Mynd: EPA

Með brunasár á smáum fótum

Mörg dýr hafa fengið skjól í fangi manna í hamfaraeldunum í Ástralíu. Margfalt fleiri hafa farist og þeirra á meðal eru þúsundir kóalabjarna, sem eru ekki aðeins sérlega krúttlegir heldur mikilvægur hlekkur í þegar viðkvæmu vistkerfi.

Einn kom að húsi í úthverfi og fékk sér að drekka við hlið heim­il­is­hunds­ins. Annar fór upp í bíl og saup á vatns­flösku og sá þriðji skreið í átt að hjól­reiða­manni og þáði sopa úr brúsa.

Þau eru all­nokkur mynd­skeiðin af kóala­björnum í ofsa­hita og ham­fara­eldum sem fólk og fjöl­miðlar deila nú á sam­fé­lags­miðl­um. Þessar litlu og krútt­legu skepn­ur, sem eru reyndar ekki bjarn­dýr heldur poka­dýr, hafa orðið að ­tákn­mynd gróð­ur­eld­anna miklu í Ástr­al­íu. Talið er að nokkur þús­und þeirra hafi farist síð­ustu mán­uði, jafn­vel um 30 þús­und, sem hefur ýtt enn frekar und­ir­ við­kvæma stöðu þeirra. Kóala­birnir hafa reyndar lengi verið tákn lands­ins, ­þjóð­ar­dýrið og lokkað að ferða­menn í tugi ára, enda nátt­úru­leg búsvæði þeirra hvergi ann­ars staðar að finna í heim­in­um.

Það er vart hægt að hugsa um Ástr­alíu án þess að hugs­a ­sam­tímis um kengúrur og kóala­birni, svo stórt er hlut­verk þeirra í ímynd lands­ins víð­feðma í suðri. Báðar þessar teg­undir þykja sér­lega mynd­ræn­ar, ­upp­á­tækja­samar og skemmti­legar svo ekki sé talað um óvenju­leg­ar. 

Kengúra með­ brjóst­kassa eins og þrek­inn karl­mað­ur. Kóala­björn að gæða sér á lauf­blöð­um  með unga sinn á bak­inu. Ljós­myndir og ­mynd­skeið sem okkur hafa birst í gegnum árin hafa kallað fram bros, fliss og hlát­ur.  

Það eru aðrar til­finn­ingar sem mynd­irnar vekja hjá mörgum nú um stund­ir. Kengúra á stökki beint fyrir framan stór­kost­legt eld­haf. Kóala­björn að skýla afkvæmi sínu fyrir log­unum og brennur því sjálfur á fót­un­um. Hræ ­kengúru eins og kola­moli flæktur í girð­ingu. Hræ kóala­bjarnar eins og ­stein­gerv­ingur sam­gró­inn sót­svartri trjá­grein. Mjúki, fal­legi feld­ur­inn svið­inn. Loðnu eyrun hár­laus og líkj­ast helst steiktum lauf­blöð­um.

„Þetta hrylli­lega ár þjást allar teg­und­ir. Það er virki­lega ógn­væn­leg­t,“ segir ástr­alski líf­fræð­ing­ur­inn Stephen Brend. „Okkur mönn­unum er heitt, dýr­unum er heitt. Þetta er martröð.“

Kingsley Dixon, vist­fræð­ingur við Curt­in-há­skóla í Pert­h, ­segir hættu á útrým­ingu hafa auk­ist. „Margar teg­undir sem voru ekki í hættu eru nú í útrým­ing­ar­hættu. [...] Þetta er líf­fræði­leg úrslita­orr­usta sem sjald­an hefur áður sést.“

Við dögun nýs árs, nýs ára­tug­ar, hóf fréttum af ham­för­un­um ­mann­skæðu í Ástr­alíu að rigna yfir heims­byggð­ina. Eld­arnir hafa heimt að minnsta kosti 24 manns­líf, þar af fjög­urra slökkvi­liðs­manna. Yfir 2.000 heim­il­i hafa eyði­lagst – lík­lega eru þau mun fleiri. Heilu bæirnir munu þurrkast út. Land­svæði á stærð við allt Ísland hefur brunnið og sum­arið rétt nýhafið þarna hinum megin á hnett­in­um. Því er nú spáð að eld­arnir mun­i loga í marga mán­uði til við­bót­ar.

Reynt hefur verið að slá tölu á fjölda þeirra dýra sem hafa týnt lífi í eld­unum og hit­unum síð­ustu mán­uði. Það er erfitt en sér­fræð­ing­ar hafa þó sagt að lík­lega sé talan á bil­inu hálfur til einn millj­arð­ur.

Fágætt dýra­líf

Í Ástr­alíu er að finna margar svo­kall­aðar ein­lendar dýra­teg­und­ir­, þ.e. dýr sem finn­ast ekki ann­ars stað­ar. Það skýrist af ein­angrun lands­ins um millj­ónir ára. Ýmsar slöng­ur, kengúr­ur, kóala­birnir og nef­dýr eru þar á með­al­. Þetta á líka við um margar trjá­teg­undir og aðrar plöntur þó að þeim hafi á síð­ari tímum verið dreift viða um heim.

Kóalabirnir eru einfarar. Þeir eru frekar smágerðir, verða 60-80 sentímetrar á hæð og um 14-17 kíló að þyngd. Þeir eru jurtaætur og éta lauf í kílóavís á hverjum degi.
EPA

Margar dýra­teg­und­irnar í Ástr­alíu eru á válista og sum­ar þeirra metnar í útrým­ing­ar­hættu. „Það er eng­inn sem veit á þess­ari stundu hvort ein­hverjar dýra- eða plöntu­teg­undir muni hverfa alveg vegna skóg­ar­eld­anna,“ ­segir Trausti Bald­urs­son, for­stöðu­maður vist­fræði- og ráð­gjaf­ar­deild­ar­ ­Nátt­úru­fræði­stofn­un­ar, í sam­tali við Kjarn­ann.

Kóala­birn­irnir eru þar á meðal en einnig aðrar teg­und­ir­, m.a. skor­dýr og skrið­dýr. „Það eru sum sé ekki aðeins stóru dýrin sem all­ir þekkja sem eru í hættu, þó að þau fái mesta athygli í fjöl­miðl­um, heldur mörg önn­ur,“ bendir Trausti á.

Stað­bundnir stofnar í hættu

Skóg­ar­eldar eru algengir í Ástr­alíu en eru óvenju miklir núna og margir velta því fyrir sér hvort að hætta sé hrein­lega á að ákveðn­ar ­teg­undir dýra deyi út. Trausti segir að var­lega verði að fara í slík­ar vanga­velt­ur. Margt sé óljóst nú þegar eld­arnir geisa enn. Hann segir að ákveð­in hætta sé fyrir hendi, sér­stak­lega hvað varðar stað­bundna stofna fágætra dýra- eða plöntu­teg­unda. „Margir stað­bundnir stofnar gætu tap­ast þótt teg­undin sjálf sé ekki í hættu. En þetta myndi valda því að fjöl­breytni minnkar sem gæti leitt til sér­stakrar þró­unar sem erfitt er að spá fyrir um.“

Líf­fræði­legur fjöl­breyti­leiki Ástr­alíu er einn sá mesti sem ­fyr­ir­finnst á jörð­inni og yfir 80% af dýra­teg­undum lands­ins er hvergi ann­ar­s ­staðar að finna, þar á meðal 244 spen­dýra­teg­und­ir. Dýra­ríkið þar var við­kvæmt áður en ham­fara­eld­arnir hófust og 34 teg­undir spen­dýra hafa dáið út á síðust­u 200 árum.

 Þó að dýrin hafi ­þró­ast þar í millj­ónir ára, líkt og Trausti bendir á, og séu því búin að aðlagast vel sum­ar­hit­um, eiga þau mörg hver sér­lega erfitt upp­dráttar nú þegar hvert hita­metið af öðru hefur fallið og for­dæma­lausir þurrkar hafa geisað mán­uð­u­m ­sam­an. Það eru sum sé ekki aðeins eld­arnir sem eru að strá­fella dýr­in. Þá er enn ein hættan fyrir hendi; eyði­legg­ing búsvæða sem mun leiða til sult­ar.

Hvers vegna flýja kóala­birnir ekki?

Ljóst er að mörg dýr hafa bein­línis orðið eldstungum að bráð. Eðli­leg spurn­ing hefur vaknað hjá almenn­ingi: Geta dýrin ekki bara flú­ið?

Í mörgum til­vikum er það vissu­lega til­fellið. Fuglar og stór ­dýr á borð við kengúrur geta lagt á flótta og gera það ef aðstæður leyfa. En margar teg­undir hafa ekki sömu hreyfi­getu og aðrar eru alger­lega háðar skóg­un­um og fara því hvergi.

