Þorkell Þorkelsson/Landspítalinn Gjörgæsla

„Við erum hérna á haus, algjörlega að drukkna“

„Þessi hjúkrun er það erfiðasta sem þú getur lent í,“ segir hjúkrunardeildarstjóri gjörgæslunnar í Fossvogi í samtali við Kjarnann. Að veikjast af nýjum sjúkdómi, lenda á gjörgæslu og jafnvel í öndunarvél er ógnvekjandi. „Já, fólk er hrætt.“

Þegar Ólöf Sveinbjörg Sigurðardóttir tók við starfi hjúkrunardeildarstjóra á gjörgæsludeildinni á Landspítalanum Fossvogi óraði hana ekki fyrir því að tæpu ári síðar myndi hún standa langar og strangar vaktir í miðjum heimsfaraldri. Það vildi þannig til að hún var að leysa deildarstjórann á gjörgæslunni af árið 2009 er „hvassviðrið“ sem fylgdi svínaflensunni gekk yfir. „En það er ekkert miðað við þetta,“ sagði hún í samtali við Kjarnann í morgun.

Hún man vel hvenær hún heyrði fyrst um nýja og skæða veiru sem upp var komin í Kína. Og þó að hún hefði fljótt áttað sig á því að heimsfaraldur væri yfirvofandi gat hún ekki ímyndað sér að hann yrði jafn alvarlegur og komið hefur á daginn.

Hún gat ekki ímyndað sér að nokkrum vikum seinna ætti hún ásamt kröftugu og samheldnu liði eftir að klæðast hlífðarfatnaði frá toppi til táar á helmingi stærri gjörgæsludeild en hún tók við í maí í fyrra. Hún gat heldur ekki ímyndað sér að ástvinir sjúklinga, sem eru í hennar huga einnig skjólstæðingar gjörgæslunnar, gætu ekki setið við hlið þeirra og kvatt er þeir skildu við. En þetta er staðan, því miður, segir hún. 

Þrír sjúklingar með COVID-19 sem lagðir hafa verið inn á deildina hafa látist. Þar af tveir síðasta sólarhringinn. „Þetta er ólýsanlegt,“ segir hún, „en það er aðdáunarvert að sjá hvað aðstandendur skilja vel þær aðstæður sem við erum í. Þeir sýna fádæma skilning og auðmýkt. Þessi auðmýkt einkennir allt og alla.“

Í þessum erfiðleikum, í þessu gríðarlega álagi, segir Ólöf sérstaklega mikilvægt að starfsfólkið hlúi hvert að öðru.

Samstaðan sé mögnuð. „Þetta er frábær hópur. Það eru allir samstíga og vinna vel saman. Allir, allir, allir,“ segir hún með mikilli áherslu. Fólk sem vinni vanalega við skrifborð á spítalanum sé komið „á gólfið“. 

Ólöf Sveinbjörg Sigurðardóttir á vaktinni í Fossvoginum í dag eins og flesta daga.
Aðsend

Dreymdi um að verða hárgreiðslukona

En hver er bakgrunnur þessarar konu sem stendur í brú gjörgæslunnar á tímum farsóttarinnar?

„Ég var alltaf ákveðin í því að verða hárgreiðslukona og byrjaði að læra það,“ byrjar Ólöf á að segja, spurð um sjálfa sig og hvað hafi orðið til þess að hún lærði hjúkrun. Hún er í vinnunni á gjörgæslunni er hún ræðir við blaðamann í síma og í kringum hana má heyra klið, hratt fótatak um ganga og síma hringja í sífellu.

Hún verður að gera stutt hlé á viðtalinu meðan hún ræðir við samstarfsmann um verkefni sem þolir enga bið. „Við erum með marga bolta á lofti,“ segir hún er hún snýr til baka.

„En já, mig dreymdi um að verða hárgreiðslukona eins og margar litlar stelpur. En ég sá fljótt að þetta var ekki alveg það sem mig langaði að gera.“

Hún hætti í hárgreiðslunáminu, lærði sjúkraliðann og í framhaldinu fór hún í hjúkrunarnám við Háskóla Íslands. Þaðan útskrifaðist hún 1987.

Í náminu kynntist hún gjörgæsludeildinni í Fossvoginum og þangað fór hún til starfa að lokinni útskrift. „Og ég hef verið hérna síðan,“ segir hún og hlær létt.

Hún bætti við sig sérnámi, lærði gjörgæsluhjúkrun og tók kennsluréttindi, enda hefur hún mikinn áhuga á því að miðla af þekkingu sinni og fræðunum til annarra. 

Mikið mæðir nú á gjörgæsludeild Landspítala í Fossvogi, en þar liggur talsverður fjöldi COVID-19-sjúklinga og öryggisráðstafanir eru miklar.
Þorkell Þorkellsson/Landspítalinn

Fyrir ellefu árum tók hún við stöðu aðstoðardeildarstjóra hjúkrunar á gjörgæslunni og fyrir tæpu ári varð hún svo deildarstjóri.

Nokkrum mánuðum síðar er hún stödd í miðjum faraldri COVID-19, mestu heilsufarsáskorun sem heimurinn hefur glímt við í áratugi. „Þetta fer í sögubækurnar,“ segir hún. Faraldur svínaflensu árið 2009 blikni í samanburðinum.

Við svínaflensunni var hægt að fá bólusetningu sem veitti heilbrigðisstarfsfólki smitvörn. Því er ekki að heilsa í faraldri hinnar nýju kórónuveiru. „Hér erum við ekki með neinar varnir aðrar en hlífðargallana okkar sem við þurfum að passa okkur að fara rétt í og rétt úr. Þannig að við þurfum mikið að passa upp á hvert annað hérna í vinnunni.“

Man þegar hún heyrði fyrst um veiruna

Ólöf man vel hvenær hún heyrði fyrst um nýju veiruna. „Þetta vakti athygli mína strax upp úr áramótunum er fréttir tóku að berast frá Wuhan í Kína. Ég hafði heyrt að árið 2020 gæti orðið ár mikilla atburða og það hvarflaði strax að mér að þetta gæti orðið eitthvað sem við þyrftum að takast á við.“

Hún segist hins vegar ekki hafa séð fyrir hvað síðan átti eftir að gerast. Ekki frekar en aðrir. Vinkona Ólafar á son sem er giftur kínverskri konu. Hjónin búa ekki langt frá Wuhan. „Ég heyrði hvernig þau voru að takast á við þetta, sú litla fjölskylda. Og ég hugsaði, guð minn góður, ef þetta kemur hingað, hvað gerum við hér á litla Íslandi?“

Hvernig er það að vera í í þessu starfi og að fást við nýjan sjúkdóm sem svo  margt er  á huldu um?

„Þetta eru miklar áskoranir. En mér finnst svo frábært að sjá alla okkar framúrskarandi fagmenn. Það sjáum við vel í þríeykinu; Víði, Þórólfi og Ölmu. Þetta eru fagmenn sem eru gjörsamlega með puttann á púlsinum, alltaf.“

Löngu áður en fyrsta smit greindist á Íslandi höfðu deildarstjórar og yfirlæknar á gjörgæsludeildum Landspítalans átt fundi með Ölmu Möller landlækni. „Þá þegar voru allir búnir að kynna sér hvernig þetta gæti mögulega birst hér hjá okkur miðað við það sem var að gerast úti.“

Fór með allar sínar bænir

Ólöf segist hafa farið með allar sínar bænir og vonað að ástandið hér færi ekki á versta veg eins og spítalinn bjó sig þó undir. Það virðist þó engu að síður ætla að verða raunin.

Fjöldi smita virðist enn fylgja bjartsýnustu spám en fjöldi alvarlegra veikra sem þurfa að leggjast inn á sjúkrahús hins vegar þeim svartsýnustu.

Til að bregðast við hefur gjörgæsludeildin í Fossvogi verið stækkuð verulega. Áður voru þar sex rúm en með því að nýta vöknunarrýmið líka telur deildin nú fimmtán rúm og er mönnuð samkvæmt því.  „Þetta er náttúrlega magnaður hópur sem vinnur hérna, á öllum vígstöðvum, hvort sem það eru iðnaðarmenn, læknar, sjúkraliðar eða ræstingarfólkið,“ segir Ólöf. „Það eru forréttindi að fá að vera hluti af þessum hópi sem ætlar að gera þetta eins vel og mögulegt er.“

Starfsmenn gjörgæsludeildar hafa tekið upp á því að skrifa nafnið sitt á hlífðarfatnaðinn því erfitt er að bera kennsl á hver er handan grímunnar.
Þorkell Þorkelsson/Landspítalinn

Hún segir ekki hægt að bera álagið á deildinni nú saman við það sem var áður en faraldurinn braust út. „Eftir þetta finnst manni líklega allt annað verða ekkert mál. En það er mikilvægt að reyna að halda í gleðina og að við pössum upp á hvert annað. Að við hrósum hvert öðru og séum nærgætin í samskiptum.“

Hvernig er að sinna sjúklingum sem eru með COVID-19 – í hlífðarfatnaði frá toppi til táar?

„Þetta er rosalega erfitt líkamlega að vera í þessum galla. Það verður að segjast eins og er,“ segir Ólöf. Það sé til dæmis mjög heitt. Starfsfólkið ber fínkornagrímur með ventli sem duga að hámarki í þrjá tíma. „Við miðum því við það að það sé enginn lengur inni í einu en þrjá klukkutíma. Við reynum að skipta fólkinu út, svo að það fái pásu. Þessi hjúkrun er það erfiðasta sem þú getur lent í. Fólki er haldið sofandi í öndunarvélum og sérstakt andrúmsloft verður svo þegar allir eru uppáklæddir í þennan mikla hlífðarfatnað.“

Skrifa nöfn sín á hlífðarfatnaðinn

Ekki er hlaupið að því að bera kennsl á hver sé handan grímunnar og því tók starfsfólkið upp á því að skrifa nöfnin sín á hlífðarfatnaðinn. „Við höfum fengið ótrúlega mikinn liðsstyrk,“ segir Ólöf um mönnunina á deildinni. Samstarfsfólk af Landspítalanum við Hringbraut, m.a. af gjörgæslunni, hafi komið til aðstoðar sem og svæfingar- og skurðhjúkrunarfræðingar sem þekkja gjörgæsluumhverfið vel. „Síðan er það bakvarðasveitin sem var sett á stofn. Í henni eru meðal annars fyrrverandi starfsmenn sem eru komnir inn aftur og veita okkur alveg ómetanlegan styrk.“

Þorkell Þorkelsson/Landspítalinn

Hjúkrunarfræðingar og læknar hafa það hlutverk að miðla upplýsingum um líðan sjúklinga til aðstandenda. Vegna smithættunnar mega aðstandendur ekki koma inn á gjörgæsludeildina. „Aðstandendur er stór hluti okkar skjólstæðinga. Okkar skjólstæðingar eru ekki aðeins fólk sem liggur hér inni heldur líka aðstandendur þeirra. Að hafa þá ekki hér með okkur, að þeir megi ekki koma, það er rosalega erfitt.“

Unnið er að því að setja upp fastmótað verklag í samskiptum við aðstandendur sem ekki er við þessar aðstæður hægt að hitta í eigin persónu heldur þurfa að fá skilaboð um líðan ástvina sinna í gegnum síma. Í dag á að prófa fjarfundarbúnað í þessu skyni. „Við viljum láta fólk vita skipulega og reglulega hver staðan sé,“ segir Ólöf. „ Við höfum líka virkjað presta í sálgæsluna með okkur. Við erum að reyna að nota allar leiðir sem við mögulega getum og eins og hægt er.“

Hvernig taka aðstandendur því að geta ekki verið hjá ástvinum á erfiðustu tímum ævi þeirra?

„Mér finnst svo mikil auðmýkt alls staðar,“ svarar Ólöf. „Þessi auðmýkt einkennir allt og alla.“

En við andlát er því miður ekki hægt að bjóða aðstandendum að koma og kveðja. „Það sem við getum sagt fólki er að það er hægt að hafa kveðjustund við kistulagningu, þá fær fólk að sjá hinn látna. En það má ekki snerta hann.“

Sérstakt fjölskylduherbergi er á nýju COVID-19 göngudeildinni og þar er gert ráð fyrir að aðstandendur geti komið saman og átt fund með læknum og hjúkrunarfræðingum í gegnum fjarfundabúnað. Þá er einnig verið að skoða þann möguleika að bjóða aðstandendum að sjá ástvin sinn á dánarbeði í gegnum slíkan búnað.

Ólöf segir stöðuna mjög viðkvæma og erfiða fyrir alla en að það sé aðdáunarvert að sjá hvað fólk sýni aðstæðunum mikinn skilning.

Auglýsing

Hvernig bregst fólk við því að veikjast af sjúkdómnum og þurfa að leggjast inn á sjúkrahús, er fólk hrætt?

„Já, fólk er hrætt,“ segir Ólöf. Það sé ógnvekjandi að leggjast inn á gjörgæslu og lenda jafnvel í öndunarvél. Frá Kína hafi heyrst þær tölur að um 80 prósent þeirra sem lendi á gjörgæslu komist ekki þaðan aftur. „En það er kannski ekki alveg þannig hjá okkur, við höfum verið að útskrifa fólk, sem betur fer. Fólk hefur náð bata.“

Frá upphafi faraldursins hefur 21 sjúklingur verið lagður inn á gjörgæsludeild Landspítalans með COVID-19. Þrír hafa látist úr sjúkdómnum. Ellefu sjúklingar eru á deildinni núna, þar af átta í öndunarvél.

„Það er verið að gera allt sem hægt er fyrir þessa sjúklinga, allt sem við vitum að hægt er að gera við þessar aðstæður,“ segir Ólöf. Hún segir smám saman koma fram nýjar upplýsingar um meðferðir sem geti komið að gagni. „Við erum alltaf að læra, við erum að sjá hvað er hægt að gera betur. Og kynnum okkur það allra nýjasta í þeim efnum. Við ætlum að láta þetta ganga og gerum eins vel og við getum.“

Í sjúklingahópnum á gjörgæslu er að sögn Ólafar fólk á besta aldri, milli sextugs og sjötugs. „Þetta fólk er ekki endilega með mikla heilsufarssögu. Það er til dæmis með hækkaðan blóðþrýsting og er á blóðþrýstingslyfjum og annað slíkt. Og maður vonar að þetta sé viðsnúanlegt og við höfum séð það hjá mörgum. Það eru góðu fréttirnar.“

Þorkell Þorkelsson/Landspítalinn

Sjálf segist Ólöf ekki mikið leiða hugann að því að smitast sjálf. „Hér á gjörgæslunni veit ég hverjir eru sýktir, hvar sýkt svæði eru, hvar ég þarf að passa mig. Og ég nota hlífðarbúnaðinn. Ég hef meiri áhyggjur af því að fara út í búð.“

Heilbrigðisstarfsmenn þurfa að gæta sérstaklega að sér, verandi lykilfólk í framlínusveitinni. Ólöf hefur því takmarkað sína umgengni við fólk utan vinnunnar. Hún notfærir sér tæknina til að vera í samskiptum við sína nánustu. „Ég hitti barnabörnin bara á Facetime. Dóttir mín og litla fjölskyldan hennar býr í Danmörku. Hún ætlaði nú að vera hér heima um páskana. Það er erfitt að vita af þeim svona langt í burtu. Þau eru eins og allir aðrir heima sem mest og vinna heima. Það eru allir á sama stað í þessu.“

Vinnudagarnir hjá starfsfólki gjörgæslunnar eru langir. Og margir í röð. Ólöf hlúir að eigin heilsu meðal annars með því að ganga sem oftast til og frá vinnu. „Það er algjört lykilatriði í þessu að hreyfa sig. Og það að ná að sofa vel er nauðsynlegt. Það skiptir öllu fyrir mig.“

Á spítalanum segist Ólöf vita hvar sé hætta á að sýkjast. Það geti hún ekki verið viss um úti í búð.
Þorkell Þorkelsson/Landspítali

Í gær bárust fréttir af launalækkun meðal hjúkrunarfræðinga. Greindi einn hjúkrunarfræðingur til dæmis frá því á samfélagsmiðlum að laun hans hefðu lækkað um rúmlega 40 þúsund krónur milli mánaða. Einmitt á meðan COVID-19 faraldurinn stendur yfir og álag er gríðarlegt. Skýringin er sú að í tímabundnu átaki til að bæta kjör hjúkrunarfræðinga hefur verið greiddur sérstakur vaktaálagsauki sem datt út um mánaðamótin. Hjúkrunarfræðingar eru samningslausir og kjaraviðræður við ríkið hafa staðið í ár.

„Við erum hérna á haus, algjörlega að drukkna,“ segir Ólöf. „Gærdagurinn var erfiður. Þetta var eiginlega sorgardagur, verð ég að segja. Að þetta skuli koma þegar allir eru að hjálpast að og að örmagnast, að fá þetta er bara ekki gott.“

Hér mætum við á hverjum einasta degi

Ólöf segist hafa hamrað á því síðustu vikur að starfsfólkið ætti að fá greitt aukaálag á meðan ástandið gangi yfir. En í staðinn hafi laun hjúkrunarfræðinga lækkað. „Sumir eru að kvarta yfir því að þeir séu of mikið heima en hér mætum við á hverjum einasta degi. Þetta eru langir dagar og langar vaktir við þessar erfiðu aðstæður. Og það er ekki einu sinni samið við okkur.“

Faraldur COVID-19 er tímabundið ástand. En þetta er langhlaup, hafa margir sagt. Það eru margar vikur af gríðarlegu álagi framundan á spítalanum. „Ég vona að starfsfólkið haldið þetta út. Það verður eitthvað að koma til að hjálpa því í gegnum þetta. Fólk er farið að þreytast. Ég sem yfirmaður er að reyna að passa upp á að fólki keyri sig ekki alveg út. Allir vilja gera meira og ég þarf að beina því til fólks að taka sér frídag.“

„Ég vil segja það sama og þríeykið: Verið þið heima. Við erum hér fyrir ykkur en verið þið heima fyrir okkur. Það skiptir okkur rosalega miklu máli.“
Þorkell Þorkelsson/Landspítalinn

Í dag mættu til vinnu tveir starfsmenn gjörgæsludeildarinnar, læknir og hjúkrunarfræðingur, sem höfðu smitast af COVID-19 og verið í einangrun. „Þeir eru búnir að ná sér, eru útskrifaðir og komnir til vinnu. Það er mjög gleðilegt,“ segir Ólöf. „Og við hlökkum mikið til að fá hitt fólkið okkar sem er í sóttkví eða einangrun til baka.“

Verið heima!

Víðir, Þórólfur og Alma hafa hvatt fólk til að halda sig heima um páskana. Ekki sé skynsamlegt að fara í ferðalag um landið. Ólöf segist hafa áhyggjur af páskunum. „Um páska eru nær alltaf einhver stórslys, þegar fólk er að fara upp um fjöll og firnindi og út úr bænum. Ég vil segja það sama og þríeykið: Verið þið heima. Við erum hér fyrir ykkur en verið þið heima fyrir okkur. Það skiptir okkur rosalega miklu máli. Þetta er ekkert grín, það er verið að gera þetta fyrir okkur öll og við verðum að þrauka þetta saman. Við verðum að reyna að vernda viðkvæmu hópana okkar. Við verðum að vera öll saman í þessu. Það þarf ekki nema einn til að fara út af sporinu – það getur verið mjög afdrifaríkt.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiViðtal