EIA

Blóðblettir á parketinu

Þau eru úr eik, beyki, hlyni eða furu. Svo falleg með sínar dökku æðar og formfögru kvisti. Parket er án efa eitt vinsælasta gólfefni Vesturlandabúa sem þrá að færa hlýju náttúrunnar inn í stofur stórborganna. En hvaðan kemur allur þessi viður? Göngum við kannski bókstaflega á þjáningum annarra?

Eftirför. Falin myndavél. Upptökutæki í penna. Dulargervi. Fulltrúar EIA og samstarfsmenn lögðu sig í hættu við að afla upplýsinga um glæpsamlegt athæfi sem stundað er á afviknum stöðum. Athæfi sem var og er enn að eiga sér stað allt frá Rússlandi til Kína og frá Rúmeníu til Perú. Það varð að fara gætilega enda ljóst að hinir meintu glæpamenn svifust einskis til að smygla varningi sínum milli landa og inn á markað. Þeir hótuðu saklausu fólki lífláti og myrtu jafnvel gagnrýnendur sína.


Hin ólöglega starfsemi sem reynt var að uppræta með þessum leynilegu aðgerðum og rannsóknum snerist ekki um fíkniefni, vopnasölu eða mansal. Heldur um umfangsmikið og ólöglegt skógarhögg – arðrán stórfyrirtækja og eyðileggingu náttúrunnar í fátækum samfélögum víðs vegar um heiminn.


Í heimildarmyndinni Wood, sem frumsýnd var fyrr á þessu ári og er meðal mynda sem sýndar verða á RIFF í ár, er fjallað um ólöglegt skógarhögg og þann umfangsmikla iðnað sem á því hagnast. Hvernig lög og reglur eru þverbrotnar, hvernig timbrinu er smyglað út úr friðlöndum og til annarra landa þar sem það er unnið og því svo pakkað í snyrtilegar umbúðir þekktra framleiðenda og selt í byggingavöruverslunum.


Auglýsing

Það er líklega ekki á allra vitorði en ólöglegt skógarhögg og smygl á timbri eru fjórðu umfangsmestu ólöglegu viðskipti sem fara fram í heiminum um þessar mundir. Það er hægt að hagnast gríðarlega á viðskiptum með timbur. Um það vitna ársskýrslur stórra fyrirtækja sem slík viðskipti stunda. Gæða timbur er eftirsótt, m.a. í parket sem er eitt vinsælasta gólfefnið í vestrænu samfélagi.


En hvaðan kemur allt þetta timbur? Og geta þeir sem kaupa sér parket til að fegra heimili sín verið þess fullvissir að eikin, hlynurinn, askurinn, furan eða beykið hafi verið fellt með vitund, vilja og leyfi yfirvalda og í samræmi við lög og reglur? Að ekki hafi verið gengið á forna og jafnvel friðaða skóga – með ósjálfbærum hætti? Að gegnheila parketið, sem gerir heimilið svo hlýlegt með sínum æðum og kvistum, hafi ekki skilið eftir sig blóðuga slóð og arðrán samfélaga fólks sem hafa nytjað skógana í sínu nærumhverfi? Og að fólk og önnur dýr hafi ekki misst heimkynni sín vegna skógarhöggsins?


EIA stendur fyrir Environmental Investigation Agency sem eru óháð bandarísk félagasamtök er stunda rannsóknir á sviði umhverfismála. Samtökin beita óhefðbundnum aðferðum, vinna með öðrum samtökum og blaðamönnum um allan heim til að afhjúpa rányrkju og mengandi starfsemi sem oftar en ekki fer fram á kostnað náttúrunnar og fátæks fólks og frumbyggja svæða þar sem auðlindirnar er að finna.

Umhverfisfræðingur verður rannsóknarblaðamaður

Framkvæmdastjóri samtakanna er Alexander von Bismarck. Hann er umhverfisfræðingur frá Harvard-háskóla í Bandaríkjunum og með meistaragráðu í sömu vísindum frá London School of Economics. Áður en hann hóf störf hjá EIA stundaði hann rannsóknir við Harvard-háskóla, m.a. á samspili hagsældar og heilbrigðis vistkerfa og fólks. Nú fer hann fyrir rannsóknum EIA, sem gerðar eru víða um heim, m.a. á ólöglegu skógarhöggi, veiðiþjófnaði og ólögmætri notkun skaðlegra og mengandi efna í landbúnaði og iðnaði.


Og það er hann sem leiðir áhorfendur Wood inn í fágæta frumskóga Evrópu og regnskóga Amazon í Suður-Ameríku í leit að uppruna timbursins sem almenningur á Vesturlöndum tekur sem sjálfsögðum hlut án þess að leiða hugann að því hvaðan það kemur, hvernig þess er aflað, hverjir njóta ágoðans og hverjir skaðast og hvernig.

Í upphafi myndarinnar erum við stödd í barrskógabeltinu austast í Rússlandi á svæði sem er síðasta náttúrulega heimkynni Síberíutígursins á jörðinni. Í skóginum eru sum staðar risavaxin og gömul eikartré. En á botni hans má finna ummerki eftir mannaferðir. Djúp för eftir dekk stórvirkra vinnuvéla og flutningabíla. Og augljós merki um skógarhögg. Það er ljóst að þær hafa ekki verið nein smá smíði, eikurnar sem felldar hafa verið í þessu friðlandi og fluttar á brott. Þeim er smyglað til Kína þar sem timbrið er sagað niður í verksmiðju og verkamenn sitja saman með fjalir og pússa þær með sandpappír. Að því loknu fara þær í gegnum vél, fá bað í viðarvörn og koma út sem áferðarfallegt eikarparket. Því er svo pakkað í umbúðir merktar bandarískri verslunarkeðju. „Hvað sem þú vilt, ég get afgreitt það,“ segir yfirmaður verksmiðjunnar við rannsakendur EIA sem eru komnir á hans fund undir því yfirskini að kaupa parket.

Einyrkjarnir sem urðu frá að hverfa


Fyrir um tveimur áratugum voru mörg hundruð húsgagnasmiðir með verkstæði í næsta nágrenni skóga í Rúmeníu. Á næstu árum misstu þeir allir vinnuna. Þeir fengu ekki lengur viðinn sem þeir þurftu. Þá hafði austurríska fyrirtækinu Schweighofer vaxið fiskur um hrygg í landinu eftir að hafa fengið stórt landsvæði árið 2004 til skógarhöggs og opnað stórar verksmiðjur til timburvinnslu.


Inn á milli hárra trjánna í einum síðasta frumskógi Evrópu er eins og fellibylur hafi farið yfir. Skóglendið er ekki samfellt lengur, í því eru stórar eyður – trjálaus belti með einu og einu tré, oft beru, á stangli. Þetta er þjóðgarður og þar er stundað umfangsmikið og ólöglegt skógarhögg. „Allir eru að stela. Jafnvel þótt að það væri löglegt að höggva í þessum skógum mætti ekki höggva svo ung tré,“ segir rúmenskur samstarfsfélagi EIA. „Og enginn gerir neitt til að stöðva þetta.“


Skógarhöggsmenn, bæði þeim sem hafa leyfi til skógarhöggs og þeim sem hafa það ekki, vilja selja  Schweighofer afrakstur vinnu sinnar. Þeir borga best. En trjábolirnir eru keyptir ómerktir án þess að sýna þurfi nokkra pappíra. Þeir eru jafnvel affermdir í einni af verksmiðjum fyrirtækisins í skjóli nætur. Á hverjum sólarhring eru digrir trjábolir teknir af 120 risastórum flutningabílum.  


Alexander von Bismarck og samstarfsmenn hans í Rúmeníu elta flutningabílana út úr þjóðgarðinum. Upp um þá kemst og þeir þurfa að gæta sín. Vopnaðir földum myndavélum, í dulargervi og með falsað nafnspjald upp á vasann, fara rannsakendurnir á fund forsvarsmanna Schweighofer. „Ekkert mál,“ segja þeir við öllum óskum Bismarcks og félaga sem þykjast vera með mikið magn af greni til sölu, frá svæði sem þarf að ryðja fljótt. Millistjórnendur jafnt sem yfirmenn fyrirtækisins kinka stöðugt kolli – það er hægt að uppfylla allar óskir þeirra sem vilja selja trjáboli án nokkurra pappíra.


„Á hverju ári er hogginn skógur í Rúmeníu á stærð við höfuðborgina Búkarest,“ segir Bogdan Micu, frumkvöðull og náttúruverndarsinni sem barist hefur fyrir vernd skóga með tæknilausnir að vopni. „Og vissir þú að aðeins um helmingur skógarhöggsins er löglegur?“


Alexander von Bismarck sker skegg sitt og fer í dulargervi á fund yfirmanna timburverksmiðjanna í Rúmeníu.
EIA

Skógarhöggsmennirnir í Rúmeníu eru ekki endilega starfsmenn Schweighofer. Þeir sjá sér leik á borði í þessum iðnaði, fella tré og selja hæstbjóðanda. En þeir gætu bráðlega þurft að finna sér eitthvað annað að gera rétt eins og húsgagnasmiðirnir forðum daga. Forsvarsmenn Schweighofer segja þá stund nálgast að finna verði annan markað.


Það er ekki lengur nægilegt hráefni til timburframleiðslunnar í Rúmeníu.

Níðst á frumbyggjum Perú


EIA-teymið er einnig við rannsóknir í Perú. Þar er staðan jafnvel enn verri en í Rúmeníu því frumbyggjarnir í og við Amazon-skóginn eru misnotaðir illilega við rányrkjuna. Nöfn þeirra eru notuð og undirskriftir þeirra falsaðar á umsóknir um leyfi til skógarhöggs. Stjórnkerfið er allt spillt, segir fólkið, bugað andspænis gríðarsterkum peningaöflum.


Með þeim hætti eru litlu og fátæku samfélögin í Perú notuð til að hylma yfir ólöglegu skógarhöggi. Án þess að þau hafi hugmynd um það. Þannig sjá þau engan ágoða af nýtingu náttúruauðlindanna sem þau hafa sjálf nýtt með sjálfbærum hætti í aldir og hafa enn ein leyfi til að nýta. Mótmæli fólkið er því hótað lífláti. Það óttast því ekki aðeins um lífsviðurværi sitt heldur líf sitt.


 „Skógarhöggsmennirnir komast upp með allt,“ segir maður sem barist hefur gegn ólöglegu skógarhöggi við þorp sitt í skóginum. „Ef þú ætlar að nýta skógana, gerðu það með löglegum hætti. Ef þú ætlar að græða peninga á skógunum, gerðu það með löglegum hætti. En þeir hafa ekki rétt til að arðræna fátækt fólk.“

Flæðir um alla Evrópu


„Meira en 50 prósent af skógarhöggi í Rúmeníu er ólöglegt og viðurinn flæðir svo um alla Evrópu,“ segir Alexander von Bismarck er hann kynnir niðurstöður rannsóknar EIA á blaðamannafundi í Vínarborg. „Það er nauðsynlegt að þeir sem versla með viðinn viti hver staðan raunverulega er svo þeir geti brugðist við. Aðeins þannig mun eitthvað breytast í Rúmeníu.“


Schweighofer er risastórt á þessum markaði í Rúmeníu, kaupir meira en helming af öllum trjám sem felld eru. „Það er því augljóst að þeir geta nýtt sér þessa markaðsráðandi stöðu til að þrýsta á yfirvöld varðandi lög og reglur. Og þeir hafa ekki verið feimnir við að gera það,“ segir von Bismarck.


Til fundarins er mætur einn framkvæmdastjóri Schweighofer Group, móðurfélagsins sem er með höfuðstöðvar sínar í Vín. „Af hverju eruð þið að stela síðasta frumskógi í Evrópu?“ spyr blaðamaður hann. „Hendur okkar eru hreinar,“ svarar hann og bendir á yfirvöld í Rúmeníu. „Og starfsfólk okkar er mjög vonsvikið vegna þessara ásakana. Þetta er virkilega óþægilegt. En við fáum aldrei tækifæri til að útskýra málið. Hagsmunaaðilar hafa hag af því að kerfið sé svona.“


Eruð þið ekki hagsmunaaðilar?


„Engan veginn.“


Stófellt og ólöglegt skógarhögg er stundað í Amazon-frumskóginum í Perú.
EIA

Schweighofer-fjölskyldan hefur stundað skógarhögg í fjórar aldir en það var þó ekki fyrr en á sjötta áratug þeirrar síðustu sem hún fór að færa út kvíarnar í þeim efnum. Ein sögunarmylla í Austurríki var ekki lengur nóg og eftir fjólubláu byltinguna og Tékkland varð til, nýtti fjölskyldan tækifærið og hóf að byggja upp risastórt viðskiptaveldi með timbur sem varð það þriðja stærsta á heimsvísu rétt fyrir síðustu aldamót.


Viðskipti með timbur hafa því gert kaupsýslumanninn Gerald Schweighofer að einum ríkasta manni Austurríkis.


„Í nokkra daga hefur fyrirtækið okkar og starfsmenn okkar fengið á sig alvarlegar ásakanir,“ segir hann ábúðarfullur í ávarpi sem birt er á netinu eftir að viðskiptahættir fyrirtækis hans eru orðnir fréttaefni víða. „Það er gefið í skyn að við, af öllu fólki, séum að skaða skóga í Rúmeníu með ólöglegum aðferðum. Þetta er ekki satt sem er ástæðan fyrir því að ég ávarpa ykkur með þessum hætti. Í marga áratugi hefur Holzindustrie Schweighofer verið frumkvöðull í ábyrgri og sjálfbærri timburframleiðslu. Leyfið mér að segja af hverju: Það er af því að við lifum á viði. Ég vil bjóða öllum sjálfstæðum umhverfisverndarsamtökum að setjast niður með mér og koma með tillögur um hvernig  við getum unnið saman að því að vernda skóga og nýta þá með sjálfbærum hætti. Því það er nákvæmlega það sem nafnið Schweighofer stendur fyrir.“

Skógarnir eru ekki ykkar


Bismarck segir augljóst að ábyrgðin liggi hjá æðstu stjórnendum fyrirtækisins. Ekki sé hægt að velta henni yfir á millistjórnendur – þeir hafi ekki vald til að taka ákvarðanir um kaup á svo umfangsmiklu magni af ólöglegu timbri án vitundar og vilja sinna yfirmanna. Um stefnu fyrirtækisins sé að ræða. „Hæstráðendur vita hvað er í gangi,“ fullyrðir Bismarck.


„Skógarnir okkar eru ekki ykkar land,“ hrópa mótmælendur á götum Búkarest í kjölfar frétta af vinnubrögðum hins austurríska timburframleiðanda. „Scheighofer, hypjaðu þig!“


Í framhaldi af rannsókn EIA og birtingu á efni sem samtökin öfluðu um ólöglega starfsemi sem tengist Schweighofer er gerð húsleit í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Rúmeníu. Forsvarsmenn þess eru sakaðir um að hafa unnið með rúmensku mafíunni í gegnum árin og byggt viðskiptaveldi sitt upp með glæpsamlegum hætti.


Málið enn í rannsókn

Rannsókn málsins stendur enn yfir. Þá er einnig verið að rannsaka sex morð á skógarhöggsmönnum sem framin hafa verið undanfarin ár. Sá síðasti sem var drepinn var sjálfur skógarhöggsmaður sem hafði komist á spor ólöglegs höggs í skógunum. Hann var fyrst barinn og skotinn og líkinu hent í skurð.


Fyrr á þessu ári hvatti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins stjórnvöld í Rúmeníu til að stöðva ólöglegt skógarhögg í landinu og fylgja reglugerð sambandsins þar um. Í bréfi sem stjórnin sendi kemur fram að rúmenskum stjórnvöldum hafi mistekist að rannsaka starfsemina og beita viðeigandi refsiaðgerðum. Þá segir einnig að yfirvöld sem gefa út leyfi til skógarhöggs hafi gert slíkt án þess að kanna fyrst áhrif þess á svæði sem njóta verndar samkvæmt reglugerðum ESB.


Auglýsing

Skömmu áður eða um síðustu áramót var nafni fyrirtækisins Holzindustrie Schweighofer breytt. Það heitir núna HS Timber Group. Ástæðan er sögð sú að gamla nafnið hafi ekki hentað í alþjóðlegum viðskiptum.


Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan að fyrirtækið opnaði sína fyrstu timburverksmiðju í Sebes í Rúmeníu árið 2004. Það starfrækir þar nú nokkrar sögunarverksmiðjur, þeirra á meðal þá stærstu í heimi. Schweighofer rekur einnig hótel í Rúmeníu, lúxushótelið Gerald´s Hotel í Radauti.


Árið 2018 var velta fyrirtækisins 374 milljónir evra (um 48 milljarðar króna á meðalgengi þess árs) og hagnaðurinn nam 7,2 milljónum evra eða tæpum milljarði króna. Aðeins tveimur árum fyrr var veltan rúmlega helmingi meiri og hagnaðurinn sömuleiðis.

Óttast frekari rányrkju vegna COVID


Schweighofer Group stundar enn viðskipti með timbur í Rúmeníu. Og þó þetta austurríska fyrirtæki sé í kastljósi heimildarmyndarinnar Wood þá eru þau fleiri fyrirtækin sem talin eru starfa með sama hætti.


Ein af nýjustu rannsóknum EIA beinist að frumskógum Madagaskar, eins fátækasta ríkis heims. Óttast er að rányrkja og eyðilegging náttúruauðlinda og vistkerfa muni aukast vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Fátækustu ríki heims, sem orðið hafa af fjármunum vegna hruns í ferðaþjónustu og ýmsum öðrum geirum efnahagslífsins, standa örvæntingarfull frammi fyrir skorti meðal þegna sinna, jafnvel hungri. Slíkar aðstæður bjóða hættu á misnotkun heim.


Eftirspurnin eftir neysluvörum hverskonar er fyrst og fremst hjá íbúum Vesturlanda. Og nú ríður á að neytendur séu á varðbergi og krefjist svara um uppruna alls varnings sem þeir kaupa.


Veist þú hvaðan parketið þitt kemur?


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar