Heil vika án nýrra smita
Nýgreind smit síðasta sólarhringinn: Núll. Greind smit síðustu sjö sólarhringa: Núll. Í dag eru tímamót í baráttu Íslendinga gegn COVID-19. Í baráttunni gegn litla gaddaboltanum, veirunni sem virðist ekki hafa tekist að finna líkama að sýkja í viku.
Íslenskur karlmaður á fimmtugsaldri hefur verið færður í einangrun á Landspítala eftir að sýni úr honum reyndist jákvætt fyrir nýrri kórónuveiru. [...] Í ljósi þessa mun ríkislögreglustjóri í samráði við sóttvarnalækni virkja hættustig almannavarna.“
Þannig hljóðaði tilkynning frá embætti landlæknis sem gefin var út þann 28. febrúar. Síðan eru liðnir 99 dagar. Og í dag er í fyrsta sinn síðan þá liðin heil vika, sjö dagar, án þess að nokkuð nýtt smit af sjúkdómnum sem fékk nafnið COVID-19 hefur greinst á Íslandi.
Þetta eru því tímamót. Tímamót sem eru tákn um þann árangur sem náðst hefur í aðgerðum heilbrigðisyfirvalda og almannavarna, með þríeykið Ölmu Möller landlækni, Þórólf Guðnason sóttvarnalækni og Víði Reynisson yfirlögregluþjón í broddi fylkingar.
Karlmaðurinn sem fyrst greindist með veiruna var að koma frá Norður-Ítalíu. Tugir smitaðra til viðbótar áttu eftir að koma þaðan sem og frá Austurríki næstu dagana. Þetta voru skilgreind áhættusvæði og fólkið þurfti að vera í sóttkví heima hjá sér í tvær vikur eftir heimkomu.
Þar með var orðið „sóttkví“ á allra vörum – orð sem hafði ekki verið okkur Íslendingum ofarlega í huga fram að því. Nú hafa yfir 22 þúsund manns þurft að fara í sóttkví hér á landi og yfir 62 þúsund sýni hafa verið tekin, ýmist á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans eða hjá Íslenskri erfðagreiningu. Nær jafn margar konur og karlar hafa sýkst frá upphafi faraldursins. Rúmlega 340 smit eru rakin til útlanda en 1.460 manns smituðust hér á landi. Uppruni þriggja smita er enn á huldu.
Tíu hafa látist vegna COVID-19, sex konur og fjórir karlar.
Fyrir sex mánuðum vissi enginn að ný kórónuveira, sem síðar átti eftir að fá nafnið SARS-CoV-2, væri til. Vísindamenn vissu af öðrum kórónuveirum, þær höfðu áður valdið hættulegum faröldrum. Það hafði til dæmis veiran SARS-CoV gert árið 2003. Hana tókst hins vegar að einangra nokkuð hratt og vel. Og þegar fyrstu tilfelli hinnar nýju veirusýkingar komu upp í Wuhan-borg í Kína í desember óttuðust margir að þar væri hún komin aftur, veiran sem hafði greinst í um 8.000 mönnum í 26 löndum sautján árum fyrr.
Annað átti eftir að koma á daginn. Þessi litla veira, sem lítur út eins og bolti með broddum sem fólk notar til að nudda særindi úr iljum og öxlum, var vissulega úr „kórónuveiru-fjölskyldunni“ en var ný og framandi – óþekkt fyrirbæri í augum vísindanna. Mörgum spurningum varð að svara og það hratt. Kapphlaup við tímann var hafið. Og þó að vel hafi tekist að hefta útbreiðsluna hér á landi er ekki sömu sögu að segja víða annars staðar í heiminum.
Fljótlega var ljóst að hin nýja veira gat borist manna á milli. Og fljótlega þótti einnig ljóst að hún átti uppruna sinn í dýrum og hafði borist þaðan í menn. Sjónir beindust fljótt að leðurblökum sem eru með óvenju öflugt ónæmiskerfi gegn veirusýkingum og voru þekktir hýslar kórónuveira. Enn er ekki víst hvort að veiran kom sér fyrir í millihýsli áður en hún fór að herja á okkur mannfólkið. Mögulega gerði hún það og þá líklega í hreisturdýri. Bæði leðurblökur og hreisturdýrin sérstæðu eru seld lifandi og dauð á blautmörkuðum í Kína þaðan sem veiran er talin hafa borist í menn í fyrsta skipti. Slíkir markaðir hafa lengi verið gróðrarstía fyrir alls konar sjúkdóma.
Þann 11. febrúar var hinni nýju veiru formlega gefið nafn og sömuleiðis sjúkdómnum sem hún veldur. Enn átti eftir að líða mánuður þar til Alþjóða heilbrigðismálastofnunin skilgreindi COVID-19 sem heimsfaraldur.
En aftur heim til Íslands.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á blaðamannafundi sem haldinn var daginn sem fyrsta smitið greindist að gera mætti ráð fyrir fleiri smitum. Hann brýndi þá fyrir landsmönnum, og líklega nokkur hundruð sinnum á næstu vikum: Þvoið ykkur vel um hendurnar.
Handþvottur. Handþvottur. Handþvottur. Aldrei hafa Íslendingar séð jafn mikla froðu.
„Handþvottur er mikilvægasta sýkingavörnin sem hægt er að viðhafa því snerting, bein og óbein, er lang algengasta smitleið sýkla milli manna,“ sagði í leiðbeiningum landlæknis sem Þórólfur vísaði til frá fyrsta fundi.
Þá hættu Íslendingar að heilsast með handabandi. Hófu að raula afmælissönginn fyrir munni sér á meðan þeir nudduðu hendurnar með heitu vatni og sápu. Sprittuðu þær svo í gríði og erg.
Að halda bili manna á milli varð hið nýja norm. „Tveggja metra reglan“ varð til. Fleiri ráðleggingar um sóttvarnir sem miðuðu að því að halda lágmarksfjarlægð manna á milli til að forðast smit fylgdu. Þetta var kallað „social distancing“ á ensku. Á íslensku voru ýmsar þýðingar lagðar til: Félagsforðun, nándarbil og nálægðartakmörkun svo dæmi séu tekin.
Um miðjan mars var svo ákveðið að setja á samkomubann. Lög voru til um slíkt en því hafði ekki verið beitt í áratugi. Í samkomubanni var fólk svo hvatt til að ferðast „innanhúss“ í stað innanlands. Og því hlýddu flestir – enda slagorðið „Ég hlýði Víði“ komið til sögunnar.
Allt var þetta gert – og miklu meira til – svo að sveigja mætti kúrfuna umtöluðu niður og að heilbrigðiskerfið stæðist álagið. Vísindamenn við Háskóla Íslands sameinuðust í vinnu að spálíkani sem eftir því sem á leið varð nákvæmara og betra. Samkvæmt líkaninu myndu rúmlega 1.800 manns á Íslandi greinast með COVID-19 í þessari bylgju faraldursins eins og það var orðað. Og nákvæmnin var mikil því hingað til hafa 1.806 greinst með veiruna.
Flest smit greindust 24. mars eða 106. Dagana á undan og næstu vikur skiptu smitin oft tugum á dag. Hápunkti faraldursins var náð í fyrstu viku aprílmánaðar, líkt og vísindamennirnir höfðu spáð. Þá voru virk smit tæplega 1.100.
Á Landspítalanum og á Sjúkrahúsinu á Akureyri varð álagið um tíma mikið. Bakvarðarsveit heilbrigðiskerfisins kom til skjalanna og ástandið varð viðráðanlegt. En þeir voru langir vinnudagarnir og vaktaloturnar hjá heilbrigðisstarfsfólkinu.
Kúrfan líkist fjalli. Og baráttunni við veirufaraldurinn hefur verið líkt við fjallgöngu. Það gerði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra til dæmis um miðjan apríl er fyrirhuguð aflétting samkomutakmarkana í skrefum var kynnt. Hún sagði að síðasta brekkan væri eftir. Freistandi væri að taka sér hvíld á göngunni, setjast niður og borða nestið og sleppa því að fara upp á tindinn. „En það er ekki í boði,“ sagði hún. Og ef haldið væri áfram upp brekkuna og alla leið á tindinn þá væri hætta enn fyrir hendi, hætta á að maður flýti sér ansi hratt niður. „Þá rennur maður í skriðunni og endar á nefinu og það ætlum við ekki að gera. [...] Við þurfum að hafa úthald til að fara niður brekkuna nægilega hægt til að tryggja að smit blossi ekki upp aftur.“
Við erum að komast niður á jafnsléttu. Aðeins tvö virk smit eru á Íslandi. Það þýðir að 1.794 hafa náð bata eða eru á góðum batavegi. Íslendingum tókst að fara niður brekkuna án þess að hrasa.
Áskoranirnar framundan felast í því að aflétta takmörkunum á samkomum og ferðalögum enn frekar. Eitt stærsta skrefið í því verður tekið 15. júní. Þá mun fólk sem hingað kemur eiga val um að fara í sýnatöku við komuna til landsins í stað þess að fara í tveggja vikna sóttkví.
Á fundi þar sem þessar fyrirhuguðu breytingar voru kynntar sagðist forsætisráðherra líta á þetta sem varfærið skref en að brýnt væri að tryggja að „enginn komi inn til landsins með þessa veiru í farteskinu“.
Sóttvarnalæknir hefur sagt að á næstu vikum og mánuðum eigi mjög líklega einhver smit eftir að greinast til viðbótar. Og að persónulegar aðgerðir, á borð við hinn margumtalaða handþvott, skipti lykilmáli í að halda litlu veirunni með tindana mörgu í skefjum.