Júlíus Sigurjónsson og Þorkell Þorkelsson Þríeykið
Júlíus Sigurjónsson og Þorkell Þorkelsson

Heil vika án nýrra smita

Nýgreind smit síðasta sólarhringinn: Núll. Greind smit síðustu sjö sólarhringa: Núll. Í dag eru tímamót í baráttu Íslendinga gegn COVID-19. Í baráttunni gegn litla gaddaboltanum, veirunni sem virðist ekki hafa tekist að finna líkama að sýkja í viku.

Íslenskur karl­maður á fimm­tugs­aldri hefur verið færður í ein­angrun á Land­spít­ala eftir að sýni úr honum reynd­ist jákvætt fyrir nýrri kór­ónu­veiru. [...] Í ljósi þessa mun rík­is­lög­reglu­stjóri í sam­ráði við sótt­varna­lækni virkja hættu­stig almanna­varna.“

Þannig hljóð­aði til­kynn­ing frá emb­ætti land­læknis sem gefin var út þann 28. febr­ú­ar. Síðan eru liðnir 99 dag­ar. Og í dag er í fyrsta sinn síðan þá liðin heil vika, sjö dag­ar, án þess að nokkuð nýtt smit af sjúk­dómnum sem fékk nafnið COVID-19 hefur greinst á Íslandi.

Þetta eru því tíma­mót. Tíma­mót sem eru tákn um þann árangur sem náðst hefur í aðgerðum heil­brigð­is­yf­ir­valda og almanna­varna, með þrí­eykið Ölmu Möller land­lækni, Þórólf Guðna­son sótt­varna­lækni og Víði Reyn­is­son yfir­lög­reglu­þjón í broddi fylk­ing­ar.



Auglýsing

Karl­mað­ur­inn sem fyrst greind­ist með veiruna var að koma frá Norð­ur­-Ítal­íu. Tugir smit­aðra til við­bótar áttu eftir að koma þaðan sem og frá Aust­ur­ríki næstu dag­ana. Þetta voru skil­greind áhættu­svæði og fólkið þurfti að vera í sótt­kví heima hjá sér í tvær vikur eftir heim­komu.

Þar með var orðið „sótt­kví“ á allra vörum – orð sem hafði ekki verið okkur Íslend­ingum ofar­lega í huga fram að því. Nú hafa yfir 22 þús­und manns þurft að fara í sótt­kví hér á landi og yfir 62 þús­und sýni hafa verið tek­in, ýmist á sýkla- og veiru­fræði­deild Land­spít­al­ans eða hjá Íslenskri erfða­grein­ingu. Nær jafn margar konur og karlar hafa sýkst frá upp­hafi far­ald­urs­ins. Rúm­lega 340 smit eru rakin til útlanda en 1.460 manns smit­uð­ust hér á landi. Upp­runi þriggja smita er enn á huldu.

Tíu hafa lát­ist vegna COVID-19, sex konur og fjórir karl­ar.



Þrívíddarteiking af nýju kórónuveirunni.
Visual Science

Fyrir sex mán­uðum vissi eng­inn að ný kór­ónu­veira, sem síðar átti eftir að fá nafnið SAR­S-CoV-2, væri til. Vís­inda­menn vissu af öðrum kór­ónu­veirum, þær höfðu áður valdið hættu­legum far­öldr­um. Það hafði til dæmis veiran SAR­S-CoV gert árið 2003. Hana tókst hins vegar að ein­angra nokkuð hratt og vel. Og þegar fyrstu til­felli hinnar nýju veiru­sýk­ingar komu upp í Wuhan-­borg í Kína í des­em­ber ótt­uð­ust margir að þar væri hún komin aft­ur, veiran sem hafði greinst í um 8.000 mönnum í 26 löndum sautján árum fyrr.

Annað átti eftir að koma á dag­inn. Þessi litla veira, sem lítur út eins og bolti með broddum sem fólk notar til að nudda sær­indi úr iljum og öxl­um, var vissu­lega úr „kór­ónu­veiru-­fjöl­skyld­unni“ en var ný og fram­andi – óþekkt fyr­ir­bæri í augum vís­ind­anna. Mörgum spurn­ingum varð að svara og það hratt. Kapp­hlaup við tím­ann var haf­ið. Og þó að vel hafi tek­ist að hefta útbreiðsl­una hér á landi er ekki sömu sögu að segja víða ann­ars staðar í heim­in­um.



Leðurblökur í búri í Kína.
EPA

Fljót­lega var ljóst að hin nýja veira gat borist manna á milli. Og fljót­lega þótti einnig ljóst að hún átti upp­runa sinn í dýrum og hafði borist þaðan í menn. Sjónir beindust fljótt að leð­ur­blökum sem eru með óvenju öfl­ugt ónæm­is­kerfi gegn veiru­sýk­ingum og voru þekktir hýslar kór­ónu­veira. Enn er ekki víst hvort að veiran kom sér fyrir í milli­hýsli áður en hún fór að herja á okkur mann­fólk­ið. Mögu­lega gerði hún það og þá lík­lega í hreist­ur­dýri. Bæði leð­ur­blökur og hreist­ur­dýrin sér­stæðu eru seld lif­andi og dauð á blaut­mörk­uðum í Kína þaðan sem veiran er talin hafa borist í menn í fyrsta skipti. Slíkir mark­aðir hafa lengi verið gróðr­ar­stía fyrir alls konar sjúk­dóma.

Þann 11. febr­úar var hinni nýju veiru form­lega gefið nafn og sömu­leiðis sjúk­dómnum sem hún veld­ur. Enn átti eftir að líða mán­uður þar til Alþjóða heil­brigð­is­mála­stofn­unin skil­greindi COVID-19 sem heims­far­ald­ur.



Auglýsing

En aftur heim til Íslands.

Þórólfur Guðna­son sótt­varna­læknir sagði á blaða­manna­fundi sem hald­inn var dag­inn sem fyrsta smitið greind­ist að gera mætti ráð fyrir fleiri smit­um. Hann brýndi þá fyrir lands­mönn­um, og lík­lega nokkur hund­ruð sinnum á næstu vik­um: Þvoið ykkur vel um hend­urn­ar.

Hand­þvott­ur. Hand­þvott­ur. Hand­þvott­ur. Aldrei hafa Íslend­ingar séð jafn mikla froðu.

„Hand­þvottur er mik­il­væg­asta sýk­inga­vörnin sem hægt er að við­hafa því snert­ing, bein og óbein, er lang algeng­asta smit­leið sýkla milli manna,“ sagði í leið­bein­ingum land­læknis sem Þórólfur vís­aði til frá fyrsta fundi.

Þá hættu Íslend­ingar að heils­ast með handa­bandi. Hófu að raula afmæl­is­söng­inn fyrir munni sér á meðan þeir nudd­uðu hend­urnar með heitu vatni og sápu. Spritt­uðu þær svo í gríði og erg.

Að halda bili manna á milli varð hið nýja norm. „Tveggja metra reglan“ varð til. Fleiri ráð­legg­ingar um sótt­varnir sem mið­uðu að því að halda lág­marks­fjar­lægð manna á milli til að forð­ast smit fylgdu. Þetta var kallað „social distancing“ á ensku. Á íslensku voru ýmsar þýð­ingar lagðar til: Félags­forð­un, nánd­ar­bil og nálægð­ar­tak­mörkun svo dæmi séu tek­in.

Um miðjan mars var svo ákveðið að setja á sam­komu­bann. Lög voru til um slíkt en því hafði ekki verið beitt í ára­tugi. Í sam­komu­banni var fólk svo hvatt til að ferð­ast „inn­an­húss“ í stað inn­an­lands. Og því hlýddu flestir – enda slag­orðið „Ég hlýði Víði“ komið til sög­unn­ar.



Ferðumst innanhúss söng hópur fólks, meðal annars þríeykið, fyrir páska.
Skjáskot af RÚV

Allt var þetta gert – og miklu meira til – svo að sveigja mætti kúr­f­una umtöl­uðu niður og að heil­brigð­is­kerfið stæð­ist álag­ið. Vís­inda­menn við Háskóla Íslands sam­ein­uð­ust í vinnu að spálík­ani sem eftir því sem á leið varð nákvæmara og betra. Sam­kvæmt lík­an­inu myndu rúm­lega 1.800 manns á Íslandi grein­ast með COVID-19 í þess­ari bylgju far­ald­urs­ins eins og það var orð­að. Og nákvæmnin var mikil því hingað til hafa 1.806 greinst með veiruna.

Flest smit greindust 24. mars eða 106. Dag­ana á undan og næstu vikur skiptu smitin oft tugum á dag. Hápunkti far­ald­urs­ins var náð í fyrstu viku apr­íl­mán­að­ar, líkt og vís­inda­menn­irnir höfðu spáð. Þá voru virk smit tæp­lega 1.100.

Á Land­spít­al­anum og á Sjúkra­hús­inu á Akur­eyri varð álagið um tíma mik­ið. Bak­varð­ar­sveit heil­brigð­is­kerf­is­ins kom til skjal­anna og ástandið varð við­ráð­an­legt. En þeir voru langir vinnu­dag­arnir og vakta­lot­urnar hjá heil­brigð­is­starfs­fólk­inu.



Grafík: Hilmar Gunnarsson

Kúrfan lík­ist fjalli. Og bar­átt­unni við veiru­far­ald­ur­inn hefur verið líkt við fjall­göngu. Það gerði Katrín Jak­obs­dóttir for­sæt­is­ráð­herra til dæmis um miðjan apríl er fyr­ir­huguð aflétt­ing sam­komu­tak­mark­ana í skrefum var kynnt. Hún sagði að síð­asta brekkan væri eft­ir. Freist­andi væri að taka sér hvíld á göng­unni, setj­ast niður og borða nestið og sleppa því að fara upp á tind­inn. „En það er ekki í boð­i,“ sagði hún. Og ef haldið væri áfram upp brekk­una og alla leið á tind­inn þá væri hætta enn fyrir hendi, hætta á að maður flýti sér ansi hratt nið­ur. „Þá rennur maður í skrið­unni og endar á nef­inu og það ætlum við ekki að gera. [...] Við þurfum að hafa úthald til að fara niður brekk­una nægi­lega hægt til að tryggja að smit blossi ekki upp aft­ur.“

Við erum að kom­ast niður á jafn­sléttu. Aðeins tvö virk smit eru á Íslandi. Það þýðir að 1.794 hafa náð bata eða eru á góðum bata­vegi. Íslend­ingum tókst að fara niður brekk­una án þess að hrasa.



Auglýsing

Áskor­an­irnar framundan fel­ast í því að aflétta tak­mörk­unum á sam­komum og ferða­lögum enn frek­ar. Eitt stærsta skrefið í því verður tekið 15. júní. Þá mun fólk sem hingað kemur eiga val um að fara í sýna­töku við kom­una til lands­ins í stað þess að fara í tveggja vikna sótt­kví.

Á fundi þar sem þessar fyr­ir­hug­uðu breyt­ingar voru kynntar sagð­ist for­sæt­is­ráð­herra líta á þetta sem var­færið skref en að brýnt væri að tryggja að „eng­inn komi inn til lands­ins með þessa veiru í fartesk­in­u“.

Sótt­varna­læknir hefur sagt að á næstu vikum og mán­uðum eigi mjög lík­lega ein­hver smit eftir að grein­ast til við­bót­ar. Og að per­sónu­legar aðgerð­ir, á borð við hinn marg­um­tal­aða hand­þvott, skipti lyk­il­máli í að halda litlu veirunni með tindana mörgu í skefj­um.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar