Pia Kjærsgaard, fyrrverandi formaður Danska þjóðarflokksins og nú forseti danska þingsins, heimsótti Ísland í boði Steingríms J. Sigfússonar til að flytja ræðu á hátíðarfundi Alþingis sem haldinn er á Þingvöllum til að minnast 100 ára afmælis fullveldisins.
Ekki er ofsögum sagt að heimsóknin hafi valdið miklum usla en mikil gagnrýnisalda reið yfir samfélagið í kjölfar fréttanna.
Pia Kjærsgaard er einn stofnenda Danska þjóðarflokksins og leiddi flokkinn á árunum 1995 til 2012. Hún er einn þekktasti stjórnmálamaður í Danmörku og hefur talað hart gegn fjölmenningu og innflytjendum og íslam sérstaklega.
Árið 2001 skrifaði Kjærsgaard í fréttabréf flokkins að múslimar væru lygarar, svindlarar og svikarar. Hún var kærð fyrir þessi ummæli en ekki ákærð af yfirvöldum. Ári síðar var hún sektuð fyrir að hóta konu með piparúða, sem að auki var brot gegn dönskum vopnalögum. Kjærsgaard sagði sér til varnar að hún hafi upplifað sér ógnað og talaði í kjölfarið fyrir breytingu á lögunum, svo eitthvað af afrekum hennar séu nefnd. Þá hefur hún beitt sér fyrir því að lokað sé fyrir útsendingar arabískra sjónvarpsstöðva í Danmörku, þar sem þær flyttu hatursáróður og vildi að öllum innflytjendum sem gerst hefðu brotlegir við dönsk lög yrði vísað úr landi.
„Með öllum hætti viðeigandi“
Helgi Bernódusson skrifstofustjóri Alþingis sagði í samtali við Kjarnann fyrir ári síðan, aðspurður um hvernig það hefði komið til að Kjærsgaard væri fengin til þess að vera hátíðarræðumaður á fundinum, að það væri einfaldlega skýrt með sambandslagasamningnum milli Íslands og Danmerkur sem undirritaður var 18. júlí fyrir 100 árum síðan. Ákveðið hefði verið að Kjærsgaard, sem forseti danska þingsins, kæmi hingað til lands af þessu tilefni fyrir hönd danska þjóðþingsins.
„Það er með öllum hætti viðeigandi að forseti danska þingsins sé hérna af þessu tilefni. Síðan er áformað að drottningin komi hingað 1. desember,“ sagði Helgi en frumvarpið til sambandslaganna sem undirritað var 18. júlí 1918 tók gildi þann 1. desember sama ár.
Misjafnlega tekið
Ýmsir tjáðu sig um komu Piu og ræðuhöld hennar á hátíðarfundinum.
Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar sendi Steingrími J. Sigfússyni forseta Alþingis tölvupóst þar sem hann kom á framfæri mótmælum og óskaði eftir upplýsingum um hvernig ákvörðunin um val Kjærsgaard hefði farið fram.
Þórunn Ólafsdóttir, sem starfað hefur mikið með flóttamönnum, bæði hér á landi og erlendis og var auk þess handhafi mannréttindaverðlauna Reykjavíkur, tjáði sig einnig um málið á samfélagsmiðlum en á Twitter-síðu sinni sagði Þórunn að með því að gera hana að hátíðarræðumanni væri verið að normalísera óásættanleg viðhorf og hegðun.
Egill Helgason sjónvarpsmaður fjallaði um Piu og hátíðarfundinn á bloggsíðu sinni þar sem hann sagði hana varpa skugga á hátíðina og vera stjórnmálamann af því tagi sem Íslendingar vildu helst sjá sem minnst af.
Grímur Atlason fyrrverandi sveitarstjóri og eiginmaður Helgu Völu Helgadóttur þingmanns Samfylkingarinnar sagði það niðurlægjandi að velja Kjærsgaard sem hátíðarræðumann, hún stæði fyrir allt það sem hann fyrirlíti mest í þessum heimi.
Jón Kalman Stefánsson rithöfundur sagði ákvörðun Steingríms J. Sigfússonar forseta Alþingis, að hafa boðið Piu Kjærsgaard að ávarpa hátíðarfund Alþingis, klaufalega og ætti hann að biðjast afsökunar, segja af sér og leyfa öðrum að taka við.
Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur og þingmaður Samfylkingarinnar, skrifaði einnig gagnrýninn pistil vegna komu Kjærsgaard til landsins sem bar titilinn „Um kurteisi“ og birtist fyrst á Kjarnanum. Dönsk þýðing pistilsins birtist svo í Information, ásamt skýringu á orðinu „Stórdani“ sem á að lýsa hrokafullu viðmóti Dana í garð Íslendinga.
Kjærsgaard sagði í kjölfarið skrif Guðmundar Andra lykta af hræsni, móðursýki og „íslenskri minnimáttarkennd.“ Guðmundur svaraði gagnrýninni og sagði hana byggjast á sýn Stórdanans á Íslendinga.
Gekk út af fundinum
Á fundinum fjallaði Kjærsgaard meðal annars um tengsl Íslands og Danmerkur. Hún sagðist finna fyrir sérstakri gleði að feta í fótspor dönsku sendinefndarinnar, sem undirritaði samkomulagið um sambandslög ríkjanna tveggja, en sendinefndin gerði sér ferð á Þingvelli þegar hún var á landinu. Hún lofaði íslenska náttúru og sagði að Danir hafi litið til Íslands sem það land sem varðveitti upphaflegu sjálfsmynd norræna manna. Hún sagði jafnframt að litið hefði verið á Ísland sem vöggu norrænar menningar.
Athygli vakti þegar Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, gekk út af hátíðarfundinum þegar Kjærsgaard steig á svið til að halda ræðu sína. Píratar sögðust fyrir fundinn ekki geta veitt Kjærsgard lögmæti með nærveru sinni og kusu því að sniðganga fundinn. Þingmenn Viðreisnar, Samfylkingarinnar og tveir þingmenn Vinstri grænna, Þau Andrés Ingi Jónsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, klæddust límmiðum sem á stóð „Nej til racism,“ eða „Nei við kynþáttahatri.“