Hagavatnsvirkjun: Frá stórhugmynd til smávirkjunar
Orkustofnun endurnýjaði í fyrra rannsóknarleyfi Íslenskrar vatnsorku ehf. vegna áforma um 18 MW virkjun við Hagavatn. Í nýrri tillögu er rætt um 9,9 MW virkjun, rétt undir þeim mörkum sem kalla á meðferð í rammaáætlun.
Íslensk vatnsorka ehf. áformar að reisa rétt tæplega 10 MW virkjun við Hagavatn sunnan Langjökuls. Framkvæmdin yrði innan miðhálendislínu og að hluta í óbyggðu víðerni. Fyrstu hugmyndir gerðu ráð fyrir stórvirkjun en á síðari stigum og er verkefnið var kynnt fyrir faghópum rammaáætlunar var aflið 20 MW. Í nýrri tillögu að matsáætlun, sem lögð var fram í lok síðasta árs, er það svo komið niður í 9,9 MW. Rannsóknarleyfi, sem Orkustofnun endurnýjaði í fyrra, miðast hins vegar við 18 MW.
Þó að megawöttin séu færri er umfang framkvæmdarinnar sjálfrar nokkuð sambærilegt á milli tillagna. Stíflur eru jafn margar, jafn háar og svipað langar og miðlunarlónið sem yrði til með stíflun Hagavatns yrði jafn stórt. Ef uppsett afl er innan 10 megawatta þarf virkjunarkostur ekki að fara í gegnum ferli rammaáætlunar. Í tillögu að þriðja áfanga hennar, sem leggja á fram á vorþingi, er hugmyndin um 20 MW Hagavatnsvirkjun enn í biðflokki.
Tillaga að matsáætlun er eitt af þeim skrefum sem tekin eru við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og endanleg áætlun, sem samanstendur af tillögu framkvæmdaaðila og ákvörðun Skipulagsstofnunar um hana, lýsir því með hvaða hætti leggja skal mat á umhverfisáhrif.
Í athugasemdum náttúruverndarsamtaka við tillögu að matsáætlun Hagavatnsvirkjunar er það sem þau telja uppbrot framkvæmdarinnar harðlega gagnrýnt og sagt óheimilt. Ekki verði betur séð en að um sömu framkvæmd og áður sé að ræða.
„Dagljóst er að framkvæmdaraðili reynir með undanbrögðum að komast hjá því að fara að gildandi lögum í landinu,“ segir í umsögn Náttúruverndarsamtaka Suðurlands. „Heildar umhverfisáhrif framkvæmda vegna fyrirhugaðrar 18 MW Hagavatnsvirkjunar er það sem metið skal, í einu lagi.“
Í viðtali Morgunblaðsins í nóvember í fyrra við Eirík Bragason, framkvæmdastjóra Íslenskrar vatnsorku, kemur fram að um fyrsta áfanga stærri virkjunar sé að ræða.
Fara bæði Landvernd og Náttúruverndarsamtök Suðurlands fram á að Skipulagsstofnun vísi tillögunni frá.
Hugmyndir um að hækka vatnsborð Hagavatns með því að stífla útfall þess, Farið, eru ekki nýjar af nálinni. Á árum áður var það fyrirhugað sem liður í uppgræðsluverkefni vegna sandfoks og „mikið áhugamál“ sveitarstjórnar Bláskógabyggðar og sveitarstjórnar Biskupstungnahrepps þar á undan. Á síðari árum kviknaði áhugi á að nýta þá framkvæmd og vatn Hagavatns til orkuframleiðslu.
Tvö stór hlaup á fyrri hluta 20. aldar
En hver er saga Hagavatns sem sumir vilja stífla, aðrir virkja og enn aðrir vernda í núverandi ástandi?
Skrið og hop Langjökuls og skriðjökla hans, Vestari- og Eystri-Hagafellsjökla, eru stærstu mótunaröflin sem áhrif hafa á Hagavatn. Á fyrstu árum 20. aldar var það um 30 ferkílómetrar í stað um 4 km² í dag. Árið 1929 brast jökulstífla og mikið hlaup varð í Farinu og Tungufljóti. Við þetta myndaðist Leynifoss. Tíu árum seinna hljóp Hagavatn aftur, fór í nýjan farveg, Nýifoss myndaðist og Leynifoss hvarf. Við þetta lækkaði vatnsyfirborðið um 10 metra.
Síðan þá hafa landmótunaröfl haldið áfram með hopi og skriði jöklanna.
Gert er ráð fyrir 20 MW Hagavatnsvirkjun í nýlega samþykktu aðalskipulagi Bláskógabyggðar. „Til að draga úr uppblæstri í nágrenni Hagavatns og minnka fok yfir byggðina þá er stefnt að því að endurheimta Hagavatn í þeirri mynd sem það var fyrir hlaupið árið 1939,“ segir í greinargerð. „Endurheimt Hagavatns er forsenda þess að hægt sé að ráðast í frekari landgræðsluaðgerðir sunnan þess. Til að auka hagkvæmni framkvæmdarinnar er æskilegt að nýta stækkað Hagavatn til raforkuframleiðslu.“
Landgræðslan hafði hug á því árið 1996 að reisa 15 metra háa stíflu og „sökkva gömlum vatnsbotni Hagavatns undir vatn og stöðva þannig áfok sem talið er ógna gróðri á heiðum uppi af Biskupstungum og Laugardal“, eins og sagði í frummatsskýrslu. Skipulagsstjóri féllst á framkvæmdina með skilyrðum en umhverfisráðuneytið úrskurðaði hana í frekara umhverfismat því það taldi ekki fyrirliggja rannsóknir sem styddu þá fullyrðingu að sandfok mætti rekja til uppþornaðra vatnsbotna Hagavatns frekar en til nærliggjandi svæða.
Ekkert varð af þessum framkvæmdum.
Árið 1985 vann Orkustofnun forathugun að virkjun við Hagavatn og var uppsett afl mögulegrar virkjunar áætlað 30-40 MW. Næstu árin héldu ýmsar rannsóknir áfram og árið 2007 gerðu Orkuveita Reykjavíkur, Landgræðslan, Bláskógabyggð og landeigendur með sér samkomulag um könnun á því að endurheimta eldri stærð Hagavatns. Markmiðið með endurheimtinni var að hefta sandfok og átti að kanna möguleika raforkuframleiðslu samhliða.
Orkuveitan hafði fyrr það ár fengið úthlutað rannsóknarleyfi á svæðinu og nokkrum árum síðar, er virkjunarkosturinn var til umfjöllunar í verkefnisstjórn rammaáætlunar, var Hagavatnsvirkjun orðið samvinnuverkefni Orkuveitunnar og Íslenskrar vatnsorku ehf. Fyrirhuguð stærð virkjunar var þá 20 MW.
Ekki jöfnunarlón heldur endurheimt vatns
Verkefnisstjórnin setti virkjunina í biðflokk og við þá ákvörðun var Íslensk vatnsorka ósátt. Í athugasemdum félagsins sagði að allar „eðlilegar og nauðsynlegar rannsóknir“ hefðu farið fram og að þær sýndu að verkefnið hefði „lágmarksáhrif á umhverfið“.
Eyþór Arnalds, núverandi oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, var stjórnarformaður Hagavatnsvirkjunar ehf., félags sem Íslensk vatnsorka stofnaði um verkefnið. Í viðtali við mbl.is í upphafi árs 2012 sagði hann að um hreina rennslisvirkjun yrði að ræða. „Það er ekki verið að fara í jöfnunarlón eða neitt slíkt heldur einfaldlega að endurheimta vatnið sem var þarna áður.“
En biðflokkur í rammaáætlun var niðurstaðan sem samþykkt var á þingi árið 2013.
Í mars árið 2015 lagði meirihluti atvinnuveganefndar Alþingis til að fjórir virkjanakostir yrðu færðir úr biðflokki í nýtingarflokk, meðal annars Hagavatnsvirkjun. Til grundvallar lágu m.a. umsagnir Íslenskrar vatnsorku þar sem fram kom að um rennslisvirkjun með stöðugu vatnsborði yrði að ræða. Það var ekki samhljóma skýrslu sem verkfræðistofan Mannvit vann um tilhögun virkjunarinnar eins og rakið var í ítarlegri fréttaskýringu á Kjarnanum á þeim tíma.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, tilkynnti svo í maí þetta ár að breytingatillagan sem gerði ráð fyrir Hagavatnsvirkjun í nýtingarflokki, hefði verið dregin til baka. Væri það gert til að „leiða fram sem mesta mögulega sátt“.
Kennslubókardæmi um hörfunarsögu jökuls
Vinna var þá þegar hafin við þriðja áfanga áætlunarinnar og enn var það niðurstaða verkefnisstjórnar að virkjunin skyldi í biðflokk. Í lokaskýrslu hennar, sem gefin var út í ágúst 2016, er fjallað ítarlega um virkjanakostinn Hagavatnsvirkjun. Þar segir að svæðið hafi fengið hæstu mögulegu verðmætaeinkunnir fyrir víðerni og jarðgrunn og að mati faghóps sé það „kennslubókardæmi um hörfunarsögu jökuls á 19. og 20. öld með tilheyrandi vandamálum, flóðum og foki“.
Þar kemur enn fremur fram að virkjunarmannvirki myndu að hluta til lenda inni á svæði sem er óbyggt víðerni og „virkjun á svæðinu væri inngrip í óraskað landsvæði þar sem náttúran hefur fengið að þróast án álags af mannlegum umsvifum“.
Þá benti verkefnisstjórn á að samkvæmt upplýsingum frá virkjunaraðila komi til greina að veita Jarlhettukvísl um skurð í Hagavatn til að auka afkastagetu virkjunar. Yrði það gert myndi vatnafar svæðisins breytast og áin sem rennur hjá nærliggjandi sæluhúsi hverfa. „Í ljósi framangreindra þátta telur verkefnisstjórn rétt, með tilliti til almannahagsmuna, að bíða með ákvörðun um ráðstöfun svæðisins.“
Þingsályktunartillaga sem byggð er á niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar hefur tvívegis verið lögð fram á þingi en vegna tíðra stjórnarskipta hefur hún ekki enn verið afgreidd. Til stendur að leggja hana fram í þriðja sinn og í óbreyttri mynd nú á vorþingi.
Á meðan hefur félagið Íslensk vatnsorka ehf. ekki setið auðum höndum. Í lok árs 2018 sótti það um framlengingu rannsóknarleyfis vegna virkjunaráformanna til Orkustofnunar. Féllst stofnunin í byrjun árs 2019 á að framlengja leyfið til ársloka 2023.
Í þeirri umsókn félagsins sagði m.a. að hugmyndir um Hagavatnsvirkjun hefðu tekið nokkrum breytingum og að virkjunarhugmyndin væri „ mun umhverfisvænni útfærslu en áður var áformað“. Hún yrði 18 MW í stað 35 MW og útfærð sem rennslisvirkjun, „þ.e. mun minni sveiflur verði á vatnsborði ofan stíflu“.
Ekki keyrðar á fullu afli
Gert væri ráð fyrir þremur 6 MW vélum og að vatnasvið Jarlhetta, röð móbergstinda við Eystri-Hagafellsjökul, yrði einnig nýtt. „Þar sem nýting Jarlhetta er að hluta til viðkvæmara mál sem þarfnast betri skoðunar þá var ákveðið að byrja á fyrstu tveimur áföngunum við virkjunina, þ.e. tveimur 6 MW vélum sem þó yrðu ekki keyrðar á fullu afli eða um 9,9 MW. Með slíkum rekstri næst nokkuð jöfn nýting á vélbúnaði meginhluta ársins. Mikilvægt er þó að halda til haga áformum um fulla stærð virkjunarinnar 18 MW.“
Í nóvember í fyrra, nokkrum mánuðum eftir að
rannsóknarleyfið var endurnýjað, lagði Hagavatnsvirkjun ehf. fram tillögu að matsáætlun
og var hún birt og auglýst á vef Skipulagsstofnunar. Í henni er sem fyrr segir
fjallað um allt að 9,9 MW virkjun. Hvergi er minnst á það að stærri útfærsla sé
í biðflokki rammaáætlunar og þess hvergi getið að um fyrsta áfanga virkjunar sé
að ræða. Þá kemur heldur ekki fram að fyrirhuguð sé nýting á vatnasviði
Jarlhetta.
Framkvæmdastjóri Íslenskrar vatnsorku staðfesti hins vegar í viðtali við Morgunblaðið síðla árs í fyrra að áformin nú væru fyrsti áfangi stærri virkjunar.
Náttúruverndarsamtök segja í athugasemdum sínum að ekki sé heimilt samkvæmt lögum að skipta framkvæmd upp með þeim hætti sem tillagan ráðgeri og benda á að fyrirætlanir framkvæmdaaðilans sjáist glöggt í umsókn um endurnýjun rannsóknarleyfis þar sem segi að „mikilvægt“ sé að „halda til haga áformum um fulla stærð virkjunarinnar 18 MW“.
Í matsáætlunartillögunni sem verkfræðistofan Mannvit vinnur fyrir Hagavatnsvirkjun ehf., segir að tilhögun virkjunarinnar gangi út á að virkja Farið, hækka vatnsborð vatnsins og nota það sem miðlun og til að hefta áfok af svæðinu. „Með endurheimt Hagavatns er vonast til að gróðurþekja aukist og að svifryksmengun minnki með bættum lífsgæðum á svæðinu og í byggð, einkum í uppsveitum Árnessýslu.“
Fimm metra sveifla
Í inngangi skýrslunnar segir að um „sambærilega aðgerð“ sé að ræða og Landgræðsla ríkisins stóð fyrir á sínum tíma við Sandvatn þegar vatnsborð var hækkað með stíflum. „Eini munurinn er sá að vatnsborði Sandvatns er haldið stöðugu á meðan gert er ráð fyrir að sveifla vatnsborði Hagavatns um 5 metra.“
Byggðar yrðu tvær stíflur; ofan við Nýjafoss og ofan við Leynifoss. Stíflan við Nýjafoss yrði um 250 metra löng og mesta hæð um 25 metrar. Stíflan ofan við Leynifoss yrði mest um 15 metrar á hæð og um 300 metrar að lengd. Gert er ráð fyrir að vatnsborð Hagavatns yrði þá 455 m.y.s. og lónstærð um 23 km² en að hægt yrði að „draga niður í því“ um 5 metra og yrði lónstærð þá um 17 km². Einungis yrði virkjað „til að nýta tiltæka orku“ og er aflið þá um 9,9 MW.
Er fyrirhuguð 20 MW Hagavatnsvirkjun var kynnt fyrir faghópum rammaáætlunar árið 2015 komu fram sambærileg atriði; einungis yrði virkjað „til að nýta tiltæka orku“ en aflið þá um 20 MW. Stíflur við Leynifoss og Nýjafoss eru með sama sniði og flatarmál lóns jafn stórt og sveifla á vatnsborði þess jafn mikil. Það sem skilur að er að í nýju tillögunni er ekki talað um virkjun Jarlhettukvíslar og stífla við Leynifoss hefur lengst um 20 metra og stífla ofan Nýjafoss um 50 metra, svo dæmi séu tekin.
Landvernd krefst frekari skýringa á þessum breytingum á afli virkjunarinnar og svara við því hvaða hugmyndir séu uppi um nýtingu vatnasviðs Jarlhetta. „Rökstyðja þarf hvers vegna tillaga að matsáætlun um 9,9 MW virkjunarhugmynd heyrir ekki undir rammaáætlun þegar áform eru um aflmeiri virkjun.“
Hvað hugmyndir um heftingu foks frá svæðinu varðar bendir Landvernd á að gert sé ráð fyrir allt að 5 metra sveiflum í uppistöðulóninu og að þegar vatnsstaðan í því verði lægst verði 6 km² „af leirugum lónbotni á þurru landi sem skapar mikla hættu á jarðvegsfoki“.
Flatarmál íslenskra jökla hefur minnkað um rúmlega 750 km² síðan árið 2000 og síðustu ár hefur heildarflatarmál þeirra minnkað að meðaltali um u.þ.b. 40 km² árlega. Á árinu 2018 hopuðu jökulsporðar víða um tugi metra og Hagafellsjökull eystri í Langjökli styttist um 700 metra þegar dauðísbreiða slitnaði frá sporðinum.
„Ljóst er að líftími Langjökuls héðan af verður ekki mældur í öldum,“ stendur í athugasemdum Náttúruverndarsamtaka Suðurlands og benda þau á mikilvægi þess að bera virðingu fyrir síkvikri náttúrunni. Óraunhæft sé að ætla sér að „endurheimta“ stöðu jökullóns á borð við Hagavatn. Fyrirséð sé að jökullinn muni halda áfram að hopa hratt og að breytingar á landi verði miklar. „Vegna áframhaldandi hops Langjökuls er einsýnt að þótt Farið yrði stíflað og flatarmál Hagavatns með því aukið, myndi það ekki leysa þann fokvanda sem lýst hefur verið og lagður er til grundvallar umræddum framkvæmdum.“
Skipulagsferlið varðandi fyrirhugaða Hagavatnsvirkjun er enn skammt á veg komið. Í tillögu að matsáætlun er tekið fram að eftir eigi að rannsaka til hlýtar hvaða áhrif stækkun Hagavatns kæmi til með að hafa á sandfok og svifryksmengun frá svæðinu. Þá standi til að kortleggja hörfunarsögu Hagafellsjökla.
Skipulagsstofnun á eftir að taka ákvörðun um þá tillögu sem rakin var hér að framan. Í kjölfarið gæti tekið við vinna að frummatsskýrslu framkvæmdaaðila, þar sem virkjanaáformin eru útfærð nákvæmar. Sú skýrsla þarfnast svo einnig álits Skipulagsstofnunar. Í öllu því ferli gefst færi á athugasemdum.