United Silicon

Arion banki vill blása aftur lífi í kísilverið – og stækka það

Bæjarbúar fengu „upp í kok“ á kísilverinu í Helguvík, segir íbúi sem barðist fyrir lokun verksmiðjunnar. Honum hugnast ekki fyrirætlanir Stakksbergs, sem er í eigu Arion banka, að ræsa ljósbogaofninn að nýju og óttast að „sama fúskið“ endurtaki sig. Í frummatsskýrslu um endurbætur versins kemur fram að með nýjum aðferðum verði mengun frá fjórum ofnum minni en frá einum áður.

Áfallasaga kísilversins í Helguvík hófst löngu áður en kynt var upp í ljósbogaofninum Ísabellu í fyrsta skipti. Ísabella var óstöðug allt frá upphafi og átti ítrekað eftir að hiksta og hósta með tilheyrandi mengun þar til yfir lauk. Það kom alvarlega niður á fólki sem bjó í nágrenninu sem og bæjarfélaginu er stólað hafði á tekjur frá fyrirtæki sem var orðið gjaldþrota rúmu ári eftir að fyrstu neistarnir voru bornir að Ísabellu.

Helsti lánardrottinn fyrirtækisins, Arion banki, fékk svo að finna fyrir því og endaði að lokum með verksmiðjuna í fanginu. Bankinn hefur haft þá stefnu að gera endurbætur á verksmiðjunni og auka framleiðslugetuna. Nú liggur fyrir, í frummatsskýrslu á umhverfisáhrifum, hvernig hann ætlar að gera það.  En helst af öllu vill bankinn þó finna kaupanda. Það hefur hingað til ekki tekist og gæti við núverandi aðstæður reynst þrautin þyngri.


Auglýsing

Rúmlega 10.500 tonn af kolum og tæplega 3.000 tonn af viðarkolum voru notuð á þeim tæplega tíu mánuðum sem kísilverksmiðja United Silicon í Helguvík starfaði með hléum á árunum 2016-2017. Þá voru 97,5 tonn af dísilolíu og bensíni notuð. Á þessum tíma var losun koltvísýrings frá jarðefnaeldsneyti 31.410 tonn og frá lífmassa 33.847 tonn –  samtals um 65.257 tonn. Losuð voru 115 tonn af brennisteinsdíoxíði út í andrúmsloftið en vegna „tæknilegra örðugleika“ voru gögn úr mælibúnaði fyrir svifryk ekki talin áreiðanleg.

Núverandi eigandi verksmiðjunnar, Stakksberg sem er alfarið í eigu Arion banka, vill hefja rekstur kísilverksmiðjunnar á ný og bæta í framtíðinni við þremur ljósbogaofnum til viðbótar. Markmiðið er að framleiða 100 þúsund tonn af kísli á ári. Til þess þarf 80.000 tonn af kolum, 8.000 tonn af viðarkolum og 90 þúsund tonn af viðarflís ásamt þúsundum kílóa af fleiri hráefnum.  

130 MW þarf fyrir fjóra ofna

Raforkuþörfin fyrir slíka framleiðslu er um 1.300 Gwh. Núverandi ofn verksmiðjunnar þarf um 32 MW við dæmigert álag og tryggir samningur við Landsvirkjun það afl. Ekki er þó útlit fyrir að orkan fáist afhent fyrr en á fyrri hluta ársins 2022 og því er gert ráð fyrir að framleiðslan geti hafist þá. Ekki hefur verið samið við orkufyrirtækið um raforku fyrir stækkun kísilversins en fjórir ofnar gætu þurft um 130 MW.

Framleiðsla kísilmálms felur í sér efnahvarf og við það losna ýmis mengandi efni út í andrúmsloftið og þá helst koltvísýringur (CO2), brennisteinsdíoxíð (SO2), köfnunarefnisoxíð (NOx) og svifryk. Einnig eru losaðir þungmálmar og rokgjörn lífræn efnasambönd (VOC).

Áætluð heildarlosun koltvísýrings í kísilverinu í Helguvík er allt að 130.000 tonn á ári fyrir einn ofn og 520.000  tonn ári fyrir fullbyggða verksmiðju. Heildarlosun Íslands á gróðurhúsalofttegundum eykst um 10% þegar og ef verksmiðjan verður gangsett að nýju, ef miðað er við fulla framleiðslugetu, að því er fram kom í svari Umhverfisstofnunar við fyrirspurn RÚV í fyrra.


Kísill er unninn úr kvarsi. Til framleiðslunnar þarf að hita ofninn í 1900°C.
Af Wikipedia

Stakksberg undirbýr nú endurbætur á kísilverinu sínu í Helguvík með allt að 25 þúsund tonna ársframleiðslu og í framhaldinu stækkun verksmiðjunnar í áföngum. Í fyrra kom fram að nauðsynlegar endurbætur kosti 4,5 milljarða króna. Þær fela meðal annars í sér framkvæmdir á lóð, breytingar á núverandi byggingum og nýbyggingar og uppsetningu á skorsteini.

Þetta stendur til þrátt fyrir að fram hafi komið í afkomuviðvörun Arion banka í lok janúar að óvissa væri á mörkuðum með kísil auk þess sem nokkrir framleiðendur hefðu dregið úr framleiðslu eða lokað verksmiðjum. Upplýsingafulltrúi bankans sagði við mbl.is af því tilefni að líkurnar á því að selja kísilverið í Helguvík hefðu dvínað en að stefnt væri að því að gera verksmiðjuna söluhæfa. Sá kostur að ræsa verksmiðjuna ekki að nýju, „samrýmist ekki markmiði framkvæmdaaðila,“ segir í frummatsskýrslu Stakksbergs, sem nú hefur verið auglýst til kynningar hjá Skipulagsstofnun.

Í skýrslunni er fjallað um og lagt mat á umhverfisáhrif af rekstri kísilversins. Fram kemur að ekki sé talið líklegt að verksmiðjan hafi umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér. Eru áhrifin talin vera nokkuð neikvæð á loftgæði, grunnvatn við fullbyggða verksmiðju og ásýnd en nokkuð jákvæð á atvinnustig samfélags á framkvæmdatíma og talsvert jákvæð á samfélag á rekstrartíma. Í inngangi skýrslunnar segir að markmiðið sé að lágmarka umhverfisáhrifin og „stuðla að því að starfsemin megi verða í sátt við íbúa svæðisins“.


Kíslinum er hellt í mót og hann látinn kólna og storkna. Kísillinn er síðan malaður og flokkaður, honum pakkað og hann fluttur með skipi til viðskiptavina fyrirtækisins.
United Silicon

Íbúar svæðisins eru fólkið í Reykjanesbæ. Nágrannar verksmiðjunnar sem veigruðu sér á sínum tíma við að setja ungbörn sín út í vagn að sofa, fundu fyrir særindum í öndunarfærum og gátu ekki opnað gluggana heima hjá sér fyrir óþef á meðan reynt var að temja og hemja Ísabellu, slökkva á henni og kveikja á víxl. „Þessi verksmiðja verður aldrei tekin í sátt af íbúum, það er mín tilfinning,“ segir Einar Már Atlason, formaður samtakanna Andstæðingar stóriðju í Helguvík, í samtali við Kjarnann. „Sumir eru enn fullir vantrausts og aðrir vilja þessa verksmiðju bara alls ekki í rekstur aftur heldur að hún verði rifin niður.“

Vantraustið má rekja til þess að stórkostleg áföll, mengun og margvísleg hneykslismál einkenna sögu kísilversins í Helguvík fram að þessu. Stofnandinn og fyrrverandi framkvæmdastjórinn, Magnús Garðarsson, er sér kapítuli út af fyrir sig.  Um mitt síðasta ár var skorað á hann í auglýsingu í Lögbirtingablaðinu að mæta fyrir héraðsdóm vegna kröfumáls í tengslum við gjaldþrotaskipti Sameinaðs sílikons hf. Þrotabúið höfðaði í fyrra að minnsta kosti tvö mál gegn honum vegna meintra fjársvika sem hlupu á hundruðum milljóna.

Magnús var áður eigandi Icelandic Silicon Corporation, forvera United Silicon, sem lét gera matsskýrslu á fyrirhuguðu kísilveri í Helguvík árið 2008. Önnur matsskýrsla en þó sambærileg var lögð til grundvallar starfsleyfis nokkrum árum síðar.


Magnús Garðarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri United Silicon.

Skipulagsstofnun gaf álit sitt á mati á umhverfisáhrifum 100 þúsund tonna ársframleiðslu félagsins Stakksbrautar 9 ehf. á kísli í Helguvík í maí árið 2013. Umhverfisstofnun veitti félaginu starfsleyfi rúmu ári síðar. Starfsleyfið var svo flutt yfir á félagið Sameinað Sílikon hf.

Núverandi mannvirki verksmiðjunnar voru byggð á árunum 2014-2016. Þegar þau hófu að rísa fóru að renna tvær grímur á íbúa Reykjanesbæjar. Áttu húsin virkilega að vera svona stór og áberandi? Í matsskýrslunni sagði að verksmiðjan myndi „varla verða sjáanleg frá Keflavík“ og á myndum sem fylgdu litu þau allt öðruvísi út. Þegar farið var að grafast fyrir um málið kom í ljós að hluti húsanna er þrettán metrum hærri en matsskýrslan og deiliskipulag gerði ráð fyrir og aðrir hlutar átta metrum hærri. „Mannleg mistök“ eru sögð hafa orðið til þess að teikningar sem húsin voru byggð eftir voru stimplaðar og þar með samþykktar hjá starfsmanni Reykjanesbæjar.

Kísilverið var gangsett 11. nóvember árið 2016 með einum ljósbogaofni sem fékk nafnið Ísabella. Framleiðslugetan var upp á um 25.000 tonn á ári. Fljótlega fóru íbúar í nágrenninu að finna óþef. Þegar í byrjun desember var slökkt á ofninum og tilkynnti Umhverfisstofnun Sameinuðu Sílikoni hf. að hann yrði ekki ræstur á ný fyrr en hún hefði metið yfirstandandi úrbætur.


Auglýsing

Á næstu mánuðum átti stofnunin ítrekað eftir að boða stöðvun á rekstri vegna lyktarmengunar og líkamlegra óþæginda sem margir nágrannar verksmiðjunnar fundu fyrir. Í mars hafði hún fengið yfir 300 kvartanir frá íbúum. Eftirlit stofnunarinnar átti svo eftir að leiða í ljós að mikill óstöðugleiki var á rekstri ljósbogaofnsins og þegar hann var rekinn með skertu álagi magnaðist mengunin. Fylgst var náið með rekstrinum næstu mánuðina og taldi stofnunin í lok ágúst árið 2017 að endurbætur hefðu ekki náð tilætluðum árangri.

Nokkrum dögum síðar eða þann 1. september tilkynnti Umhverfisstofnun ákvörðun sína um að stöðva starfsemi kísilverksmiðjunnar í Helguvík. Þá hafði hún skráð tuttugu frávik frá kröfum starfsleyfisins og fengið vel yfir þúsund kvartanir frá íbúum Reykjanesbæjar vegna mengunar.

Í þrot

Sameinað Sílikon hf. vann næstu vikurnar að umbótum á starfsemi kísilverksmiðjunnar í þeim tilgangi að fá heimild til að endurræsa ofninn. Þegar ljóst varð að það yrði ekki mögulegt nema með verulegum framkvæmdum var félagið tekið til gjaldþrotaskipta í lok janúar 2018. Félagið Stakksberg ehf., sem er í eigu Arion banka hf., keypti kísilverksmiðjuna í Helguvík af þrotabúinu og hyggst nú endurbæta hana svo hefja megi framleiðslu á kísli á ný.

Eitt helsta verkefnið sem við blasir er að bæta rekstur ofnsins og lágmarka mengun. Í því sambandi er ráðgert að reisa 52 metra háan skorstein sem mun „bæta verulega dreifingu mengunarefna í andrúmslofti í samanburði við núverandi fyrirkomulag“.

Líkan af fullbyggðri verksmiðju með 4 ofna. Einnig sést líkan af núverandi mannvirkjum á öðrum lóðum við höfnina í Helguvík. Líta ber á mannvirki framtíðaráfanga sem skematíska framsetningu á áætlaðri stærð þeirra. Framtíðarbyggingar eru sýndar í hvítum lit en búnaður sem yrði úr stáli, s.s. loftkælar, forskiljur og skorsteinar, sýndur í brúnum lit.
Úr frummatsskýrslu

Þá verða ýmis skref tekin til að bæta vinnuferla og tryggja aukið rekstraröryggi búnaðar til að fækka tilvikum þegar lækka þarf afl á ofni eða slá honum út, segir í frummatsskýrslunni. Stakksberg telur að endurbæturnar verði til þess að styrkur mengunarefna frá fullbyggðri verksmiðju með fjórum ofnum verði lægri heldur en frá ofninum eina með þeim aðferðum sem áður var beitt við útblásturinn. Þá segir í skýrslunni að styrkur mengunarefna verði í öllum tilvikum lægri en viðmiðunarmörk reglugerða segja til um.

Ákveðin viðhaldsverkefni í kísilveri eru þess eðlis að ekki er hægt að sinna þeim nema stöðva rekstur bræðsluofns. Í frummatsskýrslu Stakksbergs kemur fram að eitt af markmiðunum sé að slíkar rekstrarstöðvanir séu skipulagðar á fyrirfram ákveðnum tíma þannig að hægt sé að safna saman viðhalds- og þrifaverkefnum og þannig lágmarka bæði fjölda stöðvana og stytta þær eins og kostur er.

Aldrei hægt að útiloka lyktarmengun

Áætlað er að til að sinna fyrirbyggjandi viðhaldi sé nauðsynlegt að stöðva rekstur hvers ofns í 3-8 klukkustundir með 4-6 vikna millibili. Einnig má gera ráð fyrir tveggja til þriggja daga rekstrarstöðvun með 18-24 mánaða millibili. Við stöðvun á ofni verður fylgt stöðluðum verklagsreglum þar sem meðal annars verður kveðið á um breytingar í hráefnablöndu til að lágmarka hættu á lykt og óþægindum.

Endurbætur á kísilverksmiðjunni miða allar að því að bæta búnað og ferla sem ekki virkuðu sem skyldi í fyrri rekstri og leiddu í mörgum tilfellum til atvika þar sem stöðva þurfti eða draga úr framleiðslu í ljósbogaofninum, segir í frummatsskýrslu Stakksbergs. Minna afl á ofni þýddi lækkað hitastig og minni útblásturshraða sem leiddi til ófullnægjandi dreifingar útblásturslofts. „Þó endurbætur miði að því að fækka verulega tilvikum með skertu afli á ofni þá verður aldrei hægt að útiloka alveg slík tilvik auk þess að reglubundið viðhald á ofnbúnaði með útslætti verður alltaf nauðsynlegt.“


Loftmynd af kísilverinu í Helguvík sem tekin var í nóvember árið 2018.
Úr frumatsskýrslu

Kísill er annað algengasta frumefni jarðskorpunnar en finnst þó ekki á hreinu formi í náttúrunni. Hann finnst aftur á móti í mörgum efnasamböndum og bergtegundum. Til framleiðslu á kísli er einkum notað kvars (SiO2) en kísill er um helmingur af þyngd þess. Hægt er að finna kvars víða í heiminum, þar sem það er unnið úr yfirborðsnámum, en þó ekki á Íslandi. Kvarsið sem verksmiðja Stakksbergs kæmi til með að nota væri til dæmis frá Spáni, Frakklandi eða Egyptalandi.

Helstu hráefni til framleiðslu á kísli eru kvars, kol, koks, viðarkol, viðarflís og kalksteinn. Önnur efni sem notuð eru við framleiðsluna eru grafítrafskaut og rafskautamassi. Kísill er notaður í framleiðslu á ýmsum snyrtivörum, hulstrum fyrir farsíma og háþróuðu lími sem notað er í spaða vindmylla sem framleiða rafmagn, segir í frummatsskýrslunni. Þá kemur fram að hreinsaður kísilmálmur sé lykilefni í tölvutækni og rafeindaiðnaði og í framleiðslu á sólarhlöðum sem notaðar eru til að virkja raforku úr geislum sólarinnar.


Auglýsing

Í frummatsskýrslunni segir að áætlað sé að helstu framkvæmdir við endurbætur verksmiðjunnar taki rúmt ár og að framleiðsla geti hafist á fyrri hluta ársins 2022. Ekki sé ljóst hvenær verði ráðist í uppbyggingu seinni áfanga verksmiðjunnar. Það muni ráðast af markaðsaðstæðum og möguleikum á fjármögnun.

„Það hefur verið og verður áfram hörð andstaða við þetta kísilver. Bæjarbúar fengu algjörlega upp í kok“ segir Ellert Grétarsson, íbúi í Reykjanesbæ, sem var ötull baráttumaður þess að rekstur United Silicon yrði stöðvaður á sínum tíma. Hann kynnti sér undirbúning framkvæmdarinnar vel og benti ítrekað í aðsendum greinum á það sem aflaga fór við hann og í starfseminni er hún hófst. „Það var allt kolrangt við leyfisferlið og allar eftirlitsstofnanir féllu á prófinu,“ segir hann í samtali við Kjarnann. „Margir bæjarbúar óttast nú að sama ruglið og fúskið endurtaki sig.“

Hægt er að kynna sér frummatsskýrslu Stakksbergs og fylgigögn á vef Skipulagsstofnunar. Frestur til athugasemda er 26. júní.


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar