Mynd: Arnar Þór Ingólfsson Halldór Benjamín Mynd: Arnar Þór

Neitar að horfa á vinnumarkaðinn sem stríðsvöll

Ísland er í alvarlegri efnahagskreppu. Þess er vænst að hundruð milljarða tap verði á rekstri ríkissjóðs í ár, tugir þúsunda sjá fram á að verða án atvinnu og mörg fyrirtæki standa frammi fyrir algjörri óvissu um hvort þau komi til með að lifa eða deyja. Kjarninn hitti fulltrúa bæði atvinnulífs og launafólks og fékk sýn þeirra á stöðu mála. Sá þriðji sem rætt er við er Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Ég neita að líta svo á að kjaraviðræður eða umbætur á vinnumarkaði séu einhverskonar stríð á milli atvinnurekenda og verkalýðshreyfingar. Við getum farið nokkur ár eða nokkra áratugi aftur í tímann og séð að hinir raunverulegu galdrar í samspili atvinnurekenda og verkalýðshreyfingar eiga sér stað þegar við náum fram sameiginlegu markmiði. Ég vil sameinast verkalýðshreyfingunni um það markmið að eyða atvinnuleysi. Að skapa ný störf og skilyrði til áframhaldandi vaxtar.“ 

Þetta segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við Kjarnann. Fyrir dyrum hjá honum stendur núna á haustmánuðum að ráðast í mat á forsendum lífskjarasamningins á almennum vinnumarkaði, sem undirritaður var í apríl árið 2018.

„Grunnspurningin sem við vorum að spyrja okkur var: „Hvað er til skiptanna og hvernig eigum við að skipta því? Niðurstaðan úr þeim kjarasamningum varð eins og þú veist að fara í krónutöluhækkanir. Krónutöluhækkanir gagnast hlutfallslega best þeim sem lægst hafa launin, enda hef ég sagt við viðmælendur mína og viðhlæjendur hér innanhúss að í lok efnahagsuppsveiflu eins og varð fyrir einu og hálfu ári myndi aldrei nást nein samfélagsleg sátt um annað en að hækka, hlutfallslega, lægstu launin mest og það er það sem við gerðum. Ég get alveg sagt að ég held að bæði verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur hafi getað vel við unað við lífskjarasamninginn þegar hann var undirritaður, en það er allt breytt. Forsendur allra í samfélaginu eru brostnar,“ segir Halldór Benjamín.

Og nú stendur fyrir dyrum að rýna í forsendurna samninganna og meta hvort þær hafi haldið. „Ég hef stundum vitnað í Jón Gnarr, þegar hann sagði að þetta væri eins og leshringur þar sem við værum bara að ræða stafsetninguna í bókinni, en ræðum aldrei efni bókarinnar. Og hvað á ég á við með því? Jú, forsendur allra eru augljóslega brostnar. Ekki bara á Íslandi, heldur á Norðurlöndum, í Evrópu, í Asíu, í Bandaríkjunum. Forsendur allrar áætlanagerðar eru brostnar um allan heim — og þá þurfum við að setjast niður og velta fyrir okkur hvort forsendur séu brostnar.“

Auglýsing

Ein af helstu forsendum samningsins voru að vextir myndu lækka. Það hefur sannarlega gerst og Halldór Benjamín segir að það telji hann eina mestu kjarabót sem hægt sé að ná fram fyrir íslensk heimili.  

„Kjarasamningar sem stuðla að lækkun vaxta eða koma í veg fyrir hækkun vaxta, eru samkvæmt mínum bókum skilvirkasta leiðin til þess að bæta hag íslenskra heimila. Núna sjáum við að íslensk heimili hafa verið að endurfjármagna fasteignalán sín og það skiptir ekki máli hvort að fólk á sitt húsnæði eða er á leigumarkaði, lækkandi vextir skila sér annarsvegar í lækkandi leiguverði eða lækkandi afborgunum og vöxtum fyrir heimilin í landinu. Og fyrir flesta er lækkunin á afborgunum og greiðslu fasteignalána, margfeldi af þeim launahækkunum sem samið er um í kjarasamningum. Það sem ég var ánægður með við lífskjarasamninginn var að það náðist eins konar svona samsett lausn, þar sem aðilar urðu ásáttir um það að launahækkanir væru mikilvægar, en þær væru ekki eini þátturinn sem ætti að taka tillit til í kjarasamningum. Þessi samsetta lausn byggði meðal annars á því að skapa skilyrði fyrir vaxtalækkun í landinu, sem sannarlega hefur gengið og það er ein af þeim forsendum sem sannarlega er uppfyllt.“ 

Einnig verður litið til þess við endurmat samninganna hvort kaupmáttur hafi aukist á tímabilinu. „Jú, það er rétt á þessum tímapunkti að þegar við lítum í baksýnisspegilinn þá hefur kaupmáttur sannarlega aukist. En ég segi við þig með 100 prósent vissu að kaupmáttur mun verða á fallandi fæti á næstu misserum og ástæðurnar fyrir því eru ósköp einfaldar. Eftirspurnin hefur gufað upp úr hagkerfinu og á sama tíma hefur gengi krónunnar gefið eftir með einhverkonar nálgunum um 15 prósent og sá undirliggjandi verðbólguþrýstingur sem veiking krónunnar mun mynda mun naga kaupmáttinn í burtu eða draga úr honum á næstu misserum,“ segir Halldór Benjamín.

Þriðja forsendan er svo þáttur stjórnvalda – hvort stjórnvöld hafi efnt þau atriði sem fylgdu yfirlýsingu í aðdraganda lífskjarasamningsins. SA leggja mat sitt á það og Alþýðusamband Íslands sömuleiðis. „Síðast varð niðurstaðan sú að SA mátu sem svo að forsendur hefðu ekki brostið, en Alþýðusambandið mat sem svo að forsendur væru brostnar og kölluðu eftir viðbrögðum frá SA til að bregðast við því. Svona er ferlið, þetta er verkefni sem við þurfum að glíma við núna á haustmánuðum og höfum nokkrar vikur til að ganga frá.“

Hærra atvinnustig verði að verða forgangsatriði

Það eru viðsjárverðir tímar í íslensku efnahagslífi og mikil óvissa nánast hvert sem litið er. Halldór Benjamín segir að með nokkurri einföldun megi áætla að allt að fimmti hver einstaklingur verði atvinnulaus eða hlutaatvinnulaus, sé horft til svokallaðs „skuggaatvinnuleysis“ eins og það er framsett í nýjustu útgáfu Peningamála Seðlabanka Íslands.

„Við tveir getum reynt hérna að rýna í kristalskúlu og spurt okkur: „Mun atvinnuástandið á Íslandi batna í september, október og nóvember?“ Ég skal bara gefa þér mitt afdráttarlausa svar, að atvinnuleysið mun halda áfram að aukast alla þessa mánuði. Allir ábyrgir aðilar, hvort sem það eru stjórnvöld, Samtök atvinnulífsins eða verkalýðshreyfingin, hljóta að líta til þessarar stöðu og þetta atvinnuleysi hlýtur að marka viðbrögð okkar til framtíðar. Grunnábyrgð verkalýðshreyfingarinnar og atvinnulífsins í sameiningu hlýtur að vera sú að fólk sem vill vinna geti unnið. Við hljótum að reyna að finna leiðir til þess að draga úr þessu atvinnuleysi, auka atvinnustig á nýjan leik og setja það í forgang alls sem við gerum á næstu mánuðum og misserum,“ segir Halldór Benjamín. 

Öðruvísi kreppa en aðrar sem hafa gengið yfir

Blaðamaður spyr hver þessi viðbrögð ættu að verða, að mati Halldórs, og hvar hann sjái mögulega til vaxtar og nýrra starfa, sem gætu til dæmis komið í stað hluta þeirra starfa sem hafa tapast eða fyrirséð er að munu tapast í ferðaþjónustugeiranum. 

„Áður en ég svara þessari spurningu held ég að við verðum að velta aðeins fyrir okkur eðli efnahagssamdráttar og kreppa á Ísland og hvernig höfum við komist út úr þeim hingað til. Við getum litið ríflega 10 ár aftur í tímann til fjármálakreppunnar eða lengra aftur, því ég hef stundum sagt að hagsaga Íslands sé blóði drifin, það skiptast á skin og skúrir, en hvernig við höfum unnið okkur út úr kreppum fortíðar hefur eiginlega undantekningalaust verið með sama hætti. Krónan hefur gefið eftir og samkeppnishæfni útflutningsatvinnuveganna, sem hefur rýrst í gegnum of miklar launahækkanir, hefur leiðrétt sig af í gegnum veikingu krónunnar. Samhliða veikingu krónunnar hefur samkeppnishæfni úflutningsatvinnuveganna styrkst og þessir þrír stærstu, sjávarútvegur, ferðaþjónusta og stóriðja, hafa hjálpað okkur út úr kreppunum.“

Mynd: Arnar Þór Ingólfsson

Halldór Benjamín segir að honum finnist ekki nægilega margir hafa áttað sig á því gengisleiðrétting og eftirspurnaraukning muni ekki geta orðið bjargræðið með sama hætti og áður út úr þessari kreppu. 

„Ef við byrjum á sjávarútvegi, þá hefur gengið ágætlega í sjávarútvegi á undanförnum árum en hins vegar er það svo að markaðirnir með hæstu verðin eru brothættir. Annars vegar veitingahúsamarkaðirnir, sem helgast af því að veitingahús víða um heim eru einfaldlega lokuð, sama á við um stórmarkaðina fyrir ferskan fisk, þeir eru til staðar en verðin eru því miður ekki á þeim stað sem við vildum sjá. Viðsnúningurinn þar verður ekki með sama hætti og við höfum séð í fortíðinni.

Hvað varðar ferðaþjónustuna og undraverðan vöxt hennar á árunum eftir hrun, þar sem gengi krónunnar vissulega hjálpaði til, þá getum við ekki litið til hennar með sama hætti. Það mun taka tíma fyrir ferðaþjónustu í heiminum að ná fyrri styrk og ég held að allar spár og mat sanngjarnra aðila geri ráð fyrir því að þetta verði ekki einhver svona tvíundarkerfisákvörðun, þar sem þrýst verður aftur á „on“-takkann, heldur að það muni taka tíma að ná fyrri styrk. Ferðaþjónustan mun ekki vaxa jafn hratt og hún hefur gert í fortíð.

Síðan erum við með stóriðjuna, sem sannanlega hefur átt erfitt uppdráttar og við sjáum það bara út frá heimsmarkaðsverðum á þeim afurðum sem framleiddar eru hér. Hún mun heldur ekki verða bjargræðið út úr kreppunni,“ segir Halldór Benjamín, sem telur COVID-kreppuna af þessum sökum alvarlegri en margar sem áður hafa sést.

„Fórnarlömbin eru ekki þau sömu, birtingarmynd þessarar kreppu er allt önnur en birtingarmynd síðustu kreppu. Þá var það efnahagsreikningur fyrirtækja og heimila sem fór algjörlega á hliðina, vegna mjög mikillar verðbólgu, hárra stýrivaxta og hruns krónunnar, þar sem margir voru með gengistryggð lán. En núna er þetta með allt öðrum hætti, þarna voru það nafnstærðir sem voru að hreyfast, núna eru það raunstærðir. Atvinnuleysið er mælikvarðinn á þessa kreppu,“ segir Halldór Benjamín.

Eitthvað misræmi til staðar sem ekki gangi upp

Í þessu ástandi sem ríkir hafa verið háværar kröfur uppi frá verkalýðshreyfingunni um hækkun grunnatvinnuleysisbóta, en Samtök atvinnulífsins hafa lagst gegn þeim. Stjórnvöld hafa ákveðið að tekjutengingartímabil bóta verði lengt úr þremur mánuðum í sex en ekki boðað að bætur verði hækkaðar. Drífa Snædal forseti ASÍ hefur nýlega sakað SA um mannfjandsamlega afstöðu.

„Mér finnst svona munnsöfnuður ekki sæmandi forseta ASÍ,“ segir Halldór Benjamín.

„Ég, eins og svo margir, fór hringinn um Ísland í sumar með börnin, við fjölskyldan. Og það er alveg sama hvar við drápum niður fæti, atvinnurekendur hringinn í kringum landið hafa allir sömu sögu að segja, það er erfitt, þrátt fyrir atvinnuástandið, að fá fólk til vinnu. Meira að segja í ferðaþjónustu hefur ekki tekist að fullmanna í störf í sumar þrátt fyrir atvinnuleysi. Við sáum núna nýlega órækan vitnisburð frá leikskólunum í Reykjavík að þrátt fyrir undirliggjandi kjarasamninga sem voru umfram lífskjarasamninginn hefur ekki ennþá tekist að manna stöður. Staðan núna er verri en fyrir tveimur árum, þegar það ríkti full atvinna á Íslandi. Hér er eitthvað misræmi sem augljóslega gengur ekki upp, en það er fleira sem kemur til“ segir Halldór Benjamín.

Auglýsing

Hann segist um nokkurt skeið hafa óttast að náttúruleg atvinnuleysisstig á Íslandi, atvinnuleysi við fulla atvinnu, væri að fara hækkandi á Íslandi. „Ef við greinum hvar atvinnuleysið liggur, þá sjáum við til dæmis að atvinnuleysi á meðal ungs fólks er að aukast mjög mikið og þetta er eitthvað sem við höfum ekki séð í fortíð. Þetta er breyting sem hefur orðið núna á undanförnum árum meðal annars vegna breytinga á kjarasamningum,“ segir Halldór Benjamín, sem telur tækifæri liggja í því að gera breytingar á kjarasamningum með það að markmiði að minnka atvinnuleysi.

Sem dæmi um þetta nefnir hann „yfirvinnukúltúrinn“ á Íslandi og að Samtök atvinnulífsins hafi viljað reyna að draga úr vægi yfirvinnu í heildarlaunagreiðslum á Íslandi í síðustu kjarasamningum. 

„Við buðum verkalýðshreyfingunni í síðustu kjaralotu að hækka laun fyrir dagvinnu þeim mun meira, gegn því að eyða út yfirvinnunni, því það er búið að gera þetta á Norðurlöndunum. Af heildarlaunagreiðslum á Íslandi eru yfirvinnugreiðslur á bilinu fimmtungur til fjórðungur. Á Norðurlöndunum er hlutfallið 1-3 prósent. Yfirvinna, í þeim mæli sem unnin er hér á landi þekkist ekki á Norðurlöndum. Það er miklu skilvirkara að beina þessum launagreiðslum inn í dagvinnu og láta fólk vinna vinnuna á dagvinnutíma,“ segir Halldór Benjamín. 

Nýsköpun verði drifkrafturinn

Halldór segir annars ljóst að nýsköpun hverskonar verði drifkrafturinn í atvinnulífinu á næstu árum, en að það verði ekki hægt að taka stjórnvaldsákvarðanir um að ný nýsköpunarverkefni spretti upp og skapi störf á undraskjótan máta. 

„Stóru framfarirnar í öllum atvinnugreinum á Íslandi byggja á nýsköpun, hugviti og tækniþekkingu og það mun halda áfram á næstu árum. Algengasta dæmið sem við þekkjum er í sjávarútvegi, þar sem mannshöndin er með færri og færri snertifleti á vinnslulínunum, en við getum líka horft inn í fjármálaþjónustu. Ég get sagt, fyrir mitt leyti, að ein sú mesta tækniframför sem snertir mig beint á umliðnum árum er að þurfa ekki lengur að ganga með veski, að geta verið með veskið í símanum,“ segir Halldór Benjamín.

Hann segist líka hrifinn af þeirri nýsköpun sem hefur átt sér stað varðandi þjónustu hins opinbera hjá Stafrænu Íslandi. „Ég hef látið þau skilaboð ganga til stjórnmálamanna, sama hvar í flokk þau eru, tífaldið framlög í þetta, eða tuttugufaldið þau. Þarna er þvílík skilvirkniaukning og sparnaður fyrir opinbera kerfið,“ segir Halldór Benjamín, sem telur að stjórnvöld mættu ganga enn lengra í þessum efnum og til dæmis ráðast í að færa þinglýsingu skjala á stafrænt form.  

„Þú getur ímyndað þér þær vinnustundir sem munu sparast við rafræna þinglýsingu skjala. Þetta er bara svona, „just do it“-mál, látiði vaða! Þetta er það sem fyrirtækin eru að gera,“ segir Halldór Benjamín, sem telur einnig að umbætur í menntakerfinu séu brýnt verkefni í þeirri stöðu sem við glímum við núna vegna COVID-kreppunnar.

Við erum föst í viðjum vanans og erum of hrædd við að gera drastískar breytingar, sama hvort við horfum inn í heilbrigðiskerfið, menntakerfið eða stjórnkerfið.

„Á endanum þurfum við að styrkja það og gera fjölbreytta og mín persónulega skoðun; að styrkja raungreinamenntun og iðnmenntun í landinu. Það má færa mjög sterk rök fyrir því, ef við horfum 10 ár aftur í tímann, að við höfum ekki verið að mennta ungt fólk í þeim greinum sem eftirspurn ríkir í á vinnumarkaði. Ég get alveg fallist á það sjónarmið að fólk eigi að læra það sem hugur þeirra stefnir til, en síðan er líka til fólk sem er öðruvísi innréttað og hugsar: „Ég vil mennta mig eitthvað sem mér finnst áhugavert, en atvinnutækifæri framtíðarinnar skipta mig líka heilmiklu máli.“ Við þurfum líka að tala með þeim hætti gagnvart því fólki sem er þannig innréttað, en við höfum ekki verið að gera það sem samfélag,“ segir Halldór Benjamín, en varðandi menntakerfið, eins og fleiri þætti samfélagsins telur hann að okkur sem þjóð hafi mistekist að ná fram hagkvæmni í því sem við erum að gera.

„Við erum föst í viðjum vanans og erum of hrædd við að gera drastískar breytingar, sama hvort við horfum inn í heilbrigðiskerfið, menntakerfið eða stjórnkerfið. Ég vil meina að skipulag á vinnumarkaði sé ekki ákjósanlegt heldur og það sé kostnaðarsamt og búi til sóun í kerfinu,“ segir Halldór Benjamín og bendir í því samhengi á að núna, þegar eitt og hálft ár sé liðið frá því að lífskjarasamningurinn var undirritaður, sé enn ekki búið að ljúka kjaralotunni. Möguleiki sé þannig á að samningnum verði sagt upp án þess að búið sé að semja við öll félög á hans grunni.

Auglýsing

„Það hljóta allir að geta verið sammála um það að þetta er ekki ákjósanlegt staða. Þess vegna hef ég sagt og hef talað fyrir því lengi að það eigi að vera sameiginlegt verkefni stjórnvalda, Samtaka atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar að færa vinnulöggjöfina, sem að stofni til er frá 1938, inn í nútímahorf. Ef við veltum fyrir okkur hvernig samfélagið var árið 1938, þá hefur því fleytt fram á öllum sviðum. Sama hvort litið er til reksturs fyrirtækja, menntakerfisins, stjórn opinberra fjármála eða samskipta á vinnumarkaði. Ekkert þessa er með þeim hætti sem það var árið 1938 en engu að síður er löggjöfin frá þeim tíma. Vissulega var henni breytt 1995, en við höfum stigið allt of lítil skref og bara sem dæmi, ef við horfum á hlutverk ríkissáttasemjara á Íslandi miðað við hlutverk ríkissáttasemjara á Norðurlöndum, þá er valdheimildir og valdsvið ríkissáttasemjara á Íslandi nánast ekki neitt. Með fullri virðingu fyrir því embætti, sem er bara fórnarlamb þessarar löggjafar, þá hefur ríkissáttasemjari afar takmörkuð tól til að grípa inn í kjaradeilur og það er hluti af því sem samtalið á milli SA og ASÍ og annarra verkalýðsfélaga snerist m.a. um í SALEK-tilrauninni, sem við sem samfélag hljótum að gera kröfu til okkar sjálfra um að við náum þroska áfram á næstu árum.

Ég hef talað fyrir því að til dæmis ættum við í sameiningu, stjórnvöld, verkalýðshreyfing og atvinnulífið, að setja okkur langtímamarkmið og langtímamarkmið er orð sem heyrist ekkert oft í íslensku samhengi. Langtímamarkmið sem væri þess efnis að einfalda þennan raunveruleika við kjarasamningsgerð, til dæmis með því að það þyrfti að vera ákveðinn fjöldi einstaklinga sem stæði á bak við hvern kjarasamning,“ segir Halldór Benjamín.

Skipulagsheildirnar tregbreytanlegar

Hann segist ekki vera að tala um að umbylta kerfinu á einni nóttu, en að ljóst sé að ekki sé neinum í hag að Samtök atvinnulífsins séu að gera kjarasamninga sem ná jafnvel einungis til launamanna sem teljandi eru á fingri annarrar handar, eins og raunin sé.

Hann segir að hið sama eigi við um fjölda sveitarfélaga og margt annað í samfélaginu. Það sé tregða til þess að breyta núverandi ástandi. „Allt er breytt í heiminum á undanförnum 20 árum, en þessar skipulagsheildir, þessar stoðir samfélagsins, þær eru mjög tregbreytanlegar og ég hygg að þetta sé ein af þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir á næstu árum og áratugum.“

Oft sé tregðan vegna persónulegra hagsmuna þeirra sem stýra hverju sinni. „Þrír sveitarstjórar sem hittast að ræða sameiningu, sjá að þetta er bara stólaleikur þar sem einn situr eftir. Hver ætlar að fá stólinn? En við eigum að vera stærri en svo og við eigum að gera meiri kröfur til sjálfra okkar en svo að þetta sé ákvörðunarþátturinn sem hefur úrslitaáhrif. Í frumkvæði er falið mikið vald.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiViðtal