Fimm fyrirtæki eru í sérflokki þegar kemur að markaðsvirði þeirra Bandaríkjunum. Þau eru Apple, Microsoft, Alphabet (móðurfélag Google), Amazon og Facebook. Alls er samanlagt virði þessara fimm tæknifyrirtækja um 18 prósent af virði allra þeirra félaga sem mynda S&P 500 vísitöluna bandarísku, sem mælir gang hlutabréfa í 500 stórum fyrirtækjum sem skráð eru á hlutabréfamarkað í Bandaríkjunum.
Það eru yfirburðir sem hafa ekki áður sést, samkvæmt greiningu Morgan Stanley-bankans. Bank of America hefur varað við því að samþjöppun á markaðnum sé of mikil og að þessi staða „stóru fimm“ tæknifyrirtækjanna sýni það glögglega. Fyrirsjáanlegt sé að undirliggjandi rekstur standi ekki undir síhækkandi virði. Þessi yfirburðastaða svona hóps fyrirtækja úr tengdum geira er einsdæmi í sögu markaða og margir sérfræðingar telja að hún sé ekki sjálfbær.
Samt halda hlutabréfin bara áfram að hækka.
173 þúsund milljarðar króna
Síðasta ár var mikið vaxtarár á bandarískum hlutabréfamörkuðum. Af þeim 500 félögum sem mynda S&P 500 vísitöluna voru einungis 57 fyrirtæki sem féllu í verði á árinu. Hin 443 hækkuðu. Alls hækkaði vísitalan um 29 prósent á árinu.
Í lok dags 10. janúar síðastliðinn var Apple verðmætasta fyrirtækið sem myndar hana. Markaðsvirði þess var þá um 1,4 trilljónir Bandaríkjadala (ein bandarísk trilljón eru þúsund milljarðar), eða um 173 þúsund milljarðar íslenskra króna.
Microsoft er líka metið yfir trilljón dali, Alphabet (Google) skreið yfir það mark í vikunni og Amazon hefur áður náð því marki en er nú rétt undir því. Facebook rekur lestina af þessum fimm og er metið á „aðeins“ um 77 þúsund milljarða íslenskra króna.
Mikil breyting frá aldarmótum
Þessi þróun, þar sem tæknifyrirtækin hafa vaxið umfram alla aðra geira, hefur gest nokkuð hratt þótt tvö fyrirtækjanna hafa verið stofnuð á áttunda áratugnum, þ.e. Apple og Microsoft, og tvö á tíunda áratugnum, Amazon og Google. Það yngsta, Facebook, hóf svo starfsemi árið 2004.
Í netbólunni í kringum síðustu aldarmót náði Microsoft reyndar að verða verðmætasta fyrirtæki heims og ýmis önnur tæknifyrirtæki, eins og til dæmis Nokia, Intel og Cisco, komust inn á topp tíu yfir verðmætustu fyrirtæki Bandaríkjanna. Með þeim í þessum hópi voru fyrirtæki í dreifðum iðnaði og þjóonustu, eins og General Electric, og nokkur olíufyrirtæki.
Þá var smásölurisinn Walmart, sem er það fyrirtæki í heiminum sem hefur mesta veltu enn þann dag í dag, líka inn á topp tíu yfir verðmætustu fyrirtækin á markaði.
Eftir að netbólan sprakk með látum varð topp tíu listinn hins vegar blandaðri. Fjármálafyrirtæki á borð við banka og tryggingafélög komu sterk inn á þessum árum, enda fjármálalega góðærið, sem leiddi af sé alþjóðlegt efnahagslegt fárviðri frá haustinu 2008 og næstu árin á eftir, þá í sínum mesta blóma.
Á listanum á þessum árum var líka að finna Pfizer, stærsta lyfjafyrirtæki Bandaríkjanna, eitt tæknifyrirtæki og gamla kunningja eins og General Electric og Walmart.
Kínverjarnir komu og fóru
Eftir bankahrunið 2008 breyttist allt aftur. Árið 2009 voru kínversk fyrirtæki þau verðmætustu í heimi. Petrochina varð verðmætasta fyrirtækið árið 2009 og tveir kínverskir bankar, ICBC og China Commercial bank, náðu líka inn á topp tíu ásamt China Mobile. Á listanum voru líka þrjú olíufyrirtæki (Exxon, Petrobas og Shell).
Eina tæknifyrirtækið á topp tíu var Microsoft, sem sat í fjórða sæti.
Þessi staða breyttist hratt árin eftir, sérstaklega vegna vaxtar tæknifyrirtækjanna. Viðsnúningspunkturinn hjá Apple, sem oftast nær hefur verið verðmætasta fyrirtæki í heimi síðustu ár, var með tilkomu fyrsta iPhone-símans á markað árið 2007. Síminn olli vatnaskilum í neytendahegðun, enda bæði öflug tölva, hljómflutningstæki, sjónvarp, myndavél og ýmislegt annað í einum hlut sem passar í vasa notandans.
Einkenni markaðssvæða
Í dag eru tæknifyrirtæki svo, líkt og áður sagði, í eigin deild. Microsoft, Apple, Amazon og Alphabet (Google) eru öll orðin að gígafyrirtækjum sem heimsbyggðin hefur aldrei séð áður. Það sem einkennir þau eru að þau tengja sig inn í nær alla geira. Facebook er ekki langt undan. Í raun hafa þessi fyrirtæki meiri einkenni markaðssvæða en hefðbundinna fyrirtækja.
Fjárhagsstaða þeirra er líka ævintýraleg, einkum Microsoft og Apple.
Þessi tvö fyrirtæki eru með um 400 milljarða Bandaríkjadali í lausu fé frá rekstri og geta auðveldlega staðgreitt risafyrirtæki, í mörgum mismunandi geirum án þess að það sjáist högg á vanti.
Þannig gæti Microsoft til dæmis keypt allt hlutafé í Starbucks og Costco, án þess að ógna að neinu marki sjóðum sínum, með því að greiða fyrir með eigin hlutum og síðan reiðufé.
Þessi staða er orðin að miklu pólitísku hitamáli í Bandaríkjunum og víðar. Hversu stór geta fyrirtæki orðið? Hvernig á að skilgreina þau þegar kemur að samkeppni? Eru þetta orðin einokunarfyrirtæki, svokallaðir hliðverðir?
Líklegt er að umræða um þetta eigi eftir að magnast enn frekar, ekki síst þegar tæknifyrirtækin fara að herða innreið á fjármálamarkaði og fjarskipti, samhliða aukinni 5G-væðingu og frekari þróun á gervihnattamarkaði.