Mynd: Pexels

Dauð atkvæði gætu gert stjórnarmyndun auðveldari

Stuðningur við ríkisstjórnina er kominn aftur undir 40 prósent, nú þegar kjörtímabilið er rúmlega hálfnað. Sameiginlegt fylgi ríkisstjórnarflokkanna dugar ekki til meirihluta en ekki vantar mikið upp á. Samfylking, Píratar og Viðreisn gætu myndað ríkisstjórn með Vinstri grænum eða Framsóknarflokki.

Stuðningur við ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, nú þegar kjörtímabilið er rúmlega hálfnað, er kominn aftur niður fyrir 40 prósent, samkvæmt nýjustu könnun MMR sem framkvæmd var daganna 12.-19. ágúst. Alls segjast 38,8 prósent landsmanna styðja ríkisstjórnina, sem er næst minnsti stuðningur sem hún hefur mælst með á kjörtímabilinu. Botninum náði hún í nóvember í fyrra þegar stuðningurinn mældist 37,9 prósent. 

Samanlagt fylgi Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks mælist nú 41 prósent. Flokkarnir þrír fengu 52,8 prósent atkvæða í kosningunum haustið 2017 og hafa því tapað 11,8 prósent af sameiginlegu fylgi sínu.

Þar munar mestu um að fylgi Sjálfstæðisflokks hefur fallið úr 25,2 prósent í 19,1 prósent, eða um 6,1 prósentustig. Vinstri græn hafa líka tapað miklu – um 47 prósent – af fylgi sínu frá síðustu þingkosningum. Þá fékk flokkur forsætisráðherrans 16,9 prósent atkvæða en mælist nú með 11,5 prósent stuðning. Það þýðir að 5,4 prósentustig hafa yfirgefið Vinstri græn.

Eini stjórnarflokkurinn sem er nálægt kjörfylgi er Framsóknarflokkurinn. Hann fékk 10,7 prósent í október 2017 en mælist nú með 10,4 prósent fylgi. Þær breytingar eru innan vikmarka.

Ekki langt frá meirihluta

Ríkisstjórnarflokkarnir eru þó ekki eins langt frá því að halda meirihluta á þingi og ætla mætti. Ef síðasta könnun MMR yrði kosninganiðurstaða myndu nefnilega 8,6 prósent atkvæða lenda hjá flokkum sem næðu ekki að koma manni inn í þing, og því myndi fjöldi þingmanna sem fylgi annarra flokka skilaði ýkjast samhliða. Flokkum sem sæti eiga á Alþingi myndi einnig fækka úr átta í sjö ef kosið yrði í dag. 

Könnun MMR 12.-19. ágúst 2019:

  • Fylgi Sjálfstæðisflokksins mældist nú 19,1 prósent og mældist 19,1 prósent í síðustu könnun.
  • Fylgi Samfylkingarinnar mældist nú 16,8 prósent og mældist 12,4 prósent í síðustu könnun.
  • Fylgi Miðflokksins mældist nú 13,0 prósent og mældist 12,4 prósent í síðustu könnnun.
  • Fylgi Vinstri grænna mældist nú 11,5 prósent og mældist 12,5 prósent í síðustu könnun.
  • Fylgi Pírata mældist nú 11,3 prósent og mældist 14,1 prósent í síðustu könnun.
  • Fylgi Framsóknarflokksins mældist nú 10,4 prósent og mældist 8,3 prósent í síðustu könnun.
  • Fylgi Viðreisnar mældist nú 9,3 prósent og mældist 9,9 prósent í síðustu könnun.
  • Fylgi Flokks fólksins mældist nú 4,1 prósent og mældist 6,8 prósent í síðustu könnun.
  • Fylgi Sósíalistaflokks Íslands mældist nú 2,9 prósent og mældist 3,4 prósent í síðustu könnun.
  • Fylgi annarra flokka mældist 1,6 prósent samanlagt.

Miðað við niðurstöðu ágústkönnunar MMR myndu stjórnarflokkarnir fá 28-29 þingmenn og þyrftu ekki að bæta miklu við sig til að ná 32 manna meirihluta. Í ljósi þess að sérstaklega Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa tilhneigingu til að reka árangursríkar kosningabaráttur, og geta nýtt vel smurðar kosningavélar sínar til að hala inn atkvæði og þátttöku í aðdraganda slíkra, er slík viðbót fjarri því óraunhæf.

Næst stærsti flokkurinn en enginn turn

Sá flokkur sem hefur bætt mestu fylgi við sig frá kosningum, miðað við nýjustu könnun MMR, er Samfylkingin. Fylgi hans hefur aukist um 4,7 prósentustig á þeim tæpu tveimur árum sem liðin eru frá kosningum. Nú mælist fylgið 16,8 prósent, eða 39 prósent meira en síðast þegar kosið var. Þegar horft er ári lengur aftur í tímann, til haustkosninganna 2016, er viðsnúningur Samfylkingarinnar enn meiri. Þá var flokkurinn nánast fallinn af þingi með 5,7 prósent atkvæða. Eini kjördæmakjörni þingmaður flokksins í þeim kosningum var Logi Einarsson, sem tók við formennsku í Samfylkingunni að þeim loknum, en með honum komust tveir jöfnunarþingmenn inn. Frá þeim tíma hefur fylgi Samfylkingarinnar því þrefaldast. 

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Mynd: Bára Huld Beck

Flokkurinn er þó langt frá þeim stað sem hann var árin eftir að hann var stofnaður árið 200 til að vera stjórnmálaturn vinstri- og jafnaðarmanna sem átti að veita Sjálfstæðisflokknum mótvægi. Í kosningunum 2003 fékk Samfylkingin til að mynda 31 prósent atkvæða og 29,8 prósent í fyrstu eftirhrunskosningunum, vorið 2009. Síðan þá hefur fylgi flokksins, sem þó mælist með því hæsta sem það hefur mælst í lengri tíma, næstum helmingast. 

Gætu myndað fjögurra flokka stjórn

Píratar hafa, líkt og Samfylkingin, rokkað umtalsvert í könnunum á kjörtímabilinu. Það fylgi sem stundum kemur til flokkanna tveggja, en fer síðan frá þeim skyndilega, virðist þó að mestu flakka á milli þeirra. Píratar mælast til að mynda nú með 2,8 prósentustiga minna fylgi en í júlí, á sama tíma og Samfylkingin bætir vel við sig. Píratar mælast nú með 11,3 prósent fylgi, sem er 2,1 prósent meira en flokkurinn fékk upp úr kjörkössunum 2017.

Viðreisn hefur líka bætt við sig á kjörtímabilinu og mælist nú með 9,3 prósent fylgi, sem er 2,6 prósentustigum meira en í síðustu kosningum. 

Samanlagt er fylgi þessarra þriggja flokka, sem virðast stefna á stjórnarsamstarf með fjórða og jafnvel fimmta flokknum eftir næstu kosningar vorið 2021, 37,1 prósent. Það er 9,1 prósentustigi meira en þeir fengu 2017. 

Líklegt að þessi blokk myndi fá 25-26 þingmenn miðað við þessa niðurstöðu, og að teknu tilliti til þeirra atkvæða sem myndu falla niður dauð, sem þýðir að hún þyrfti að finna sér samstarfsmenn sem væru með að minnsta kosti sex þingmenn. 

Bæði Vinstri græn (átta) og Framsóknarflokkur (sjö) myndu geta gengið inn í slíkt samstarf og myndað fjögurra flokka ríkisstjórn. 

Þingmönnum myndi fækka um tvo

Í kosningunum 2016, sem áttu sér skamman aðdraganda vegna uppreist æru-málsins sem sprengdi ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar eftir átta mánaða setu, komu tveir nýir flokkar inn á þing.

Annar þeirra var Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem náði þeim ótrúlega árangri að ná í fleiri atkvæði en nokkur flokkur hefur náð í fyrstu kosningum sínum á lýðveldistímanum. Alls fékk Miðflokkurinn 10,7 prósent atkvæða.

Hinn flokkurinn sem náði inn á þing þá í fyrsta sinn var Flokkur flokksins, sem fékk 6,9 prósent atkvæða og fjóra þingmenn kjörna. Þessir flokkar eru ansi nálægt hvorum öðrum í ýmsum áherslum, sem sést kannski best á því að þegar að Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason voru reknir úr Flokki fólksins vegna Klausturmálsins þá gengu þeir til liðs við Miðflokkinn. 

Flokkur Ingu Sæland mælist ekki inni á þingi samkvæmt nýjustu könnun MMR.
Mynd: Bára Huld Beck

Flokkur fólksins mælist nú með 4,1 prósent stuðning sem myndi ekki duga til að ná inn manni á þing. Sameiginlegt fylgi þessara tveggja flokka nú, 17,1 prósent, minna en það var í kosningunum 2017, þegar þeir fengu 17,8 prósent atkvæða. saman eru þeir í dag með ellefu þingmenn en Miðflokkurinn myndi líkast til fá níu ef kosið yrði í dag. 

Sósíalistaflokkurinn nær illa flugi

Sósíalistaflokkur Íslands náði inn manni í borgarstjórnarkosningunum í fyrra, fékk 6,4 prósent atkvæða í höfuðborginni, og hristi þannig vel upp í stjórnmálalandslaginu.  

Hann hefur aldrei náð að með yfir fimm prósent fylgi í könnunum MMR frá því að fyrirtækið hóf að mæla fylgi flokksins á landsvísu í febrúar síðastliðnum. Á þeim tíma hefur fylgið mest farið upp í 4,5 prósent í apríl en er nú nálægt því minnsta sem hefur mælst, eða 2,9 prósent. Þó er vert að taka fram að Sósíalistaflokkurinn hefur ekki kynnt til leiks fólks sem verður í framboði fyrir flokkinn í næstu þingkosningum, sem fram fara að óbreyttu vorið 2021, og því fyrirliggjandi að snögg breyting geti orðið á stuðningi við flokkinn falli sá mannskapur í kramið hjá þeim hópum sem fiskað verður eftir á vinstrivæng stjórnmálanna.

Könnun MMR var framkvæmd 12. - 19. ágúst 2019 og var heildarfjöldi svarenda 990 einstaklingar, 18 ára og eldri.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar