Root

Íslandsvinurinn sem sagður er hafa „fóðrað skrímslið“ Epstein

Í lok árs 2014 greindi kona frá því að Ghislaine Maxwell hefði tekið þátt í ofbeldi auðmannsins Jeffrey Epstein gegn sér. Aðeins skömmu áður hafði Maxwell staðið á sviði í Hörpu og rætt þær ógnir sem steðja að hafinu á ráðstefnu Arctic Circle. Í Reykjavík er hún líka sögð hafa kynnst manninum sem kom henni til aðstoðar þegar mest á reyndi.

Heim­inum er skipt í tvennt. Svæði þar sem gilda lög og reglur og svæði þar sem í raun engar reglur gilda. Þetta er eins og villta vestr­ið.“Ghislaine Maxwell tal­aði af ástríðu um ástand hafs­ins á alþjóða­þingi Hring­borðs norð­ur­slóða – Arctic Circle – í Hörpu árið 2013. Hvernig verið væri að níð­ast á haf­svæðum heims­ins, þar sem óljósar reglur giltu, með ofveiði. Hún var þangað komin fyrir hönd nátt­úru­vernd­ar­sam­taka sem hún hafði stofn­að, Terramar Project. Ári síðar var hún aftur mætt í Hörpu og vakti athygli við­staddra á gríð­ar­legri plast­mengun í haf­inu. „Hafið þið komið til Rusl-lands? Ég hef gert það og það er ekki fögur sjón“.Heim­inum er skipt í tvennt. Í hluta hans gilda lög og reglur en í öðrum hluta í raun eng­ar. Þeir sem þar lifa og hrærast, hinir ofur­ríku, kom­ast í skjóli valds síns, áhrifa, tengsla og pen­inga, upp með ákveðna hluti. Stundum vonda hluti. Hluti sem meiða fólk jafn­vel fyrir lífs­tíð. „Þær eru ekk­ert, þessar stúlk­ur. Þær eru rusl,“ er Ghislaine Maxwell sögð hafa sagt við vin­konu sína sem spurði hvað henni fynd­ist um ungu stúlk­urnar sem hún útveg­aði vini sínum og fyrrum elsk­huga.

Auglýsing

Vin­ur­inn var Jef­frey Epstein, við­skipta­jöf­ur­inn ofur­ríki sem á síð­asta ári var ákærður fyrir man­sal og kyn­ferð­is­legt ofbeldi gegn fjölda stúlkna undir lög­aldri.„Við erum svo áköf að mis­nota það sem við höf­um, við verðum að fara var­lega og hugsa áður en við fram­kvæm­um,“ sagði Maxwell á Arctic Circle árið 2013. Hún var að tala um haf­ið. Ofveið­ina sem stunduð er með ónátt­úru­legum aðferðum á borð við risatroll sem rúma myndu margar breið­þot­ur.Maxwell, sem var í felum í tæpt ár, hefur nú sjálf verið ákærð fyrir mis­notk­un. Fyrir að hafa í félagi við Epstein mis­notað ungar stúlkur kyn­ferð­is­lega. Fyrir að hafa fundið þær, ving­ast við þær og ginnt með gylli­boðum til að svala fýsnum manns sem vildi fá þrjár full­næg­ingar á dag og fékk þá brjál­æð­is­legu hug­mynd að búa til ofur­kyn­þátt úr sínu eigin erfða­efni.Epstein er lát­inn. Hann hengdi sig í fanga­klefa fyrir tæpu ári. Hér verður hans saga ekki rakin ítar­lega heldur vin­kon­unnar Ghislaine Maxwell sem hefur komið hingað til lands að minnsta kosti tvisvar og fellur því lík­lega undir skil­grein­ing­una „Ís­lands­vin­ur“. Hér er hún einnig sögð hafa kynnst manni, einum af stofn­endum Arctic Circle, sem skaut yfir hana skjóls­húsi þegar hún þurfti á að halda.Og er, að því er fréttir sumra fjöl­miðla herma, mögu­lega eig­in­maður hennar í dag.Síðasta myndin? Talið er að árið 2005 hafi verið tekin síðasta myndin af þeim saman opinberglega, Epstein og Maxwell.

Ghislaine Maxwell fædd­ist í Frakk­landi árið 1961. Hún er yngst níu barna fjöl­miðla­kóngs­ins Roberts Maxwell sem átti Mir­ror Group, og eig­in­konu hans, Bett­yar. Faðir hennar fædd­ist í Tékkóslóvakíu og ólst upp í mik­illi fátækt. Er nas­istar náðu þar völdum flúði hann til Frakk­lands og gekk til liðs við breska her­inn. Eftir að stríð­inu lauk gift­ist hann dóttur bresks kaup­sýslu­manns, flutti til Bret­lands, skipti um nafn og hóf að safna að sér fjöl­miðl­um. Til varð fjöl­miðla­kóng­ur­inn Robert Maxwell sem átti áður en yfir lauk mörg hund­ruð fyr­ir­tæki, umgekkst for­seta og kónga­fólk og hafði 32 þús­und starfs­menn í vinnu.Ghislaine er sögð hafa verið auga­steinn föður síns. Til marks um það nefndi hann snekkju sína, Lady Ghislaine, í höf­uðið á henni.Robert Maxwell lést árið 1991. Hann var á sigl­ingu við Kanarí-eyjar á snekkj­unni sinni er hann féll fyrir borð. Skömmu síðar kom í ljós að hann hafði mis­farið með fé fyr­ir­tækja sinna og m.a. seilst djúpt í eft­ir­launa­sjóði starfs­mann­anna. Skuld­irnar voru gríð­ar­leg­ar.Ghislaine var þegar þarna var komið sögu 29 ára. Orðin hrókur alls fagn­aðar í öllum þeim við­burðum sem ríka og fræga fólkið í London stóð fyr­ir. Hún var sann­kallað sam­kvæm­is­ljón sem hafði alist upp á 53 her­bergja setri fyrir utan London og aldrei þurft að hafa nokkrar áhyggjur af pen­ing­um.„Hvernig lést faðir þinn?“ var hún spurð á blaða­manna­fundi. „Ég held að hann hafi verið myrt­ur,“ sagði hún.Ghislaine Maxwell varð snemma samkvæmisljón og umgekkst reglulega ríka og fræga fólkið í London.

Nafn Maxwell-­fjöl­skyld­unnar var ekki lengur virt og dáð. Robert Maxwell var kall­aður þrjótur og þjóf­ur. Ghislaine Maxwell var hund­elt af blaða­mönn­um. Hún átti enga und­an­komu­leið. Húsið sem hún bjó í í London var eign fyr­ir­tækja­sam­steypunn­ar. Það var tekið af henni. Sama má segja um allt inn­bú­ið.Ári eftir að faðir hennar lést ákvað hún að yfir­gefa London og flaug til New York. Hún var ekki ein á ferð. Sam­ferða­maður hennar var Banda­ríkja­maður og tölu­vert eldri en hún.Þetta var Jef­frey Epstein.Þegar Ghislaine hóf sitt nýja líf vestan Atl­ants­hafs­ins, þykir ljóst að hún var ekki á flæðiskeri stödd þó að fjöl­skyldu­auð­ur­inn væri horf­inn. Hún átti Epstein að. Nokkru eftir að hún flutti til New York var hún flutt í sjö hæða hús í borg­inni og var farin að vinna sem við­skipta­ráð­gjafi. Í við­tali við tíma­ritið Hello! í byrjun árs 1997 sagði hún frá allri sinni vel­gengni en minnt­ist engu orði á sam­band sitt við Epstein. Stóra New York-­húsið hennar var, að því er fram kom í grein­inni, til marks um vel­gengni hennar sem harð­dug­legur ráð­gjafi.Ghislaine var harð­dug­leg að efla tengsla­net­ið. Hún þræddi við­burði á Man­hattan til að kynn­ast nýju fólki, var glað­vær og sjar­mer­andi. Þetta lík­aði Epstein sér­lega vel. Hann komst í kynni við fólk af sama sauða­húsi, fólk sem vissi vart aura sinna tal. Og Maxwell hafði fundið leið inn í sam­fé­lag hinna ríku og frægu á ný.En til að halda þessum lífs­stíl þurfti hún að „fæða skrímslið á því sem það vild­i,“ skrifar blaða­maður Vanity Fair. Og það sem skrímslið Epstein vildi voru stúlkur og það í yngri kant­in­um. Maxwell er sögð hafa leitað að fórn­ar­lömbunum alls stað­ar: Í partíum, í heilsu­lindum og á snyrti­stof­um. Þegar hún svo fann þá réttu bauð hún henni í heim­sókn í glæsi­hýsi Epsteins.Auglýsing

Ekki er að fullu ljóst hvenær á tíunda ára­tugnum þau hófu ást­ar­sam­band og hvenær því svo lauk. Það stóð að minnsta kosti í nokkur ár, lík­lega um  það bil frá 1994-1997, en þró­að­ist svo yfir í djúpa vin­áttu að þeirra sögn. Maxwell var þá farin að sjá um öll per­sónu­leg mál Epsteins, allt frá því að hafa umsjón með fast­eignum hans í mörgum löndum og í að að færa honum kjúklinga­súpu þegar hann var með flensu.Við upp­haf nýrrar ald­ar­innar virð­ist Maxwell hafa fjar­lægst Epstein. Hún flutti til Flór­ída og hóf að búa með öðrum manni en árið 2004 var hún aftur farin að vinna fyrir hann og lík­legt er talið að það hafi hún gert að minnsta kosti til árs­ins 2006.En árin þar á eftir ein­kennd­ust af bar­áttu hennar fyrir umhverf­is­vernd og árið 2012 stofn­aði hún TerraMar-verk­efnið sem átti að byggja upp sam­fé­lag þeirra sem vildu standa vörð um verndun hafs­ins. Tengsla­netið reynd­ist henni áfram vel og frægir og ríkir ein­stak­lingar lögðu henni lið.Á meðan á þessu stóð hafði Epstein verið ákærður fyrir að brjóta gegn tveimur stúlkum undir lög­aldri. Hann ját­aði sök og var um mitt ár 2008 dæmdur til 18 mán­aða fang­els­is­vist­ar. Hann afplán­aði 13 mán­uði.Um svipað leyti fóru spjótin að bein­ast að Maxwell. Í sept­em­ber árið 2009, er hún var á umhverf­is­ráð­stefnu Clint­on-hjón­anna, var henni birt stefna. Hún átti að mæta fyrir dóm vegna rann­sóknar á meintu kyn­ferð­is­broti Epsteins gegn ungri stúlku.Ghislaine Maxwell á Arctic Circle ráðstefnunni árið 2014.

Það var hins vegar ekki fyrr en sex árum síð­ar, skömmu eftir að Maxwell hafði talað á Arctic Circle í seinna skipt­ið, að önnur kona, Virg­inia Giuf­fre, sem sak­aði Epstein um kyn­ferð­is­brot, benti á Maxwell sem vit­orðs­mann hans og sagði hana einnig hafa verið þátt­tak­anda í ofbeld­inu. Hún greindi m.a. frá því að þegar hún var fimmtán ára hafi Maxwell fengið hana til að ger­ast einka­nudd­ari Epsteins. Hún sak­aði hana um að hafa gert sig að kyn­lífs­þræl hans og Andrew Breta­prins sem Maxwell hafði þekkt í árarað­ir.Maxwell gaf út yfir­lýs­ingu þar sem hún hafn­aði ásök­unum Giuf­fre og sagði þær lyg­ar. Giuf­fre kærði þá Maxwell fyrir æru­meið­ing­ar. Í rétt­ar­höld­unum neit­aði hún stað­fast­lega að hafa haft nokkra vit­neskju um áhuga Epsteins á ungum stúlk­um. Samið var í mál­inu utan dóm­stóla.

 

Fjöl­miðla­fárið var í þann mund að skella aftur á er hún ákvað að flytja enn einu sinni. Um tíma er hún sögð hafa búið í lúx­us­húsi í litlu þorpi rétt fyrir utan Boston. Eig­andi þess var Scott Borger­son. Og honum hafði hún kynnst á Arctic Circle-ráð­stefn­unni í Reykja­vík.Borger­son er fyrr­ver­andi liðs­for­ingi og fræði­maður hjá Council of For­eign Relations. Hann er einnig for­stjóri Carcometrics, fjár­fest­ing­ar­fyr­ir­tækis sem nýtir sér upp­lýs­ingar um skipa­ferðir til að spá fyrir um flæði flutn­inga á sjó og áhrif þeirra á verð hrá­vara og gjald­miðla. Hann er auk þess einn af stofn­endum Arctic Circle og situr í ráð­gjafa­ráði þess.Árið 2018 var Maxwell farin að halda sig til hlés. Hún hætti TerraMar-verk­efn­inu sem hafði fátt skilið eftir sig annað en skuld­ir.Scott Borgerson á ráðstefnu Arctic Circle. Hann er 44 ára, fjórtán árum yngri en Maxwell.

Í júní í fyrra var Maxwell stödd í Bret­landi. Þar dvaldi hún m.a. hjá Andrew prins vini sín­um. Þegar prins­inn var spurður um dvöl hennar í frægu við­tali sem hann gaf BBC sagði hann hana hafa verið að taka þátt í „ein­hverri söfn­un“. Á dag­inn kom að hún hafði verið þátt­tak­andi í við­burði sem kall­ast Cash & Rocket – öku­ferð mold­ríkra kvenna í nafni góð­gerð­ar­mála frá London til Monte Car­lo. Ferðin var mynduð í bak og fyrir og sjá mátti Maxwell, þar sem hún ók rauðum Alfa Romeo, skæl­bros­andi á nokkrum þeirra.En eftir þetta ferða­lag hvarf hún.Skömmu síðar var Epstein hand­tek­inn og ákærður fyrir man­sal og kyn­ferð­is­brot gegn stúlkum undir lög­aldri. Maxwell var hins vegar hvergi að finna. „Þessi kona er dólg­ur­inn hans. Hún flýgur flug­vélum til og frá eyj­unni. Ég veit þetta af því að hún sagði mér það,“ skrif­aði leik­konan Ellen Barkin á Twitter af  þessu til­efni. Eyjan sem þarna er vísað til var í eigu Epsteins og kölluð „synda­eyj­an“.Slúð­ur­blöðin tóku þátt í leit­inni af fullum krafti. The Daily Mail fékk ábend­ingu um að hún dveldi í húsi Borger­son fyrir utan Boston. Þyrlum var flogið yfir og af myndum sem teknar voru hafa verið borin kennsl á tvær mann­eskj­ur: Christine, systur Maxwell, og Scott Borger­son. Í við­tali við New York Post sagð­ist hann hins vegar ekki hafa hug­mynd um hvar hún væri nið­ur­kom­in. „Hún er ekki hér,“ sagði hann.Maxwell og Epstein ásamt Donald Trump og Melaniu.

Fimm vikum eftir að Epstein var hand­tek­inn fannst hann lát­inn í klefa sínum í fang­els­inu á Man­hatt­an. Í bréfi sem hann er sagður hafa skilið eftir sig á að hafa stað­ið: Noel [fanga­vörð­ur] lét mig fá brenndan mat“ og „risa­stórar pöddur eru að skríða á hönd­unum á mér. Þetta er ekki gam­an!“Þetta var mikið áfall fyrir fórn­ar­lömb hans. Kon­urnar sem höfðu hver af annarri stigið fram og kraf­ist rétt­læt­is. Nú var það þeirra eina von að Maxwell myndi finn­ast og leysa frá skjóð­unni.En það var eins og jörðin hefði gleypt hana og tæpu ári eftir að Epstein lést bólaði enn ekk­ert á henni. Þangað til að morgni 2. júlí síð­ast­lið­ins. Þá var felu­leiknum loks lok­ið. Alrík­is­lög­reglan hafði fundið hana í húsi í bænum Brad­ford í New Hamps­hire. Hún var sam­stundis ákærð, m.a. fyrir að hafa aðstoðað og auð­veldað Epstein að mis­nota stúlkur undir lög­aldri.Maxwell „flutti þær í gildr­una,“ sagði banda­ríski sak­sókn­ar­inn Audrey Strauss, á blaða­manna­fundi dag­inn eftir að Maxwell var hand­tek­in. „Hún þótt­ist vera kona sem þær gætu treyst. En allan tím­ann var hún að und­ir­búa þær fyrir að vera mis­not­aðar af Epstein og í ein­hverjum til­vik­um, henni sjálfri.“Í rétt­ar­höld­unum fyrir helgi, þar sem dóm­ari ákvað að Maxwell yrði ekki sleppt úr haldi gegn trygg­ingu, kom ýmis­legt í ljós sem áður hafði verið á huldu í mál­inu.Auglýsing

Eitt það óvæntasta var sú upp­ljóstrun sak­sóknar­anna að Maxwell væri gift en neit­aði að gefa  upp nafn makans. Í frétt Guar­dian er rakið ýmis­legt sem fram kemur í þeim skjölum sem lögð voru fram við rétt­ar­höld­in. Til dæmis um húsið í Brad­ford þar sem hún var hand­tek­in.Í gögn­unum kemur fram að fast­eigna­sal­inn sem hafði umsjón með sölu húss­ins hefði greint lög­reglu frá því að í nóv­em­ber á síð­asta ári hefðu áhuga­samir kaup­endur komið á hans fund og kynnt sig sem Scott og Jen Marchall.„Scott Marchall“ sagði fast­eigna­sal­anum að  hann hefði verið í breska hernum en væri sestur í helgan stein og að skrifa bók. „Jen Mars­hall“ sagð­ist vera blaða­maður í leit að næði. Parið sagð­ist vilja kaupa eign­ina strax og að þau myndu setja upp félag um kaup­in. Fast­eigna­sal­inn sá síðar mynd af Maxwell og átt­aði sig á því að hún væri konan sem hafði keypt hús­ið.„Í New Hamps­hire hafði Maxwell haldið áfram að njóta lífs­ins lystisemda í glæsi­húsi á meðan fórn­ar­lömb hennar engd­ust um í áfalli sem þau urðu fyrir á sínum tíma,“ sagði William F. Sweeney Jr., sem fór fyrir rann­sókn FBI á mál­inu, á blaða­manna­fundi eftir hand­tök­una.En hver er þá „Scott Marchall?“Það hefur enn ekki verið stað­fest af yfir­völd­um. En miðlar á borð við The Sun, The Daily Mail og New York Post telja sig vera búna að leggja saman tvo og tvo. Að hann sé mað­ur­inn sem hún kynnt­ist í Reykja­vík sem yfir­gaf konu sína hennar vegna þótt fjórtán ár skilji þau að í aldri.Saksóknari kynnir ákærur á hendur Maxwell á blaðamannafundi nýverið.
EPA

Maxwell heldur fram sak­leysi sínu. Talið er að hún verði í varð­haldi að minnsta kosti út þetta ár.  Rétt­ar­höldin yfir henni hefj­ast ekki fyrr en 12. júlí á næsta ári. Verði hún fundin sek á hún allt að 35 ára fang­elsi yfir höfði sér.„Þetta hryggi­lega og hrylli­lega glæpa­mál snýst að hluta til um það sem ger­ist þegar litlum hópi fólks er leyft að haga sér eins og hann vill,“ skrifar Nathan Robin­son, frétta­stjóri The Guar­dian í Banda­ríkj­un­um. Hvers vegna fór Ghislaine Maxwell, sem bjó alla tíð við auð og var menntuð í Oxfor­d-há­skóla, þessa leið í líf­inu, spyr hann og segir svarið liggja í bak­grunni henn­ar. „Hún ólst upp á 53 her­bergja setri, dóttir valda­mik­ils manns í bresku sam­fé­lagi. Föður hennar hefur verið lýst sem „hræði­legum manni“ sem sýndi ein­ræð­istil­burði, manni sem sveifst einskis til að fá það sem hann vild­i.“Ghislaine Maxwell hóf sam­band sitt við Epstein stuttu eftir and­lát föður síns. Vegna hennar komst hann inn í innsta hring ríka og fræga fólks­ins og kynnt­ist Bill Clint­on, Don­ald Trump, Andrew prins og fleir­um. „Það ætti að vera öllum ljóst að mis­notkun er gerð mögu­leg með völdum og auð­i,“ skrifar Robin­son. „Har­vey Wein­stein naut þess í ára­tugi að níð­ast á konum í skjóli valds síns. Bill Cosby gerði slíkt hið sama – ver­andi einn rík­asti og fræg­asti leik­ari heims. Don­ald Trump hefur við­ur­kennt að þegar hann átti keppn­ina Ung­frú alheim hafi hann vilj­andi gengið inn á stúlk­urnar þegar þær voru að skipta um föt svo hann gæti starað á þær. „Ég má það af því að ég er eig­and­inn,“ sagði hann á sínum tíma. Starfs­menn keppn­innar aðstoð­uðu hann með því að hvetja stúlk­urnar til að sýna Trump athygli þegar hann birt­ist skyndi­lega.Heimur hinna ofur­ríku er heimur þar sem næstum eng­inn tekur ábyrgð því í honum lifir fólk sem hefur gíð­ar­lega mögu­leika á því að skaða annað fólk eða verð­launa það.„Maxwell nærð­ist í menn­ing­ar­heimi þar sem fólk er hvatt til að gera það sem því lystir – sama hver áhrifin verða á aðra sem eru í við­kvæmri stöðu. Við skulum muna að það að setja Ghislaine Maxwell í fang­elsi breytir ekki þessum menn­ing­ar­heim­i.“Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar