Root

Íslandsvinurinn sem sagður er hafa „fóðrað skrímslið“ Epstein

Í lok árs 2014 greindi kona frá því að Ghislaine Maxwell hefði tekið þátt í ofbeldi auðmannsins Jeffrey Epstein gegn sér. Aðeins skömmu áður hafði Maxwell staðið á sviði í Hörpu og rætt þær ógnir sem steðja að hafinu á ráðstefnu Arctic Circle. Í Reykjavík er hún líka sögð hafa kynnst manninum sem kom henni til aðstoðar þegar mest á reyndi.

Heiminum er skipt í tvennt. Svæði þar sem gilda lög og reglur og svæði þar sem í raun engar reglur gilda. Þetta er eins og villta vestrið.“


Ghislaine Maxwell talaði af ástríðu um ástand hafsins á alþjóðaþingi Hringborðs norðurslóða – Arctic Circle – í Hörpu árið 2013. Hvernig verið væri að níðast á hafsvæðum heimsins, þar sem óljósar reglur giltu, með ofveiði. Hún var þangað komin fyrir hönd náttúruverndarsamtaka sem hún hafði stofnað, Terramar Project. Ári síðar var hún aftur mætt í Hörpu og vakti athygli viðstaddra á gríðarlegri plastmengun í hafinu. „Hafið þið komið til Rusl-lands? Ég hef gert það og það er ekki fögur sjón“.


Heiminum er skipt í tvennt. Í hluta hans gilda lög og reglur en í öðrum hluta í raun engar. Þeir sem þar lifa og hrærast, hinir ofurríku, komast í skjóli valds síns, áhrifa, tengsla og peninga, upp með ákveðna hluti. Stundum vonda hluti. Hluti sem meiða fólk jafnvel fyrir lífstíð.


 „Þær eru ekkert, þessar stúlkur. Þær eru rusl,“ er Ghislaine Maxwell sögð hafa sagt við vinkonu sína sem spurði hvað henni fyndist um ungu stúlkurnar sem hún útvegaði vini sínum og fyrrum elskhuga.

Auglýsing

Vinurinn var Jeffrey Epstein, viðskiptajöfurinn ofurríki sem á síðasta ári var ákærður fyrir mansal og kynferðislegt ofbeldi gegn fjölda stúlkna undir lögaldri.


„Við erum svo áköf að misnota það sem við höfum, við verðum að fara varlega og hugsa áður en við framkvæmum,“ sagði Maxwell á Arctic Circle árið 2013. Hún var að tala um hafið. Ofveiðina sem stunduð er með ónáttúrulegum aðferðum á borð við risatroll sem rúma myndu margar breiðþotur.


Maxwell, sem var í felum í tæpt ár, hefur nú sjálf verið ákærð fyrir misnotkun. Fyrir að hafa í félagi við Epstein misnotað ungar stúlkur kynferðislega. Fyrir að hafa fundið þær, vingast við þær og ginnt með gylliboðum til að svala fýsnum manns sem vildi fá þrjár fullnægingar á dag og fékk þá brjálæðislegu hugmynd að búa til ofurkynþátt úr sínu eigin erfðaefni.


Epstein er látinn. Hann hengdi sig í fangaklefa fyrir tæpu ári. Hér verður hans saga ekki rakin ítarlega heldur vinkonunnar Ghislaine Maxwell sem hefur komið hingað til lands að minnsta kosti tvisvar og fellur því líklega undir skilgreininguna „Íslandsvinur“. Hér er hún einnig sögð hafa kynnst manni, einum af stofnendum Arctic Circle, sem skaut yfir hana skjólshúsi þegar hún þurfti á að halda.


Og er, að því er fréttir sumra fjölmiðla herma, mögulega eiginmaður hennar í dag.


Síðasta myndin? Talið er að árið 2005 hafi verið tekin síðasta myndin af þeim saman opinberglega, Epstein og Maxwell.

Ghislaine Maxwell fæddist í Frakklandi árið 1961. Hún er yngst níu barna fjölmiðlakóngsins Roberts Maxwell sem átti Mirror Group, og eiginkonu hans, Bettyar. Faðir hennar fæddist í Tékkóslóvakíu og ólst upp í mikilli fátækt. Er nasistar náðu þar völdum flúði hann til Frakklands og gekk til liðs við breska herinn. Eftir að stríðinu lauk giftist hann dóttur bresks kaupsýslumanns, flutti til Bretlands, skipti um nafn og hóf að safna að sér fjölmiðlum. Til varð fjölmiðlakóngurinn Robert Maxwell sem átti áður en yfir lauk mörg hundruð fyrirtæki, umgekkst forseta og kóngafólk og hafði 32 þúsund starfsmenn í vinnu.


Ghislaine er sögð hafa verið augasteinn föður síns. Til marks um það nefndi hann snekkju sína, Lady Ghislaine, í höfuðið á henni.


Robert Maxwell lést árið 1991. Hann var á siglingu við Kanarí-eyjar á snekkjunni sinni er hann féll fyrir borð. Skömmu síðar kom í ljós að hann hafði misfarið með fé fyrirtækja sinna og m.a. seilst djúpt í eftirlaunasjóði starfsmannanna. Skuldirnar voru gríðarlegar.


Ghislaine var þegar þarna var komið sögu 29 ára. Orðin hrókur alls fagnaðar í öllum þeim viðburðum sem ríka og fræga fólkið í London stóð fyrir. Hún var sannkallað samkvæmisljón sem hafði alist upp á 53 herbergja setri fyrir utan London og aldrei þurft að hafa nokkrar áhyggjur af peningum.


„Hvernig lést faðir þinn?“ var hún spurð á blaðamannafundi. „Ég held að hann hafi verið myrtur,“ sagði hún.


Ghislaine Maxwell varð snemma samkvæmisljón og umgekkst reglulega ríka og fræga fólkið í London.

Nafn Maxwell-fjölskyldunnar var ekki lengur virt og dáð. Robert Maxwell var kallaður þrjótur og þjófur. Ghislaine Maxwell var hundelt af blaðamönnum. Hún átti enga undankomuleið. Húsið sem hún bjó í í London var eign fyrirtækjasamsteypunnar. Það var tekið af henni. Sama má segja um allt innbúið.


Ári eftir að faðir hennar lést ákvað hún að yfirgefa London og flaug til New York. Hún var ekki ein á ferð. Samferðamaður hennar var Bandaríkjamaður og töluvert eldri en hún.


Þetta var Jeffrey Epstein.


Þegar Ghislaine hóf sitt nýja líf vestan Atlantshafsins, þykir ljóst að hún var ekki á flæðiskeri stödd þó að fjölskylduauðurinn væri horfinn. Hún átti Epstein að. Nokkru eftir að hún flutti til New York var hún flutt í sjö hæða hús í borginni og var farin að vinna sem viðskiptaráðgjafi. Í viðtali við tímaritið Hello! í byrjun árs 1997 sagði hún frá allri sinni velgengni en minntist engu orði á samband sitt við Epstein. Stóra New York-húsið hennar var, að því er fram kom í greininni, til marks um velgengni hennar sem harðduglegur ráðgjafi.


Ghislaine var harðdugleg að efla tengslanetið. Hún þræddi viðburði á Manhattan til að kynnast nýju fólki, var glaðvær og sjarmerandi. Þetta líkaði Epstein sérlega vel. Hann komst í kynni við fólk af sama sauðahúsi, fólk sem vissi vart aura sinna tal. Og Maxwell hafði fundið leið inn í samfélag hinna ríku og frægu á ný.


En til að halda þessum lífsstíl þurfti hún að „fæða skrímslið á því sem það vildi,“ skrifar blaðamaður Vanity Fair. Og það sem skrímslið Epstein vildi voru stúlkur og það í yngri kantinum. Maxwell er sögð hafa leitað að fórnarlömbunum alls staðar: Í partíum, í heilsulindum og á snyrtistofum. Þegar hún svo fann þá réttu bauð hún henni í heimsókn í glæsihýsi Epsteins.


Auglýsing

Ekki er að fullu ljóst hvenær á tíunda áratugnum þau hófu ástarsamband og hvenær því svo lauk. Það stóð að minnsta kosti í nokkur ár, líklega um  það bil frá 1994-1997, en þróaðist svo yfir í djúpa vináttu að þeirra sögn. Maxwell var þá farin að sjá um öll persónuleg mál Epsteins, allt frá því að hafa umsjón með fasteignum hans í mörgum löndum og í að að færa honum kjúklingasúpu þegar hann var með flensu.


Við upphaf nýrrar aldarinnar virðist Maxwell hafa fjarlægst Epstein. Hún flutti til Flórída og hóf að búa með öðrum manni en árið 2004 var hún aftur farin að vinna fyrir hann og líklegt er talið að það hafi hún gert að minnsta kosti til ársins 2006.


En árin þar á eftir einkenndust af baráttu hennar fyrir umhverfisvernd og árið 2012 stofnaði hún TerraMar-verkefnið sem átti að byggja upp samfélag þeirra sem vildu standa vörð um verndun hafsins. Tengslanetið reyndist henni áfram vel og frægir og ríkir einstaklingar lögðu henni lið.


Á meðan á þessu stóð hafði Epstein verið ákærður fyrir að brjóta gegn tveimur stúlkum undir lögaldri. Hann játaði sök og var um mitt ár 2008 dæmdur til 18 mánaða fangelsisvistar. Hann afplánaði 13 mánuði.


Um svipað leyti fóru spjótin að beinast að Maxwell. Í september árið 2009, er hún var á umhverfisráðstefnu Clinton-hjónanna, var henni birt stefna. Hún átti að mæta fyrir dóm vegna rannsóknar á meintu kynferðisbroti Epsteins gegn ungri stúlku.


Ghislaine Maxwell á Arctic Circle ráðstefnunni árið 2014.

Það var hins vegar ekki fyrr en sex árum síðar, skömmu eftir að Maxwell hafði talað á Arctic Circle í seinna skiptið, að önnur kona, Virginia Giuffre, sem sakaði Epstein um kynferðisbrot, benti á Maxwell sem vitorðsmann hans og sagði hana einnig hafa verið þátttakanda í ofbeldinu. Hún greindi m.a. frá því að þegar hún var fimmtán ára hafi Maxwell fengið hana til að gerast einkanuddari Epsteins. Hún sakaði hana um að hafa gert sig að kynlífsþræl hans og Andrew Bretaprins sem Maxwell hafði þekkt í áraraðir.


Maxwell gaf út yfirlýsingu þar sem hún hafnaði ásökunum Giuffre og sagði þær lygar. Giuffre kærði þá Maxwell fyrir ærumeiðingar. Í réttarhöldunum neitaði hún staðfastlega að hafa haft nokkra vitneskju um áhuga Epsteins á ungum stúlkum. Samið var í málinu utan dómstóla.

 

Fjölmiðlafárið var í þann mund að skella aftur á er hún ákvað að flytja enn einu sinni. Um tíma er hún sögð hafa búið í lúxushúsi í litlu þorpi rétt fyrir utan Boston. Eigandi þess var Scott Borgerson. Og honum hafði hún kynnst á Arctic Circle-ráðstefnunni í Reykjavík.


Borgerson er fyrrverandi liðsforingi og fræðimaður hjá Council of Foreign Relations. Hann er einnig forstjóri Carcometrics, fjárfestingarfyrirtækis sem nýtir sér upplýsingar um skipaferðir til að spá fyrir um flæði flutninga á sjó og áhrif þeirra á verð hrávara og gjaldmiðla. Hann er auk þess einn af stofnendum Arctic Circle og situr í ráðgjafaráði þess.


Árið 2018 var Maxwell farin að halda sig til hlés. Hún hætti TerraMar-verkefninu sem hafði fátt skilið eftir sig annað en skuldir.


Scott Borgerson á ráðstefnu Arctic Circle. Hann er 44 ára, fjórtán árum yngri en Maxwell.

Í júní í fyrra var Maxwell stödd í Bretlandi. Þar dvaldi hún m.a. hjá Andrew prins vini sínum. Þegar prinsinn var spurður um dvöl hennar í frægu viðtali sem hann gaf BBC sagði hann hana hafa verið að taka þátt í „einhverri söfnun“. Á daginn kom að hún hafði verið þátttakandi í viðburði sem kallast Cash & Rocket – ökuferð moldríkra kvenna í nafni góðgerðarmála frá London til Monte Carlo. Ferðin var mynduð í bak og fyrir og sjá mátti Maxwell, þar sem hún ók rauðum Alfa Romeo, skælbrosandi á nokkrum þeirra.


En eftir þetta ferðalag hvarf hún.


Skömmu síðar var Epstein handtekinn og ákærður fyrir mansal og kynferðisbrot gegn stúlkum undir lögaldri. Maxwell var hins vegar hvergi að finna. „Þessi kona er dólgurinn hans. Hún flýgur flugvélum til og frá eyjunni. Ég veit þetta af því að hún sagði mér það,“ skrifaði leikkonan Ellen Barkin á Twitter af  þessu tilefni. Eyjan sem þarna er vísað til var í eigu Epsteins og kölluð „syndaeyjan“.


Slúðurblöðin tóku þátt í leitinni af fullum krafti. The Daily Mail fékk ábendingu um að hún dveldi í húsi Borgerson fyrir utan Boston. Þyrlum var flogið yfir og af myndum sem teknar voru hafa verið borin kennsl á tvær manneskjur: Christine, systur Maxwell, og Scott Borgerson. Í viðtali við New York Post sagðist hann hins vegar ekki hafa hugmynd um hvar hún væri niðurkomin. „Hún er ekki hér,“ sagði hann.


Maxwell og Epstein ásamt Donald Trump og Melaniu.

Fimm vikum eftir að Epstein var handtekinn fannst hann látinn í klefa sínum í fangelsinu á Manhattan. Í bréfi sem hann er sagður hafa skilið eftir sig á að hafa staðið: Noel [fangavörður] lét mig fá brenndan mat“ og „risastórar pöddur eru að skríða á höndunum á mér. Þetta er ekki gaman!“


Þetta var mikið áfall fyrir fórnarlömb hans. Konurnar sem höfðu hver af annarri stigið fram og krafist réttlætis. Nú var það þeirra eina von að Maxwell myndi finnast og leysa frá skjóðunni.


En það var eins og jörðin hefði gleypt hana og tæpu ári eftir að Epstein lést bólaði enn ekkert á henni. Þangað til að morgni 2. júlí síðastliðins. Þá var feluleiknum loks lokið. Alríkislögreglan hafði fundið hana í húsi í bænum Bradford í New Hampshire. Hún var samstundis ákærð, m.a. fyrir að hafa aðstoðað og auðveldað Epstein að misnota stúlkur undir lögaldri.


Maxwell „flutti þær í gildruna,“ sagði bandaríski saksóknarinn Audrey Strauss, á blaðamannafundi daginn eftir að Maxwell var handtekin. „Hún þóttist vera kona sem þær gætu treyst. En allan tímann var hún að undirbúa þær fyrir að vera misnotaðar af Epstein og í einhverjum tilvikum, henni sjálfri.“


Í réttarhöldunum fyrir helgi, þar sem dómari ákvað að Maxwell yrði ekki sleppt úr haldi gegn tryggingu, kom ýmislegt í ljós sem áður hafði verið á huldu í málinu.


Auglýsing

Eitt það óvæntasta var sú uppljóstrun saksóknaranna að Maxwell væri gift en neitaði að gefa  upp nafn makans. Í frétt Guardian er rakið ýmislegt sem fram kemur í þeim skjölum sem lögð voru fram við réttarhöldin. Til dæmis um húsið í Bradford þar sem hún var handtekin.


Í gögnunum kemur fram að fasteignasalinn sem hafði umsjón með sölu hússins hefði greint lögreglu frá því að í nóvember á síðasta ári hefðu áhugasamir kaupendur komið á hans fund og kynnt sig sem Scott og Jen Marchall.


„Scott Marchall“ sagði fasteignasalanum að  hann hefði verið í breska hernum en væri sestur í helgan stein og að skrifa bók. „Jen Marshall“ sagðist vera blaðamaður í leit að næði. Parið sagðist vilja kaupa eignina strax og að þau myndu setja upp félag um kaupin. Fasteignasalinn sá síðar mynd af Maxwell og áttaði sig á því að hún væri konan sem hafði keypt húsið.


„Í New Hampshire hafði Maxwell haldið áfram að njóta lífsins lystisemda í glæsihúsi á meðan fórnarlömb hennar engdust um í áfalli sem þau urðu fyrir á sínum tíma,“ sagði William F. Sweeney Jr., sem fór fyrir rannsókn FBI á málinu, á blaðamannafundi eftir handtökuna.


En hver er þá „Scott Marchall?“


Það hefur enn ekki verið staðfest af yfirvöldum. En miðlar á borð við The Sun, The Daily Mail og New York Post telja sig vera búna að leggja saman tvo og tvo. Að hann sé maðurinn sem hún kynntist í Reykjavík sem yfirgaf konu sína hennar vegna þótt fjórtán ár skilji þau að í aldri.


Saksóknari kynnir ákærur á hendur Maxwell á blaðamannafundi nýverið.
EPA

Maxwell heldur fram sakleysi sínu. Talið er að hún verði í varðhaldi að minnsta kosti út þetta ár.  Réttarhöldin yfir henni hefjast ekki fyrr en 12. júlí á næsta ári. Verði hún fundin sek á hún allt að 35 ára fangelsi yfir höfði sér.


„Þetta hryggilega og hryllilega glæpamál snýst að hluta til um það sem gerist þegar litlum hópi fólks er leyft að haga sér eins og hann vill,“ skrifar Nathan Robinson, fréttastjóri The Guardian í Bandaríkjunum. Hvers vegna fór Ghislaine Maxwell, sem bjó alla tíð við auð og var menntuð í Oxford-háskóla, þessa leið í lífinu, spyr hann og segir svarið liggja í bakgrunni hennar. „Hún ólst upp á 53 herbergja setri, dóttir valdamikils manns í bresku samfélagi. Föður hennar hefur verið lýst sem „hræðilegum manni“ sem sýndi einræðistilburði, manni sem sveifst einskis til að fá það sem hann vildi.“


Ghislaine Maxwell hóf samband sitt við Epstein stuttu eftir andlát föður síns. Vegna hennar komst hann inn í innsta hring ríka og fræga fólksins og kynntist Bill Clinton, Donald Trump, Andrew prins og fleirum. „Það ætti að vera öllum ljóst að misnotkun er gerð möguleg með völdum og auði,“ skrifar Robinson. „Harvey Weinstein naut þess í áratugi að níðast á konum í skjóli valds síns. Bill Cosby gerði slíkt hið sama – verandi einn ríkasti og frægasti leikari heims. Donald Trump hefur viðurkennt að þegar hann átti keppnina Ungfrú alheim hafi hann viljandi gengið inn á stúlkurnar þegar þær voru að skipta um föt svo hann gæti starað á þær. „Ég má það af því að ég er eigandinn,“ sagði hann á sínum tíma. Starfsmenn keppninnar aðstoðuðu hann með því að hvetja stúlkurnar til að sýna Trump athygli þegar hann birtist skyndilega.


Heimur hinna ofurríku er heimur þar sem næstum enginn tekur ábyrgð því í honum lifir fólk sem hefur gíðarlega möguleika á því að skaða annað fólk eða verðlauna það.


„Maxwell nærðist í menningarheimi þar sem fólk er hvatt til að gera það sem því lystir – sama hver áhrifin verða á aðra sem eru í viðkvæmri stöðu. Við skulum muna að það að setja Ghislaine Maxwell í fangelsi breytir ekki þessum menningarheimi.“


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar