Mynd: Bára Huld Beck

Versta kreppa á Íslandi frá árinu 1920

Útlit er fyrir að farsóttin sem nú geisar muni valda „þjóðarbúinu langvinnum skaða.“ Ekki er von á fleiri ferðamönnum til landsins í ár, sjávarútvegur mun upplifa sinn mesta samdrátt frá því snemma á níunda áratugnum, útflutningur Íslands í heild mun dragast saman um þriðjung og atvinnuleysi verður það mesta frá upphafi mælinga. Kjarninn rýndi í nýja spá Seðlabanka Íslands um horfur í efnahagsmálum.

Grunnspá Seðlabanka Íslands um þróun efnahagsmála á Íslandi gerir nú ráð fyrir að samdráttur í landsframleiðslu í ár verði átta prósent, sem samsvarar 180 milljörðum króna. Það yrði mesti samdráttur sem mælst hefur á einu ári hérlendis síðan árið 1920 og umtalsvert meiri enn sá sem varð eftir bankahrunið, en árið 2009 dróst hagvöxtur saman um 6,8 prósent. 

Mikil óvissa er þó fyrir hendi um þróun mála, þar sem áhrif farsóttarinnar sem geisar vegna útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 á heimsbúskapinn geti verið mun langlífari en grunnspá bankans gerir ráð fyrir. Í svartsýnustu spá hans er því gert ráð fyrir tíu prósent samdrætti og bankinn telur að hann geti hæglega orðið meiri „ef sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda vara lengur eða önnur bylgja faraldursins kæmi fram og samdráttur í ferðaþjónustu reyndist þá meiri og langlífari.“ 

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í maí-útgáfu Peningamála, riti sem Seðlabanki Íslands gefur út fjórum sinnum á ári þar sem gerð er grein fyrir horfum í efnahags- og peningamálum. Í ritinu segir að útlit sé fyrir að „farsóttin valdi þjóðarbúinu langvinnum skaða.“

Gera ekki ráð fyrir fleiri ferðamönnum í ár

Grunnspá Seðlabankans gerir ráð fyrir því að fjöldi ferðamanna sem heimsæki Ísland árið 2020 verði undir 400 þúsund, en þeir voru tvær milljónir í fyrra og 2,3 milljónir árið 2018. Því er um að ræða 84 prósent samdrátt frá metárinu. 

Auglýsing

Sam­kvæmt tölum Ferða­mála­stofu um fjölda ferða­manna þá komu alls 351.264 ferða­menn til Íslands á fyrstu þremur mán­uðum árs­ins 2020. Í apríl voru brottfarir frá Íslandi 1.262 talsins, eða 99,3 prósent færri en í sama mánuði árið áður. Þar var vart um ferðamenn að ræða þar sem Pólverjar, sem eru langfjölmennasti hópur erlendra ríkisborgara sem býr á Íslandi, voru þrír af hverjum fjórum erlendum farþegum sem fóru úr landi. 

Miðað við þessar tölur er ljóst að grunnspá Seðlabanka Íslands miðar við að það komi varla nokkur annar ferðamaður til Íslands í ár, þrátt fyrir að stjórnvöld hafi ákveðið að opna landamæri Íslands með takmörkunum og öryggisráðstöfunum frá miðjum næsta mánuði. 

Þessi mikla fækkun á komum ferðamanna til landsins gerir það að verkum að útflutt þjónusta dregst saman milli ára um meira en 50 prósent.

Mesti samdráttur í sjávarútvegi frá níunda áratugnum

Það er þó ekki einungis ferðaþjónustan sem er að dragast saman. Útflutningur í heild mun samkvæmt grunnspánni minnka um tæplega þriðjung, sem yrði mesti samdráttur útflutnings á einu ári frá upphafi þjóðhagsreikninga hér á landi. 

Spáð er umtalsverðum samdrætti í útflutningi á sjávarafurðum.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Hin stóra stoðin undir efnahagskerfinu, sjávarútvegur, mun einnig finna verulega fyrir samdrætti í ár. Könnun Seðlabankans á meðal sjávarútvegsfyrirtækja eftir að faraldurinn skall á bendi til umtalsverðra breytinga á eftirspurn eftir sjávarafurðum og truflana við dreifingu afurða til söluaðila. Dregið hafi úr sölu á sjófrystum afurðum á Evrópumarkað og eftirspurn hótela- og veitingageirans eftir ferskum og sjófrystum afurðum hvarf nær algerlega þegar ferðaþjónusta í helstu viðskiptalöndum lagðist nánast af og veitingahúsum var víða lokað. „Einnig eru vísbendingar um að stærstu sjávarútvegsfyrirtækin hafi dregið úr sjósókn. Grunnspáin gerir því ráð fyrir að útflutningur sjávarafurða verði um 12 prósent minni í ár en í fyrra sem yrði mesti samdráttur í sjávarútvegi frá því snemma á níunda áratug síðustu aldar.“

Horfur fyrir annan vöruútflutning hafa líka versnað og útlit er fyrir töluverðan samdrátt í útflutningi hátæknibúnaðar til matvælaframleiðslu og lækningavöru og minni vöxt í útflutningi eldisfisks en áður var spáð. Þá er spáð 1,5 prósent samdrætti í útflutningi álafurða í ár sem er heldur meiri samdráttur en spáð var í febrúar.

Á heildina litið er gert ráð fyrir að útflutningur vöru og þjónustu dragist saman um tæplega þriðjung í ár. Það yrði mesti samdráttur í útflutningi á heilu ári frá upphafi þjóðhagsreikninga og þarf að fara aftur til ársins 2010 til að finna áþekkt magn útflutnings og í ár. 

Auglýsing

Ofan á þetta er spáð um sjö prósent samdrætti einkaneyslu þar sem minni útgjöld erlendis vega þyngst. Gangi þetta eftir yrði samdráttur einkaneyslu í ár sá mesti frá árinu 2009 en þá dróst hún saman um 12,6 prósent. 

Mesta atvinnuleysi frá upphafi mælinga

Afleiðingar þessarar stöðu, sem sannarlega á sér engin fordæmi, eiga sér nokkrar birtingarmyndir. Atvinnuleysi hefur þegar stóraukist og mun samkvæmt spá Seðlabankans ná hámarki í um 12 prósentum á þriðja ársfjórðungi, eða síðsumars og snemma hausts. Að meðaltali er talið að það verði tæplega níu prósent á árinu 2020 „sem er mesta atvinnuleysi frá upphafi mælinga og nokkru meira en það var í kjölfar fjármálakreppunnar fyrir áratug.

Nýleg lækkun á gengi krónunnar veldur því að verðbólga verður heldur meiri á næstu mánuðum en spáð var í febrúar, þótt áfram sé talið að hún verði við eða undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans. „Á móti áhrifum lægra gengis vegur mikil lækkun alþjóðlegs olíuverðs og þá hefur alþjóðlegt matvæla- og hrávöruverð almennt lækkað þótt verð sumra vara hafi hækkað vegna ýmiss konar framleiðsluvanda og skorts.“ Seðlabankinn spáir því að þegar líður á þetta ár fari áhrif mikils slaka sem myndast hefur í þjóðarbúskapnum að vega þyngra og því er spáð að verðbólga verði undir tvö prósent á seinni hluta spátímans.

Mesti samdráttur sem hefur mælst í þróuðum ríkjum

Faraldurinn er vitanlega ekki bundinn við Ísland, heldur geisar um allan heim. Á heimsvísu er gert ráð fyrir að samdrátturinn á öðrum ársfjórðungi verði sá mesti sem mælst hefur í þróuðum ríkjum frá upphafi ársfjórðungslegra þjóðhagsreikninga. Í Peningamálum segir: „Í nýrri spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er gert ráð fyrir að heimshagkerfið dragist saman um þrjú prósent í ár en í janúar spáði sjóðurinn ríflega þrjú prósent hagvexti á árinu. Gangi spáin eftir yrði þetta mesti samdráttur sem mælst hefur í heimsbúskapnum á friðartímum frá því í kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar og mun meiri samdráttur en varð í alþjóðlegu fjármálakreppunni fyrir liðlega áratug þegar hann mældist 0,1 prósent.“

Auglýsing

Ekki sé þó loku fyrir það skotið að faraldurinn, og afleiðingar hans, geti verið langvinni. Mörg ríki glími auk þess við margvísleg önnur áföll eins og til dæmis umtalsvert fjármagnsútflæði og mikla lækkun hrávöruverðs. Að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sé því hætta á að efnahagsframvindan verði enn óhagstæðari en spá hans gerir ráð fyrir. „Samdrátturinn í heimsbúskapnum gæti jafnvel orðið tvöfalt meiri en sjóðurinn spáir ef farsóttin gengur hægar niður og hætta er á að bati næsta árs verði að engu ef farsóttin blossar upp á ný. Takist hins vegar að finna bóluefni við sjúkdómnum gæti heimsbúskapurinn tekið fyrr og meira við sér.“

Vöxtur í náinni framtíð

Hafa verður í huga að mikil óvissa er um hversu djúp og langvinn kreppan verður í ár, einkum vegna óvissu um þróun farsóttarinnar og getu heilbrigðiskerfa við að ráða niðurlögum hennar. Spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gerir ráð fyrir að heimsfaraldurinn nái hámarki á öðrum ársfjórðungi og taki síðan að ganga niður. Í Peningamálum segir að samhliða því yrði hægt og bítandi slakað á þeim sóttvarnaraðgerðum sem beitt hefur verið til að hefta útbreiðslu sjúkdómsins. „Samkvæmt þessu gerir sjóðurinn ráð fyrir að heimshagvöxtur taki við sér á næsta ári og verði að meðaltali 5,8 prósent. Þetta er hins vegar háð því hversu langvinnur faraldurinn verður.“

Grunnspá Seðlabankans fyrir næsta ár er í takti við þetta, og gerir hún ráð fyrir tæplega fimm prósent hagvexti hér á árinu 2021.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar