EPA.

Á að leyfa risunum að verða til?

Alþjóðlegt viðskiptaumhverfi er flókið fyrirbæri, og árekstrar vegna álitamála á sviði samkeppnisréttar hafa verið tíðir, ekki síst á Íslandi, undanfarin misserin. Heilbrigð samkeppni er mikilvægt mál fyrir almenning. En hvernig er hún best tryggð?

Samkeppni er flókið fyrirbæri. Ef hún er heilbrigð - í þeim skilningi að hún er í takt við lög og reglur og ýtir undir betri þjónustu við almenning og hagræði - þá er hún hreyfiafl til góðs í samfélögum. Verð á vörum lækkar í virkri samkeppni, fyrirtæki eru undir meiri pressu að sinna gæðamálum betur og úrvalið sem almenningur getur valið úr verður meira og fjölbreyttara, til einföldunar sagt. 

Lög og reglur á sviði samkeppnisréttar eru að margra mati frumskógur sem erfitt er að rata um, og hafa ekki síst stjórnendur í íslensku atvinnulífi kvartað undan Samkeppniseftirlitinu íslenska, þegar kemur að rannsóknum þess og niðurstöðum. 

En það á einnig við um eftirlit í öðrum löndum - og ekki síst þegar er verið að draga línurnar í stórum samrunum eða viðskiptum, þar sem lokaniðurstaða fer inn á borð til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins til höfnunar eða samþykkis. 

Í vor ákváðu samkeppniseftirlitin á Norðurlöndunum að kynna sameiginlega stefnu sína í meðferð og úrlausn samrunamála. Sú stefna hefur nú verið sett fram í sameiginlegri yfirlýsingu forstjóra samkeppniseftirlitanna í Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Íslandi. Er yfirlýsingin kynnt á heimasíðum eftirlitanna í dag, og í viðskiptatímaritum á Norðurlöndunum og í Evrópu.

Með þessu eru norrænu samkeppniseftirlitin að leggja sitt af mörkum í umræðu um samruna fyrirtækja sem á sér stað víða í Evrópu nú um stundir. 

Ógilding samruna leiðir til titrings

Tilefnið er einkum ógilding framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á samruna fyrirtækjanna Siemens og Alstom, en bæði fyrirtækin eru mikilvægir framleiðendur járnbrautarlesta og búnaðar á því sviði. 

Taldi framkvæmdastjórnin að samruninn hefði skaðað samkeppni og leitt til hærra verðs, viðskiptavinum og neytendum til tjóns. Óhætt er að segja að þessu hafi verið illa tekið hjá stjórnvöldum heimalanda þessara risa á sviði innviða, það er í Frakklandi og Þýskalandi.

Niðurstaðan olli miklum alþjóðapólitískum titringi og hafa stjórnvöld í löndunum tveimur brugðist við með því að leggja fram umfangsmiklar breytingatillögur á reglum um samruna fyrirtækja, en meginröksemdin er sú að með því að heimila stóra samruna innan Evrópu þá verði fyrirtækin betur í stakk búin til að bregðast við vaxandi samkeppni frá stórum fyrirtækjum í Kína, Bandaríkjunum og víðar. 

Þessi áhersla á að heimila samruna hjá fyrirtækjarisum innan Evrópu býður hættunni heim, að mati samkeppniseftirlita á Norðurlöndunum. 

Þó um margt ólíkt sé, þá hefur að undanförnu sést glitta í svipaða rökræðu á Íslandi þar sem forsvarsmenn fyrirtækja, sem jafnvel eru í markaðsráðandi stöðu á Íslandi, tala fyrir því að Samkeppniseftirlitið taki meira tillit til alþjóðlegrar samkeppni í ákvörðunum sínum. 

Bæði Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð hafa látið sig þessi mál varða og hafa talað opinskátt um mikilvægi þess að Samkeppniseftirlitið breyti um stefnu og leyfi samrunum að eiga sér stað. Þar er meginröksemdin sú að íslensk fyrirtæki séu að keppa við erlenda keppinauta, sem njóti stærðarhagkvæmni og eigi auðveldara með að koma sér inn á ný markaðssvæði, eins og hinn örsmáa íslenska markað. 

Hafa Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð talað fyrir því að Samkeppniseftirlitið leyfi samruna og stuðli þannig að hagræðingu.

Nú er mál að linni

Undanfarin ár hafa deilur um ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins verið nokkuð áberandi í opinberri umræðu, einkum þá þegar hagsmunasamtök atvinnurekenda og forstjórar fyrirtækja hafa opinberlega gagnrýnt Samkeppniseftirlitið fyrir ákvarðanir, ýmist um sektir vegna brota á samkeppnislögum, s.s. samráð eða misnotkun á markaðsráðandi stöðu, eða stöðvun á samruna.

Einn þeirra sem hefur gagnrýnt eftirlitið verulega er Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Í grein sem hann birti á vef Samtaka atvinnulífsins í fyrra sagði hann, að nú væri hreinlega nóg komið. Ekki væri hægt að búa við samkeppnislöggjöfina eins og hún væri núna, og ræddi þar sérstaklega um að nauðsynlegt væri að færa lögin í það horf í þeim væri tekið tillit til alþjóðlegrar þróunar.

„Nú er mál að linni. Það er orðið nauðsynlegt að bæta fjölmargt í samkeppnislögum og framkvæmd þeirra. Stjórnmálamenn geta ekki forðast það lengur að ræða samkeppnismál efnislega. Það er búið að beina því til ráðamanna í mörg ár að skerpa þurfi á lögum og færa framkvæmdina nær því sem gerist í öðrum löndum á Evrópska efnahagssvæðinu. Búi íslensk fyrirtæki við verra starfsumhverfi að þessu leyti er samkeppnishæfni þeirra lakari. Allir landsmenn tapa á því. Samkeppniseftirlitið á ekki að stýra því hvernig íslenskt viðskiptalíf er uppbyggt. Spurningar hljóta að vakna um það hversu trúverðug ofangreind ummæli forstjórans eru. Að Samkeppnisyfirlitið hafi ekki fundið tíma til að komast að niðurstöðu um að brot hafi verið framin, ef það telur sig hafa fyrir því sannanir. Svari hver fyrir sig en það er ekki laust við að viðtengingarvísan rifjist upp: Efa sé og efa mundi - átján rófur á einum hundi. Efa mundi og efa sé - átján dindlar á einu fé,” sagði Halldór Benjamín meðal annars.

Forstjóri Samkeppniseftirlitsins.
Kjarninn.

Vilja meiri samræmingu

Davíð Þorláksson, forstöðumaður samkeppnishæfnissviðs hjá Samtökum atvinnulífsins, segir að meginkrafa sem SA hafi talað fyrir sé að regluverkið sé samræmt við það sem gengur og gerist alþjóðlega. „Að vissu leyti er íslenska löggjöfin strangari en á alþjóðamörkuðum og í Evrópu. Það hefur verið mat okkar að það sé afar mikilvægt fyrir íslenskt viðskiptalíf, og ekki síst uppbyggingu á samkeppnishæfni þess til framtíðar litið, að lög og reglur á þegar kemur að samkeppni séu í takt við þróun í viðskiptalífinu og taki tillit til þeirra breytinga sem hafa orðið á samkeppnisumhverfinu, meðal annars vegna tæknibreytinga.”

Davíð segist binda miklar vonir við að endurskðun samkeppnislaga, sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er með á sinni könnu, muni skila betra regluverki sem styðji við heilbrigða samkeppni en gefi um leið möguleika á eðlilegri hagræðingu og þróun til að takast á við alþjóðlega samkeppni. „Nú er tækifæri til að auðvelda samruna og hagræðingu,” segir Davíð. 

Aðspurður, hvort ekki geti falist hættur í því að leyfa fáum risum að verða til, á svona litlum markaði eins og sá Íslandi er - með aðeins 209 þúsund einstaklinga vinnumarkað - segir hann að vissulega þurfi að passa upp á það. 

Hins vegar verði að taka tillit til alþjóðlegs samkeppnisumhverfis. Nefnir hann sem dæmi flugiðnað, en Davíð starfaði áður hjá Icelandair, sem aðallögfræðingur. „Þar er stundum talað eins og það sé ekki alþjóðlegt umhverfi, þegar kemur að samkeppni. Samkeppnin er um flug til margra áfangastaða, frá mörgum alþjóðalegum flugvöllum, og mörg alþjóðleg flugfélög eru margfalt stærri en íslensk flugfélög, og geta leyft sér að berjast á þeim forsendum á samkeppnismörkuðum - með mikilli verðlækkun jafnvel, til að verja sína hagsmuni. Þetta er umhverfið sem fyrirtæki á Íslandi eru að keppa í. Það má líka taka dæmi af smásölu og hvernig hún er í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi, í vaxandi mæli, vegna vaxandi netverslunar og almennt alþjóðlegrar samkeppni.”

Davíð bendir enn fremur á að samkeppnislöggjöfin sé um margt flókin, þar sem hún skarist ekki síst inn á svið lögfræði og hagfræði, þegar kemur að því að meta forsendur fyrir ákvörðunum á hverjum tíma.

Reynir á skilvirkt eftirlit

Forstjórar samkeppniseftirlita á Norðurlöndunum, Jakob Hald, í Danmörku, Leivo Kirsi, í Finnlandi, Rikard Jermsten, í Svíþjóð, Páll Gunnar Pálsson, hér á landi, og Lars Sørgard í Noregi, hafa nú sameiginlega talað um mikilvægi þess, að draga skýrar línur í því hvernig eigi að örva samkeppni á heimamörkuðum 

En eins og oft þegar kemur að samkeppni þá eru viðfangsefnin flókin, og hvert tilvik sem eftirlitsstofnanir láta sig varða, hefur sitt sérkenni. Þrátt fyrir að hagsmunasamtök fyrirtæki meti það sem svo, að eftirlitsstofnanir séu að hamla eðlilegri þróun - til dæmis með því að hamla samrunum fyrirtækja - þá er það skýr afstaða eftirlitsstofnanna á Norðurlöndunum að samkeppni verði helst varin með því að tryggja að hún sé virk, neytendum til heilla. 

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir að það geti leitt til mikillar óheillaþróunar, ef of mikill slaki er gefinn við samkeppniseftirliti. Mikilvægt sé að horfa til þess hvaða atriði það séu, sem í raun myndi grunninn að EES-svæðinu sem sameiginlegu markaðssvæði aðildarríkjanna og hvernig það geti virkað sem best. 

Þá segir hann að nú á 25 ára afmæli EES-samningins sé mikilvægt að muna, að það sé mikilvægt að halda í ávinninginn af EES-samstarfinu, með því að halda við samkeppni. Það sé ekki eftirsóknarvert að búa til fákeppnisumhverfi, jafnvel inn á EES-svæðinu sjálfu, og eftirlitin í hverju landi hafi mikilvægu hlutverki að gegna við að viðhalda samkeppni og fylgjast grannt með þróun mála.  „Það er einnig mat norrænu samkeppniseftirlitanna að tilslökun í samrunareglum á Evrópska efnahagssvæðinu myndi koma verst við smærri löndin í Evrópu, enda myndu stærri fyrirtæki stærstu landanna einkum njóta ábatans. Það er því ekki að undra að ráðherrar ríkisstjórna Norðurlandanna sem eru aðilar að Evrópusambandsins, eru á meðal þeirra sem hafa talað gegn hugmyndum franskra og þýskra stjórnvalda um tilslökun í samrunaeftirliti. Um þessar mundir er haldið upp á aldarfjórðungs afmæli EES-samningsins. Íslendingar hafa notið þess að með EES-samningnum voru teknar upp sambærilegar samkeppnisreglur og gilda annars staðar á Evrópska efnahagsvæðinu. Þetta felur m.a. í sér að Samkeppniseftirlitið beitir sambærilegum aðferðum og leggur sambærilegt mat á samruna fyrirtækja og evrópsk samkeppniseftirlit gera. Þá nýtur Samkeppniseftirlitið þess að taka þátt í öflugu samstarfi norrænna samkeppnisyfirvalda. Allt þetta stuðlar að aukninni samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.”

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, er með endurskoðun samkeppnislaga á sínu borði, eins og margt annað.
Bára.

Meiri samkeppni, ekki minni

Fjörutíu hagfræðingar innan háskóla í Evrópu, þar á meðal Christos Genakos við Cambridge háskóla, skrifuðu á dögunum sameiginlega grein þar sem minnt var á mikilvægi samkeppninnar, ekki síst á tímum hins alþjóðavædda heims þar sem landamæraleysi einkennir viðskipti. 

Í greininni eru færð rök fyrir því, að nú sé mikilvægt að stíga skref til að efla samkeppni en ekki draga úr henni, t.d. með því að samþykkja samruna og sífellt færri risa á ákveðnum sviðum. 

Er sú röksemd sögð veikburða, í greininni, og er frekar litið til þess að þau fyrirtæki sem nái fótfestu í oft harðri samkeppni, séu líklegri til að vaxa og dafna á heilbrigðan hátt - almenningi til heilla. Er samruni Siemens og Alstom nefndur sem dæmi um samruna sem mögulega geti leitt til meiri hagnaðar fyrir hluthafa, en hann geti líka leitt til hærra verðs fyrir neytendur og einnig erfiðari inngöngu fyrir ný fyrirtæki, þar sem þau ná ekki að þróa sínar vörur og efla þær, vegna yfirburðastöðu risans sem hefði orðið til. 

Er meðal annars sagt að það sé ekki æskilegt að búa til fá evrópska risa, á ákveðnum sviðum. Frekar sé æskilegt að standa vörð um samkeppnina, og hugsa um mikilvægi minni fyrirtækja líka, sem séu oftar en ekki að vinna í vöruþróun og nýsköpun sem stærri fyrirtækin þurfi að keppa við. Með því að búa til evrópska risa þá sé hættan á því að það dragi tennurnar úr nýsköpun, og þar geta þau ríki sem hafa átt erfiðast uppdráttar af ýmsum ástæðum - meðal annars þau sem eru einangruð, t.d. Ísland - lent í því að upplifa fábrotnari tækifæri til vaxtar og vöruþróunar, fyrir innlend fyrirtæki. 

„Evrópa þarf fleiri skilvirk, samkeppnishæf og nýsköpunardrifin fyrirtæki. Með því að heimila samruna og búa til fáa evrópska risa, þá yrði unnið gegn því og farið í öfuga átt,” segir í lokaorðum hagfræðinganna. Kanntu vel við Kjarnann?

Við á Kjarnanum þökkum lesendum fyrir það traust sem þeir sýna með því að styrkja Kjarnann. 

Frjáls framlög frá lesendum hafa vaxið jafnt og þétt síðustu árin og eru mikilvæg tekjustoð undir reksturinn. Þau gera okkur kleift að halda áfram að taka þátt í umræðunni og greina kjarnann frá hisminu. 

Við tökum hlutverk okkar sem fjölmiðill í þjónustu almennings alvarlega. Kjarninn birti 409 fréttaskýringar og 2.367 fréttir á árinu 2019. Kjarninn er vettvangur umræðu og á nýliðnu ári voru 539 skoðanagreinar birtar, stærstur hluti þeirra aðsendar greinar. 

Okkar tryggð er aðeins við lesendur. Við erum skuldbundin ykkur og værum þakklát ef þið vilduð vera með í að gera Kjarnann enn sterkari.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnMagnús Halldórsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar