Mynd: Pexels

Dauð atkvæði gætu gert stjórnarmyndun auðveldari

Stuðningur við ríkisstjórnina er kominn aftur undir 40 prósent, nú þegar kjörtímabilið er rúmlega hálfnað. Sameiginlegt fylgi ríkisstjórnarflokkanna dugar ekki til meirihluta en ekki vantar mikið upp á. Samfylking, Píratar og Viðreisn gætu myndað ríkisstjórn með Vinstri grænum eða Framsóknarflokki.

Stuðn­ingur við rík­is­stjórn Katrínar Jak­obs­dótt­ur, nú þegar kjör­tíma­bilið er rúm­lega hálfn­að, er kom­inn aftur niður fyrir 40 pró­sent, sam­kvæmt nýj­ustu könnun MMR sem fram­kvæmd var dag­anna 12.-19. ágúst. Alls segj­ast 38,8 pró­sent lands­manna styðja rík­is­stjórn­ina, sem er næst minnsti stuðn­ingur sem hún hefur mælst með á kjör­tíma­bil­inu. Botn­inum náði hún í nóv­em­ber í fyrra þegar stuðn­ing­ur­inn mæld­ist 37,9 pró­sent. 

Sam­an­lagt fylgi Sjálf­stæð­is­flokks, Vinstri grænna og Fram­sókn­ar­flokks mælist nú 41 pró­sent. Flokk­arnir þrír fengu 52,8 pró­sent atkvæða í kosn­ing­unum haustið 2017 og hafa því tapað 11,8 pró­sent af sam­eig­in­legu fylgi sínu.

Þar munar mestu um að fylgi Sjálf­stæð­is­flokks hefur fallið úr 25,2 pró­sent í 19,1 pró­sent, eða um 6,1 pró­sentu­stig. Vinstri græn hafa líka tapað miklu – um 47 pró­sent – af fylgi sínu frá síð­ustu þing­kosn­ing­um. Þá fékk flokkur for­sæt­is­ráð­herr­ans 16,9 pró­sent atkvæða en mælist nú með 11,5 pró­sent stuðn­ing. Það þýðir að 5,4 pró­sentu­stig hafa yfir­gefið Vinstri græn.

Eini stjórn­ar­flokk­ur­inn sem er nálægt kjör­fylgi er Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn. Hann fékk 10,7 pró­sent í októ­ber 2017 en mælist nú með 10,4 pró­sent fylgi. Þær breyt­ingar eru innan vik­marka.

Ekki langt frá meiri­hluta

Rík­is­stjórn­ar­flokk­arnir eru þó ekki eins langt frá því að halda meiri­hluta á þingi og ætla mætti. Ef síð­asta könnun MMR yrði kosn­inga­nið­ur­staða myndu nefni­lega 8,6 pró­sent atkvæða lenda hjá flokkum sem næðu ekki að koma manni inn í þing, og því myndi fjöldi þing­manna sem fylgi ann­arra flokka skil­aði ýkj­ast sam­hliða. Flokkum sem sæti eiga á Alþingi myndi einnig fækka úr átta í sjö ef kosið yrði í dag. 

Könnun MMR 12.-19. ágúst 2019:

  • Fylgi Sjálf­stæð­is­flokks­ins mæld­ist nú 19,1 pró­sent og mæld­ist 19,1 pró­sent í síð­ustu könn­un.
  • Fylgi Sam­fylk­ing­ar­innar mæld­ist nú 16,8 pró­sent og mæld­ist 12,4 pró­sent í síð­ustu könn­un.
  • Fylgi Mið­flokks­ins mæld­ist nú 13,0 pró­sent og mæld­ist 12,4 pró­sent í síð­ustu könn­nun.
  • Fylgi Vinstri grænna mæld­ist nú 11,5 pró­sent og mæld­ist 12,5 pró­sent í síð­ustu könn­un.
  • Fylgi Pírata mæld­ist nú 11,3 pró­sent og mæld­ist 14,1 pró­sent í síð­ustu könn­un.
  • Fylgi Fram­sókn­ar­flokks­ins mæld­ist nú 10,4 pró­sent og mæld­ist 8,3 pró­sent í síð­ustu könn­un.
  • Fylgi Við­reisnar mæld­ist nú 9,3 pró­sent og mæld­ist 9,9 pró­sent í síð­ustu könn­un.
  • Fylgi Flokks fólks­ins mæld­ist nú 4,1 pró­sent og mæld­ist 6,8 pró­sent í síð­ustu könn­un.
  • Fylgi Sós­í­alista­flokks Íslands mæld­ist nú 2,9 pró­sent og mæld­ist 3,4 pró­sent í síð­ustu könn­un.
  • Fylgi ann­arra flokka mæld­ist 1,6 pró­sent sam­an­lagt.

Miðað við nið­ur­stöðu ágúst­könn­unar MMR myndu stjórn­ar­flokk­arnir fá 28-29 þing­menn og þyrftu ekki að bæta miklu við sig til að ná 32 manna meiri­hluta. Í ljósi þess að sér­stak­lega Sjálf­stæð­is­flokkur og Fram­sókn­ar­flokkur hafa til­hneig­ingu til að reka árang­urs­ríkar kosn­inga­bar­átt­ur, og geta nýtt vel smurðar kosn­inga­vélar sínar til að hala inn atkvæði og þátt­töku í aðdrag­anda slíkra, er slík við­bót fjarri því óraun­hæf.

Næst stærsti flokk­ur­inn en eng­inn turn

Sá flokkur sem hefur bætt mestu fylgi við sig frá kosn­ing­um, miðað við nýj­ustu könnun MMR, er Sam­fylk­ing­in. Fylgi hans hefur auk­ist um 4,7 pró­sentu­stig á þeim tæpu tveimur árum sem liðin eru frá kosn­ing­um. Nú mælist fylgið 16,8 pró­sent, eða 39 pró­sent meira en síð­ast þegar kosið var. Þegar horft er ári lengur aftur í tím­ann, til haust­kosn­ing­anna 2016, er við­snún­ingur Sam­fylk­ing­ar­innar enn meiri. Þá var flokk­ur­inn nán­ast fall­inn af þingi með 5,7 pró­sent atkvæða. Eini kjör­dæma­kjörni þing­maður flokks­ins í þeim kosn­ingum var Logi Ein­ars­son, sem tók við for­mennsku í Sam­fylk­ing­unni að þeim lokn­um, en með honum komust tveir jöfn­un­ar­þing­menn inn. Frá þeim tíma hefur fylgi Sam­fylk­ing­ar­innar því þre­fald­ast. 

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Mynd: Bára Huld Beck

Flokk­ur­inn er þó langt frá þeim stað sem hann var árin eftir að hann var stofn­aður árið 200 til að vera stjórn­mála­turn vinstri- og jafn­að­ar­manna sem átti að veita Sjálf­stæð­is­flokknum mót­vægi. Í kosn­ing­unum 2003 fékk Sam­fylk­ingin til að mynda 31 pró­sent atkvæða og 29,8 pró­sent í fyrstu eft­ir­hruns­kosn­ing­un­um, vorið 2009. Síðan þá hefur fylgi flokks­ins, sem þó mælist með því hæsta sem það hefur mælst í lengri tíma, næstum helm­ing­ast. 

Gætu myndað fjög­urra flokka stjórn

Píratar hafa, líkt og Sam­fylk­ing­in, rokkað umtals­vert í könn­unum á kjör­tíma­bil­inu. Það fylgi sem stundum kemur til flokk­anna tveggja, en fer síðan frá þeim skyndi­lega, virð­ist þó að mestu flakka á milli þeirra. Píratar mæl­ast til að mynda nú með 2,8 pró­sentu­stiga minna fylgi en í júlí, á sama tíma og Sam­fylk­ingin bætir vel við sig. Píratar mæl­ast nú með 11,3 pró­sent fylgi, sem er 2,1 pró­sent meira en flokk­ur­inn fékk upp úr kjör­köss­unum 2017.

Við­reisn hefur líka bætt við sig á kjör­tíma­bil­inu og mælist nú með 9,3 pró­sent fylgi, sem er 2,6 pró­sentu­stigum meira en í síð­ustu kosn­ing­um. 

Sam­an­lagt er fylgi þess­arra þriggja flokka, sem virð­ast stefna á stjórn­ar­sam­starf með fjórða og jafn­vel fimmta flokknum eftir næstu kosn­ingar vorið 2021, 37,1 pró­sent. Það er 9,1 pró­sentu­stigi meira en þeir fengu 2017. 

Lík­legt að þessi blokk myndi fá 25-26 þing­menn miðað við þessa nið­ur­stöðu, og að teknu til­liti til þeirra atkvæða sem myndu falla niður dauð, sem þýðir að hún þyrfti að finna sér sam­starfs­menn sem væru með að minnsta kosti sex þing­menn. 

Bæði Vinstri græn (átta) og Fram­sókn­ar­flokkur (sjö) myndu geta gengið inn í slíkt sam­starf og myndað fjög­urra flokka rík­is­stjórn. 

Þing­mönnum myndi fækka um tvo

Í kosn­ing­unum 2016, sem áttu sér skamman aðdrag­anda vegna upp­reist æru-­máls­ins sem sprengdi rík­is­stjórn Bjarna Bene­dikts­sonar eftir átta mán­aða setu, komu tveir nýir flokkar inn á þing.

Annar þeirra var Mið­flokkur Sig­mundar Dav­íðs Gunn­laugs­sonar sem náði þeim ótrú­lega árangri að ná í fleiri atkvæði en nokkur flokkur hefur náð í fyrstu kosn­ingum sínum á lýð­veld­is­tím­an­um. Alls fékk Mið­flokk­ur­inn 10,7 pró­sent atkvæða.

Hinn flokk­ur­inn sem náði inn á þing þá í fyrsta sinn var Flokkur flokks­ins, sem fékk 6,9 pró­sent atkvæða og fjóra þing­menn kjörna. Þessir flokkar eru ansi nálægt hvorum öðrum í ýmsum áhersl­um, sem sést kannski best á því að þegar að Ólafur Ísleifs­son og Karl Gauti Hjalta­son voru reknir úr Flokki fólks­ins vegna Klaust­ur­máls­ins þá gengu þeir til liðs við Mið­flokk­inn. 

Flokkur Ingu Sæland mælist ekki inni á þingi samkvæmt nýjustu könnun MMR.
Mynd: Bára Huld Beck

Flokkur fólks­ins mælist nú með 4,1 pró­sent stuðn­ing sem myndi ekki duga til að ná inn manni á þing. Sam­eig­in­legt fylgi þess­ara tveggja flokka nú, 17,1 pró­sent, minna en það var í kosn­ing­unum 2017, þegar þeir fengu 17,8 pró­sent atkvæða. saman eru þeir í dag með ell­efu þing­menn en Mið­flokk­ur­inn myndi lík­ast til fá níu ef kosið yrði í dag. 

Sós­í­alista­flokk­ur­inn nær illa flugi

Sós­í­alista­flokkur Íslands náði inn manni í borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­unum í fyrra, fékk 6,4 pró­sent atkvæða í höf­uð­borg­inni, og hristi þannig vel upp í stjórn­mála­lands­lag­in­u.  

Hann hefur aldrei náð að með yfir fimm pró­sent fylgi í könn­unum MMR frá því að fyr­ir­tækið hóf að mæla fylgi flokks­ins á lands­vísu í febr­úar síð­ast­liðn­um. Á þeim tíma hefur fylgið mest farið upp í 4,5 pró­sent í apríl en er nú nálægt því minnsta sem hefur mæl­st, eða 2,9 pró­sent. Þó er vert að taka fram að Sós­í­alista­flokk­ur­inn hefur ekki kynnt til leiks fólks sem verður í fram­boði fyrir flokk­inn í næstu þing­kosn­ing­um, sem fram fara að óbreyttu vorið 2021, og því fyr­ir­liggj­andi að snögg breyt­ing geti orðið á stuðn­ingi við flokk­inn falli sá mann­skapur í kramið hjá þeim hópum sem fiskað verður eftir á vinstri­væng stjórn­mál­anna.

Könnun MMR var fram­kvæmd 12. - 19. ágúst 2019 og var heild­ar­fjöldi svar­enda 990 ein­stak­ling­ar, 18 ára og eldri.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar