Tugmilljarða framsal á hlutum í Samherja er fyrirframgreiddur arfur og sala
Stærstu eigendur Samherja greindu frá því í síðustu viku að þeir hefðu framselt hlutabréf í innlendri starfsemi sjávarútvegsrisans til barna sinna. Um er að ræða fyrirtæki sem heldur, beint og óbeint, á 16,5 prósent af úthlutuðum kvóta á Íslandi og átti 60 milljarða króna í eigið fé í lok árs 2018. Því er framsalið umfangsmesti þekkti arfur sem greiddur hefur verið hérlendis, en hluti af tilfærslunni var sala. Erfðafjárskattur er tíu prósent og fjármagnstekjuskattur, sem sala á hlutabréfum ber, er 22 prósent.
Framsal hlutabréfa í Samherja hf. frá helstu eigendum félagsins til barna sinna átti sér stað annars vegar með því að börnin fengu fyrirframgreiddan arf, og hins vegar með sölu milli félaga. Ekki fást upplýsingar hjá Samherja um virði þess hlutar sem tilkynnt var um í síðustu viku að færður hefði verið á milli kynslóða né hvernig tilfærslunni var skipt milli fyrirframgreidds arfs og sölu.
Í svari Björgólfs Jóhannssonar, annars forstjóra Samherja, við fyrirspurn Kjarnans um málið kemur fram að Samherji sjálfur sé ekki aðili að breytingunum og því sé hann ekki í forsvari fyrir þær.
Fyrirspurn Kjarnans var ekki send á Björgólf persónulega heldur á það netfang sem Samherji hefur notast við árum saman í samskiptum sínum við fjölmiðla. Hinn forstjóri Samherja, Þorsteinn Már Baldvinsson, og útgerðarstjórinn Kristján Már Vilhelmsson, eru tveir þeirra þriggja eigenda sem eru að framselja hluti sína í Samherja til barna sinna. Þriðji stóri eigandinn er Helga S. Guðmundsdóttir, fyrrverandi eiginkona Þorsteins Más.
Af fyrirframgreiddum arfi ber að greiða tíu prósent erfðafjárskatt af öllum arfshlutanum. Af söluhagnaði hlutabréfa ber að greiða fjármagnstekjuskatt, sem er í dag 22 prósent.
Viðhalda mikilvægum fjölskyldutengslum
Samherji greindi frá því að heimasíðu sinni í síðustu viku að 86,5 prósent hlutur í Samherja hf., öðrum helmingi Samherjasamstæðunnar, hefði verið færður frá þremenningunum til barna þeirra. Eftir þá tilfærslu eru stærstu hluthafar Samherja hf. Baldvin og Katla Þorsteinsbörn, sem munu fara samanlagt með um 43,0 prósent hlut í Samherja og Dagný Linda, Halldór Örn, Kristján Bjarni og Katrín Kristjánsbörn, sem munu fara samanlagt með um 41,5 prósent hlutafjár. Í tilkynningu á vef Samherja sagði að með þessum hætti „vilja stofnendur Samherja treysta og viðhalda þeim mikilvægu fjölskyldutengslum sem félagið hefur ætíð byggst á og hafa verið hornsteinn í rekstrinum.“
Engar upplýsingar hafa verið sendar til fyrirtækjaskrár vegna þessara breytinga. Þar eru Kristján, Þorsteinn Már og Helga enn skráð sem aðaleigendur Samherja hf. Því er ekki hægt að sjá af slíkum gögnum, að minnsta kosti enn sem komið er, hvert kaupverðið á hlutunum var í sölu á milli félaga.
Eigið fé Samherja hf. var 446,7 milljónir evra í árslok 2018, en ársreikningur fyrirtækisins fyrir árið 2019 hefur ekki verið skilað til fyrirtækjaskrár, enda frestur til slíks ekki útrunninn. Á gengi þess tíma var eigið féð um 60 milljarðar króna. Á gengi dagsins í dag er það um 70 milljarðar króna þar sem krónan hefur veikst umtalsvert gagnvart evru, uppgjörsmynt Samherja, á þessu ári.
Í ljósi þess að aflaverðmæti fyrstu sölu á afla sem íslensk fiskveiðiskip veiddu í fyrra var 17 milljörðum krónum meira en á árinu 2018, eða alls 145 milljarðar króna, má ætla að Samherji hafi bætt við það eigið fé á árinu 2019. Árið í fyrra var nefnilega það besta fyrir íslenskan sjávarútveg í heild frá 2015 mælt í aflaverðmæti.
Með beint og óbeint 16,5 prósent af úthlutuðum kvóta
Samherji er risi í sjávarútvegi í Evrópu. Síðustu ára hafa verið gríðarlega arðbær hjá fyrirtækinu. Frá 2011 og út árið 2018 nam samanlagður hagnaður þess 112 milljörðum króna.
Lengi vel var öll starfsemi félagsins rekin undir hatti Samherja hf. en samstæðunni var skipt upp í tvö fyrirtæki á árinu 2018, annars vegar Samherja hf. og hins vegar Samherja Holding. Skiptingin á eigin fé samstæðunnar var nánast til helminga: 446,7 milljónir evra urðu eftir í Samherja hf. en 384,7 milljónir evra færður yfir til Samherja Holding.
Þessi tilhögun var samþykkt 11. maí 2018 á hluthafafundi og skiptingin látin miða við 30. september 2017. Sameiginlegt eigið fé beggja félaga var 111 milljarðar króna í lok árs 2018 miðað við gengi krónu þá, en bæði gera þau upp í evrum. Umreiknað í krónur hefur það eigið fé hækkað verulega síðan þá, enda krónan fallið mikið. Miðað við núverandi gengi evru væri sameiginleg eiginfjárstaða beggja félaga í kringum 130 milljarða króna.
Sá hluti sem færður var yfir til barnanna er Samherji hf., sem heldur utan um þorra innlendrar starfsemi fyrirtækisins og starfsemi þess í Færeyjum. Þar með talið eru þær aflaheimildir sem Samherji heldur á sem úthlutað hefur verið af íslenskum stjórnvöldum.
Miklar aflaheimildir færðar til barnanna
Þær eru gríðarlegar. Samherji hf. er með næst mesta aflahlutdeild einstakra útgerða , eða 7,02 prósent. Útgerðarfélag Akureyrar, sem er í 100 prósent eigu Samherja, heldur svo á 1,3 prósent kvótans og Sæból fjárfestingafélag heldur á 0,64 prósent hans. Síldarvinnslan, sem Samherji á beint og óbeint 49,9 prósent hlut í, er svo með 5,2 prósent aflahlutdeild og Bergur-Huginn, í eigu Síldarvinnslunnar, er með 2,3 prósent af heildarkvóta til umráða. Samanlagt er þessi blokk með 16,5 prósent aflahlutdeild.
Lög um stjórn fiskveiða segja að hámarksaflahlutdeild sem einstakir eða tengdir aðilar halda á megi ekki fara yfir tólf prósent af heildarverðmæti aflahlutdeildar allra tegunda. Samkvæmt gildandi lögum fer enginn yfir þau mörk, en mikil pólitísk umræða hefur verið um að breyta því hvað teljist tengdir aðilar í sjávarútvegi undanfarin misseri. Eins og lögin eru til að mynda í dag teljast hjón, sambúðarfólk og börn þeirra ekki tengdir aðilar og ein útgerð þarf að eiga yfir 50 prósent hlut í annarri til að þær teljist tengdar. Þá getur forstjóri einnar útgerðar setið sem stjórnarformaður annarrar án þess að þær teljist tengdar í skilningi gildandi laga.
Eiga áfram erlendu starfsemina
Þorsteinn Már, Kristján og Helga munu áfram eiga uppistöðuna í hinum hluta starfseminnar, Samherja Holding. Á meðal þeirra eigna sem færðar voru þangað yfir á árinu 2018 voru eignarhlutir Samherja í dótturfélögum í Þýskalandi, Noregi, Bretlandi og í fjárfestingafélagi á Íslandi. Þar er til að mynda 27,06 prósent hlutur í Eimskip.
Inni í þeim hluta er líka fjárfestingafélagið Sæból, sem hét áður Polar Seafood. Það félag á tvö dótturfélög, Esju Shipping Ltd. og Esju Seafood Ltd. sem bæði eru með heimilisfesti á Kýpur. Þau félög héldu meðal annars utan um veiðar Samherja í Namibíu, þar sem samstæðan og stjórnendur hennar eru nú grunaðir um að hafa greitt mútur til að komast yfir ódýran kvóta.
Auk þess er uppi grunur, eftir ítarlega opinberum Kveiks og Stundarinnar í nóvember í fyrra, um að Samherji hafi stundað umfangsmikla skattasniðgöngu í gegnum Kýpur og aflandsfélög og peningaþvætti á fjármagni sem endaði inn á reikningum norska bankans DNB. Þessi mál eru til rannsóknar í Namibíu, á Íslandi og í Noregi. Engin niðurstaða liggur fyrir úr þeim rannsóknum en fjöldi áhrifamanna í Namibíu hafa verið haldi þar mánuðum saman vegna málsins og þeim verið birt ákæra, meðal annars fyrir spillingu.