Aðsend

Fjarvinnan eftir faraldurinn gæti orðið þáttur í að byggja upp hagkerfi Íslands til framtíðar

Fjölmargir sérfræðingar í alþjóðlegum tæknifyrirtækjum fá núna leyfi til þess að vinna fjarvinnu til frambúðar, sökum þess hve fjarvinnan hefur gengið vel það sem af er heimsfaraldrinum. Þarna erum við að tala um fyrirtæki á borð við Twitter og fleiri. Þetta fólk ætti Ísland að reyna að sækja til búsetu í skemmri eða lengri tíma, segir Kristinn Árni L. Hróbjartsson, ritstjóri nýsköpunarvefsins Northstack.

Þegar forritarar og aðrir sérfræðingar sem starfa fyrir Twitter, Facebook og fleiri tæknifyrirtæki í Bandaríkjunum og víðar fá þau skilaboð að þeir þurfi aldrei að mæta aftur á skrifstofuna, heldur geti unnið í fjarvinnu til framtíðar, verður skyndilega mögulegt fyrir þetta fólk að búa hvar sem er.

Þetta hefur verið að gerast í auknum mæli sökum þess hve fjarvinna hefur orðið útbreidd, og gengið vel, í yfirstandandi heimsfaraldri. Þróunina ætti Ísland að nýta sér án tafar og reyna að fá hingað sérfræðinga sem starfa fyrir erlend fyrirtæki til bæði skammtíma- og langtímabúsetu með öflugu markaðsátaki, segir Kristinn Árni L. Hróbjartsson, ritstjóri nýsköpunarvefsins Northstack, í samtali við Kjarnann.

Hann birti ritstjórnargrein fyrr í vikunni þar sem hann fór yfir af hverju þetta ætti að hans mati að vera áhersluatriði hjá stjórnvöldum, sem huga nú að því að hvernig byggja megi undir hagkerfið út úr COVID-19 kreppunni. 

Vinna sem miðar í þessa átt er reyndar þegar farin af stað, samkvæmt því sem Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála-, nýsköpunar og iðnaðarráðherra ritaði í pistli í Sunnudagsmogganum síðustu helgi.

Þar sagði hún að búseta á Íslandi væri „lottóvinningur“ og hér á landi gætum við boðið sérfræðingum í alþjóðlegum tæknifyrirtækjum sem hafa kost á fjarvinnu upp á mikil lífsgæði og fjölskyldum þeirra líka. „Ef við gerum þeim auðvelt fyrir að setjast hér að græðum við öll. Vinna sem hefur það að markmiði er hafin,“ ritaði Þórdís Kolbrún.

Búinn að tuða yfir þessu lengi

„Við markaðssettum hérna á einhverjum tímapunkti grænt og ódýrt rafmagn fyrir álver og við höfum verið að markaðssetja Ísland sem áfangastað fyrir túrista. En af hverju höfum við ekki pælt í að markaðssetja Ísland sem bæði skammtíma- og langtímastað fyrir sérfræðinga að vinna frá?“ spyr Kristinn í samtali við blaðamann. 

Núna, segir hann, er tækifæri til þess að ráðast í verkið.

Auglýsing

„Þetta er þannig séð ekkert ný hugmynd eða nýtt áherslumál, ég hef bæði skrifað lengi um það og tuðað lengi yfir því að það er lítil áhersla á það á Íslandi að byggja upp innflytjendasamfélag og gera það auðvelt að flytja hingað með sérfræðiþekkingu,“ segir Kristinn og bendir á að til þessa hafi yfirvöld safnað mjög litlum gögnum um það hversu margir erlendir sérfræðingar séu að flytja til landsins til vinnu.

Þau gögn sem þó séu til gefi slæma mynd, þar sem fjöldi sérfræðinga sé einungis talinn í tugum á ári af hópi þeirra þúsunda erlendu ríkisborgara sem flutt hafa árlega til Íslands undanfarin ár. Kristinn segir að þetta mál snerti það hvernig við munum búa til hagkerfi framtíðarinnar á Íslandi.

„Eitt stærsta vandamál okkar er að það búa mjög fáir á landinu og til þess að búa til hagkerfi framtíðarinnar þarftu fólk, með rétta þekkingu og rétta reynslu. Það eru tvær leiðir til þess að búa það til, annað hvort að senda það í gegnum háskóla eða flytja það inn. Háskólakerfið annar bara ákveðið miklu á ári og fljótlegasta leiðin væri að flytja inn fullt af fólki. Það er stóra pælingin,“ segir Kristinn, sem hefur látið að sér kveða í íslensku frumkvöðlasenunni árum saman og þekkir þar hvern krók og kima.

Þyrfti ekki mikinn fjölda til að það hefði áhrif

Hann sér fyrir sér að með komu fleiri erlendra sérfræðinga hingað myndi frumkvöðlasamfélagið eflast og fjöldi aðfluttra fjarvinnandi sérfræðinga þyrfti ekki að verða neitt gríðarlega mikill til þess að svo yrði.

Auglýsing

„Við vitum að þegar við horfum á svæði þar sem eru mikil hátækniumsvif, þá snýst þetta allt um fólkið og einhverja hringiðu sem skapast þar, tengslin sem verða til og þekkinguna og reynsluna sem myndast. Upp úr því spretta ný fyrirtæki. Ef að eftir eitt ár væru hérna 1.000 manns að vinna fyrir 500 mismunandi alþjóðleg tæknifyrirtæki frá Reykjavík, væri það alveg raunmunur á fjölda þeirra sem eru að vinna í hátækniiðnaði á Íslandi, jafnvel 10-15 prósent eða eitthvað,“ segir Kristinn. Þannig væri ekki ólíklegt að ný og mögulega verðmæt hátæknifyrirtæki yrðu til á Íslandi, ef erlendir sérfræðingar myndu byrja að flæða til landsins til búsetu.

Kristinn telur að kostir þess að flytja til Íslands séu ótvíræðir, hér sé gott heilbrigðiskerfi, jöfnuður, góður aðgangur að skólum, friðsælt og stutt í náttúruna. Þetta þurfi íslensk stjórnvöld að auglýsa af krafti og koma til skila til mikils fjölda fólks sem starfar í hátæknigeiranum ytra.

„Þannig að þú ert kannski einhver greinandi sem vinnur fyrir Goldman Sachs og hugsar: Á ég að vera hérna að borga 700 þúsund kall á mánuði fyrir stúdíóíbúð í New York, eða á ég að vera bara á Þingeyri?“ segir Kristinn, sem telur að fólk sem er að koma sér frá stórborgum gæti örugglega vel hugsað sér að búa um allt land, ekki einungis í Reykjavík.

Stórborgarlífið hefur ef til vill misst nokkurn sjarma í hugum margra eftir að kórónuveirufaraldurinn fór að geisa. Þá gæti það heillað einhverja að flytja til Íslands í staðinn.
EPA

Hann segir að svona átak í að lokka erlenda sérfræðinga til Íslands gæti jafnvel orðið eins konar „krúttleg byggðastefna“, þar sem smærri bæir gætu blómstrað við komu einungis lítils fjölda sérfræðinga sem myndu kjósa að setjast þar að tímabundið hið minnsta og vinna fyrir fyrirtæki sem hefur gefið grænt ljós á fjarvinnu.

„Þú þarft ekkert marga einstaklinga til að það verði að veruleika fyrir þessar brothættu byggðir,“ segir Kristinn og nefnir sérstaklega Þingeyri sem dæmi, en þar starfar frumkvöðlamiðstöðin Blábankinn, sem hefur meðal annars opnað dyr sínar fyrir stafrænum flökkurum svokölluðum, fólki sem vill ferðast en vinna í leiðinni.


„Hver segir að það þurfi að vera áburðarverksmiðja eða eitthvað? Af hverju má það ekki bara vera eitthvað kúl samvinnusetur á Þingeyri þar sem eru 30 forritarar sem vinna fyrir 10 mismunandi fyrirtæki og allt í einu meikar sens að vera með bar og kvikmyndahús á Þingeyri, af því að það eru allt í einu 30 nýjar fjölskyldur með yfir meðallagi háar tekjur til þess að eyða komnar í bæinn?“ segir Kristinn.

Telur að það þurfi að strauja yfir nokkrar hindranir

Eins og staðan er í dag er örðugt fyrir erlenda sérfræðinga, utan EES, að fá dvalarleyfi á Íslandi og eiginlega bara svo gott sem ómögulegt fyrir þá sem ekki hafa atvinnutilboð frá íslensku fyrirtæki. Kristinn segir að það sé væntanlega þetta sem stjórnvöld þurfi að taka til skoðunar við útfærsluna, eigi að ráðast í sókn í erlent fjarvinnufólk. Annað séu svo skattamálin, sem einnig þurfi að setjast yfir og útfæra á einhvern hátt.

Kristinn segir að verkefni stjórnvalda á næstunni ætti í rauninni.að vera að „strauja yfir allt“ í kerfunum sem kemur í veg fyrir að forritari, sem starfar til dæmis fyrir Twitter í San Fransiskó, geti á einfaldan máta flutt til Íslands og verið hér í sex mánuði, tólf mánuði eða þrjú ár og haldið áfram að vinna Twitter-vinnuna sína og þiggja Twitter-launin sín, en verja þeim í íslenska hagkerfinu og auðga um leið frumkvöðlasenuna á Íslandi með reynslu sinni og þekkingu.

„Það ætti að vera hægt og svo þarf bara kynna þetta sem konsept fyrir umheiminum með markaðsátaki og selja þetta,“ segir Kristinn Árni.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiViðtal