Mynd: SAF

Afleiðingar atvinnuleysisins þurfa að vera með í reikningsdæminu

Ísland er í alvarlegri efnahagskreppu. Þess er vænst að 500 milljarða króna tap verði á rekstri ríkissjóðs í ár, tugir þúsunda sjá fram á að verða án atvinnu og mörg fyrirtæki standa frammi fyrir algjörri óvissu um hvort þau lifi eða deyi. Kjarninn hitti fulltrúa bæði atvinnulífs og launafólks og fékk sýn þeirra á stöðu mála. Fyrstur í röðinni er Jóhannes Þór Skúlason, talsmaður atvinnugreinar sem nánast er búið að loka í sóttvarnaskyni.

Ég held að atvinnuleysið og samhangandi fjárhagsvandi heimilanna sé stærsta vandamálið sem við glímum við núna framundan. Ég hef líka stundum hugsað aftur til 2008, því ef við hugsum til baka þá getum við lært ýmislegt af þeim tíma. Ég var að kenna í grunnskóla árið 2008 og ég hef nefnt það stundum að við sjáum ekki, sem samfélag, afleiðingar atvinnuleysis strax. Þær koma fram yfir lengri tíma, sérstaklega félagslegu afleiðingarnar.“

Þetta segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, í samtali við Kjarnann. Hagsmunir ferðaþjónustunnar hafa verið vegnir og metnir undanfarnar vikur á móti sjónarmiðum um væntan kostnað af áframhaldandi ströngum sóttvörnum innanlands. Niðurstaðan varð sú að herða aðgerðir á landamærum og skylda alla sem til Íslands koma í nokkurra daga sóttkví. Því koma fáir til Íslands í ferðalag.

Jóhannes Þór telur að taka þyrfti langtímaáhrif fjöldaatvinnuleysis inn í þær sviðsmyndir sem nú er verið að setja upp varðandi efnahagsleg áhrif mismunandi sóttvarnaaðgerða. Hann segir ferðaþjónustuna verða að ná viðspyrnu eins fljótt og auðið er, því annars muni Ísland verða lengur að ná sér upp úr kreppunni.

Strax haustið 2008 segir Jóhannes Þór að hann og kollegar hans í kennarastétt hafi byrjað að sjá merki fjármálakrísunnar á börnunum. Þá fóru sum börn í yngri deildunum til dæmis að hætta að mæta með nesti í skólann og eftirspurn eftir barnafatnaði hjá hjálparstofnunum jókst, rétt eins og hefur verið fjallað um í fréttum núna í upphafi skólastarfs.

Auglýsing

„Þetta sjá menn strax haustið 2008, en það er ekki fyrr en haustið 2010 sem við fórum að sjá, til dæmis í unglingadeildinni þar sem ég var að kenna, stóraukningu á hegðunarvandamálum, vímuefnavandamálum og alls kyns agavandamálum sem fylgja því augljóslega að það eru erfiðleikar á heimilunum; langvarandi atvinnuleysi, fjárhagserfiðleikar eða annað. Þetta eru bara áhrifin á börnin. Við þekkjum síðan áhrifin á þau fullorðnu, sem eru einnig mjög alvarleg. Við höfum séð það til dæmis í langvarandi atvinnuleysi að það eykst hlutfall þeirra, í kynslóðum sem fara í gegnum svona, sem ekki ljúka langskólanámi. Við sjáum stóraukningu á andlegum og líkamlegum heilsufarsvandamálum. Við sjáum aukningu á sjálfsvígum, og það eru alls konar svona hlutir sem hafa áhrif á heilu kynslóðirnar og ekki síst þær kynslóðir sem eru að vaxa úr grasi á þessum tíma,“ segir Jóhannes.

Hann segir að honum þyki skrítið að þessir hlutir hafi ekki verið teknir inn í það sviðsmyndamat sem liggur til grundvallar hertum aðgerðum á landamærum.

„Mér finnst það ótrúleg einföldun þegar menn leggja það upp að þetta sé bara eitthvað greiðslujöfnuðarreikningsdæmi, þar sem menn sjá bara hvað fer út og hvað fer inn og að það séu miklir hagsmunir í því fólgnir að við getum gert hvað sem okkur sýnist hérna innanlands eins lengi og við lokum landamærunum. Það er alveg augljóst að það er bara vondur kostur til jafns við aðra vonda kosti. Það er enginn góður kostur í stöðunni, það hefur bara annars konar slæm áhrif,“ segir Jóhannes Þór, en Samtök ferðaþjónustunnar hafa eins og fleiri kallað eftir því að efnahagsleg áhrif valkosta í sóttvarnamálum verði metin með ítarlegri hætti. Starfshópur hefur verið skipaður undir stjórn Más Guðmundssonar fyrrverandi seðlabankastjóra, til að gera nákvæmlega það.

Einhver viðspyrna verði að nást næsta vor

Sem áður segir telur Jóhannes Þór að ferðaþjónustan þurfi að komast á lappirnar sem fyrst til þess að tjónið af kórónuveirufaraldrinum verði sem minnst fyrir íslenskt samfélag í heild sinni. Til þess að það sé mögulegt þurfi fyrirtækin hins vegar að lifa af veturinn, sem lítur hreint ekki vel út. Staðan er þung og það er ekki sjálfgefið að væntingar Samtaka ferðaþjónustunnar, um að ekki færri 60 prósent fyrirtækja í greininni verði áfram starfandi að ári, rætist.

Bára Huld Beck

„Við sáum það strax hér í vor að þetta yrði staða sem yrði erfitt að komast til baka úr og myndi hafa mikil áhrif inn í veturinn. Við gerðum í rauninni strax ráð fyrir því að næstu 12 mánuði, fram að næsta vori, yrðu fyrirtækin að stórum hluta tekjulaus eða mjög tekjulítil. Hjá mörgum þeirra skapaðist í raun strax neikvæð staða, eins og hjá ferðaskrifstofum sem þurftu að fara að endurgreiða gríðarlega mikið í miðri lausafjárkreppu. Þetta þýddi það að í okkar samtölum við stjórnvöld lögðum við mikla áherslu á að aðgerðir stjórnvalda horfðu til þess að fyrirtækin gætu haldið sér á lífi. Þegar tekjurnar eru engar þarf að minnka kostnaðinn og það er hægt að gera það með kannski tvennum hætti. Það er hægt að minnka launakostnaðinn, með því að segja upp fólki, sem er hér á landi alltaf stærsti kostnaðarliðurinn. Svo er hægt að koma einhvernveginn til móts við fastan kostnað,“ segir Jóhannes og bætir við að í löndum eins og Danmörku, Noregi og Þýskalandi hafi stjórnvöld ráðist í að greiða fastkostnaðarstyrki í meiri mæli en hér. 

„Hér var ekki farin sú leið nema með hinum svokölluðu lokunarstyrkjum, en við lögðum áherslu á það í þessu samtali að við fengjum aðgerðir sem gerðu okkur kleift að lækka kostnað og þar með til dæmis er kannski þessi leið um styrk til greiðslu launa á uppsagnarfresti, sem gerði ráð fyrir að fyrirtæki gætu minnkað starfsmannafjöldann, dregið úr launakostnaði eins og mögulegt væri og lagst í híði inn í veturinn, farið inn í hann sem hálfgerð skel,“ segir Jóhannes. Hann bætir við að mikilvægt sé að hafa í huga að þrátt fyrir að fyrirtæki fái tækifæri til að leggjast í híði séu þau enn með kostnað sem þurfi að mæta þrátt fyrir að tekjur séu engar.

„Þú skilur ekki bara hvalaskoðunarbátinn eftir í höfninni og kemur svo og vitjar hans einhverntímann í maí. Þú þarft að halda tækinu við og klappa því yfir veturinn og til þess þarftu að hafa einhvern í vinnu, sem hefur kunnáttu á því. Þú þarft að vera með umsjónarmann yfir fasteignum; þú þarft að vera með svona fólk í vinnu þótt þú leggist í híði,“ segir Jóhannes og nefnir einnig að það þurfi fólk í vinnu yfir veturinn til þess að undirbyggja næsta sumar, eigi ferðaþjónustan að ná vopnum sínum á ný.

Auglýsing

„Tökum sem dæmi klassískt fyrirtæki á Íslandi, sem er með hópferðabíla og ferðaskrifstofu sem selur hópferðir. Ef þetta fyrirtæki er ekki með fólk í vinnu yfir veturinn að selja ferðir fyrir næsta sumar, þá kemur enginn til þeirra. Það þarf að vera með fólk í sölu og markaðsstarfi sem er að undirbúa verðmætasköpun næsta árs. Ef að þessu fólki er öllu sagt upp þá er fyrirtækið í raun bara að byrja á núllinu í maí. Svona er þetta í öllum bransanum, við erum alltaf að selja fram fyrir okkur,“ segir Jóhannes. 

Hann bætir við að mikilvægt sé að grunnþekkingin í greininni tapist ekki, hvort sem það séu sérfræðingar í markaðs- og sölustarfi eða leiðsögumenn með afburðaþekkingu á íslenskri náttúru.

Fjöldagjaldþrot blasa við

Jóhannes segir að alveg frá því á vormánuðum hafi verið ljóst að fjöldi ferðaþjónustufyrirtækja yrði gjaldþrota. „Það bara liggur í augum uppi þegar við förum í gegnum svona storm, svona djúpa kreppu og það er að gerast út um allan heim.“

Hann segir að markmið Samtaka ferðaþjónustunnar sé, og að hann telji að stjórnvöld ættu einnig að hafa það að markmiði í ljósi mikilvægis ferðaþjónustu fyrir þjóðarbúið, að halda eins stórum hluta af hinum lífvænlega hluta ferðaþónustunnar, „þeim fyrirtækjum sem voru skynsamlega rekin, voru ekki í vandræðum fyrirfram og svo framvegis,“ á lífi og mögulegt er.

„Það er nauðsynlegt að halda 60 prósent af bransanum á lífi til þess að geta tekið endurreisnina, því ef það fer að saxast á þessa prósentu og það verði bara 40 prósent af fyrirtækjunum á lífi, eða 30 prósent, þá verður endurreisnin hægari, því þá verður fólkið farið úr greininni, viðskiptatengslin horfin. Það verða alltaf til ný fyrirtæki, en þeim gengur betur að fara af stað ef þau hafa eldri fyrirtæki til að vinna með. Þannig er ferðaþjónustan keðja, þar sem að menn þurfa alltaf að vinna saman. Endurreisnin og viðspyrnan upp úr þessum kreppudal, hún byggir svolítið á því að þessi kvika atvinnugrein geti náð vopnum sínum sem hraðast aftur. Með því getum við takmarkað vandamálin sem fylgja kreppunni óhjákvæmilega, eins og atvinnuleysi, stórkostlegan vanda í fjárhag heimilanna og svoleiðis hluti, sem við þekkjum því miður allt of vel fyrir of skömmu síðan,“ segir Jóhannes Þór.

Auglýsing

Samtök ferðaþjónustunnar eru nú að undirbúa könnun á meðal félagsmanna sinna á því hvernig veturinn líti út og hversu hátt hlutfall fyrirtækjanna í ferðaþjónustu telji sig lifa af. Jóhannes býst við því að mörg gjaldþrot verði í greininni í nóvember, því það sé venjulega þá sem peningarnir eru búnir eftir sumarið hjá ferðaþjónustufyrirtækjum.

Kallað eftir kríteríu

Jóhannes Þór segir að það sé ljóst að orðspor íslenskrar ferðaþjónustu hafi beðið hnekki þegar stjórnvöld tóku ákvörðun með fjögurra daga fyrirvara um að allir sem hingað kæmu þyrftu að fara í sóttkví í 4-5 daga við komuna. Hann kallar eftir því að stjórnvöld setji fram einhver viðmið sem þurfi að uppfyllast til þess að þessu verði breytt, varðandi þróun faraldursins hér innanlands og í öðrum löndum.

„Í aðra röndina segja menn að ætlunin sé að þetta sé í sífelldri endurskoðun,“ segir Jóhannes, en bætir við að á hinn bóginn verði að horfa raunhæft á stöðuna.

„Raunhæfnin er annars vegar þannig að þegar menn hafa einu sinni fært rök fyrir því að það þurfi að gera þetta svona, þá hlýtur maður að velta upp þeim spurningum hvernig aðstæður bæði hér á landi og í veröldinni þurfa að verða til þess að geta farið til baka úr þeirri rökfærslu og sagt: „Núna þurfum við þessa ekki lengur.“

Bára Huld Beck

„Við þurfum að fá skýr svör um það. Við þurfum að hafa einhverja kríteríu hérna fyrir framan okkur eins og ferðamálaráðherra hefur bent á. Við getum horft til Noregs í þessu samhengi þar sem menn vita bara hvað þarf til að lönd fari á rauða listann og menn vita líka hvað þarf til að lönd fari af honum. Eitt af vandamálunum við þessa ráðstöfun er að það eru engin tímamörk. Hún er ótímabundin [...] og þetta hefur leitt til þess að ferðamenn vita ekkert hvað er framundan. Þannig að á meðan þetta ríkir, þetta ástand, og ekki er búið að lýsa því yfir hvað menn ætla að gera í framhaldinu eða við hvað sé miðað til að breytingar geti átt sér stað, þá mun enginn bóka sér ferð til Íslands.“

Hann segir samstarfsaðila íslenskrar ferðaþjónustu á erlendum vettvangi hvorki skilja upp né niður í ákvörðun stjórnvalda um hertar aðgerðir á landamærum. Margir séu „töluvert skúffaðir núna, yfir því sem þeir sjá bara sem geðþóttaákvörðun íslenskra stjórnvalda.“

„Flugfélög, sem voru byrjuð og búin að leggja í töluverðan kostnað við að hefja flug hingað aftur, því það kostar gríðarlega peninga að koma slíku af stað aftur því fyrstu flugin eru alltaf hálftóm í aðra áttina. Ferðaskrifstofur erlendis sem voru búin að leggja töluverða vinnu í að koma Íslandsferðum af stað aftur og jafnvel selja núna inn í haustið, þær þurfa nú að endurgreiða þær ferðir, samkvæmt Evrópulöggjöfinni. Þetta hefur haft mjög neikvæð áhrif á traust þessara viðskiptaaðila okkar gagnvart Íslandi sem áfangastað og íslenskum stjórnvöldum. Þessir aðilar segja við okkur í samtölum:  „Hvernig get ég treyst því, að þó að þessu verði breytt, að því verði ekki bara breytt aftur eftir tvær vikur?“

Ég held að það sé eitthvað sem stjórnvöld verði að gera til þess að gefa okkur einhvern fyrirsjáanleika inn í tímabilið núna framundan, sérstaklega fyrir vorið, eftir áramót. Ég held því miður að eins og staðan sé í dag séum við búin að tapa möguleikum ferðaþjónustunnar fram að áramótum. Fyrirtækin munu ekki sjá sér neinna annarra kosta völ en að segja upp nánast öllu því fólki sem þau voru búin að endurráða, ætluðu að endurráða eða sáu fram á að geta verið með inn í veturinn. Það þýðir að fyrirtæki úti á landsbyggðinni munu segja upp og loka fyrr heldur enn ætlað var. Það þýðir líka að það verður minni þjónusta í boði fyrir þá sem ætla að koma hingað,“ segir Jóhannes Þór. 

Umræðan „svolítið einfeldningsleg“

Hann segir að honum hafi þótt umræða síðustu vikna um hagsmuni ferðaþjónustunnar annars vegar og svo hagsmuni samfélagsins af því að lágmarka hættuna á að smit berist inn í landið með hertum aðgerðum á landamærum hafa verið „svolítið einfeldningsleg.“

„Því hefur verið stillt upp á köflum þannig að þú sért með í annarri hendinni hagsmuni ferðaþjónustunnar, sem sé eitthvað svona óáþreifanlegt, og svo hagsmuni samfélagsins í hinni hendinni – eins og þetta sé eitthvað ótengt,“ segir Jóhannes Þór.

Auglýsing

„Þú getur ekki talað um hagsmuni ferðaþjónustunnar án þess að tala um hagsmuni samfélagsins um leið. Hagsmunir ferðaþjónustunnar eru í rauninni þeir að halda 25 þúsund manns í vinnu. Að ná inn tekjum sem hafa haldið fyrirtækjum á lífi sem hafa staðið undir hátt í 40 prósent af verðmætasköpun þjóðarinnar í gjaldeyri undanfarin ár. Hagsmunir samfélagsins eru að þessi atvinnugrein geti haldið áfram að standa undir einum þriðja af öllum innflutningi vöru og þjónustu til landsins, eins og í fyrra,“ bætir hann við og segir það segja sig sjálft að þegar ferðaþjónustan taki dýfu hafi það áhrif á allt.

„Nú hefur verið talað um að þar sem við séum ekki að fara til útlanda og það dragi úr ferðaþjónustu og við eyðum frekar peningum hérna innanlands og það komi þá á móti þeim peningum sem ferðaþjónusta dregur inn. Það er alveg rétt sko, en í hvað eyðum við peningum hér innanlands? Við eyðum peningum í þjónustu innanlands og við eyðum peningum í vörur, en stór hluti af vörunum og jafnvel þjónustunni er innflutt og fyrir innflutta vöru þarf að greiða fyrir með gjaldeyri. Sá gjaldeyrir hefur að þriðjungi orðið til hjá ferðaþjónustunni undanfarin ár. Það segir sig sjálft að þegar gjaldeyrissköpunin minnkar þá verður minna til af gjaldeyri til að viðhalda innanlandsmarkaðnum. Það segir sig líka sjálft að þegar 25 þúsund manns missa atvinnuna, eða stór hluti þeirra, og þá er ég ekki að tala um þá sem hafa óbein og afleidd störf af ferðaþjónustu þó þau séu ekki í samskiptum við ferðamennina á hverjum degi, þar má nefna bakarí, hreinsanir, þvottahús, hárgreiðslustofur og alls konar, þá hefur það áhrif á alla virðiskeðjuna og það hefur líka áhrif á það að þegar fólk missir vinnuna og er eins og núna, við erum að fara inn í vetur þar sem við verðum að öllum líkindum með um 30 þúsund manns atvinnulaus, þá hefur það áhrif á innlendu eftirspurnina. Þetta spilar allt saman. Þú ert ekki með eina atvinnugrein sem er bara í einhverri búbblu einhversstaðar, hvort sem það er ferðaþjónusta eða sjávarútvegur eða eitthvað annað,“ segir Jóhannes Þór.

Stjórnvöld skýr þar til fyrir nokkrum vikum

Jóhannes Þór segir, spurður um stöðuna í stjórnmálum og hvort hann telji að sátt hafi verið um þá ákvörðun að herða aðgerðir á landamærum, að ríkisstjórnin sé ekki í öfundsverðri stöðu. Í vor hafi samfélagið þjappað sér saman um að takast á við ógnina af veirunni og því áfalli sem fylgdi, en nú sé aðeins frá liðið og ríkisstjórnin hafi þurft að taka ákvarðanir sem eðlilegt sé að mismunandi skoðanir ríki um.

„Markmiðið er kannski líka orðið aðeins loðnara en það var í vor, þegar við ætluðum að fletja út kúrfuna. Núna erum við kannski ekki alveg með það á hreinu hvað markmiðið er með aðgerðunum; er það að halda landinu alveg veirufríu eða er það til þess að menningar-, lista- og menntalífið í lagi eða er það til að passa að heilbrigðiskerfið lendi ekki í vanda, eða er það allt þrennt? Það flækir málið og ég held að hin pólitíska umræða verði fljótlega mjög snörp á þingvelli, en mín upplifun er sú að stjórnvöld hafi verið nokkuð skýr og samstíga, þar til núna fyrir kannski tveimur vikum síðan, þar sem mín upplifun var að það væri kannski ekki alveg jafn skýr sameiginleg sýn á það hvaða leið ætti að fara, enda má kannski segja að það hafi verið margir kostir „presenteraðir“ fyrir stjórnmálamennina að velja úr,“ segir Jóhannes Þór.

Hann bætir því við að í kjölfarið þyki honum ríkisstjórnin þó hafa verið skýr í nálgun sinni, en að koma verði í ljós hvernig það þróist.

„Ég held að þetta hafi verið erfið ákvörðun fyrir ríkisstjórnina og ég öfunda þau ekkert af því hlutverki að þurfa að taka svona ákvarðanir, en þetta er það sem fólk er kosið til og þau hafa þá þann kaleik að bera.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiViðtal