklund hafa forðast fjölmiðla eftir þessa nýju yfirlýsingu þingforsetans og það bendir ákveðið til að slík stjórn sé nú í kortunum.
Alliansbandalagið er klofið í herðar niður eftir tilraun Ulfs Kristersson til að mynda minnihlutastjórn með KD og stuðningi hinna Alliansflokkanna tveggja og einhvers konar „óvirkum“ stuðningi Svíþjóðardemókrata. Annie Lööf og Jan Björklund hafa þess vegna örlítið frjálsari hendur en áður. Að auki eru tveir og hálfur mánuður frá kosningum og óþolinmæði almennings fer vaxandi og svo langur tími auðveldar þeim að opna glufu yfir miðjuna.
Ekki sopið kálið
Bæði Lööf og Björklund þurfa að kalla saman flokksráð og fá samþykki fyrir slíkri kúvendingu. Annie Lööf er algerlega óumdeildur leiðtogi í sínum flokki og sænskir fréttaskýrendur eru á einu máli um að flokksmenn fylgi henni hiklaust. Um Jan Björklund gildir öðru máli. Staða hans þykir beinlínis veik og fari svo að flokksráðið hafni samstarfi til vinstri, gerir það Annie Lööf mjög erfitt fyrir. Samstarfið yfir miðjuna byggist að stórum hluta á því að flokkarnir tveir standi saman.
Það er einmitt flokkur Björklunds hefur einna mest að óttast ef boðað verður til nýrra kosninga og gæti jafnvel þurrkast út af þingi samkvæmt nýjustu könnunum. En reyndar hefur enginn áhuga á nýjum kosningum, nema helst Svíþjóðardemókratar, sem trúlega myndu enn bæta við sig. Í borgaraflokkunum fjórum dregur það enn úr kosningaáhuganum að kannanir benda til að rauðgræna blokkin fái nú talsvert meira fylgi en sú bláa.
Þess má líka geta að flokkarnir þurfa að semja um stefnu í innflytjendamálum. Þar eru það Sósíaldemókratar sem tóku upp upp harðari stefnu vegna mikils atkvæðaflótta til SD, en hinir þrír flokkarnir sem nú gætu verið á leið í stjórnarmyndunaviðræður (MP, C og L) vilja hins vegar afnema takmarkanir, sem settar voru 2016. Það er líka langt milli flokkanna á fleiri sviðum og fjarri því að hægt sé að gefa sér að samningar náist. Takist það ekki eru nýjar kosningar væntanlega óumflýjanlegar.