Mynd: EPA

Harðlínu hægristjórn í Bretlandi

Boris Johnson hefur skipað nýja ríkisstjórn hægrisinnaðra og umdeildra ráðherra. Boris boðar lækkun skatta, fjölgun lögreglumanna og hertra refsinga glæpamanna. Einnig stefnir í nýja atkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands.

Ný harðlínu hægristjórn Borisar Johnson hefur verið skipuð. Ríkisstjórn hans skipa nú 31 ráðherrar sem eiga það sameiginlegt að vera mjög hægrisinnaðir og umdeildir.

Boris Johnson ávarpaði þingið í fyrsta sinn sem forsætisráðherra í dag og sagðist vilja gera Bretland að besta landi í heimi. Hann sagði einnig að nú undirbúi ríkisstjórn hans lækkun skatta, að samið verði um Brexit fyrir 31. október, að fjölgað verði lögreglumönnum um 20 þúsund og að refsingar glæpamanna verði hertar. Jafnframt vildi hann koma á nýju kerfi fyrir innflytjendur að ástralskri fyrirmynd. 

Umdeildir ráðherrar skipaðir

Ríkisstjórn Borisar skipa afar umdeildir ráðherrar. Priti Patel, innanríkisráðherra, sagðist til að mynda í beinni sjónvarpsútsendingu vera hlynnt dauðarefsingu. Hún er dyggur stuðningsmaður Borisar Johnson og sagði að hann væri eina manneskjan sem gæti bjargað Brexit og Íhaldsflokknum. Patel lét af störfum í ráðuneyti May í kjölfar óheimila funda með ísraelskum stjórnmálamönnum. Áður var hún útsendari þrýstihóps fyrir tóbaks- og áfengisfyrirtæki.

Dominic Raab, nýskipaður utanríkis- og ríkjasambandsráðherra Bretlands, kom sér í klandur eftir að í ljós kom að hann vissi ekki fyrr en nýlega af tilvist Calais flóttamannabúðanna. Raab er einnig harður Brexit-liði. Elizabeth Truss er nýr alþjóðaviðskiptaráðherra og dyggur stuðningsmaður Borisar og dyggur Brexit-liði líkt og Raab. 

Fyrrnefndir ráðherrar, Raab, Patel og Truss eru meðal höfunda Britannia Unchained, safn harðlínu hægri stjórnmálaritgerða sem birtust árið 2012. Í safninu birtist aðdáun þeirra af Thatcherisma og kallað var eftir að skattar væru lækkaðir og að réttindi verkafólks í Bretlandi væru takmörkuð til að auka samkeppnishæfni Bretlands.

Jafnframt er Amber Rudd nýr atvinnu-, eftirlauna- og jafnréttisráðherra. Áður var hún innanríkisráðherra en sagði af sér í kjölfar Windrush hneykslisins þar sem breskum ríkisborgurum var vísað úr landi fyrir rangar sakir. Nóg verður að gera hjá Stephen Barclay sem er skipaður sérstakur ráðherra um útgöngu úr Evrópusambandinu, enda hefur Boris gefið lýst því yfir að Bretland muni hafa samið um útgöngu úr Evrópusambandinu 31. október

Boris hefur skipað Michael Gove sem nýjan ráðherra Lancaster hertogadæmisins. Hann er umdeildur vegna kókaínneyslu sinnar á fyrri árum. Hann var áður menntamálaráðherra og barðist hart gegn stéttarfélögum kennara. Gavin Williamson, menntamálaráðherra, var áður varnarmálaráðherra en lét af völdum í kjölfar þess að hafa lekið upplýsingum um varnarmál Bretlands. Skipað var í fleiri ráðherrastöður sem hægt er að lesa nánar um hér.

Meðalaldur ráðherranna er 48 ár og eru einungis 26 prósent ráðherranna konur þrátt fyrir loforð forsætisráðherra um að fjölga konum í ráðuneytum. Þá hlutu 64 prósent ráðherranna menntun sína úr einkareknum skólum samkvæmt Sutton Trust, sjóði sem berst fyrir auknu félagslegum hreyfanleika (e. social mobility).

Stefnir í atkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands

Nicola Sturgeon, forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar, hefur nú þegar sent forsætisráðherra bréf um málefni Skotlands og afstöðu gagnvart Brexit. Bréfið gefur til kynna að efnt verður til nýrra atkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands. 

Í bréfinu leggur Sturgeon áherslu á að meirihluti Skota hafi kosið með því að vera áfram innan Evrópusambandinu. Hún sagði að útganga úr sambandinu myndi hafa alvarleg áhrif á líf og störf Skota og myndi fækka störfum í Skotlandi um hundrað þúsund. „Réttur Skota til að ákveða sína eigin framtíð er grunnur lýðræðislögmála sem þarf að virða,“ skrifaði hún að lokum.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnGuðbjörg Ríkey Th. Hauksdóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar