Aðsend

„Núna er heil þjóð og í raun allur heimurinn í einu og sama liðinu“

Vilborg Arna Gissurardóttir hefur í leiðöngrum sínum sýnt fádæma þrautseigju og úthald. Hún gekk ein á suðurpólinn og lenti í áföllum á Everest áður en hún náði toppnum í þriðju tilraun. Hún segir alltaf eitthvað koma upp á sem þurfi að aðlagast. Umburðarlyndi sé lykillinn að því að komast á áfangastað, hvort sem hann er tindur hæsta fjalls heims eða dagurinn sem kórónuveiran kveður.

Vilborg Arna Gissurardóttir, pól- og Everestfari, hefur lent í áföllum sem breyttu henni fyrir lífstíð. Tvisvar var hún á hæsta fjalli heims þegar hörmungar dundu yfir og allt breyttist í einni svipan. Öll plön fuku út í veður og vind og erfiðar tilfinningar virtust yfirþyrmandi.

En hún hélt áfram. Og árið 2017 reyndi hún við Everest-fjall í þriðja sinn og tókst að ná toppnum. Þó ekki án þess að fella nokkur tár.

Vilborg þekkir það líka vel að vera ein. Hún gekk ein um ísbreiður Suðurskautslandsins í sextíu daga og varð fyrsta íslenska konan til að komast á suðurpólinn árið 2013.

En hún þekkir það líka að hafa ætlað að njóta félagsskapar annarra í leiðangri en verða óvænt að ljúka ferðalaginu ein síns liðs.

Til þessara afreka þarf þrautseigju, úthald og seiglu. Rétt eins og við þurfum nú öll að tileinka okkur á tímum samkomubanns og annarra takmarkana á samneyti við annað fólk. Aðstæðurnar eru óvæntar, þær breyta lífi okkar allra tímabundið og sumra til lengri tíma. 

Auglýsing

 „Þetta er mikill tilfinningarússíbani eins og hjá eflaust mörgum,“ segir Vilborg í samtali við Kjarnann spurð hvernig hún hafi það þessa dagana. Hún segir ástandið hafa mikil áhrif á sitt líf, m.a. vegna þess að hún reki fyrirtæki í ferðaþjónustu, Tinda Travel. Öllum fyrirhuguðum ferðum og námskeiðum hafi verið aflýst eða frestað. Til að halda þeim sem höfðu skráð sig á námskeið við efnið hafa Tindar Travel hins vegar efnt til hvatningarkeppni í hreyfingu á meðan ástandið varir. „Við erum að aðlaga okkur að breyttum aðstæðum.“

Vilborg segir að fyrirtækið hennar sé líklega í betri aðstæðum en mörg önnur í sama geira. Ekki hafi verið farið út í miklar fjárfestingar og fyrirtækið sé því ekki mjög skuldsett. En vissulega blasi tekjumissir við þar sem starfsemin er nánast engin. Hún hefur einnig haft atvinnu af því að halda fyrirlestra en eðli málsins samkvæmt er enginn slíkur fyrirhugaður á næstunni. „Þannig að allar tekjuleiðir eru á ís í bili.“

En ástandið hefur einnig önnur áhrif á líf Vilborgar. Hún var flutt með annan fótinn til Slóveníu þar sem maðurinn hennar, fjallagarpurinn Aleš Česenog, og synir hans búa. „Og núna er óvíst hvenær ég fæ að sjá þá aftur.“

Vilborg Arna og kærasti hennar, Aleš Česenog.
Aðsend

Vilborg hitti feðgana síðast í febrúar og á ekki von á því að hitta þá næstu vikurnar. „Við söknum öll hvers annars mjög mikið,“ viðurkennir Vilborg. Hún og Aleš hafa allt sitt samband verið í fjarbúð og þekkja því að vera án hvors annars um hríð. En á þessu ári stóð til að breyta því. „En það verður enn einhver bið á því,“ segir Vilborg og hlær létt.

Margir eru í þó erfiðari stöðu, segir Vilborg. Hún nefnir sem dæmi afa sinn og ömmu. Afi hennar er á hjúkrunarheimili en amma hennar býr heima. Núna er heimsóknarbann á öldrunarheimilum og þau geta ekki hist. „Þannig að það eru margir á svipuðum stað og ég og Aleš, jafnvel fólk í sama póstnúmeri.“

Vilborg hafði aðsetur hjá fjölskyldunni sinni á Íslandi á meðan fjarbúðinni stóð. En þar hefur orðið breyting á. „Þar á bæ voru einstaklingar sem voru í miklum áhættuhópi þannig að ég endaði á að flytja út frá þeim og inn í litla íbúð sem vinkona mín á.“

Þetta segist hún hafa gert til að minnka bæði áhyggjur og álag. „Þó að ég sé ekki í áhættuhópi verð ég að sýna öðrum tillitsemi og reyna að leggja mitt af mörkum eins og ég get.“

Vilborg í hópi fólks á fjöllum.
Aðsend

Vilborg segist búa vel að því að lífsstíllinn hennar hafi síðustu ár verið „svolítil harmonikka“ eins og hún orðar það. Hún hafi ferðast mjög mikið um heiminn og aðlagað sig að þeim áskorunum sem því fylgir.

„Ég lifi núna bara eins og ég sé á ferðalagi,“ segir hún. „Á ferðalagi þá reynir maður stöðugt að forðast það að fá sýkingar. Í stórum leiðöngrum reynir maður að forðast það að fá í magann, verða kvefaður og þar fram eftir götunum.“

Við erum öll í sömu sporum

Hún segist því eins og svo margir aðrir hafa tekið upp þá lifnaðarhætti að vera með sprittbrúsa við hönd á heimilinu og í bílnum. Svo reyni hún að fylgja öllum leiðbeiningum. „Þetta er allt óneitanlega líkt því sem maður gerir á ferðalögum.“

En það sem skipti hana persónulega mjög miklu máli sé að halda í bjartsýnina. „Að reyna að einbeita sér að því sem lætur mér líða vel, það sem ég get gert og reyna að leysa fljótt úr þeim vandamálum sem koma upp. Við erum öll í sömu sporum. Það er mikill skilningur alls staðar og því engin ástæða til að láta erfiðu símtölin eða ákvarðanirnar bíða.“

Auglýsing

Gott sé að halda í það sem veiti vellíðan. „Ég hef verið á gríðarlegri keyrslu síðustu ár og margt sem ég hef ekki fundið tíma til að gera. Núna reyni ég að nýta tímann til að gera það sem hefur setið á hakanum.“

Og hvað er það sem veitir Vilborgu Örnu vellíðan, hún hefur ekki haft tíma til að gera en er nú byrjuð að gera aftur?

„Ég er farin að baka,“ segir hún með ánægju í röddinni. „Ég hef oft sagt að bakstur sé það sem afstressar mig mest. Hann krefst svo mikillar einbeitingar. Ég hafði ekki bakað í tvö og hálft ár! Og núna leita ég aftur í baksturinn sem ég vissi að myndi gefa mér mikið.“

Lagt af stað með markmið

Vilborg Arna hefur oft á tíðum sýnt fádæma þrautseigju og seiglu. Spurð um dæmi þar sem sérstaklega hefur reynt á þessa þætti nefnir Vilborg stóra leiðangra sem hún hefur farið í. Og þá á hún ekki aðeins við leiðangra upp á hæstu fjöll heims eða yfir Suðurskautslandið. Heldur líka annars konar leiðangra; svo sem að stofna eigið fyrirtæki.

„Í alla leiðangra leggur maður af stað með einhver markmið,“ segir hún, „og einhvern ramma um hvernig maður ætlar að ná á áfangastað. En ég hef aldrei lent í því að geta hakað í öll boxin á þeim markmiðum sem ég legg af stað með í upphafi. Það kemur alltaf eitthvað upp á. Það er veður, einhverjar aðstæður í fjöllunum, veikindi. Það þarf stöðugt að endurskoða planið og aðlaga sig að breyttum aðstæðum.“

Fyrirtækið Tindar Travel, sem Vilborg Arna stofnaði og rekur, fer með fólk í fjalla- og jöklaferðir.
Aðsend

Vilborg segist reynslunni ríkari að mörgu leyti. Hún hafi í byrjun alltaf lagt af stað með gríðarlega miklar væntingar. „Það sem ég lærði er að halda væntingum í lágmarki. Auðvitað er maður með væntingar til nýrra verkefna en það er gott að reyna að stýra þeim vegna þess að það er alveg öruggt að það sem maður leggur af stað með í upphafi gengur aldrei nákvæmlega upp eins og maður sá fyrir sér.“

Væntingar og vonbrigði haldast í hendur. Því sé mikilvægt að láta vonbrigði ekki draga sig niður, „og ekki refsa sjálfum sér þegar eitthvað kemur upp á. Sumu stýrir maður og öðru ekki“.

Áhrifin vara í lengri tíma

Og hlutirnir hafa sannarlega ekki farið alltaf eins og til stóð í leiðöngrum Vilborgar. Hún hefur tvisvar verið á Everest þegar ósköp hafa dunið yfir og stórslys orðið. „Þau áföll breyttu mér fyrir lífstíð,“ segir hún. „Ég fór úr því að vilja aldrei klifra aftur yfir í það að finna neistann og ástríðuna á ný.“

Á meðan hún var í aðstæðunum fann hún sjálfsbjargarhvötina brjótast út á augabragði. „Maður þarf að átta sig á því að lenda á svoleiðis stað getur haft áhrif á mann til lengri tíma. Það er ekki búið nákvæmlega daginn sem maður yfirgefur aðstæðurnar. Maður þarf tíma til að vinna sig út úr hlutunum eftir á.“

Auglýsing

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur sagt það verða mikla áskorun að aflétta samkomubanni án þess að faraldurinn komi upp að nýju. „Við þurfum að huga að því hvernig við högum okkur eftir að banninu verður aflétt,“ segir Vilborg. „Huga að því hvenær sé rétti tíminn að taka í höndina á fólki, ferðast og svo framvegis. Þetta verður aðlögunartími sem við þurfum að fara rólega í gegnum þar til við náum þeim stað sem við vorum á fyrir.“

Þúsundir Íslendinga eru í sóttkví eða einangrun vegna veirunnar. Margir hafa fólkið sitt í kringum sig en í einhverjum tilfellum er fólk eitt.

Vilborg gekk ein á suðurpólinn og gangan tók sextíu daga. Er hægt að undirbúa sig fyrir einveru?

„Fyrir þann leiðangur þá æfði ég mig í því að vera ein,“ segir hún. „En það er munur á því að velja að vera einn og því að lenda í aðstæðum þar sem maður þarf að vera einn. Ég hef prófað bæði.“

Eitt að vera einn, annað að vera einmana

Vilborg hefur lagt af stað í leiðangur ásamt félaga en vegna veikinda hans þurft að ljúka ferðalaginu ein. „Það fannst mér rosalega erfitt. Mér fannst það allt önnur tilfinning heldur en þegar ég hafði ákveðið að vera ein, var búin að skipuleggja mig að vera ein og æfa mig í því.“

Hvernig er hægt að verjast því að einveran breytist í einmanaleika?

„Fyrir mig hefur lykillinn að því alltaf verið sá að búa mér til tilgang. Tilgang yfir hvern dag og tilgang yfir ákveðið tímabil.“

Síðast þegar Vilborg var á Everest var hún búin að undirbúa sig vel. Í slíkum leiðöngrum er mikil bið. Bið og meiri bið eftir að komst upp á fjallstoppinn. „Á leiðinni upp í grunnbúðir tók ég viðtöl við heimamenn og myndir. Á meðan ég þurfti svo að bíða notaði ég tímann í að skrifa greinar, blogg og búa til alls konar efni.“

Það er auðvitað misjafnt hvað hentar hverjum og einum þegar kemur að því að finna sér tilgang. Það getur að sögn Vilborgar falist í því að bæta heilsuna og rækta hugann. „Núna til dæmis væri gott fyrir mig að vera að læra slóvensku,“ segir hún og hlær. Hún segist bæta nokkrum orðum við orðaforðann reglulega enda eigi hún stjúpbörn sem haldi henni við efnið.

Allir ættu að geta fundið sér eitthvað til að dunda sér við, æfa sig í og læra. „Það sem mér hefur fundist svo fallegt í þessum aðstæðum núna er hvað margir eru að bjóða upp á allskonar, gefa af sér. Það er boðið upp á jóga á netinu, listamenn bjóða manni heim í stofu í gegnum netið. Þetta er fólk að gefa okkur, þetta eru framlög þessara einstaklinga til annarra. Það finnst mér rosalega fallegt.“

En er hægt að rækta í sér þrautseigju og úthald? Eða eru þetta meðfæddir eiginleikar?

Vilborg telur að í einhverjum tilfellum og að einhverju leyti séu þessir eiginleikar meðfæddir. „En svo er þetta reynsla, hún spilar rosalega stóran þátt. Ef ég horfi átta ár aftur í tímann þá sé ég mikinn mun á sjálfri mér hvað þetta varðar. En það sem skiptir líka gríðarlegu máli er umburðarlyndi. Ég viðurkenni það að áður hafði ég lítið umburðarlyndi gagnvart alls konar hlutum. En ég lærði hratt að það var nauðsynlegt vegna þess að maður getur aldrei haft allt eftir sínu höfði.“

Vilborg segir að sýna þurfi umburðarlyndi fyrir aðstæðum annars vegar og öðru fólki hins vegar. „Núna er heil þjóð og í raun allur heimurinn í einu og sama liðinu. Við erum öll liðsfélagar. Það skiptir svo miklu máli hvernig við gagnrýnum hvert annað. Það skiptir máli að nota ekki skammaryrði og beita öðrum neikvæðum aðferðum. Við skulum gera hlutina á jákvæðan hátt því þetta er rosalega hraður lærdómsferill. Það er ekki hægt að komast í gegnum hann nema að gera mistök. Og við gerum öll mistök.“

Í erfiðum aðstæðum sé ofar öllu að hjálpast að frekar en að rífa hvert annað niður.
Auglýsing

Núna þegar samkomubann hefur verið í gildi í þrjár vikur og verið  framlengt til 4. maí fyllast sumir óþreyju og þá skapast hætta á því að fólk slaki of mikið á sóttvarnarráðstöfunum sem heilbrigðisyfirvöld telja nauðsynleg til að hægja á útbreiðslu faraldursins.

„Já, þá kemur upp þessi óþolinmæði sem blundar í okkur svo mörgum,“ segir Vilborg. Allir þurfi að læra margt nýtt á skömmum tíma og eðlilegt sé að fólk geri mistök, til dæmis að gleyma því að halda tveggja metra fjarlægð við næsta mann í búð eða hóa í spilakvöld með félögunum og gleyma sér þegar hæst ber leik.

Viðurkennum mistök

Hún segist sjálf hafa misstigið sig í þessu ferli, hafa gleymt sér. „En þá skiptir máli að spýta í lófana og gera betur næst. Viðurkenna mistökin, biðjast afsökunar, en taka sig svo á og halda áfram.“

Fólk er svo vanafast, við höfum hvert og eitt búið okkur til siði og venjur í samskiptum við annað fólk sem núna þarf skyndilega að láta af. Að breyta venjum er erfitt – hugurinn leitar í það sem hann þekkir og kann. „Það er því eðlilegt að gera mistök, enginn vill gera þau en þau gerast.“

Þegar Vilborg leggur af stað í leiðangur er alltaf ákveðin óvissa fyrir hendi. Margt getur komið upp á sem tefur för og breytir áætlunum. Við vitum að ástandið í heiminum nú er tímabundið en ekki hvenær því lýkur.

Hvaða áhrif hefur þessi mikla óvissa á úthald og seiglu?

„Það er alltaf auðveldara að halda út ef maður veit hvað tímabilið er langt,“ svarar Vilborg. „Þá er mikilvægt að muna að þetta mun ekki vara að eilífu. Við vitum að við erum að horfa á einhverjar vikur og jafnvel mánuði til viðbótar en að öllum líkindum ekki lengra tímabil en það.“

Einnig er gott fyrir alla að íhuga hvernig maður vill koma út úr þessu tímabili, segir Vilborg. „Hver vill maður vera? Hef ég núna tækifæri til að vinna í sjálfum mér, heilsunni minni? Þetta er brjálæðislega erfitt fyrir marga. Það er tekjubrestur víða, öll plön eru horfin út í veður og vind. Það er vissulega mikil óvissa og erfiðar tilfinningar.“

Snjódrífurnar höfðu æft sig fyrir leiðangur yfir Vatnajökul sem átti að fara í fyrir nokkrum dögum. Hann mun frestast um hríð.
Aðsend

Þegar Vilborg hefur lent í erfiðum aðstæðum og upplifað erfiðar tilfinningar reynir hún að skrifa niður það sem er að valda henni vanlíðan og forgangsraða hvernig hún ætlar að takast á við það. Margir eiga trúnaðarvini sem þeir geta leitað til þegar erfiðar tilfinningar og hugsanir vakna. Að tala við einhvern sem maður treystir getur létt á líðaninni. „Þegar maður talar um hlutina við aðra er oft hægt að finna lausn eða leið í sameiningu. Núna erum við svo mörg að ganga í gegnum það sama og þá finnur maður vel fyrir samhug fólks. Við erum öll tilbúin að hjálpast að.“

Bíða og sjá

Framtíðarplön Vilborgar Örnu hafa frestast og breyst eins og annarra. Í síðustu viku stóð til að hún færi með hópi kvenna, Snjódrífunum, yfir Vatnajökul. Þeirri ferð hefur nú verið frestað fram í júní að minnsta kosti. Annar leiðangur var einnig fyrirhugaður á Vatnajökul í sumar. „En ég hlakka til að takast á við Snjódrífuverkefnið með vinkonum mínum í júní. Mér finnst mjög mikilvægt að hafa eitthvað til að hlakka til.“

Svo er ákveðnu tímabili í lífi Vilborgar Örnu að ljúka bráðlega: Fertugsaldrinum. Hún verður nefnilega fertug í sumar. „Og þá langar mig að gera eitthvað skemmtilegt. En ég verð að sjá hvað verður mögulegt að gera þá. Bíða og sjá.“

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiViðtal