Þorkell Þorkelsson/Landspítalinn Hafdís Bjarnadóttir

Upplifði „allskonar tilfinningar“ í byrjun faraldursins

„Það eru allir í hálfgerðri sóttkví heima á milli vakta,“ segir Hafdís E. Bjarnadóttir sjúkraliði. Hún sinnir því mikilvæga starfi að sótthreinsa skurðstofur á Landspítalanum og tæki og tól sem notuð eru. Breyta þurfti verkferlum vegna COVID-19 og fann Hafdís fyrst fyrir hræðslu. Fljótt fór þó allt að ganga eins og vel smurð vél. „En mikið hlakka ég til að knúsa og kyssa börnin og barnabörnin.“

Ég hef það fínt þessa dagana en ég upplifði allskonar tilfinningar á meðan við vorum að átta okkur á þessu ástandi,“ segir Hafdís E. Bjarnadóttir, sjúkraliði og tannfræðingur, sem er hluti af skurðstofuteyminu á Landspítalanum við Hringbraut. „Í upphafi fann ég stundum fyrir hræðslu, ég óttaðist líka óvissuna sem öllu þessu fylgdi og spurði mig stöðugt hvort við værum að gera hlutina rétt, hvort við værum að verja okkur nógu vel.“


Hafdís starfar á deild sem kallast 12 C D og sinnir því veigamikla hlutverki að sótthreinsa tæki og tól, meðal annars svæfingavélarnar.


Er faraldur COVID-19 hófst voru ýmsar aðgerðaáætlanir á Landspítalanum virkjaðar. Ákveðið var að sjúklingum með COVID-19 yrði sinnt í Fossvogi en til vara átti að flytja sjúklinga með COVID-19 á Hringbraut. Þegar þeim hafði fjölgað hratt er faraldurinn var að ná hámarki voru nokkrir sjúklingar með sjúkdóminn fluttir þangað. Að auki lágu þar inni sjúklingar með grun um smit.

Hafdís og aðrir starfsmenn sem sinna sótthreinsun á Hringbraut þurftu að endurskoða alla verkferla. Þegar voru til staðar sérstakir ferlar fyrir skurðaðgerðir þar sem sjúklingar eru með sýkingar en „þetta var svo nýtt og ólíkt öllu því sem við þekktum,“ segir Hafdís um fyrstu dagana og vikurnar. „Þess vegna urðum við að finna nýjar leiðir. Og það tók tíma að koma öllu á hreint, hvernig útfæra ætti vinnuna.“

Þegar verkferlarnir voru klárir og tryggir var Hafdísi létt og vinnan gekk vel og örugglega.


Auglýsing

Hafdís er að norðan. Hún lauk sjúkraliðanámi á Akureyri árið 1981. Hún vann að því loknu á ýmsum deildum Sjúkrahússins á Akureyri áður en hún fór ásamt eiginmanni sínum, Jóni Rafnssyni, í frekara nám til Stokkhólms. Hafdís lærði tannfræði og Jón var í tónlistarnámi. Þau bjuggu í Svíþjóð í sjö ár.

Eftir heimkomuna vann Hafdís til skiptis sem sjúkraliði og tannfræðingur og var á tímabili með stofu á hjúkrunarheimilinu Droplaugarstöðum í Reykjavík. Tannfræðingar sinna að mestu fyrirbyggjandi aðgerðum s.s fræðslu, hreinsun á tannsteini, að koma í veg fyrir og stoppa sýkingar í tannholdi, festingum tanna og munnholi og fleiru. Hafdís naut starfsins á Droplaugarstöðum með gamla fólkinu og fannst gott að leggja sín lóð á vogarskálarnar til að viðhalda tannheilsu þeirra og þar með lífsgæðum. „Tannheilsa skiptir sköpum þegar kemur að því að nærast á efri árum sem og að dregur úr notkun verkjalyfja. Þarna gat ég nýtt þekkingu mína og nám í botn,“ segir Hafdís.

Hún var svo í sambandi við tannlækna og tannsmiði sem hún gat leitað til þegar þörf var á.


Hafdís við störf sín á Landspítalanum við Hringbraut.
Þorkell Þorkelsson/Landspítalinn

En svo kom hrunið.

Þá var ákveðið að skera niður á ýmsum sviðum hjá Reykjavíkurborg og meðal annars þá þjónustu sem Hafdís hafði veitt á Droplaugarstöðum. Hún barðist fyrir því að fá að halda henni áfram enda hafði hún náð góðum tengslum við sína skjólstæðinga, meðal annars fólk með heilabilun sem á margt hvert erfitt með snertingu. „Ég  fór til dæmis á morgnana inn til nokkurra og hjálpaði þeim sem á þurftu að halda að bursta tennurnar,“ rifjar hún upp.

En Hafdís varð að játa sig sigraða, loka stofunni á Droplaugarstöðum og fór að starfa sem sjúkraliði á ný, meðal annars í heimahjúkrun í um sjö ár.

Breytt um kúrs

Hafdís ákvað svo að hætta vinnu við umönnun þar sem hún var búin að vinna við það starf mjög lengi og fannst komið gott. Þannig gerðist það að hún fór að vinna á Landspítalanum við að sótthreinsa verkfæri sem þar eru notuð og hreinsa skurðstofurnar. Á því hafði hún töluverða þekkingu bæði úr sjúkraliðanáminu og tannfræðinni.

Í starfi Hafdísar og samstarfsmanna hennar felst aðra vikuna það að fara inn á skurðstofur á milli aðgerða og fjarlægja allt sem hefur verið notað og er óhreint, til dæmis maska, slöngur og fleira. Svo er fyllt á með nýjum og hreinum hlutum. Einnig fer hún um allar stofur spítalans við Hringbraut þar sem verið er að nota svæfingarvélar til að tryggja að allt sé hreint og sótthreinsað.


Ein skurðstofa á Landspítalanum við Hringbraut var útbúin sérstaklega fyrir COVID-19 sjúklinga. Á efri myndinni má sjá viðbúnað starfsmanna í miðjum faraldri og á þeirri neðri stofuna tóma eftir að faraldurinn rénaði.
Tómas Guðjbartsson

 Hina vikuna sér Hafdís um að taka á móti óhreinum verkfærum út af skurðstofunum og meðhöndla þau rétt. Sumt fer beint inn í stórar þvottavélar sem eru á Hringbrautinni en annað þarf að handþvo og meðhöndla sérstaklega með ýmsum efnum og dauðhreinsa.

Og nú í faraldri COVID-19 hefur þurft að gæta þess út í ystu æsar að veiruna sé hvergi að finna, hvorki á tækjum eða tólum né á göngum, veggjum, í lyftum spítalans og svo fram eftir götunum. Hafdís hefur ávallt verið undirbúin undir það að einstaklingur sýktur af COVID þurfi á skurðaðgerð að halda. Til þess hefur ekki komið sem betur fer en grunur um smit var hjá einhverjum sjúklinganna og meðhöndla þurfti þá á nákvæmlega sama hátt og væru þeir smitaðir. „Þá förum við sem þrífum og tökum á móti verkfærum í hlífðarbúninga,“ segir Hafdís um vinnu sína þá daga.

Skurðstofa sérstaklega fyrir COVID-smitaða

Ein skurðstofan á 12 C D  var sérstaklega útbúin svo að hægt væri að sinna þar sjúklingum með COVID. Inni á henni er reynt að hafa aðeins það sem nauðsynlegt er fyrir hverja aðgerð. Ef eitthvað vantar er það flutt inn á stofuna í gegnum sérstakan skáp.

„Þegar tekið er á móti verkfærum út af skurðstofu eftir svona aðgerðir þarf að fara mjög varlega,“ segir Hafdís. „Það þarf að færa þau beint inn í þvottavél sem þvær á miklum hita með sápu sem drepur veiruna. Á leiðinni frá skurðstofunni og inn í vélina þarf að gæta þess að verkfæri sem mögulega eru sýkt komi ekki nærri neinu öðru.“


Hafdís að undirbúa skurðstofu fyrir næstu aðgerð.
Þorkell Þorkelsson/Landspítalinn

Eftir aðgerð er skurðstofunni lokað og ekkert er tekið fram strax. Bíða þarf í hálftíma eftir að loftið setjist og hreinsist. Þá má Hafdís fara inn á stofuna, alklædd hlífðarbúnaði, og sækja það sem þarf að sótthreinsa og henda öðru.

Verkfæri sem þarf að þrífa koma út af skurðstofunni í lokuðum pokum. „Það verður að tryggja að enginn hlekkur í keðjunni fari í sundur svo að veiran, sé hún til staðar, sleppi ekki út. Út á þetta gengur allt okkar starf og allir okkar verkferlar.“

Sjúklingar eltir af ræstingarfólki með spritt

Nokkrum sinnum þurfti að flytja sjúklinga með COVID-19 af gjörgæslunni og á röntgendeildina. Sú leið liggur í gegnum hluta skurðstofugangsins. „Þá þarf að loka ganginum, taka allt út sem hægt er að taka út og breiða yfir hluti sem ekki er hægt að fjarlægja. Ræstingarfólkið þarf að fara á eftir sjúklingnum og þrífa alla veggi og gólf með sótthreinsandi efnum jafnóðum, bæði á leið hans á röntgendeildina og aftur upp á gjörgæsluna.“

Til að byrja með var að mörgu að huga að sögn Hafdísar. „Við héldum til dæmis að við þyrftum að taka hluta úr svæfingarvélunum eftir hvern sjúkling og þvo, þurrka og setja í dauðhreinsiofn og setja svo aftur saman. Við vorum byrjuð að gera þetta. En mikill léttir varð þegar kom í ljós, eftir samtal við framleiðanda erlendis, að það þurfti ekki að gera þetta. Þetta var gríðarleg vinna og tímafrek, en nú kunnum við þetta alla vega,“ segir hún og hlær.

Almenn sótthreinsun á veggjum, hurðum og öðru er ávallt mikil á sjúkrahúsum en hefur verið enn meiri núna. „Það eru margir lítrarnir af spritti sem hafa verið notaðir síðustu vikurnar,“ segir Hafdís.


Auglýsing

Verkferlarnir hafa allir slípast til og nú gengur Hafdís óttalaus og örugg til verka hvern dag. Álagið hefur verið öðruvísi og meira en „við höfum ráðið vel við það, allt gengur eins og smurð vél. Við höfum líka sloppið við veikindi meðal starfsfólksins. Mér finnst mjög einkennandi hvað það er mikil samstaða og samvinna á milli allra sem vinna á deildinni. Allir hafa passað sig, eru ekki í samneyti við aðra en sína nánustu utan vinnu. Það eru allir í hálfgerðri sóttkví heima á milli vakta.“

Sjálf hefur Hafdís fáa hitt utan vinnu að undanförnu og segir samskipti fara að mestu fram í gegn um síma og myndsímtöl. „Barnabörnin eru ofboðslega vonsvikin að fá ekki að knúsa okkur og við söknum öll fjölskyldumatarboðanna. En maður tekur þetta ástand alvarlega og vill að allt gangi upp því maður er einn hlekkur í þessu öllu. Ef maður er kærulaus getur það haft vondar afleiðingar fyrir svo marga,“ segir hún og bætir svo við: „En mikið hlakka ég til að geta farið að knúsa og kyssa börnin og barnabörnin aftur.“


Vinnan hefur verið í forgangi hjá Hafdísi eins og fjölmörgum öðrum heilbrigðisstarfsmönnum síðustu mánuði.
Þorkell Þorkelsson/Landspítalinn

Ekki þurfti að fjölga í hópi starfsmanna sem sinna sótthreinsuninni á Hringbraut þar sem ákveðið var að skipta þeim í tvo hópa til að minnka líkur á smiti og sóttkví.

Í næstu viku stendur til að hefja valkvæðar skurðaðgerðir á nýjan leik en þeim var frestað vegna faraldursins. Það þýðir þó ekki að Hafdís og aðrir sem vinna á skurðstofunum þurfi að slaka á sótthreinsuninni og því að gæta annarra sóttvarna til hins ítrasta. „Svo við munum ennþá reyna að halda tveggja metra reglunni og þar fram eftir götunum,“ segir Hafdís.


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiViðtal