Mynd: SAF

Afleiðingar atvinnuleysisins þurfa að vera með í reikningsdæminu

Ísland er í alvarlegri efnahagskreppu. Þess er vænst að 500 milljarða króna tap verði á rekstri ríkissjóðs í ár, tugir þúsunda sjá fram á að verða án atvinnu og mörg fyrirtæki standa frammi fyrir algjörri óvissu um hvort þau lifi eða deyi. Kjarninn hitti fulltrúa bæði atvinnulífs og launafólks og fékk sýn þeirra á stöðu mála. Fyrstur í röðinni er Jóhannes Þór Skúlason, talsmaður atvinnugreinar sem nánast er búið að loka í sóttvarnaskyni.

Ég held að atvinnu­leysið og sam­hang­andi fjár­hags­vandi heim­il­anna sé stærsta vanda­málið sem við glímum við núna framund­an. Ég hef líka stundum hugsað aftur til 2008, því ef við hugsum til baka þá getum við lært ýmis­legt af þeim tíma. Ég var að kenna í grunn­skóla árið 2008 og ég hef nefnt það stundum að við sjáum ekki, sem sam­fé­lag, afleið­ingar atvinnu­leysis strax. Þær koma fram yfir lengri tíma, sér­stak­lega félags­legu afleið­ing­arn­ar.“

Þetta segir Jóhannes Þór Skúla­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka ferða­þjón­ust­unn­ar, í sam­tali við Kjarn­ann. Hags­munir ferða­þjón­ust­unnar hafa verið vegnir og metnir und­an­farnar vikur á móti sjón­ar­miðum um væntan kostnað af áfram­hald­andi ströngum sótt­vörnum inn­an­lands. Nið­ur­staðan varð sú að herða aðgerðir á landa­mærum og skylda alla sem til Íslands koma í nokk­urra daga sótt­kví. Því koma fáir til Íslands í ferða­lag.

Jóhannes Þór telur að taka þyrfti lang­tíma­á­hrif fjölda­at­vinnu­leysis inn í þær sviðs­myndir sem nú er verið að setja upp varð­andi efna­hags­leg áhrif mis­mun­andi sótt­varna­að­gerða. Hann segir ferða­þjón­ust­una verða að ná við­spyrnu eins fljótt og auðið er, því ann­ars muni Ísland verða lengur að ná sér upp úr krepp­unni.

Strax haustið 2008 segir Jóhannes Þór að hann og kollegar hans í kenn­ara­stétt hafi byrjað að sjá merki fjár­málakrís­unnar á börn­un­um. Þá fóru sum börn í yngri deild­unum til dæmis að hætta að mæta með nesti í skól­ann og eft­ir­spurn eftir barnafatn­aði hjá hjálp­ar­stofn­unum jókst, rétt eins og hefur verið fjallað um í fréttum núna í upp­hafi skóla­starfs.

Auglýsing

„Þetta sjá menn strax haustið 2008, en það er ekki fyrr en haustið 2010 sem við fórum að sjá, til dæmis í ung­linga­deild­inni þar sem ég var að kenna, stór­aukn­ingu á hegð­un­ar­vanda­mál­um, vímu­efna­vanda­málum og alls kyns aga­vanda­málum sem fylgja því aug­ljós­lega að það eru erf­ið­leikar á heim­il­un­um; langvar­andi atvinnu­leysi, fjár­hags­erf­ið­leikar eða ann­að. Þetta eru bara áhrifin á börn­in. Við þekkjum síðan áhrifin á þau full­orðnu, sem eru einnig mjög alvar­leg. Við höfum séð það til dæmis í langvar­andi atvinnu­leysi að það eykst hlut­fall þeirra, í kyn­slóðum sem fara í gegnum svona, sem ekki ljúka lang­skóla­námi. Við sjáum stór­aukn­ingu á and­legum og lík­am­legum heilsu­far­s­vanda­mál­um. Við sjáum aukn­ingu á sjálfs­víg­um, og það eru alls konar svona hlutir sem hafa áhrif á heilu kyn­slóð­irnar og ekki síst þær kyn­slóðir sem eru að vaxa úr grasi á þessum tíma,“ segir Jóhann­es.

Hann segir að honum þyki skrítið að þessir hlutir hafi ekki verið teknir inn í það sviðs­mynda­mat sem liggur til grund­vallar hertum aðgerðum á landa­mær­um.

„Mér finnst það ótrú­leg ein­földun þegar menn leggja það upp að þetta sé bara eitt­hvað greiðslu­jöfn­uð­ar­reikn­ings­dæmi, þar sem menn sjá bara hvað fer út og hvað fer inn og að það séu miklir hags­munir í því fólgnir að við getum gert hvað sem okkur sýn­ist hérna inn­an­lands eins lengi og við lokum landa­mær­un­um. Það er alveg aug­ljóst að það er bara vondur kostur til jafns við aðra vonda kosti. Það er eng­inn góður kostur í stöð­unni, það hefur bara ann­ars konar slæm áhrif,“ segir Jóhannes Þór, en Sam­tök ferða­þjón­ust­unnar hafa eins og fleiri kallað eftir því að efna­hags­leg áhrif val­kosta í sótt­varna­málum verði metin með ítar­legri hætti. Starfs­hópur hefur verið skip­aður undir stjórn Más Guð­munds­sonar fyrr­ver­andi seðla­banka­stjóra, til að gera nákvæm­lega það.

Ein­hver við­spyrna verði að nást næsta vor

Sem áður segir telur Jóhannes Þór að ferða­þjón­ustan þurfi að kom­ast á lapp­irnar sem fyrst til þess að tjónið af kór­ónu­veiru­far­aldr­inum verði sem minnst fyrir íslenskt sam­fé­lag í heild sinni. Til þess að það sé mögu­legt þurfi fyr­ir­tækin hins vegar að lifa af vet­ur­inn, sem lítur hreint ekki vel út. Staðan er þung og það er ekki sjálf­gefið að vænt­ingar Sam­taka ferða­þjón­ust­unn­ar, um að ekki færri 60 pró­sent fyr­ir­tækja í grein­inni verði áfram starf­andi að ári, ræt­ist.

Bára Huld Beck

„Við sáum það strax hér í vor að þetta yrði staða sem yrði erfitt að kom­ast til baka úr og myndi hafa mikil áhrif inn í vet­ur­inn. Við gerðum í raun­inni strax ráð fyrir því að næstu 12 mán­uði, fram að næsta vori, yrðu fyr­ir­tækin að stórum hluta tekju­laus eða mjög tekju­lít­il. Hjá mörgum þeirra skap­að­ist í raun strax nei­kvæð staða, eins og hjá ferða­skrif­stofum sem þurftu að fara að end­ur­greiða gríð­ar­lega mikið í miðri lausa­fjár­kreppu. Þetta þýddi það að í okkar sam­tölum við stjórn­völd lögðum við mikla áherslu á að aðgerðir stjórn­valda horfðu til þess að fyr­ir­tækin gætu haldið sér á lífi. Þegar tekj­urnar eru engar þarf að minnka kostn­að­inn og það er hægt að gera það með kannski tvennum hætti. Það er hægt að minnka launa­kostn­að­inn, með því að segja upp fólki, sem er hér á landi alltaf stærsti kostn­að­ar­lið­ur­inn. Svo er hægt að koma ein­hvern­veg­inn til móts við fastan kostn­að,“ segir Jóhannes og bætir við að í löndum eins og Dan­mörku, Nor­egi og Þýska­landi hafi stjórn­völd ráð­ist í að greiða fast­kostn­að­ar­styrki í meiri mæli en hér. 

„Hér var ekki farin sú leið nema með hinum svoköll­uðu lok­un­ar­styrkj­um, en við lögðum áherslu á það í þessu sam­tali að við fengjum aðgerðir sem gerðu okkur kleift að lækka kostnað og þar með til dæmis er kannski þessi leið um styrk til greiðslu launa á upp­sagn­ar­fresti, sem gerði ráð fyrir að fyr­ir­tæki gætu minnkað starfs­manna­fjöld­ann, dregið úr launa­kostn­aði eins og mögu­legt væri og lagst í híði inn í vet­ur­inn, farið inn í hann sem hálf­gerð skel,“ segir Jóhann­es. Hann bætir við að mik­il­vægt sé að hafa í huga að þrátt fyrir að fyr­ir­tæki fái tæki­færi til að leggj­ast í híði séu þau enn með kostnað sem þurfi að mæta þrátt fyrir að tekjur séu eng­ar.

„Þú skilur ekki bara hvala­skoð­un­ar­bát­inn eftir í höfn­inni og kemur svo og vitjar hans ein­hvern­tím­ann í maí. Þú þarft að halda tæk­inu við og klappa því yfir vet­ur­inn og til þess þarftu að hafa ein­hvern í vinnu, sem hefur kunn­áttu á því. Þú þarft að vera með umsjón­ar­mann yfir fast­eign­um; þú þarft að vera með svona fólk í vinnu þótt þú legg­ist í híð­i,“ segir Jóhannes og nefnir einnig að það þurfi fólk í vinnu yfir vet­ur­inn til þess að und­ir­byggja næsta sum­ar, eigi ferða­þjón­ustan að ná vopnum sínum á ný.

Auglýsing

„Tökum sem dæmi klass­ískt fyr­ir­tæki á Íslandi, sem er með hóp­ferða­bíla og ferða­skrif­stofu sem selur hóp­ferð­ir. Ef þetta fyr­ir­tæki er ekki með fólk í vinnu yfir vet­ur­inn að selja ferðir fyrir næsta sum­ar, þá kemur eng­inn til þeirra. Það þarf að vera með fólk í sölu og mark­aðs­starfi sem er að und­ir­búa verð­mæta­sköpun næsta árs. Ef að þessu fólki er öllu sagt upp þá er fyr­ir­tækið í raun bara að byrja á núll­inu í maí. Svona er þetta í öllum brans­an­um, við erum alltaf að selja fram fyrir okk­ur,“ segir Jóhann­es. 



Hann bætir við að mik­il­vægt sé að grunn­þekk­ingin í grein­inni tap­ist ekki, hvort sem það séu sér­fræð­ingar í mark­aðs- og sölu­starfi eða leið­sögu­menn með afburða­þekk­ingu á íslenskri nátt­úru.

Fjölda­gjald­þrot blasa við

Jóhannes segir að alveg frá því á vor­mán­uðum hafi verið ljóst að fjöldi ferða­þjón­ustu­fyr­ir­tækja yrði gjald­þrota. „Það bara liggur í augum uppi þegar við förum í gegnum svona storm, svona djúpa kreppu og það er að ger­ast út um allan heim.“

Hann segir að mark­mið Sam­taka ferða­þjón­ust­unnar sé, og að hann telji að stjórn­völd ættu einnig að hafa það að mark­miði í ljósi mik­il­vægis ferða­þjón­ustu fyrir þjóð­ar­bú­ið, að halda eins stórum hluta af hinum líf­væn­lega hluta ferða­þón­ust­unn­ar, „þeim fyr­ir­tækjum sem voru skyn­sam­lega rek­in, voru ekki í vand­ræðum fyr­ir­fram og svo fram­veg­is,“ á lífi og mögu­legt er.

„Það er nauð­syn­legt að halda 60 pró­sent af brans­anum á lífi til þess að geta tekið end­ur­reisn­ina, því ef það fer að sax­ast á þessa pró­sentu og það verði bara 40 pró­sent af fyr­ir­tækj­unum á lífi, eða 30 pró­sent, þá verður end­ur­reisnin hæg­ari, því þá verður fólkið farið úr grein­inni, við­skipta­tengslin horf­in. Það verða alltaf til ný fyr­ir­tæki, en þeim gengur betur að fara af stað ef þau hafa eldri fyr­ir­tæki til að vinna með. Þannig er ferða­þjón­ustan keðja, þar sem að menn þurfa alltaf að vinna sam­an. End­ur­reisnin og við­spyrnan upp úr þessum kreppu­dal, hún byggir svo­lítið á því að þessi kvika atvinnu­grein geti náð vopnum sínum sem hrað­ast aft­ur. Með því getum við tak­markað vanda­málin sem fylgja krepp­unni óhjá­kvæmi­lega, eins og atvinnu­leysi, stór­kost­legan vanda í fjár­hag heim­il­anna og svo­leiðis hluti, sem við þekkjum því miður allt of vel fyrir of skömmu síð­an,“ segir Jóhannes Þór.

Auglýsing

Sam­tök ferða­þjón­ust­unnar eru nú að und­ir­búa könnun á meðal félags­manna sinna á því hvernig vet­ur­inn líti út og hversu hátt hlut­fall fyr­ir­tækj­anna í ferða­þjón­ustu telji sig lifa af. Jóhannes býst við því að mörg gjald­þrot verði í grein­inni í nóv­em­ber, því það sé venju­lega þá sem pen­ing­arnir eru búnir eftir sum­arið hjá ferða­þjón­ustu­fyr­ir­tækj­um.

Kallað eftir kríteríu

Jóhannes Þór segir að það sé ljóst að orð­spor íslenskrar ferða­þjón­ustu hafi beðið hnekki þegar stjórn­völd tóku ákvörðun með fjög­urra daga fyr­ir­vara um að allir sem hingað kæmu þyrftu að fara í sótt­kví í 4-5 daga við kom­una. Hann kallar eftir því að stjórn­völd setji fram ein­hver við­mið sem þurfi að upp­fyll­ast til þess að þessu verði breytt, varð­andi þróun far­ald­urs­ins hér inn­an­lands og í öðrum lönd­um.

„Í aðra rönd­ina segja menn að ætl­unin sé að þetta sé í sífelldri end­ur­skoð­un,“ segir Jóhann­es, en bætir við að á hinn bóg­inn verði að horfa raun­hæft á stöð­una.

„Raun­hæfnin er ann­ars vegar þannig að þegar menn hafa einu sinni fært rök fyrir því að það þurfi að gera þetta svona, þá hlýtur maður að velta upp þeim spurn­ingum hvernig aðstæður bæði hér á landi og í ver­öld­inni þurfa að verða til þess að geta farið til baka úr þeirri rök­færslu og sagt: „Núna þurfum við þessa ekki leng­ur.“

Bára Huld Beck

„Við þurfum að fá skýr svör um það. Við þurfum að hafa ein­hverja kríteríu hérna fyrir framan okkur eins og ferða­mála­ráð­herra hefur bent á. Við getum horft til Nor­egs í þessu sam­hengi þar sem menn vita bara hvað þarf til að lönd fari á rauða list­ann og menn vita líka hvað þarf til að lönd fari af hon­um. Eitt af vanda­mál­unum við þessa ráð­stöfun er að það eru engin tíma­mörk. Hún er ótíma­bundin [...] og þetta hefur leitt til þess að ferða­menn vita ekk­ert hvað er framund­an. Þannig að á meðan þetta rík­ir, þetta ástand, og ekki er búið að lýsa því yfir hvað menn ætla að gera í fram­hald­inu eða við hvað sé miðað til að breyt­ingar geti átt sér stað, þá mun eng­inn bóka sér ferð til Íslands.“

Hann segir sam­starfs­að­ila íslenskrar ferða­þjón­ustu á erlendum vett­vangi hvorki skilja upp né niður í ákvörðun stjórn­valda um hertar aðgerðir á landa­mær­um. Margir séu „tölu­vert skúffaðir núna, yfir því sem þeir sjá bara sem geð­þótta­á­kvörðun íslenskra stjórn­valda.“

„Flug­fé­lög, sem voru byrjuð og búin að leggja í tölu­verðan kostnað við að hefja flug hingað aft­ur, því það kostar gríð­ar­lega pen­inga að koma slíku af stað aftur því fyrstu flugin eru alltaf hálf­tóm í aðra átt­ina. Ferða­skrif­stofur erlendis sem voru búin að leggja tölu­verða vinnu í að koma Íslands­ferðum af stað aftur og jafn­vel selja núna inn í haust­ið, þær þurfa nú að end­ur­greiða þær ferð­ir, sam­kvæmt Evr­ópu­lög­gjöf­inni. Þetta hefur haft mjög nei­kvæð áhrif á traust þess­ara við­skipta­að­ila okkar gagn­vart Íslandi sem áfanga­stað og íslenskum stjórn­völd­um. Þessir aðilar segja við okkur í sam­töl­u­m:  „Hvernig get ég treyst því, að þó að þessu verði breytt, að því verði ekki bara breytt aftur eftir tvær vik­ur?“

Ég held að það sé eitt­hvað sem stjórn­völd verði að gera til þess að gefa okkur ein­hvern fyr­ir­sjá­an­leika inn í tíma­bilið núna framund­an, sér­stak­lega fyrir vorið, eftir ára­mót. Ég held því miður að eins og staðan sé í dag séum við búin að tapa mögu­leikum ferða­þjón­ust­unnar fram að ára­mót­um. Fyr­ir­tækin munu ekki sjá sér neinna ann­arra kosta völ en að segja upp nán­ast öllu því fólki sem þau voru búin að end­ur­ráða, ætl­uðu að end­ur­ráða eða sáu fram á að geta verið með inn í vet­ur­inn. Það þýðir að fyr­ir­tæki úti á lands­byggð­inni munu segja upp og loka fyrr heldur enn ætlað var. Það þýðir líka að það verður minni þjón­usta í boði fyrir þá sem ætla að koma hing­að,“ segir Jóhannes Þór. 

Umræðan „svo­lítið ein­feldn­ings­leg“

Hann segir að honum hafi þótt umræða síð­ustu vikna um hags­muni ferða­þjón­ust­unnar ann­ars vegar og svo hags­muni sam­fé­lags­ins af því að lág­marka hætt­una á að smit ber­ist inn í landið með hertum aðgerðum á landa­mærum hafa verið „svo­lítið ein­feldn­ings­leg.“

„Því hefur verið stillt upp á köflum þannig að þú sért með í annarri hend­inni hags­muni ferða­þjón­ust­unn­ar, sem sé eitt­hvað svona óáþreif­an­legt, og svo hags­muni sam­fé­lags­ins í hinni hend­inni – eins og þetta sé eitt­hvað óteng­t,“ segir Jóhannes Þór.

Auglýsing

„Þú getur ekki talað um hags­muni ferða­þjón­ust­unnar án þess að tala um hags­muni sam­fé­lags­ins um leið. Hags­munir ferða­þjón­ust­unnar eru í raun­inni þeir að halda 25 þús­und manns í vinnu. Að ná inn tekjum sem hafa haldið fyr­ir­tækjum á lífi sem hafa staðið undir hátt í 40 pró­sent af verð­mæta­sköpun þjóð­ar­innar í gjald­eyri und­an­farin ár. Hags­munir sam­fé­lags­ins eru að þessi atvinnu­grein geti haldið áfram að standa undir einum þriðja af öllum inn­flutn­ingi vöru og þjón­ustu til lands­ins, eins og í fyrra,“ bætir hann við og segir það segja sig sjálft að þegar ferða­þjón­ustan taki dýfu hafi það áhrif á allt.

„Nú hefur verið talað um að þar sem við séum ekki að fara til útlanda og það dragi úr ferða­þjón­ustu og við eyðum frekar pen­ingum hérna inn­an­lands og það komi þá á móti þeim pen­ingum sem ferða­þjón­usta dregur inn. Það er alveg rétt sko, en í hvað eyðum við pen­ingum hér inn­an­lands? Við eyðum pen­ingum í þjón­ustu inn­an­lands og við eyðum pen­ingum í vör­ur, en stór hluti af vör­unum og jafn­vel þjón­ust­unni er inn­flutt og fyrir inn­flutta vöru þarf að greiða fyrir með gjald­eyri. Sá gjald­eyrir hefur að þriðj­ungi orðið til hjá ferða­þjón­ust­unni und­an­farin ár. Það segir sig sjálft að þegar gjald­eyr­is­sköp­unin minnkar þá verður minna til af gjald­eyri til að við­halda inn­an­lands­mark­aðn­um. Það segir sig líka sjálft að þegar 25 þús­und manns missa atvinn­una, eða stór hluti þeirra, og þá er ég ekki að tala um þá sem hafa óbein og afleidd störf af ferða­þjón­ustu þó þau séu ekki í sam­skiptum við ferða­mennina á hverjum degi, þar má nefna bak­arí, hreins­an­ir, þvotta­hús, hár­greiðslu­stofur og alls kon­ar, þá hefur það áhrif á alla virð­is­keðj­una og það hefur líka áhrif á það að þegar fólk missir vinn­una og er eins og núna, við erum að fara inn í vetur þar sem við verðum að öllum lík­indum með um 30 þús­und manns atvinnu­laus, þá hefur það áhrif á inn­lendu eft­ir­spurn­ina. Þetta spilar allt sam­an. Þú ert ekki með eina atvinnu­grein sem er bara í ein­hverri búbblu ein­hvers­stað­ar, hvort sem það er ferða­þjón­usta eða sjáv­ar­út­vegur eða eitt­hvað ann­að,“ segir Jóhannes Þór.

Stjórn­völd skýr þar til fyrir nokkrum vikum

Jóhannes Þór seg­ir, spurður um stöð­una í stjórn­málum og hvort hann telji að sátt hafi verið um þá ákvörðun að herða aðgerðir á landa­mærum, að rík­is­stjórnin sé ekki í öfunds­verðri stöðu. Í vor hafi sam­fé­lagið þjappað sér saman um að takast á við ógn­ina af veirunni og því áfalli sem fylgdi, en nú sé aðeins frá liðið og rík­is­stjórnin hafi þurft að taka ákvarð­anir sem eðli­legt sé að mis­mun­andi skoð­anir ríki um.

„Mark­miðið er kannski líka orðið aðeins loðn­ara en það var í vor, þegar við ætl­uðum að fletja út kúr­f­una. Núna erum við kannski ekki alveg með það á hreinu hvað mark­miðið er með aðgerð­un­um; er það að halda land­inu alveg veiru­fríu eða er það til þess að menn­ing­ar-, lista- og mennta­lífið í lagi eða er það til að passa að heil­brigð­is­kerfið lendi ekki í vanda, eða er það allt þrennt? Það flækir málið og ég held að hin póli­tíska umræða verði fljót­lega mjög snörp á þing­velli, en mín upp­lifun er sú að stjórn­völd hafi verið nokkuð skýr og sam­stíga, þar til núna fyrir kannski tveimur vikum síð­an, þar sem mín upp­lifun var að það væri kannski ekki alveg jafn skýr sam­eig­in­leg sýn á það hvaða leið ætti að fara, enda má kannski segja að það hafi verið margir kostir „pres­enterað­ir“ fyrir stjórn­mála­menn­ina að velja úr,“ segir Jóhannes Þór.

Hann bætir því við að í kjöl­farið þyki honum rík­is­stjórnin þó hafa verið skýr í nálgun sinni, en að koma verði í ljós hvernig það þró­ist.

„Ég held að þetta hafi verið erfið ákvörðun fyrir rík­is­stjórn­ina og ég öfunda þau ekk­ert af því hlut­verki að þurfa að taka svona ákvarð­an­ir, en þetta er það sem fólk er kosið til og þau hafa þá þann kaleik að ber­a.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiViðtal