Stoðir langstærsti íslenski einkafjárfestirinn í Arion banka
Félag sem starfar enn á gömlu kennitölu FL Group, og var tekið yfir af hópi sem samanstendur meðal annars af mörgum fyrrverandi lykilmönnum þess félags, er nú orðið stærsti einkafjárfestirinn í Arion banka með 4,22 prósent hlut. Virði hlutarins er um 6,5 milljarðar króna miðað við gengi bréfa í Arion banka.
Fjárfestingafélagið Stoðir, sem hét einu sinni FL Group, er stærsti einkafjárfestirinn í Arion banka eftir að félagið keypti stóran hluta þeirra tíu prósenta sem Kaupþing ehf., stærsti hluthafi bankans, seldi í síðustu viku.
Stoðir eiga nú 4,22 prósent hlut í Arion banka. Félagið hefur lengi viljað eignast stóran hlut í bankanum. Í aðdraganda þess að Arion banki var skráður á markað í fyrra varhaldið útboð þar sem Stoðir skráðu sig fyrir 100 milljónum hluta, sem hefði þýtt að það hefði átt um fimm prósent hlut.
Flestir þeirra innlendu aðila sem skráðu sig fyrir hlutum í útboðinu voru hins vegar skertir umtalsvert og á endanum fengu Stoðir einungis að kaupa 0,6 prósent hlut í bankanum. Í síðustu viku gat fjárfestingafélagið, sem er eitt það stærsta á Íslandi, svo bætt verulega við sig þegar Kaupþing ákvað að selja tæpan þriðjung af eignarhlut sínum. Kaupþing er enn stærsti eigandi Arion banka með 22,67 prósent hlut í gegnum dótturfélag sitt Kaupskil.
Kjarninn greindi frá því á mánudag að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) og Íslandsbanki, sem er að öllu leyti í eigu ríkisins, væru komin inn á hluthafalista yfir stærstu eigendur Arion banka. LSR á 1,1 prósent hlut í bankanum og Kjarninn fékk það staðfest að hann hefði keypt þann hlut af Kaupþingi í vikunni á undan. Miðað við gengi bréfa í Arion banka í byrjun síðustu viku hefur kaupverðið verið rúmlega 1,6 milljarðar króna.
Íslandsbanki var skráður með 2,84 prósent hlut í Arion banka á mánudag en sá hlutur hefur nú minnkað niður í 2,54 prósent. Talsmaður Íslandsbanka vildi ekki upplýsa um hvort bankinn hefði verið að kaupa fyrir eigin bók eða fyrir hönd viðskiptavina þegar Kjarninn leitaði eftir upplýsingum um það á mánudag.
Í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti, í dag er greint frá því að Sigurður Bollason, sem er líka fjórði stærsti hluthafi Kviku banka með 6,17 prósent eignarhlut, og félög tengd honum eigi nú um tveggja prósenta hlut í Arion banka. Hluti þeirrar eignar er í gegnum framvirka samninga hjá Íslandsbanka.
Í hinu lokaða útboði á tíu prósenta hlut í Arion banka sem fór fram í síðustu viku bætti tryggingafélagið TM, sem er líka á meðal eigenda Stoða, við sig hlut. Það gerði Vogun, félag að stærstum hluta í eigu Kristjáns Loftssonar og fjölskyldu hans, sem seldu hlut sinn í HB Granda í fyrra, líka.
Félagið sem átti Glitni sem féll með látum
Stoðir, sem áður hét FL Group, fór með himinskautum fyrir bankahrun sem eitt umsvifamesta fjárfestingafélag bankabólunnar. Þegar Glitnir, stærsta eign FL Group, féll var ljóst að félagið myndi ekki lifa af. Það fór í greiðslustöðvun og síðar í gegnum nauðasamninga þar sem kröfuhafar eignuðust félagið. Stærstur þeirra var Glitnir, bankinn sem félagið hafði átt stóran hlut í.
Síðustu ár hafa Stoðir hægt og rólega selt eignir sínar og greitt afraksturinn til kröfuhafa. Vorið 2017 seldi svo GlitnirHoldco 40 prósent í félaginu á meðan að tvö félög, S121 ehf. og S122 ehf., keyptu rúman 50 prósenta hlut. Félögin tvö eru í eigu stórra hluthafa í TRyggingamiðstöðinni (TM) sem voru margir hverjir lykilmenn í FL Group á árunum fyrir hrun.
Í mars 2018 seldu Stoðir, í gegnum eignarhaldsfélagið Ferskur Holding 1, tæpan níu prósent eignarhlut sinn í hollenska drykkjarvöruframleiðandanum Refresco, en yfirtökutilboðið var samþykkt af Refresco í október 2017. Söluverðið nam 144 milljónum evra, sem jafngilti um 18 milljörðum íslenskra króna. Hlutur Stoða var metinn á um 12,7 milljarða króna um áramótin 2016/2017, sem þýðir að félagið hagnaðist um rúma fimm milljarða á árinu 2017. Með hagnaði ársins 2017 hækkaði eigið fé félagsins einnig um fimm milljarða, en það stóð í 18,3 milljörðum íslenskra króna samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir það ár. Stoðir hafa ekki birt ársreikning fyrir árið 2018.
Formaður stjórnar Stoða er Jón Sigurðsson, en með honum í stjórn sitja þeir Sigurjón Pálsson og Örvar Kærnested. Framkvæmdastjóri félagsins er Júlíus Þorfinnsson.
Gamlir lykilmenn úr FL Group
S121 og S122 eru að mestu í eigu sex einkahlutafélaga og eins skráðs félags, TM. Félögin sex heita Helgarfell ehf., Esjuborg ehf., Einir ehf., GGH ehf., Strahan III Limited og M ehf. Nokkur þeirra, eru í eigu aðila sem eru líka stórir hluthafar í TM.
Esjuborg er í 50 prósent eigu félags sem heitir Jöklaborg. Það er skráð í 100 prósent eigu Jóhanns Arnars Þórarinssonar, forstjóra og eins stærsta eiganda veitingarisans Foodco. Hinn helmingurinn í Esjuborg er í eigu Riverside Capital SARL, félags sem er skráð í Lúxemborg. Samkvæmt Panamaskjölunum er það félag í endanlegri eigu Fortown Corp, félags skráð á Möltu. Eigandi þess félags er Örvar Kærnested.
Riverside Capital á líka 1,92 prósent hlut í Tryggingamiðstöðinni í gegnum íslenska félagið Riverside Capital ehf. Örvar Kærnested situr einnig í stjórn Tryggingamiðstöðvarinnar. Örvar var yfir starfsemi FL Group í London um tíma fyrir bankahrun og starfaði þar áður hjá Kaupþingi í níu ár. Hann er nú umsvifamikill fjárfestir. Hann settist í stjórn Stoða á síðasta aðalfundi félagsins, sem fór vorið 2018.
Einar Örn Ólafsson er líka á meðal eigenda Tryggingamiðstöðvarinnar. Hann á 2,89 prósent hlut í henni í gegnum félag sitt Einir ehf. Það félag er líka á meðal þeirra sem náð hafa yfirráðum í Stoðum. Einar starfaði hjá Glitni og síðar Íslandsbanka á árum áður. Hann var meðal annars forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar Íslandsbanka fyrstu mánuðina eftir að bankinn var endurreistur eftir hrunið. Hann gerðist síðan forstjóri Skeljungs í maí 2009 eftir að hafa hætt hjá bankanum vegna trúnaðarbrests. Hann er í dag umsvifamikill fjárfestir og hefur stöðu grunaðs manns í Skeljungsmálinu svokallaða sem er til rannsóknar hjá héraðssaksóknara. Það snýst um meint umboðssvik, meint skilasvik, möguleg mútubrot og möguleg brot á lögum um peningaþvætti þegar olíufélagið Skeljungur og tengd félög voru keypt og seld á árunum 2008 til 2013.
Stærsti einstaki eigandi að hlutum í TM, að undanskildum lífeyrissjóðum og sjóðs í stýringu Stefnis, er félag sem heitir Helgarfell ehf. með 6,64 prósent hlut. Helgarfell er líka á meðal þeirra félaga sem keyptu stóran hlut í Stoðum með TM í fyrra.
Eigendur Helgarfells eru Björg Fenger, Kristín Fenger Vermundsdóttir og Ari Fenger. Björg er eiginkona Jóns Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra FL Group/Stoða. Jón tók við sem stjórnarformaður Stoða á síðasta aðalfundi félagsins í maí í fyrra. Jón á líka hlut í Stoðum í eigin nafni í gegnum félagið Straumnes Ráðgjöf ehf.
Fjórða félagið sem er stór eigandi í S122 og S121 heitir GGH ehf. Eigendur þess eru Gruppen ehf. (í eigu hollenska félagsins Golden Gate Management BV, sem tengist Magnúsi Ármann), Ágúst Már Ármann (faðir Magnúsar Ármann), og BNB Consulting (félag í eigu Bernhards Bogasonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra lögfræðissviðs FLGroup) sem á eitt prósent hlut. Magnús Ármann var á meðal hluthafa í FL Groupfyrir hrun og sat í stjórn félagsins.
Fimmta félagið sem á í félögunum tveimur heitir M. ehf. Það er í eigu félags í Lúxemborg sem heitir Lucilin Conseil s.a.r.l.
Sjötta félagið í hópnum sem á umtalsverðan hlut heitir Strahan III Limited. Einn þeirra sem stýrir því félagi er Malcolm Walker, stofnandi og eigandi bresku verslunarkeðjunnar Iceland Foods.
Sátu í stjórn Refresco
Í S121 er Jón Sigurðsson stjórnarformaður. Með honum þar sitja Þorsteinn M. Jónsson, enn oft kenndur við Coke, Örvar Kærnested, Einar Örn Ólafsson, Markús Hörður Árnason og Magnús Ármann.
Þorsteinn átti hlut í FL Group fyrir bankahrunið, sat í stjórn félagsins og tók við sem stjórnarformaður Glitnis um tíma eftir að FL Group og tengdir aðilar náðu yfirráðum yfir bankanum. Þá var Magnús Ármann hluthafi í FL Group.
Bæði Jón Sigurðsson og Þorsteinn M. Jónsson hafa setið í stjórn Refresco fyrir hönd íslenskra eigenda. Jón situr þar raunar enn og hefur gert frá 2009.