Kóala­birnir eru í þeim hópi sem á erfitt með að flýja. ­Skýr­ing­arnar eru nokkr­ar. Við eðli­legar aðstæður kunna þeir best við sig í krónum tröllatrjánna. Þar geta þeir setið tímunum saman og étið lauf sem er þeirra helsta fæða. Efna­skipti þeirra eru gríð­ar­lega hæg og þeir sofa 16-20 ­klukku­stundir á sól­ar­hring. Þeir hreyfa sig af þessum sökum mjög hægt og þekkja ekk­ert annað en skóg­inn og trén sem þeir halda til í, skóg­inn sem veitir þeim ­skjól og fæð­u. 

Kóalabjörn á teikningu frá því í lok nítjándu aldar.

Talið er að dýr skyld kóala­björnum hafi orðið til á meg­in­landi Ástr­alíu fyrir um 45 millj­ónum ára. Elstu stein­gerv­ingar sem fund­ist hafa eru 25 milljón ára gaml­ir. Ástr­alía varð með tím­anum þurr­ari, gróð­ur­far ­þró­að­ist og trölla­tré (eucalyptus) urðu ráð­andi en þau eru einmitt helsta fæða kóala­bjarna nútím­ans.

Frum­byggjar Ástr­alíu er taldir hafa komið þangað fyrir um 60 ­þús­und árum. Kóala­birn­ir, rétt eins og öll önnur dýr sem fund­ust í land­in­u, voru mik­il­vægur hluti af menn­ingu þeirra, koma fyrir í mörgum þjóð­sögum og á hella­mynd­um. Frum­byggjar veiddu kóala­birni sér til matar en nóg var af þeim alla tíð eða þar til Evr­ópu­búar komu þangað árið 1788.

Ekki björn heldur poka­dýr

John Price var fyrsti Evr­ópu­bú­inn sem greindi frá til­vist kóala­bjarna. Árið 1798 fór hann um Blue Mounta­ins, skammt frá þeim stað þar sem ­Sydney er í dag, og lýsti síðar upp­lifun sinni af því er kóala­björn varð á veg­i hans. Í fyrstu var talið að um bjarn­ar­teg­und væri að ræða en síðar var ljóst að hann til­heyrði hinum sér­stæðu poka­dýrum sem fæða óþroskuð afkvæmi en bera þau svo í húð­poka á lík­ama sínum í margar vikur og jafn­vel mán­uði.



Unginn er aðeins um 1 gramm að þyngd er hann fæðist og skríður ofan í poka móður sinnar þar sem hann dvelur í marga mánuði.
EPA

En af hverju heitir hann kóala­björn?

Talið er að „kóala“ sé dregið af orð­unum „ekk­ert vatn“ á einu af tungu­málum frum­byggja. Sú nafn­gift er sprottin útfrá því að þessi dýr drekka sjaldan vatn heldur fá þann vökva sem þau þurfa frá safa­ríkum blöð­u­m tröllatrjáa. Nú þegar skóg­arnir brenna hafa þau þó nálg­ast menn og sótt í vatn. Þorst­inn er orð­inn lífs­hættu­leg­ur.

Strax við upp­haf nýlendu­tím­ans var haf­ist handa við að ryðja ­skóga. Þar með hófst aðþreng­ing að búsvæðum dýr­anna. Evr­ópsku land­nem­arnir sáu verð­mæti í feldi kóala­bjarn­ar­ins og hófu miklar veið­ar. Upp frá því og þar til á fjórða ára­tug síð­ustu aldar voru millj­ónir kóala­bjarna drepnar og feld­ur þeirra seld­ur.  

Árið 1924 var þá ekki lengur að finna í fylk­in­u ­Suð­ur­-Ástr­alíu og fá dýr voru eftir í Nýja Suð­ur­-Wa­les. Í Vikt­or­íu-­fylki vor­u lík­lega aðeins um 500 dýr. Stór­tækar veiðar voru oft stund­aðar þar sem mörg hund­ruð þús­und dýr voru felld á nokkrum vik­um.

Vernd­uðu dýrið en ekki heim­kynnin

En það kom að því að almenn­ingi stóð ekki lengur á sama og krafð­ist þess að þessum veiðum yrði hætt. Á fjórða ára­tug síð­ustu aldar frið­uð­u ­stjórn­völd allra fylkja lands­ins kóala­björn­inn. En búsvæði hans voru ekki friðuð og skóg­areyð­ingin hélt áfram sem sem hefur síð­ustu ár haft hvað mest á­hrif á afkomu hans.

Það er, eins og Trausti hjá Nátt­úru­fræði­stofnun seg­ir, erfitt að slá því föstu hversu margir kóala­birnir hafa drep­ist í eld­un­um. Heyrst hafa ­tölur frá 8-30 þús­und í fjöl­miðl­um. Þeirra helstu búsvæði eru í Nýja ­Suð­ur­-Wa­les og þar hafa eld­arnir verið hvað mest­ir. Sér­fræð­ingar hafa full­yrt að á Kengúru-eyju, þriðju stærstu eyju Ástr­al­íu, hafi þús­undir kengúra og kóala­bjarna farist en meira en þriðj­ungur eyj­unnar hefur brunn­ið. 

Hlúð að slösuðum kóalabirni í dýraathvarfi. Birnirnir eru margir með brunnið trýni og einnig brunasár á fótunum.
EPA

Mörg félaga­sam­tök og ein­stak­lingar hafa lagt sitt af mörk­um til að bjarga slös­uðum dýr­um. Í þeirra hópi er maður í bænum Mallacoota sem ­bjarg­aði níu kóala­björnum og nágrannar hans eru nú að hjálp­ast að við að byggja ­skýli fyrir þá. Aðrir hafa skilið eftir vatn og fæðu á víða­vangi fyrir dýr­in.

Kona ein, sem missti bústað sem hún átti norður af Sydney, ­segir að eigna­tjónið sé eitt en að hjálpa öðrum sé mik­il­væg­ara. Hún hef­ur skilið eftir fæðu handa villtum dýrum og hefur einnig tekið nokkur þeirra að ­sér.

Já, þeir eru krútt­legir með sín loðnu eyru á stóru höfði og afkvæmi sín á bak­inu hátt uppi í trján­um. En hlut­verk þeirra er þó miklu stærra en að gleðja okkur mann­fólk­ið. Þeir eru mik­il­vægur hlekkur í vist­kerf­inu.

Mest eru áhrif þeirra í skógum tröllatrjánna. Fyrir komu ­Evr­ópu­búa voru þeir þar í millj­óna vís en nú telja þeir aðeins nokkra tug­i ­þús­unda. Þeir eyða mestum tíma sínum í trjánum sof­andi eða að éta lauf og hafa þannig hlut­verki að gegna við að grisja skóg­inn, við­halda heil­brigði hans og koma sól­ar­ljósi í gegnum trjákrón­urnar niður á skóg­ar­botn­inn.

Á regn­tím­anum er úrgangur þeirra mik­il­vægur áburður og hjálpar til við vöxt og end­ur­nýjun gróð­urs. Þá éta ýmis smá­dýr einnig skít­inn. Fleiri teg­undir gegna svip­uðu hlut­verki en fæstar þeirra geta klifrað jafn hátt og kóala­birn­irn­ir. Vera þeirra í trjákrón­unum hefur einnig önnur áhrif: Þeir missa lauf og brjóta greinar sem falla til jarðar og eru fæða fyrir skor­dýr. Er þeir drep­ast éta svo önnur dýr hræ þeirra.

Sjálfboðaliðar og dýralæknar reyna að bjarga öllum þeim kóalabjörnum sem þeir geta. Um allan heim prjónar nú fólk vettlinga eða sokka til að setja á fætur þeirra.
EPA

Þessi hringrás lífs­ins í vist­kerf­inu hefur raskast af ­manna­völdum síð­ustu ára­tugi. Skóg­arnir hafa verið felldir til að rýma fyr­ir­ land­bún­aði af miklum móð. Gróð­ur­eldar eru svo ein helsta ógn kóala­bjarn­anna nú um ­stund­ir. Þetta sum­arið hafa eld­arnir verið sér­lega miklir og litlu, loðn­u ­poka­dýr­in, sem haldið hafa til í skóg­unum í þús­undir ára, eiga í vök að verj­ast.

„Öll dýr sem eru stað­bundin eru í mik­illi hætt­u,“ segir ástr­alski líf­fræð­ing­ur­inn Sarah Legge. „Mynd­irnar sem við sjáum af þjáðum kóala­björnum er hræði­leg­ar. En þeir eru útbreidd­ari [en margar aðrar teg­undir í Ástr­al­íu] svo að þeir eru ekki á barmi útrým­ingar á sama hátt og margar aðrar teg­und­ir.“

Kóala­birnir eru á válista, þar eru þeir flokk­aðir sem „við­kvæm ­teg­und“ en ekki sagðir í útrým­ing­ar­hættu, enn sem komið er. Hvort að það mun­i breyt­ast í kjöl­far ham­fara­eld­anna nú á eftir að koma í ljós.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar