Mynd: EPA

Með brunasár á smáum fótum

Mörg dýr hafa fengið skjól í fangi manna í hamfaraeldunum í Ástralíu. Margfalt fleiri hafa farist og þeirra á meðal eru þúsundir kóalabjarna, sem eru ekki aðeins sérlega krúttlegir heldur mikilvægur hlekkur í þegar viðkvæmu vistkerfi.

Einn kom að húsi í úthverfi og fékk sér að drekka við hlið heimilishundsins. Annar fór upp í bíl og saup á vatnsflösku og sá þriðji skreið í átt að hjólreiðamanni og þáði sopa úr brúsa.

Þau eru allnokkur myndskeiðin af kóalabjörnum í ofsahita og hamfaraeldum sem fólk og fjölmiðlar deila nú á samfélagsmiðlum. Þessar litlu og krúttlegu skepnur, sem eru reyndar ekki bjarndýr heldur pokadýr, hafa orðið að táknmynd gróðureldanna miklu í Ástralíu. Talið er að nokkur þúsund þeirra hafi farist síðustu mánuði, jafnvel um 30 þúsund, sem hefur ýtt enn frekar undir viðkvæma stöðu þeirra. Kóalabirnir hafa reyndar lengi verið tákn landsins, þjóðardýrið og lokkað að ferðamenn í tugi ára, enda náttúruleg búsvæði þeirra hvergi annars staðar að finna í heiminum.

Það er vart hægt að hugsa um Ástralíu án þess að hugsa samtímis um kengúrur og kóalabirni, svo stórt er hlutverk þeirra í ímynd landsins víðfeðma í suðri. Báðar þessar tegundir þykja sérlega myndrænar, uppátækjasamar og skemmtilegar svo ekki sé talað um óvenjulegar. 

Kengúra með brjóstkassa eins og þrekinn karlmaður. Kóalabjörn að gæða sér á laufblöðum  með unga sinn á bakinu. Ljósmyndir og myndskeið sem okkur hafa birst í gegnum árin hafa kallað fram bros, fliss og hlátur.  

Það eru aðrar tilfinningar sem myndirnar vekja hjá mörgum nú um stundir. Kengúra á stökki beint fyrir framan stórkostlegt eldhaf. Kóalabjörn að skýla afkvæmi sínu fyrir logunum og brennur því sjálfur á fótunum. Hræ kengúru eins og kolamoli flæktur í girðingu. Hræ kóalabjarnar eins og steingervingur samgróinn sótsvartri trjágrein. Mjúki, fallegi feldurinn sviðinn. Loðnu eyrun hárlaus og líkjast helst steiktum laufblöðum.

„Þetta hryllilega ár þjást allar tegundir. Það er virkilega ógnvænlegt,“ segir ástralski líffræðingurinn Stephen Brend. „Okkur mönnunum er heitt, dýrunum er heitt. Þetta er martröð.“

Kingsley Dixon, vistfræðingur við Curtin-háskóla í Perth, segir hættu á útrýmingu hafa aukist. „Margar tegundir sem voru ekki í hættu eru nú í útrýmingarhættu. [...] Þetta er líffræðileg úrslitaorrusta sem sjaldan hefur áður sést.“

Við dögun nýs árs, nýs áratugar, hóf fréttum af hamförunum mannskæðu í Ástralíu að rigna yfir heimsbyggðina. Eldarnir hafa heimt að minnsta kosti 24 mannslíf, þar af fjögurra slökkviliðsmanna. Yfir 2.000 heimili hafa eyðilagst – líklega eru þau mun fleiri. Heilu bæirnir munu þurrkast út. Landsvæði á stærð við allt Ísland hefur brunnið og sumarið rétt nýhafið þarna hinum megin á hnettinum. Því er nú spáð að eldarnir muni loga í marga mánuði til viðbótar.

Reynt hefur verið að slá tölu á fjölda þeirra dýra sem hafa týnt lífi í eldunum og hitunum síðustu mánuði. Það er erfitt en sérfræðingar hafa þó sagt að líklega sé talan á bilinu hálfur til einn milljarður.

Fágætt dýralíf

Í Ástralíu er að finna margar svokallaðar einlendar dýrategundir, þ.e. dýr sem finnast ekki annars staðar. Það skýrist af einangrun landsins um milljónir ára. Ýmsar slöngur, kengúrur, kóalabirnir og nefdýr eru þar á meðal. Þetta á líka við um margar trjátegundir og aðrar plöntur þó að þeim hafi á síðari tímum verið dreift viða um heim.

Kóalabirnir eru einfarar. Þeir eru frekar smágerðir, verða 60-80 sentímetrar á hæð og um 14-17 kíló að þyngd. Þeir eru jurtaætur og éta lauf í kílóavís á hverjum degi.
EPA

Margar dýrategundirnar í Ástralíu eru á válista og sumar þeirra metnar í útrýmingarhættu. „Það er enginn sem veit á þessari stundu hvort einhverjar dýra- eða plöntutegundir muni hverfa alveg vegna skógareldanna,“ segir Trausti Baldursson, forstöðumaður vistfræði- og ráðgjafardeildar Náttúrufræðistofnunar, í samtali við Kjarnann.

Kóalabirnirnir eru þar á meðal en einnig aðrar tegundir, m.a. skordýr og skriðdýr. „Það eru sum sé ekki aðeins stóru dýrin sem allir þekkja sem eru í hættu, þó að þau fái mesta athygli í fjölmiðlum, heldur mörg önnur,“ bendir Trausti á.

Staðbundnir stofnar í hættu

Skógareldar eru algengir í Ástralíu en eru óvenju miklir núna og margir velta því fyrir sér hvort að hætta sé hreinlega á að ákveðnar tegundir dýra deyi út. Trausti segir að varlega verði að fara í slíkar vangaveltur. Margt sé óljóst nú þegar eldarnir geisa enn. Hann segir að ákveðin hætta sé fyrir hendi, sérstaklega hvað varðar staðbundna stofna fágætra dýra- eða plöntutegunda. „Margir staðbundnir stofnar gætu tapast þótt tegundin sjálf sé ekki í hættu. En þetta myndi valda því að fjölbreytni minnkar sem gæti leitt til sérstakrar þróunar sem erfitt er að spá fyrir um.“

Líffræðilegur fjölbreytileiki Ástralíu er einn sá mesti sem fyrirfinnst á jörðinni og yfir 80% af dýrategundum landsins er hvergi annars staðar að finna, þar á meðal 244 spendýrategundir. Dýraríkið þar var viðkvæmt áður en hamfaraeldarnir hófust og 34 tegundir spendýra hafa dáið út á síðustu 200 árum.

 Þó að dýrin hafi þróast þar í milljónir ára, líkt og Trausti bendir á, og séu því búin að aðlagast vel sumarhitum, eiga þau mörg hver sérlega erfitt uppdráttar nú þegar hvert hitametið af öðru hefur fallið og fordæmalausir þurrkar hafa geisað mánuðum saman. Það eru sum sé ekki aðeins eldarnir sem eru að stráfella dýrin. Þá er enn ein hættan fyrir hendi; eyðilegging búsvæða sem mun leiða til sultar.

Hvers vegna flýja kóalabirnir ekki?

Ljóst er að mörg dýr hafa beinlínis orðið eldstungum að bráð. Eðlileg spurning hefur vaknað hjá almenningi: Geta dýrin ekki bara flúið?

Í mörgum tilvikum er það vissulega tilfellið. Fuglar og stór dýr á borð við kengúrur geta lagt á flótta og gera það ef aðstæður leyfa. En margar tegundir hafa ekki sömu hreyfigetu og aðrar eru algerlega háðar skógunum og fara því hvergi.

Kóalabirnir eru í þeim hópi sem á erfitt með að flýja. Skýringarnar eru nokkrar. Við eðlilegar aðstæður kunna þeir best við sig í krónum tröllatrjánna. Þar geta þeir setið tímunum saman og étið lauf sem er þeirra helsta fæða. Efnaskipti þeirra eru gríðarlega hæg og þeir sofa 16-20 klukkustundir á sólarhring. Þeir hreyfa sig af þessum sökum mjög hægt og þekkja ekkert annað en skóginn og trén sem þeir halda til í, skóginn sem veitir þeim skjól og fæðu. 

Kóalabjörn á teikningu frá því í lok nítjándu aldar.

Talið er að dýr skyld kóalabjörnum hafi orðið til á meginlandi Ástralíu fyrir um 45 milljónum ára. Elstu steingervingar sem fundist hafa eru 25 milljón ára gamlir. Ástralía varð með tímanum þurrari, gróðurfar þróaðist og tröllatré (eucalyptus) urðu ráðandi en þau eru einmitt helsta fæða kóalabjarna nútímans.

Frumbyggjar Ástralíu er taldir hafa komið þangað fyrir um 60 þúsund árum. Kóalabirnir, rétt eins og öll önnur dýr sem fundust í landinu, voru mikilvægur hluti af menningu þeirra, koma fyrir í mörgum þjóðsögum og á hellamyndum. Frumbyggjar veiddu kóalabirni sér til matar en nóg var af þeim alla tíð eða þar til Evrópubúar komu þangað árið 1788.

Ekki björn heldur pokadýr

John Price var fyrsti Evrópubúinn sem greindi frá tilvist kóalabjarna. Árið 1798 fór hann um Blue Mountains, skammt frá þeim stað þar sem Sydney er í dag, og lýsti síðar upplifun sinni af því er kóalabjörn varð á vegi hans. Í fyrstu var talið að um bjarnartegund væri að ræða en síðar var ljóst að hann tilheyrði hinum sérstæðu pokadýrum sem fæða óþroskuð afkvæmi en bera þau svo í húðpoka á líkama sínum í margar vikur og jafnvel mánuði.


Unginn er aðeins um 1 gramm að þyngd er hann fæðist og skríður ofan í poka móður sinnar þar sem hann dvelur í marga mánuði.
EPA

En af hverju heitir hann kóalabjörn?

Talið er að „kóala“ sé dregið af orðunum „ekkert vatn“ á einu af tungumálum frumbyggja. Sú nafngift er sprottin útfrá því að þessi dýr drekka sjaldan vatn heldur fá þann vökva sem þau þurfa frá safaríkum blöðum tröllatrjáa. Nú þegar skógarnir brenna hafa þau þó nálgast menn og sótt í vatn. Þorstinn er orðinn lífshættulegur.

Strax við upphaf nýlendutímans var hafist handa við að ryðja skóga. Þar með hófst aðþrenging að búsvæðum dýranna. Evrópsku landnemarnir sáu verðmæti í feldi kóalabjarnarins og hófu miklar veiðar. Upp frá því og þar til á fjórða áratug síðustu aldar voru milljónir kóalabjarna drepnar og feldur þeirra seldur.  

Árið 1924 var þá ekki lengur að finna í fylkinu Suður-Ástralíu og fá dýr voru eftir í Nýja Suður-Wales. Í Viktoríu-fylki voru líklega aðeins um 500 dýr. Stórtækar veiðar voru oft stundaðar þar sem mörg hundruð þúsund dýr voru felld á nokkrum vikum.

Vernduðu dýrið en ekki heimkynnin

En það kom að því að almenningi stóð ekki lengur á sama og krafðist þess að þessum veiðum yrði hætt. Á fjórða áratug síðustu aldar friðuðu stjórnvöld allra fylkja landsins kóalabjörninn. En búsvæði hans voru ekki friðuð og skógareyðingin hélt áfram sem sem hefur síðustu ár haft hvað mest áhrif á afkomu hans.

Það er, eins og Trausti hjá Náttúrufræðistofnun segir, erfitt að slá því föstu hversu margir kóalabirnir hafa drepist í eldunum. Heyrst hafa tölur frá 8-30 þúsund í fjölmiðlum. Þeirra helstu búsvæði eru í Nýja Suður-Wales og þar hafa eldarnir verið hvað mestir. Sérfræðingar hafa fullyrt að á Kengúru-eyju, þriðju stærstu eyju Ástralíu, hafi þúsundir kengúra og kóalabjarna farist en meira en þriðjungur eyjunnar hefur brunnið. 

Hlúð að slösuðum kóalabirni í dýraathvarfi. Birnirnir eru margir með brunnið trýni og einnig brunasár á fótunum.
EPA

Mörg félagasamtök og einstaklingar hafa lagt sitt af mörkum til að bjarga slösuðum dýrum. Í þeirra hópi er maður í bænum Mallacoota sem bjargaði níu kóalabjörnum og nágrannar hans eru nú að hjálpast að við að byggja skýli fyrir þá. Aðrir hafa skilið eftir vatn og fæðu á víðavangi fyrir dýrin.

Kona ein, sem missti bústað sem hún átti norður af Sydney, segir að eignatjónið sé eitt en að hjálpa öðrum sé mikilvægara. Hún hefur skilið eftir fæðu handa villtum dýrum og hefur einnig tekið nokkur þeirra að sér.

Já, þeir eru krúttlegir með sín loðnu eyru á stóru höfði og afkvæmi sín á bakinu hátt uppi í trjánum. En hlutverk þeirra er þó miklu stærra en að gleðja okkur mannfólkið. Þeir eru mikilvægur hlekkur í vistkerfinu.

Mest eru áhrif þeirra í skógum tröllatrjánna. Fyrir komu Evrópubúa voru þeir þar í milljóna vís en nú telja þeir aðeins nokkra tugi þúsunda. Þeir eyða mestum tíma sínum í trjánum sofandi eða að éta lauf og hafa þannig hlutverki að gegna við að grisja skóginn, viðhalda heilbrigði hans og koma sólarljósi í gegnum trjákrónurnar niður á skógarbotninn.

Á regntímanum er úrgangur þeirra mikilvægur áburður og hjálpar til við vöxt og endurnýjun gróðurs. Þá éta ýmis smádýr einnig skítinn. Fleiri tegundir gegna svipuðu hlutverki en fæstar þeirra geta klifrað jafn hátt og kóalabirnirnir. Vera þeirra í trjákrónunum hefur einnig önnur áhrif: Þeir missa lauf og brjóta greinar sem falla til jarðar og eru fæða fyrir skordýr. Er þeir drepast éta svo önnur dýr hræ þeirra.

Sjálfboðaliðar og dýralæknar reyna að bjarga öllum þeim kóalabjörnum sem þeir geta. Um allan heim prjónar nú fólk vettlinga eða sokka til að setja á fætur þeirra.
EPA

Þessi hringrás lífsins í vistkerfinu hefur raskast af mannavöldum síðustu áratugi. Skógarnir hafa verið felldir til að rýma fyrir landbúnaði af miklum móð. Gróðureldar eru svo ein helsta ógn kóalabjarnanna nú um stundir. Þetta sumarið hafa eldarnir verið sérlega miklir og litlu, loðnu pokadýrin, sem haldið hafa til í skógunum í þúsundir ára, eiga í vök að verjast.

„Öll dýr sem eru staðbundin eru í mikilli hættu,“ segir ástralski líffræðingurinn Sarah Legge. „Myndirnar sem við sjáum af þjáðum kóalabjörnum er hræðilegar. En þeir eru útbreiddari [en margar aðrar tegundir í Ástralíu] svo að þeir eru ekki á barmi útrýmingar á sama hátt og margar aðrar tegundir.“

Kóalabirnir eru á válista, þar eru þeir flokkaðir sem „viðkvæm tegund“ en ekki sagðir í útrýmingarhættu, enn sem komið er. Hvort að það muni breytast í kjölfar hamfaraeldanna nú á eftir að koma í ljós.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar