Mynd: Bjarki Fjarki Rúnarsson álfur.jpg

Vilja hjálpa ungum listamönnum að koma sér á framfæri

Framkvæmdastjóri Álfsins, áhugafélags um listir og fræðslu ungmenna í Reykjavík, segir mikið ströggl að vera ungur listamaður í dag. Félagið ætlar að styrkja unga listamenn með ráðgjöf og þjónustu, ásamt því að styrkja ýmsa viðburði.

Félagið Álfur, eða áhugafélag um listir og fræðslu ungmenna Í Reykjavík, eru félagasamtök til almannaheilla stofnuð haustið 2017 af nokkrum ungum einstaklingum í þeim tilgangi að vera hagsmunafélag fyrir unga listamenn. Kjarninn ræddi við nýráðinn framkvæmdastjóra félagsins, hann Guðbrand Loka Rúnarsson, eða Loka eins og hann er oftast kallaður. 

Loki segir Álfinn hafa sérstaklega verið stofnaðan fyrir ungt fólk sem passi ekki fullkomlega inn í menntakerfið eða atvinnulífið. „Álfurinn er vettvangur til að hjálpa bæði ungum listamönnum að ná markmiðum sínum, því það er mikið ströggl að vera ungur listamaður á Íslandi, og Álfurinn er líka jafningafræðslubatterý fyrir fólk sem passar ekki inn í menntakerfið. Þetta er vettvangur til að hittast og ræða saman,“ segir Loki.

„Hingað til hefur Álfurinn haldið allavega tvenna viðburði, stofnunarkvöld og rappkvöld Álfsins, sem var rappkvöld á Gauknum til að hjálpa röppurum sem eru að reyna að koma sér á sjónarsviðið. Álfur hefur líka verið í ungmennaskiptum og fékk til að mynda 12 manna hóp af ungum listamönnum frá Portúgal. Þau fara í ungmennaskipti til að hitta íslenska listamenn. Þau unnu síðan listaverk hér og hittu meðal annars forsetann,“ segir hann.

„Álfurinn réði mig sem framkvæmdastjóra því það var mikið af hugmyndum innan Álfsins, mikið af ástríðu og metnaði, en ekki gafst tími til að vinna að því. Hugmyndin er að nú verði settur tvíefldur kraftur í þetta.“

Styrkja unga listamenn og halda námskeið

„Hugmyndin er að Álfurinn sé til staðar til að aðstoða ungt fólk til að koma einhverju í verk. Ef fólk er með hugmyndir sem það vill gera, ef það er með viðburði sem það vill halda, listakvöld til dæmis, þá getum við hjálpað þeim. Við getum ekki lofað að geta gert allt en munum reyna okkar allra besta,“ segir Loki. 

Álfurinn ætlar að halda námskeið fyrir ungt fólk og segir Loki að „ef fólk vill læra eitthvað sem það hefur ekki haft tækifæri til þá ætlum við að halda námskeið. Janfnvel ef berast hugmyndir að einhverju sem fólk vill ekki sjálft gera, en eitthvað sem það myndi vilja að við kæmum í verk erum við opnir fyrir öllu.“

Næsta stopp: Georgía

„Við erum að fara til Georgíu í næsta mánuði í ungmennaskipti á ráðstefnuna The Power of Art. Við erum að undirbúa ferð og ætlum að fara með 12 íslensk ungmenni til Portúgals í haust. Við munum auglýsa eftir umsóknum bráðlega,“ segir Loki.

„Álfurinn ætlar að keyra af stað listaverkaleigu til að skapa tekjugrundvöll fyrir unga sjálfstætt starfandi listamenn í Reykjavík. Þá væri Álfurinn milliliður að leigja fyrirtækjum og stofnunum listaverk og hjálpa þeim að finna listamenn,“ segir Loki. Hann segir að þannig verði skapaður grundvöllur til að skapa tekjur fyrir unga listamenn.

Hjálpa ungu fólki með styrktarumsóknir

„Álfurinn býður upp á þjónustu, yfirlestur og ráðgjöf varðandi umsóknagerð sem er mikilvægt í hugmyndavinnu ef maður þarf að díla við bjúrókratískt batterý. Þá skiptir hugmyndin ekki aðal máli heldur hvernig umsóknirnar eru upp settar. Það mismunar fólki með lesblindu, athyglisbrest eða fólk sem talar erlend tungumál,“ segir hann.

Þá skiptir hugmyndin ekki aðal máli heldur hvernig umsóknirnar eru upp settar. Það mismunar fólki með lesblindu, athyglisbrest eða fólk sem talar erlend tungumál.

Loki segir langtímamarkmið og draum Álfsins vera að opna Álfastein sem væri félags- og listsköpunarmiðstöð fyrir ungt fólk í Reykjavík sem hann segir bráðlega vanta. „Hugmyndin er að koma á sölu á vörum fyrir félagsmenn, til að mynda striga og málningu, til að styðja við unga listamenn. Þegar fólk er komið úr grunn- og menntaskóla þá er engin félagsmiðstöð fyrir ungt fólk nema barir og kaffihús. Það getur verið útilokandi fyrir fólk sem drekkur ekki eða er edrú, það er mjög kostnaðarsamt og ekki pródúktívur vettvangur. Við viljum opna einhvers konar rými þokkalega miðsvæðis fyrir félagsmenn álfsins svo það hefði aðgengi að þessum listsköpunar græjum.“

Allar hugmyndir velkomnar

Loki hvetur allt ungt fólk að skrá sig í félagið og fylgjast með hvað sé á döfinni á næstunni hjá félaginu, sérstaklega ef einhvern langar til Portúgal í haust. „Allir sem vilja gera eitthvað flott og skemmtilegt ættu að senda okkur línu,“ segir Loki.

Álfurinn verður einnig með viðveru á LUNGA alla næstu viku. „Ef fólk vill koma með hugmyndir er hægt að hitta mig í kaffi á Seyðisfirði í næstu viku.“ Jafnframt er hægt að skrá sig í félagið hér.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnGuðbjörg Ríkey Th. Hauksdóttir
Meira úr sama flokkiInnlent