Kirkjulist eða klám

Undir venjulegum kringumstæðum er ekki dagsdaglega stríður straumur fólks í Heilagsandakirkjuna í Faaborg á Fjóni. Undanfarið hefur hins vegar fjöldi fólks streymt í kirkjuna, ekki þó til að hlýða á guðsorð eða biðjast fyrir.

Ein af myndunum eftir Jim Lyngvild í Heilagsandakirkjunni í Faaborg
Ein af myndunum eftir Jim Lyngvild í Heilagsandakirkjunni í Faaborg
Auglýsing

Smábæjarins Faaborg á Suður-Fjóni, með sína 7 þúsund íbúa er sjaldan getið í dönskum fjölmiðlum. Bæjarins er fyrst getið í skjölum árið 1229 en talið er að saga hans sé mun eldri. Á sumrin er Faaborg vinsæll viðkomustaður fólks sem siglir um höfin á skútum og smábátum og á síðasta ári komu þangað um 15 þúsund slíkir farkostir. Í elsta hluta bæjarins eru fjölmörg veitingahús og þjónusta við ferðafólk, einkum sæfarendur, mikilvægur þáttur í atvinnulífinu.  

Undanfarið hefur, þrátt fyrir kórónufaraldurinn, verið óvenju margt ferðafólk í Faaborg. Fyrst og fremst Danir. Bæjarbúar eiga því ekki að venjast að landar þeirra streymi til bæjarins en þannig hefur það verið frá 7. mars. Þann dag var opnuð myndlistarsýning í Heilagsandakirkjunni í bænum. Það er útaf fyrir sig ekki nýlunda í þessari gömlu kirkju, sem á sér margra alda sögu.


Auglýsing

Sýningin sem nú stendur yfir er ólík flestu því sem áður hefur verið sýnt í kirkjunni og það er þessi sýning sem dregur fólk að. Listamaðurinn, sem er 42 ára gamall Dani og heitir Jim Lyngvild, er þekktur í heimalandinu. Auk myndlistarinnar hefur Jim Lyngvild skrifað margar bækur og gert sjónvarpsþætti.


Árið 2016 tók hann þátt í keppni í kínverska sjónvarpinu. Keppnin fólst í að hanna tískufatnað. Um það bil 200 milljónir Kínverja fylgdust með hverjum þætti.  Jim Lyngvild bar ekki sigur úr býtum en hann seldi „fatalínuna“ úr keppninni fyrir jafngildi 1400 milljóna íslenskra króna. Þá peninga lét Jim Lyngvild renna til góðgerðarmála.


Myndirnar og Ole Billum

Haustið 2019 hóf Jim Lyngvild, sem býr skammt frá Faaborg, vinnu við gerð mynda sem hann sagði að „yrðu í trúarlegum anda en þó öðruvísi.“ Það reyndust orð að sönnu. Myndirnar, sem á endanum urðu sjö talsins, eru sambland ljósmynda og málverka, listamaðurinn hefur stillt upp fyrirsætum og tekið mynd. Eftir að myndin hefur verið sett á pappír, eða striga, hefur svo ýmsu verið bætt inn á myndina og síðan tekin önnur mynd.


Ole Billum sem er efnaður atvinnurekandi í Faaborg, og þekkti til Jim Lyngvild, frétti af þessum sérstöku myndum og fékk hugmynd. Hún var sú að myndir Jim Lyngvild yrðu prentaðar, mikið stækkaðar, á léreft og sýndar almenningi. Þeir höfðu samband við sóknarnefnd Heilagsandakirkjunnar í Faaborg sem tók vel í hugmyndina. Ole Billum stóð straum af kostnaðinum við prentun og innrömmun myndanna sjö. Myndirnar eru engin smásmíði, hver um sig 4,5 x 3 metrar á stærð. Sökum stærðarinnar varð innrömmunin að fara fram inni í kirkjunni.


Fólk streymdi í kirkjuna 

Eins og áður var nefnt var sýningin opnuð 7. mars, að viðstöddu fjölmenni (fjöldinn var þó takmarkaður vegna COVID19) og vakti strax mikla athygli. Danskir fjölmiðlar greindu ítarlega frá sýningunni og voru allir á einu máli um að myndirnar væru „öðruvísi en þó með trúarlegu yfirbragði,“ eins og listamaðurinn hafði sagt. Sem dæmi má nefna að á einni myndinni, Grebet i ægteskabsbrud, má sjá lesbískt par með húðflúr og við borð situr kona með farsíma í hendi. 


Allt frá fyrsta degi hefur fjöldi fólks sótt sýninguna, skoðanir sýningargesta hafa verið skiptar. Sumir segja þær klám en allir, sem fjölmiðlar hafa rætt við, eru sammála um að hún sé athyglisverð og ekki þurfi að fjölyrða um færni listamannsins.

Fjöldi fólks mætti á opnun sýningarinnar þann 7. mars síðastliðinn. Mynd: Facebook/ Jim Lyngvild

Hvað gerist 1. september?

Upphaflega var gert ráð fyrir að sýningunni á verkum Jim Lyngvild lyki 31. ágúst. Ákveðið hafði verið, fyrir löngu, að þá yrði kirkjunni lokað vegna viðgerða og yrði ekki opnuð aftur fyrr en 1. nóvember á næsta ári. Vegna mikillar aðsóknar að sýningu Jim Lyngvild hefur sóknarnefndin fengið margar fyrirspurnir um hvort sýningin verði ekki áfram í kirkjunni þegar viðgerðunum lýkur og hún verður á ný opin almenningi. Á Facebook síðu kirkjunnar hefur staðið yfir könnun um hvort sýningunni skuli ljúka 31. ágúst eða hvort hún verði áfram. Um það bil 8 þúsund manns hafa tekið þátt í könnuninni og 97% þeirra vilja að myndirnar verði áfram til sýnis í kirkjunni. 


Sóknarnefndin úr takti við almenningsálitið

Sóknarnefndin er hins vegar ekki á sama máli og þegar kosið var um hvort myndirnar verði teknar niður eða látnar vera áfram vildu 7 af 12 láta taka myndirnar niður en 5 vildu láta þær vera áfram. Eftir fundinn í sóknarnefndinni þar sem kosningin fór fram kom í ljós að einn nefndarmanna hafði ekki rétt til að kjósa, hann var í fríi frá nefndinni en mætti samt til að kjósa. Vegna þessa þurfti að endurtaka kosninguna en úrslitin urðu þau sömu, meirihlutinn vill að myndirnar verði ekki til sýnis þegar kirkjan verður opnuð aftur eftir viðgerðirnar. 


Ákvörðun sóknarnefndarinnar hefur kallað fram sterk viðbrögð margra sem segja nefndina algjörlega úr takti við almenning. Í stað þess að gleðjast yfir að fólk streymi í kirkjuna og ræði um myndirnar og innihald trúarinnar sé nefndin gamaldags í afstöðu sinni. Formaður sóknaranefndarinnar er talsmaður þess að myndirnar verði áfram í kirkjunni en segist verða að hlíta ákvörðun meirihlutans. 


Ný sóknarnefnd í haust

Þrátt fyrir ákvörðun sóknarnefndarinnar um að myndirnar skuli burt er ekki loku fyrir það skotið að þar geti orðið breyting á. Í haust verður nefnilega kosin ný sóknarnefnd og þótt venjulega séu ekki mikil átök í kringum slíkar kosningar er líklegt að frambjóðendur verði krafðir um afstöðu sína til myndanna í Heilagsandakirkjunni. Vitað er að fimm af núverandi sóknarnefndarmönnum ætla ekki að sitja áfram.


Hvað ef?

Eins og áður var nefnt varð að setja myndirnar í rammana inni í kirkjunni, vegna stærðar. Ef þær verða fjarlægðar verður að hafa sama hátt á, taka þær úr rammanum og taka síðan rammann i sundur.

Jim Lyngvild sagði fyrir nokkru síðan að ef myndirnar yrðu ekki áfram til sýnis myndi hann brenna þær. Síðar sagði hann að það væri ekki góð hugmynd að kveikja í Jesú, hann myndi í það minnsta ekki taka þátt í því. En bætti svo við „ég las að fyrir nokkrum árum hefði fundist 400 ára gamalt verk, með Kristi á krossinum, í skoti á kirkjulofti. Hver veit hvað kann að finnast á loftinu hér í Heilagsandakirkjunni eftir þrjú til fjögur hundruð ár.“


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Hólmfríður Árnadóttir menntunarfræðingur og Heiða Guðný Ásgeirsdóttir bóndi skipa 1. og 2. sæti á lista Vinstri grænna í Suðurkjördæmi.
Þjórsáin okkar allra
Kjarninn 25. júlí 2021
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir ríkisstjórnina ræða málin í þaula og hafa verið í meginatriðum samstíga um aðgerðir í faraldrinum hingað til.
Stjórnmálin falli ekki í þá freistni að gera sóttvarnir að „pólitísku bitbeini“
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir samstöðu í ríkisstjórn um þær hertu aðgerðir sem tóku gildi í dag. Hún segist vilja forðast að sóttvarnir verði að pólitísku bitbeini fyrir kosningar og telur að það muni reyna á stjórnmálin á næstu vikum.
Kjarninn 25. júlí 2021
Steypiregnið ógurlega
Steypiregn er klárlega orðið tíðara og umfangsmeira en áður var. Öll rök hníga að tengingu við hlýnun lofthjúps jarðar. Í tilviki flóðanna í Þýskalandi og víðar hefur landmótun, aukið þéttbýli og minni skilningur samfélaga á eðli vatnsfalla áhrif.
Kjarninn 25. júlí 2021
Ísraelsk stjórnvöld sömdu við lyfjafyrirtækið Pfizer um bóluefni og rannsóknir samhliða bólusetningum.
Alvarlega veikum fjölgar í Ísrael
Það er gjá á milli fjölda smita og fjölda alvarlegra veikra í Ísrael nú miðað við fyrstu bylgju faraldursins. Engu að síður hafa sérfræðingar áhyggjur af þróuninni. Um 60 prósent þjóðarinnar er bólusett.
Kjarninn 25. júlí 2021
Danska smurbrauðið nýtur nú aukinna vinsælda meðal matgæðinga í heimalandinu.
Endurkoma smurbrauðsins
Flestir Íslendingar kannast við danska smurbrauðið, smørrebrød. Eftir að alls kyns skyndibitar komu til sögunnar döluðu vinsældirnar en nú nýtur smurbrauðið sívaxandi vinsælda. Nýir staðir skjóta upp kollinum og þeir gömlu upplifa sannkallaða endurreisn.
Kjarninn 25. júlí 2021
Fjallahjólabrautin við Austurkór var eitt verkefna sem valið var til framkvæmda af íbúum í íbúðalýðræðisverkefninu Okkar Kópavogur í fyrra.
Kópavogsbær skoðar flötu fjallahjólabrautina betur eftir holskeflu athugasemda
Kópavogsbær hefur boðað að fjallahjólabraut við Austurkór í Kópavogi verði tekin til nánari skoðunar, eftir fjölda athugasemda frá svekktum íbúum þess efnis að brautin gagnist lítið við fjallahjólreiðar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Með stafrænum kórónuveirupassa fæst QR kóði sem sýna þarf á hinum ýmsu stöðum.
Munu þurfa að framvísa kórónuveirupassa til að fara út að borða
Evrópska bólusetningarvottorðið hefur verið notað vegna ferðalaga innan álfunnar síðan í upphafi mánaðar. Í Danmörku hefur fólk þurft að sýna sambærilegt vottorð til að sækja samkomustaði og svipað er nú uppi á teningnum á Ítalíu og í Frakklandi.
Kjarninn 24. júlí 2021
Eldgosið í Geldingadölum hefur verið mikið sjónarspil. Nú virðist það í rénun.
Ráðherra veitir nafni nýja hraunsins formlega blessun sína
Eins og lög gera ráð fyrir hefur Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra staðfest nafngift nýja hraunsins í landi Grindavíkurbæjar. Fagradalshraun mun það heita um ókomna framtíð.
Kjarninn 24. júlí 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar