Morðið í Miðausturlöndum sem orsakað gæti styrjöld
Hann er sagður arkítekt stríðsins í Sýrlandi, vera hugmyndasmiður utanríkisstefnu Írans og áhrifamaður í stjórnmálum um öll Miðausturlönd. Nú er hann allur.
Þegar Qassem Suleimani lenti á einkaþotu í Bagdad eftir flugferð frá Damaskus um miðnætti á föstudag biðu tveir bílar hans og lífvarða hans á flugbrautinni. Hann hafði oftsinnis komið til slíkra heimsókna frá heimalandinu Íran og ekkert virtist með öðrum hætti nú en áður. En nokkrum mínútum síðar var hann, einn valdamesti maður Miðausturlanda, allur. Er bílarnir tveir höfðu ekið skamman spöl voru þeir sprengdir í loft upp með þeim afleiðingum að allir sem í þeim voru létust. Annar valdamikill maður, sá valdamesti á Vesturlöndum og jafnvel í heiminum öllum, hafði staðið á golfvelli hinum megin á hnettinum og fyrirskipað árásina.
En hverfum aðeins til baka. Hvað hafði átt sér stað sem endaði með þessari árás? Og hver er hann, hershöfðinginn frá Íran, sem þótti slík ógn að réttlætanlegt var að fella hann með þessum hætti?
Það hefur lengi andað köldu milli Írans og Bandaríkjanna. Og oft verulega köldu þótt þíða hafi verið í samskiptunum inn á milli. Spenna milli stjórnvalda landanna tveggja hefur undanfarið magnast á ný, sérstaklega í kjölfar þess að Donald Trump dró Bandaríkin út úr kjarnorkusamningi stórveldanna við Írani fyrir tæpum tveimur árum. Samningurinn var gerður árið 2015 er Barack Obama sat á forsetastóli og Trump hefur sagt hann „versta samning allra tíma“.
Skömmu fyrir árásina í Bagdad á föstudag hafði ýmislegt dregið til tíðinda þó að það færi hvorki mjög hátt né væri almennt talið tilefni til mikilla viðbragða. En atburðarásin varð hröð. Og eins og verða vill í átökum milli þjóða þá sér ekki fyrir endann á henni.
CCTV of missile attack on Iranian general Suleimani pic.twitter.com/sjXx7uFmxm
— A Nasir Khwaja (@ANasirKhwaja) January 3, 2020
Við skulum byrja 250 kílómetrum norður af Bagdad þann 27. desember á síðasta ári. Þann dag var gerð eldflaugaárás á herstöð í Kirkuk, herstöð þar sem bandarískir og íraskir hermenn halda til og berjast gegn vígamönnum Ríkis íslams sem enn er að finna í nágrenninu. Einn verktaki bandaríska hersins, sem var túlkur, féll í árásinni og nokkrir særðust.
Í kjölfarið gerðu Bandaríkjamenn árásir á búðir skæruliða í landinu, hóps sem nýtur stuðnings Írans, og felldu 25. Þeim árásum var mótmælt á nýársdag og brutust stuðningsmenn skæruliðanna inn fyrir hlið bandaríska sendiráðsins i Bagdad, kveiktu í og kröfðust þess að hermenn og stjórnarerindrekar myndu hypja sig.
Áður en þessar árásir og viðbrögð við þeim áttu sér stað hafði auðvitað margt gerst sem einnig á sinn þátt í því hvernig málin hafa nú þróast. Suleimani var langt frá því óþekkt stærð þó svo að nafn hans hafi ekki verið á vörum alls almennings.
Þar til nú.
Bandarísk stjórnvöld hafa í fleiri ár haft áhyggjur af honum og hans vaxandi völdum. Þau voru þess fullviss að hann væri einn helsti hugmyndasmiður utanríkisstefnu Írans og áhrifamaður í pólitísku landslagi víða á Miðausturlöndum.
En aftur til föstudagsins örlagaríka.
Á flugvellinum í Badgad tók Abu nokkur Mahdi al-Muhandis á móti Suleimani. Þeir voru góðkunningjar enda Muhandis leiðtogi Kata‘ib Hezbollah, vopnaðra íraskra sveita sem njóta stuðnings Írana. Það voru einmitt þær sem gerðu árásina á herstöðina í Kirkuk og stuðningsmenn þeirra sem höfðu umkringt bandaríska sendiráðið í Bagdad til að hefna fyrir loftárásir Bandaríkjamanna.
Upplýsingum lekið
Þeir félagar höfðu um nóg að tala, eins og fjallað er um í fréttaskýringu New York Times, ekki aðeins það sem á undan var gengið í samskiptunum landa þeirra við Bandaríkin heldur einnig vaxandi óánægju almennings í garð íraskra stjórnvalda, m.a. vegna atvinnuleysis og efnahagsþrenginga. Mótmæli höfðu verið á götum úti og í hópi mótmælenda voru þeir sem vildu minnka áhrif íranskra stjórnvalda í Írak.
Blaðamaður The Guardian lýsir atburðarásinni með eftirfarandi hætti:
Suleimani og Muhandis settust inn í annan bílinn og lífverðirnir í hinn. Bílarnir komust ekki lengra en út að enda flugbrautarinnar. Nokkrum dögum fyrr hafði upplýsingum um fyrirhugaða ferð Suleimanis nefnilega verið lekið og við komuna til Bagdad fylgdist amerískur MQ-9 dróni með ferðum þeirra, beintengdur við bandaríska varnarmálaráðuneytið og leyniþjónustuna.
Dróninn var látinn skjóta tveimur flugskeytum að bílnum sem Suleimani og Muhandis voru í og varð hann alelda á svipstundu. Þriðja flugskeytinu var skotið á bíl lífvarðanna og hlaut hann sömu örlög. Hönd Suleimanis er talin sjást á myndum af árásinni. Hún þekkist af hring sem hann ávallt bar.
En hvers vegna var þessi árás gerð núna?
Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa varið árásina með þeim orðum að hún hafi verið óhjákvæmileg til að koma í veg fyrir „yfirvofandi árás“ gegn Bandaríkjunum, eins og utanríkisráðherrann Mike Pompeo orðaði það.
Á síðustu árum hafa Bandaríkjamenn farið í nokkrar áhættusamar hernaðaraðgerðir til að fella einstaklinga sem þeir álíta ógna þjóðaröryggi lands síns. Þeirra á meðal eru árásir á leiðtoga hryðjuverkasamtaka á borð við Al-Qaeda og Ríki íslams. En stjórnmálaskýrendur segja morðið á Suleimani af nokkuð öðrum toga og setji samskipti Bandaríkjanna og Miðausturlanda á allt annan stað en hingað til. Nú er ráðist gegn embættismanni ríkis og það hernaðarlega sterks ríkis. Enda hefur Ayatollah Ali Khamenei, æðsti trúarleiðtogi Írans, hótað að leita hefnda.Suleimani, sem ólst upp í fátækt og fékk litla formlega menntun, var í áratugi einn áhrifamesti maður Írans, bæði í hernaðarlegu og pólitísku tilliti. Hann gekk til liðs við Íranska byltingarvörðinn (e. Islamic Revolutionary Guards Corps) fljótlega eftir stofnun hans í kjölfar írönsku byltingarinnar árið 1979 og tók við Quds-sérsveitunum á tíunda áratug síðustu aldar. Þær sveitir störfuðu við hlið shíta-skæruliða í Írak eftir innrás Bandaríkjanna árið 2003. Hann er svo sagður hafa verið lykilmaður í þjálfun herja bandamanna, m.a. Íraks og Sýrlands.
Arkítektinn að Sýrlandsstríðinu
Sem yfirmaður Quds-sveitanna hafði hann yfirumsjón með því að framfylgja leynilegum aðgerðum Írana á erlendri grund. Hann studdi hryðjuverkastarfsemi víða, aðstoðaði m.a. við að undirbyggja starfsemi Hezbollah í Líbanon og kom að yfirtöku Hamas á Gaza-svæðinu. Síðustu ár var hann þekktastur fyrir að ráðast gegn Ríki íslams, m.a. í þeim tilgangi að styrkja stöðu ríkisstjórnar Bashar al-Assads, forseta Sýrlands.
Suleimani var með dyggum stuðningi sínum við Assad af mörgum talinn arkitektinn að í hinu hrottafengna stríði þar í landi. Þá átti hann einnig sinn þátt í stríðsátökunum í Jemen. Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur sakað hann og skæruliða tengda Íran um að hafa drepið mörg hundruð bandaríska hermenn í Írak.
Þrátt fyrir þessi miklu áhrif og aðgerðir Suleimanis í Miðausturlöndum létu fyrri forsetar Bandaríkjanna, George W. Bush og Barack Obama, það vera að ráðast gegn honum.
As a former Shia militia analyst who served multiple tours in Iraq and worked at the White House under both Presidents Bush and Obama, and later at the Pentagon, I participated in countless conversations on how to respond to Qassem Soleimani’s violent campaigns across the region.
— Rep. Elissa Slotkin (@RepSlotkin) January 3, 2020
Elissa Slotkin, sem vann sem greinandi hjá CIA og varnarmálaráðuneytinu, bæði undir stjórn Bush og Obama, segist á sínum tíma hafa átt fjölmörg samtöl um hvernig ætti að bregðast við ofbeldisfullum aðgerðum Suleimanis sem hafi átt sinn þátt í því að valda óstöðugleika um öll Miðausturlönd. Niðurstaðan hafi ætíð verið sú að árás á hann myndi kalla á hefndir og mögulega draga Bandaríkjamenn inn í frekari átök. Það hafi einfaldlega ekki þótt réttlætanlegt.
Stefna Bandaríkjanna í samskiptum við Íran breyttist nokkuð undir stjórn Obama. Er kjarnorkusamningnum var svo náð árið 2015 var einfaldlega orðið nokkuð fjarstæðukennt að ráðast gegn einum helsta embættismanni landsins. Þegar Trump dró Bandaríkin svo út úr kjarnorkusamningnum í maí 2018 breyttist því margt.
Maður kemur í manns stað
Ali Vaez, sérfræðingur hjá hugveitunni Crisis Group, segist efast um að áhrif þess að fella Suleimani verði þau sem bandarísk yfirvöld vonist eftir. Í samtali við Observer bendir hann á að ríkisstjórn Bandaríkjanna skilgreini Íranska byltingarvörðinn sem hryðjuverkasamtök. Það var gert í apríl í fyrra. Það að fella leiðtoga Quds-sveitanna, sem eru áhrifamesta deildin innan byltingavarðarins, þýði ekki endilega að þær verði óstarfhæfar. „Ég held að það verði erfitt að finna mann í stað [Suleimanis] en það er ekki ómögulegt,“ segir Vaez.
David Schanzer, sérfræðingur Duke-háskóla í hryðuverkastarfsemi, er einn þeirra sem telur að morðið á Suleimani sýni ekki styrk Trumps og hans bandamanna heldur þvert á móti veikleika. „Ákvörðun Trumps að magna fjandsemi með því að drepa Qassem Suleimani sýnir að stefna hans í samskiptum við Íran misheppnaðist.“
Og viðbrögðin í Íran og Írak hafa ekki látið á sér standa. Á laugardag fjölmennti fólk á götum Bagdad og mótmælti aðgerðum Bandaríkjanna harðlega. Í dag streymdu þúsundir út á götur í Teheran vegna útfarar Suleimanis. Bandaríkjamenn í Írak hafa verið hvattir til að yfirgefa landið og verð á olíu hækkaði skarpt eftir árásina. Svar bandaríska varnarmálaráðuneytisins hefur m.a. verið það að tilkynna að hermönnum í Miðausturlöndum verði fjölgað um 3.500. Íranir hafa hótað hefndum og íraska þingið vill herafla Bandaríkjanna burt frá landinu.
Margir óttast stríð.
The United States just spent Two Trillion Dollars on Military Equipment. We are the biggest and by far the BEST in the World! If Iran attacks an American Base, or any American, we will be sending some of that brand new beautiful equipment their way...and without hesitation!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) January 5, 2020
„Það er ekki hægt að ofmeta áhrifin,“ sagði David Petraeus, fyrrverandi yfirmaður leyniþjónustunnar CIA, og fyrrverandi hershöfðingi í Írak. „Brugðist verður við í Írak og líklega í Sýrlandi og annars staðar á svæðinu.“
Trump hefur svarað með sínum hætti. Segist ekki telja það „góða hugmynd“ hjá Íran að fara í stríð. Slíkt myndi ekki vara lengi. „Vil ég [fara í stríð]? Nei. Ég vil frið. Ég kann vel við frið.“