MYND:EPA

Skeljungsfléttan sem gerði fimm einstaklinga ofurríka

Embætti héraðssaksóknara réðst í umfangsmiklar aðgerðir í síðustu viku vegna Skeljungsmálsins svokallaða. Fléttan sem ofin var í málinu er talin hafa falið í sér sölu hlut á undirverði, ólögmæta nýtingu á fjármunum Skeljungs, þynningu á veði kröfuhafa og um 850 milljóna króna greiðslu til hvers þeirra þriggja starfsmanna banka sem seldu nýjum eigendum Skeljung.

Fimmtudaginn 31. maí réðst embætti héraðssaksóknara í umfangsmiklar aðgerðir vegna máls sem hafði verið til skoðunar þar frá miðju árið 2016. Málið snérist um meint umboðsvik, meint skilasvik, möguleg mútubrot og mögulegt brot á lögum um peningaþvætti þegar olíufélagið Skeljungur og tengd félög voru keypt og seld á árunum 2008 til 2013. Við brotunum getur legið allt að sex ára fangelsisvist.

Fimm einstaklingar eru með stöðu sakbornings við rannsókn málsins. Tvö þeirra, hjónin Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Guðmundur Þórðarson, voru handtekinn á fimmtudag. Hin þrjú; Einar Örn Ólafsson, Halla Sigrún Hjartardóttir og Kári Guðjónsson, sem unnu saman í fyrirtækjaráðgjöf Glitnis fyrir um áratug, voru boðuð til skýrslutöku sama dag. Fólkið er grunað um að hafa misnotað aðstöðu sína til að koma eignum út úr banka á undirverði, að hafa nýtt sameiginlegar eignir Skeljungs og bankans til að greiða fyrir kaup í félaginu, að hafa viljandi rýrt eignir Íslandsbanka og að hafa gert með sér samkomulag þar sem Svanhildur Nanna og Guðmundur afhentu hinum þremur sem seldu þeim Skeljung yfir 800 milljónir króna hverju fyrir sig fyrir þeirra aðkomu að málinu.

Á sama tíma og handtökurnar áttu sér stað fóru fram húsleitir víða um höfuðborgarsvæðið í tengslum við rannsókn málsins. Engar eignir voru þó kyrrsettar á þessu stigi málsins, en fólkið hefur allt efnast mjög hratt á síðustu árum. Og öll þau umsvif hófust með Skeljungsviðskiptunum sem nú þykir rökstuddur grunur um að hafi ekki staðist lög.

Skref 1: Að eignast Skeljung á undirverði

Skömmu fyrir hrun sat Glitnir uppi með olíufélagið Skeljung. Það hafði gengið kaupum og sölum milli einstaklinga sem voru ráðandi í eigendahópi bankans árin áður. Í desember 2007 sölutryggði Glitnir félagið fyrir 8,7 milljarða króna, og endaði með að þurfa að kaupa það á því verði. Seljandinn var dótturfélag Fons, fjárfestingafélags Pálma Haraldssonar, eins helsta viðskiptafélaga Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, sem þá hafði tögl og hagldir í Glitni. Skuldir félagsins á þessum tíma voru tíu milljarðar króna og að mestu í erlendum myntum.

Í ágúst 2008 keypti félagið BG Partners 51 pró­senta hlut í Skelj­ungi af Glitni. Eig­endur þess voru hjónin Svan­hildur Nanna Vig­fús­dóttir og Guð­mundur Þórð­ar­son og við­skipta­fé­lagi þeirra, Birgir Þór Bieltvedt. Birgir seldi sinn hlut árið 2011.

Félagið greiddi um 1,5 milljarða króna í eigin fé fyrir ráðandi hlut í Skeljungi, sem augljóslega var langt undir því sem Glitnir sjálfur greiddi fyrir félagið nokkrum mánuðum áður. Lokaverðið var reyndar líkast til mun lægra, þar sem BG Partners greiddi fyrir með fasteignum í Danmörku sem hríðféllu síðan í verði. Hluturinn fór þaðan yfir í félag sem hét Skel Investments ásamt skuldum við Íslandsbanka vegna kaupanna, sem voru upp á 1,4 milljarð króna.

Kaupin vöktu strax athygli og tortryggni. Það var fyrirtækjaráðgjöf Glitnis sem hafði séð um söluna á Skeljungi. Þau sem sáu um hana þar voru þrír starfsmenn ráðgjafarinnar; Einar Örn Ólafsson, Halla Sigrún Hjartardóttir og Kári Þór Guðjónsson.

Það var ekki einungis lágt kaupverð og vafasamt eignasafn sem notað var til að greiða fyrir sem hringdi viðvörunarbjöllum. Það að naumasti meirihluti í félaginu hafi verið seldur með þessum hætti þótti líka einkennilegt, enda ljóst að Glitnir myndi lenda í vandræðum með að selja minnihluta í félagi, sem fylgdu engin áhrif, á sómasamlegu verði.

Svo kom hrun.

Skref 2: Að nota eignir Skeljungs til að borga fyrir restina

Eftirstandandi eign Glitnis í Skeljungi fluttist yfir í Íslandsbanka eftir að hann var stofnaður í kjölfar bankahrunsins. Einar var gerður að forstöðumanni fyrirtækjaráðgjafar og Kári og Halla Sigrún störfuðu þar áfram.


Bestu og verstu viðskiptin

Salan á Skeljungi og P/F Magn vöktu eðlilega mikla athygli í lok árs 2013. Þau voru valin bestu viðskipti ársins 2013 af Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti. Í rökstuðningi dómnefndarmanna sagði m.a. : „„Ef rétt er að þau [hjónin Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Guðmundur Örn Þórðarson] hafi fengið tíu milljarða króna fyrir félagið (með skuldum) eru þau réttnefndir snillingar!“ og „„Eigendur Skeljungs koma vel frá borði — fengu ríflega greitt fyrir sinn hlut.“ Viðskiptin voru líka ofarlega á blaði yfir verstu viðskipti ársins, en í þeim flokki lentu þau í öðru sæti. Þar var þó átt við að viðskiptin hefði verið léleg fyrir kaupendurna, sem að mestu voru lífeyrissjóðir. Í umsögn sagði að félagið hafi verið lítils virði nokkrum árum áður, en niðurfellingar skulda og kaupgleði fagfjárfesta hefði gert eigendum félagsins kleift að ná fram einum bestu viðskiptum síðustu ára. „Lífeyrissjóðirnir eru stútfullir af peningum og virðast vera að kaupa Skeljung á allt of mikið,“ var haft eftir einum dómnefndarmanni Markaðarins.

Í lok maí 2009 var Einar, maðurinn sem sá um söluna á meirihluta í Skeljungi, ráðinn forstjóri félagsins af fólkinu sem hann hafði selt hlutinn. Tveir fulltrúar Íslandsbanka í stjórn Skeljungs greiddu ekki atkvæði með ráðningunni og innan Íslandsbanka ríkti bæði furða og reiði vegna þessa.

Bankinn lét í kjölfarið óháðan aðila fara yfir söluna á ráðandi hlut hans í Skeljungi. Það þótti eðlilega mjög tortryggilegt að Einar, sem hafði selt Svanhildi Nönnu og Guðmundi ráðandi hlut í Skeljungi, væri nú farinn að vinna fyrir þau.

Eitt af því sem hinn óháði aðili var lát­inn rann­saka var hvort eðli­legt hefði verið að taka við greiðslu fyrir Skelj­ung í formi þeirra fast­eigna sem not­aðar voru til að greiða fyrir hlut­inn.

Á þessum tíma var Íslandsbanki ekki sjálfur kominn með efnahagsreikning og mjög erfitt að átta sig á virði eigna svo skömmu eftir hrunið. Vilji var á þó á meðal stjórnenda Íslandsbanka að rifta kaupunum ef nægt tilefni yrði til.

Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að það væri mjög erfitt.

Íslandsbanki var í vanda með eftirstandi hlut sinn í Skeljungi. Það var ekki mikill markaður fyrir kaup á minnihluta í félagi, þar sem nýir eigendur myndu ekki geta haft nein áhrif.

Hluturinn var settur í söluferli í nóvember 2009 og snemma á árinu 2010 var tilboði frá félagi Svanhildar Nönnu, Guð­mundar og Birgis tek­ið. Þau greiddu mun lægra verð fyrir en þegar þau keyptu upp­runa­lega hlut­inn. Og gögn sem Íslandsbanki er með undir höndum gefa til kynna að hjónin hafi notað fjármuni S-fasteigna, dótturfélags Skeljungs, til að greiða fyrir bróðurpart hlutarins. Peningar félags í næstum helmings eigu Íslandsbanka voru samkvæmt þessu notaðir til að kaupa hlut bankans.

Skref 3: Þynna út lánadrottinn

Þar með var þó aðkoma Íslandsbanka að Skeljungi ekki lokið. Eignarhaldsfélag þeirra hjóna sem keypt hafði meirihluta í félaginu sumarið 2008, Skel Investments, skuldaði honum enn 2,2 milljarða króna í lok árs 2011. Með veði í öllum eignum félagsins.

Skeljungur var skráður á markað fyrir nokkrum árum.
Mynd: Nasdaq Iceland

Samkvæmt viðmælendum Kjarnans var það almenn skoðun innan bankans að á árunum eftir hrunið hafi nýir eigendur Skeljungs kerfisbundið dregið úr raunverulegum verðmætum félagsins til að hámarka skuldaafskriftir og letja kröfuhafa til að ganga að veðum sínum. Á kostnað Íslandsbanka.

Næstu árin eftir að hjónin náðu að eignast Skeljung að nánast öllu leyti voru góð. Félagið hagn­að­ist um tæpan 1,5 millj­arð króna á árunum 2010 og 2011, fór í gegnum mikla fjárhagslega endurskipulagningu og í febrúar 2012 end­ur­fjár­magn­aði Arion banki allar skuldir móð­ur­fé­lags Skelj­ungs.

Vorið 2013 var greint frá því að Svanhildur Nanna og Guðmundur vildu selja Skeljung. Áður en sú sala gekk í gegn hafði Íslandsbanki gengið að veðum sínum í Skel Investment og tekið yfir félagið. Hlutur þess í Skeljungi hafði þá verið þynntur niður í 34 prósent. Íslandsbanki vill í dag meina að hjónin hafi með markvissum og ólögmætum hætti þynnt út hlutinn og ætlar að tap hans á þessum gjörningi sé að minnsta kosti 900 milljónir króna.

Samhliða var annað félag sem Svanhildur Nanna og Guðmundur höfðu keypt út úr þrotabúi Fons sumarið 2009 selt. Það félag hét Magn P/F og var færeyskt olíufélag og mun koma mikið við sögu síðar í þessari umfjöllun.

Í lok árs 2013 var greint frá því að framtakssjóðurinn SÍA II, sem var að mestu í eigu íslenskra lífeyrissjóða, hefði keypt Skeljung og P/F Magn á um átta milljarða króna.

Skref 4: Gera starfsmenn fyrirtækjaþjónustu ríka

Íslandsbanki var aðili að þeirri sölu þótt að hluturinn í söluandvirðinu sem hann fékk í sinn hlut hafi ekki dugað til að gera upp skuldir Skel Investment. Það félag var sett í þrot snemma árs 2014 og því skipaður skiptastjóri. Sá gjörningur reyndist örlagavaldur í þeirri rannsókn sem nú leiddi til aðgerða af hendi héraðssaksóknara í síðustu viku.

Hvar eru þau í dag?

Allir fimm einstaklingarnir eru umsvifamiklir fjárfestar í dag, sem þeir voru ekki fyrir viðskiptin með Skeljung. Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Guðmundur Þórðarson eiga meðal annars 6,8 prósent hlut í VÍS í gegnum tvö félög, Heddu eignarhaldsfélag og K2B fjárfestingar. Síðarnefnda félagið á einnig 7,4 prósent hlut í Kviku banka. Svanhildur Nanna var stjórnarformaður VÍS frá því í mars 2017 og þangað til síðastliðins föstudags, þegar hún steig hún niður tímabundið „af persónulegum ástæðum“. Þær ástæður voru að daginn áður hafði hún verið handtekinn vegna Skeljungsmálsins. Svanhildur Nanna er þó enn í stjórn VÍS. Guðmundur, eiginmaður hennar, situr í stjórn Kviku banka og samkvæmt fréttum hefur handtaka hans í síðustu viku engin áhrif á stöðu hans þar. Einar Örn Ólafsson er ekki síður umsvifamikill fjárfestir. Hann tengist alls 15 félögum sem stjórnarmaður, framkvæmdastjóri eða stofnandi. Einar Örn á 2,89 prósent hlut í TM þar sem hann situr líka í stjórn, var hluti af hóp sem tók yfir Stoðir, gamla FL Group, snemma árs í fyrra og hefur hagnast ævintýra á því, er einn stærsti eigandi Póstmiðstöðvarinnar sem hann keypti af 365 á sínum tíma, er ráðandi hluthafi í Gámaþjónustunni og er stærsti eigandi Arnarlax ásamt gömlu félögum sínum Höllu Sigrúnu og Kára. Þau eiga líka saman hlut í Kex Hostel. Þá á Einar stærsta hlutinn í Ferdinand ehf., stærsta eiganda Kaffihúss Vesturbæjar. Halla Sigrún Hjartardóttir var skipuð stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins árið 2013 af Bjarna Benediktssyni, þáverandi og núverandi fjármálaráðherra. Hún gegndi þeirra stöðu út árið 2014 en sóttist ekki eftir að vera skipuð aftur í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um aðkomu hennar að Skeljungsviðskiptunum. Hún er framkvæmdastjóri Fiskisunds, sem er það félag sem Hún Einar Örn og Kári Þór Guðjónsson eiga t.d. hlut sinn í Arnarlaxi og Kex Hostel í gegnum.

Þegar Skeljungur var settur í söluferli á árinu 2013 var opnað gagnaherbergi þar sem væntir fjárfestar gætu fengið ýmsar trúnaðarupplýsingar um félagið. Ýmsir þeirra sem nýttu sér það aðgengi tóku eftir að í gagnaherberginu var að finna upplýsingar um eignarhaldið á Skeljungi sem Íslandsbanki ætti að hafa áhuga á að skoða, og komu þeim upplýsingum til hans.

Þær upplýsingar voru eftirfarandi: Vorið 2009 keyptu Svanhildur Nanna og Guðmundur, í gegnum eign­ar­halds­fé­lagið Heddu, fær­eyska olíufélagið P/F Magn af þrota­búi Fons, á þriðja hundrað milljón króna.

Í gagnaherberginu voru skjöl sem sýndu að árið 2011 hafi Halla Sig­rún Hjart­ar­dótt­ir, Einar Örn Ólafs­son og Kári Þór Guð­jóns­son, sem öll unnu í fyr­ir­tækja­ráð­gjöf Glitn­is/Ís­lands­banka þegar Guð­mundur og Svanhildur Nanna keyptu Skelj­ung, eign­ast 66 pró­sent hlut í Heddu. Hvert og eitt þeirra átti eftir þetta 22 pró­sent hlut í Heddu. Hvert og eitt þeirra greiddi 24 milljónir fyrir hlut sinn í Heddu.

Í mars 2012, mán­uði eftir að Skelj­ungur var end­ur­fjár­magn­að­ur af Arion banka, var Skelj­ungur lát­inn kaupa 34 pró­sent hlut í P/F Magn af Heddu, félagi þeirra Svan­hildar Nönnu og Guð­mund­ar.

Í aðdrag­anda kaupanna var hlutafé Skelj­ungs aukið um 447 millj­ónir króna á geng­inu þrjár krónur á hlut. Sam­kvæmt því var kaup­verðið á hlutnum í fær­eyska félag­inu í kringum 1,3 millj­arðar króna. Kaup­verðið var greitt með nýju hlutafé í Skelj­ungi, og eftir við­skiptin átti Hedda 25 pró­sent í Skelj­ungi auk 66 pró­sent hlutar í P/F Magn.

Fjórð­ungs­hlutur Heddu í Skelj­ungi var áfram verið einka­eign Guð­mundar og Svan­hildar Nönnu. P/F Magn áttu Skelj­ungs­hjónin siðan saman með þre­menn­ing­unum Höllu Sig­rúnu, Ein­ari og Kára.

Þegar Skeljungur og P/F Magn voru seld í lok árs 2013 var verðmiðinn á P/F Magn 3,95 milljarðar króna. Halla Sigrún, Einar og Kári fengu samkvæmt því um 2,6 milljarða króna í sinn hlut, eða um 870 milljónir hvert. Þau voru skyndilega orðin sterkefnað fólk. Ávinningur hvers og eins þeirra á einu og hálfu ári var rúmlega 850 milljónir króna.

Innan Íslandsbanka var grunur um að samið hefði verið við þremenninganna um að þau myndu eignast í P/F Magni með samkomulagi sem hafi verið gert 2008 eða 2009.

Eftir að skiptastjóri var skipaður yfir Skel Investments fór hann, með vitund og vilja stærsta kröfuhafans, Íslandsbanka, í ítarlega rannsókn á félaginu og viðskiptum þess. Sú rannsókn leiddi af sér að í júní 2016 var kæra unnin upp úr niðurstöðunum og hún send til embættis héraðssaksóknara sem hefur haft málið til rannsóknar síðan. Aðgerðirnar á fimmtudag eru afleiðing af þeirri vinnu.

Tímalína atburða í Skeljungsmálinu:


Febrúar 2004: 

Félag Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar kaupir Skeljung af Kaupþingi.

Mars 2005: 

Skeljungur seldur til Haga, þá í eigu Baugsfjölskyldunnar.

Mars 2006: 

Skeljungur seldur til félags Pálma og Jóhannesar að nýju.

Desember 2007: 

Glitnir sölutryggir allt hlutafé í eiganda Skeljungs upp á 8,7 milljarða króna og tekst ekki að selja félagið.

Ágúst 2008: 

BG Partners, félag Svanhildar Nönnu Vigfúsdóttur, Guðmundar Þórðarsonar og Birgis Bieltvedt kaupir 51 prósent hlut í Skeljungi af Glitni. Fær lán fyrir hluta kaupa frá bankanum.Hluturinn síðar færður í Skel Investments.

Maí 2009: 

Einar Örn Ólafsson, sem hafði séð um söluna á meirihluta í Skeljungi sem starfsmaður fyrirtækjaráðgjafar Glitnis, ráðinn forstjóri Skeljungs af nýjum aðaleigendum félagsins.

Vorið 2009: 

Íslandsbanki, sem stofnaður var á grunni Glitnis og átti 49 prósent í Skeljungi, fær óháðan aðila til að rannsaka söluna á 51 prósent hlutnum sumarið 2008. Ekkert kemur út úr þeirri rannsókn.

September 2009: 

49 prósent hlutur Íslandsbanka í Skeljungi settur í söluferli.

Byrjun árs 2010: 

Félag í eigu Svanhildar Nönnu, Guðmundar og Birgis kaupir.

2011: 

Birgir selur sinn átta prósent hlut í Skeljungi til hjónanna Svanhildar Nönnu og Guðmundar.

2010 og 2011: 

Hagnaður Skeljungs er 1,5 milljarðar króna.

Vorið 2013: 

Greint frá því að Skeljungur sé til sölu.

Seint á árinu 2013: 

Íslandsbanki gengur að veði sínu og tekur yfir Skel Invest. Búið að þynna niður eignarhlut félagsins í Skeljungi um 900 milljónir króna.

Lok árs 2013: 

Greint frá því að sjóður í stýringu hjá Stefni, sem lífeyrissjóðir áttu að mestu, hefðu keypt Skeljung og P/F Magn fyrir samtals um átta milljarða króna. Um fjórir milljarðar voru greiddir fyrir hvort.

Í söluferlinu: Aðilar sem fengu aðgang að gagnaherbergi Skeljungs reka augun í að Einar Örn Ólafsson, Halla Sigrún Hjartardóttir og Kári Þór Guðjónsson áttu samtals 66 prósent í Heddu, sem átti allt hlutafé P/F Magn og 25 prósent í Skeljungi. Öll þrjú höfðu unnið hjá Glitni við að selja Skeljung.

Byrjun árs 2014: 

Íslandsbanki setur Skel Investments í þrot. Skiptastjóri skipaður sem fer í ítarlega rannsókn á félaginu og viðskiptum þess.

Október 2014: 

Íslenskir fjölmiðlar opinbera að þremenningarnir hafi átt í Heddu og að þeir hafi efnast stórkostlega á sölunni í lok árs 2013.

Júní 2016: 

Kæra sem unnin er upp úr rannsókn skiptastjóra Skel Investments send héraðssaksóknara.

31. maí 2018: 

Héraðssaksóknari handtekur Svanhildi Nönnu og Guðmund og boðar Einar Örn, Höllu Sigrúnu og Kára í skýrslutöku vegna rannsóknar á umboðssvikum, skilasvikum, mögulegum mútubrotum, ákvæðum laga um peningaþvætti og ýmsum öðrum ákvæðum hegningarlaga. Auk þess fóru fram húsleitir víða á höfuðborgarsvæðinu. Möguleg fangelsisvist við brotunum er allt að sex ár. Öll fimm eru með stöðu sakbornings í málinu.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar