Mynd: Bára Huld Beck

Flestar efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar geiguðu

Hlutabótaleiðin hefur skilað tilætluðum árangri og landsmenn hafa tekið út mun meira af séreignarsparnaði sínum en stjórnvöld ætluðu. En flestar aðgerðir sem ríkisstjórnin boðaði vegna efnahagsáhrifa COVID-19 faraldursins, og áttu að kosta tugi milljarða króna, hafa ekki nýst með þeim hætti sem lagt var upp með. Kostnaður ríkissjóðs vegna þeirra er því einungis brot af því sem upphaflega var áætlað.

Þegar rík­is­stjórn Katrínar Jak­obs­dóttur kynnti fyrsta aðgerð­ar­pakka sinn vegna efna­hags­legra áhrifa kór­ónu­veiru­far­ald­urs­ins þann 21. mars var því haldið fram að pakk­inn væri met­inn á 230 millj­arða króna. Þar af áttu um 60 millj­arðar króna að vera bein inn­spýt­ing úr rík­is­sjóð­i. 

„Þetta eru stærstu ein­stöku efna­hags­að­gerðir sög­unn­ar,“ sagði Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, á blaða­manna­fundi í Hörpu sem hald­inn var vegna þessa. 

Um var að ræða tíu aðgerðir sem áttu að tryggja varn­ir, vernd og við­spyrnu. Hluti þeirra var þess eðlis að langur tími mun líða þangað til að hægt verður að mæla árangur aðgerð­anna. Það á til dæmis við 20 millj­arða kóna fjár­fest­inga­á­tak og aðgerðir til að greiða fyrir inn­flutn­ingi með nið­ur­fell­ingu toll­af­greiðslu­gjalda og frestun á greiðslu á aðflutn­ings­gjöld­um. En aðrar aðgerðir áttu að hafa mikil mæl­an­leg áhrif fljótt.  

Mán­uði síð­ar, 21., apr­íl, voru tíu aðgerðir í við­bótar kynntar til leiks. Heild­ar­kostn­aður við þann aðgerð­ar­pakka átti að vera um 60 millj­arðar króna. Þar skiptu mestu máli aðgerðir fyrir lítil fyr­ir­tæki, bón­us­greiðslur til fram­línu­starfs­manna og sér­tækur styrkur til fjöl­miðla. Auk þess voru í pakk­anum aðgerðir sem er erfitt að mæla eins og er, líkt og jöfnun tekju­skatts, sér­tækur stuðn­ingur við sveit­ar­fé­lög og ýmis­konar fram­lög til meðal ann­ars geð­heil­brigð­is­mála og fjar­þjón­ustu.

Auglýsing

Viku síðar var þriðji pakk­inn kynnt­ur, en hann sner­ist að meg­in­stefnu um að greiða hluta launa starfs­fólks sem yrði sagt upp úr opin­berum sjóð­u­m. 

Nú, fimm mán­uðum síð­ar, liggja fyrir upp­lýs­ingar um hversu vel aðgerð­irnar sem áttu að telja strax hittu í mark. Árang­ur­inn af því er mjög mis­mun­andi. Sumar hafa staðið undir þeim vænt­ingum sem til þeirra, en aðrar hafa geig­að. 

Fyrsti pakk­inn: 

Hluta­bóta­leið­in: Átti að vera 22 millj­arðar en er 18 millj­arðar

Í kynn­ingu stjórn­valda í mars var gert ráð fyrir að hluta­bóta­leiðin myndi kalla á 22 millj­arða króna við­bót­ar­þörf fyrir atvinnu­leys­is­trygg­inga­sjóð. Í henni fólst að fyr­ir­tæki gátu feng­ið, að ákveðnum skil­yrðum upp­fyllt­um, greiðslur úr opin­berum sjóðum til að standa straum af launa­kostn­aði starfs­manna. Fyrst voru hámarks­greiðslur allt að 75 pró­sent af launum upp að ákveðnu þaki, en það var síðar lækkað niður í 50 pró­sent. Sam­hliða þeirri lækkun var tekið fyrir að fyr­ir­tæki sem ætl­uðu að greiða arð, kaupa eigin bréf, greiða óum­s­anda bónusa eða borga helstu stjórn­endum yfir þrjár millj­ónir króna á mán­uði gætu nýtt sér leið­ina. 

Það var gert vegna þess að mörg stöndug fyr­ir­tæki höfðu gert slíkt. Gagn­rýni vegna þess leiddi af sér að 61 fyr­ir­tæki til­kynnti að það ætl­aði sér að end­ur­greiða hluta­bætur upp á 306 millj­ónir króna. Af þeim hafa 44 fyr­ir­tæki nú þegar end­ur­greitt 210 millj­ónir króna. 

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur hlutabótaleiðina á sinni könnu.
Mynd: Bára Huld Beck

Þegar mest var nýttu 33.637 manns hluta­bóta­leið­ina. Í júlí var sú tala komin niður í 3.862 sem leiddi af sér 300 millj­óna króna kostn­að, sam­kvæmt minn­is­blaði fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra dag­sett 14. ágúst sem lagt var fyrir rík­is­stjórn fyrr í mán­uð­in­um. Þar segir að búast megi við því að tæp­lega helm­ingur þeirra sem nýttu úrræðið í júlí hafi gert það í ágúst.

Hluta­bóta­leiðin átti að renna út um kom­andi mán­aða­mót. Hún hefur hingað til kostað 18 millj­arða króna og við­búið er að kostn­aður í ágúst verði undir 150 millj­ónum króna. Því var raun­nýt­ing á leið­inni um 83 pró­sent af þeirri upp­hæð sem lagt var upp með að eyða.

Ákveðið var að fram­lengja leið­ina í vik­unni út októ­ber­mán­uð. Í grein­­ar­­gerð frum­varps­ þess efnis kemur fram að áætl­­aður kostn­aður sé um tveir millj­­arðar króna. 

Brú­ar­lán til atvinnu­lífs­ins: Átti að vera 80 millj­arðar en er 1,2 millj­arðar

Ein helsta aðgerðin sem rík­is­stjórnin kynnti til leiks í mars var að veita fyr­ir­greiðslu til að auð­velda við­bót­ar­lán lána­stofn­ana til fyr­ir­tækja. Þetta átti að gera þannig að ríkið semdi við Seðla­banka Íslands um að færa lána­stofn­unum aukin úrræði til að veita við­bót­ar­fyr­ir­greiðslu til fyr­ir­tækja, í formi brú­ar­lána, sem orðið hefðu fyrir veru­legu tekju­tapi vegna yfir­stand­andi aðstæðna. Seðla­bank­inn myndi þannig veita ábyrgðir til lána­stofn­ana sem þær nýta til að veita við­bót­ar­lán upp að um 70 millj­arða króna. 

Aðal­við­skipta­bankar fyr­ir­tækja áttu að veita þessa fyr­ir­greiðslu og aðgerðin var í heild metin á um 80 millj­arða króna að teknu til­liti til auk­innar útlána­getu banka vegna lækk­unar á banka­skatti, sem átti að aukast um tæp­lega 11 millj­arða króna. 

Auglýsing

Í dag hefur eitt brú­ar­lán verið veitt. Það lán fékk Icelandair hótel frá Arion banka og lánið var 1,2 millj­arðar króna. Vextir þess voru svim­andi háir, en bank­inn tók 25 pró­sent vexti af sínum hluta láns­ins.

Frestun skatt­greiðslna: Átti að vera 92 millj­arðar en er 19 millj­arðar

Ein af fyrstu aðgerð­unum sem íslensk stjórn­­völd gripu til vegna efna­hags­­legra afleið­inga af kór­ón­u­veiru­far­ald­inum var að veita fyr­ir­tækjum í land­inu frest á greiðslu á helm­ingi trygg­ing­­ar­gjalds og stað­greiðslu opin­berra gjalda sem voru á gjald­daga í mars. Þetta var ákveðið 12. mars, fjórum dögum áður en að eindagi þeirra gjalda átti að vera. Þeim eindaga var frestað um mánuð upp­­haf­­lega, og síðar þangað til í jan­úar á næsta ári. Gert var ráð fyrir að þetta myndi seinka tekjum til rík­­is­­sjóðs upp á 22 millj­­arða króna.

Þegar rík­­is­­stjórnin kynnti svo fyrsta efna­hag­s­­pakka sinn 21. mars var ein dýrasta aðgerðin þar sú að fresta mætti þremur gjald­­dögum stað­greiðslu og trygg­ing­­ar­gjalds á tíma­bil­inu 1. apríl til 1. des­em­ber til við­­bótar ef fyr­ir­tæki gæti mætt ákveðnum skil­yrð­­um. Áætluð áhrif þess voru tæpir 70 millj­arðar króna.

Þessar for­­sendur gengu ekki eft­­ir. Umfang frestaðra greiðslna hefur þvert á móti verið 19 millj­­arðar króna frá mar­s­mán­uði og út júlí.

Laun í sótt­kví: Átti að vera tveir millj­arðar en er 191 milljón

Rík­­­is­­­stjórn­­­in, Sam­tök atvinn­u­lífs­ins og Alþýð­u­­­sam­­­band Íslands komust að sam­komu­lagi um hvernig staðið verði að launa­greiðslum til fólks sem þarf að vera í sótt­­­­­kví vegna COVID-19 5. mars síð­­ast­lið­inn, þegar kór­ón­u­veiru­far­ald­­ur­inn var farin að láta veru­­lega á sér kræla hér­­­lend­­is. 

Þeir sem þurft hafa að dvelja í sóttkví hafa ekki sótt greiðslur í ríkissjóð í þeim mæli sem búist var við. Líklegast er að margir hafi getað unnið að heiman í sóttkvínni.
Mynd: EPA

Í fyrsta efna­hag­s­pakka rík­is­stjórn­ar­innar var gert ráð fyrir að kostn­aður rík­­is­­sjóðs vegna launa­greiðslna í sótt­­­kví yrði um tveir millj­­arðar króna.

Í minn­is­­blaði Bjarna Bene­dikts­­son­­ar, fjár­­­mála- og efna­hags­ráð­herra, sem inn­i­heldur yfir­­lit yfir stöðu stærstu efna­hags­að­­gerða stjórn­­­valda vegna COVID-19, og var lagt fyrir rík­­is­­stjórn fyrr í þessum mán­uði, kemur fram að alls hafi verið greiddar út 191 milljón króna vegna launa fólks sem þurft hefur að fara í sótt­kví. Hægt var að sækja um slíkar greiðslur til 1. júlí síð­ast­lið­ins. Ákveðið var að fram­lengja þetta úrræði í lið­inni viku. 

Barna­bóta­auki: Átti að kosta 3,1 millj­arð

Greiða átti út sér­stakan barna­bóta­auka upp á 40 þús­und krónur fyrir hvert barn sem for­eldri eða for­eldrar sem eru með undir 11,1 milljón krónur í sam­eig­in­legar tekj­ur, og 20 þús­und krónur til þeirra sem eru með tekjur yfir þeim mörk­um. Þetta átti að gera vegna „rask­ana af völdum far­ald­urs­ins“. 

Í áætlun stjórn­valda var gert ráð fyrir því að stuðn­ing­ur­inn myndi nema 3,1 millj­arði króna og ekk­ert hefur verið birt opin­ber­lega sem gefur annað til kynna. Í ljósi þess að um bein fjár­út­lán úr rík­is­sjóði er að ræða, og að nokkur ein­falt ætti að vera að reikna út hvað hvert for­eldri ætti að fá út frá skatt­skýrslum þeirra, þá verður að ætla að þessi kostn­að­ar­á­ætlun hafi stað­ist.

Úttekt sér­eign­ar­sparn­að­ar: Átti að vera tíu millj­arðar en verður 20 millj­arðar

Líkt og eftir hrunið ákváðu stjórn­völd að heim­ila lands­mönnum að nýta eigin sér­eign­ar­sparnað til að takast á við yfir­stand­andi efna­hags­þreng­ing­ar. 

Auglýsing

Heim­ildin felur í sér að ein­stak­l­ingum er gert kleift að ganga á eigin sparn­að, en þeir þurfa hins vegar að greiða skatt af honum við útgreiðslu líkt og ef þeir tækju hann út á efri árum. Aðgerðin er því tekju­öfl­un­­ar­að­­gerð fyrir rík­­is­­sjóð. Margir lands­­menn nýta nú þegar sér­­­eign­­ar­­sparnað sinn til að greiða niður hús­næð­is­lán, en ef sú leið er valin nýtur útgreiðslan skatt­frels­­is.

Í upp­­hafi var reiknað með að umfang þessa úrræðis yrði tíu millj­­arðar króna á 24 mán­aða tíma­bili. Alls hafa hins vegar tæp­­lega sjö þús­und lands­­menn tekið úr 14,5 millj­­arða króna af sér­­­eign­­ar­­sparn­aði sínum eftir að það var heim­ilað og fram til næstu ára­móta er búist við að útgreiðslur verði 18 millj­arðar króna. Í heild­ina eru áætl­­aðar útgreiðslur sem nema 19,8 millj­­örðum króna sem dreifast fram í mars 2022.

Því stefnir í að úttekt á sér­­­eign­­ar­­sparn­aði verði tvisvar sinnum það sem búist var við. 

Styrk­ing ferða­þjón­ustu: Ferða­gjöfin átti að vera 1,5 millj­arður en hefur kostað undir 500 millj­ónum

Alls átti styrk­ing ferða­þjón­ustu að kosta á fimmta millj­arð króna, sam­kvæmt kynn­ingu ráða­manna í Hörpu í mars. Sá hluti þessa pakka sem vakti mesta athygli var það sem síðar fékk nafnið Ferða­gjöf­in. Í henni fólst að gefa Íslend­ingum eldri en 18 ára sam­tals 1,5 millj­­arð króna til að örva vilja þeirra til inn­­­lendrar neyslu og ferða­laga. 

Sam­kvæmt síð­ustu birtu tölum hefur þjóðin sam­tals eytt 437 millj­­ónum króna af ferða­­gjöf­un­um, eða tæp­lega þriðj­ungi af þeirri upp­­hæð sem stjórn­­völd kynntu að aðgerðin ætti að kosta.

Rúmur helm­ingur þeirra um 280 þús­und Íslend­inga sem áttu rétt á fimm þús­und króna ferða­­gjöf stjórn­­­valda hafa sótt hana og af þeim hefur rúm­­lega helm­ingur þegar notað hana nú þegar sum­­­ar­­leyf­­is­­tíma­bili Íslend­inga fer að ljúka. 

Ferða­­gjöfin gildir út árið 2020 og því verða þeir sem ekki nýta hana fyrir þann tíma af henn­i. Að með­al­tali hafa um tvö þús­und ferða­gjafir verið nýttar á dag. 

Auk þess átti að fella niður gistin­átta­gjald sem átti að kosta rík­is­sjóð 1,6 millj­arða króna á tveimur árum. Sú tala er þó fengin úr for­tíð­inni þegar Ísland tók við um og yfir tveimur millj­ónum ferða­manna árlega. Fyrir liggur að gríð­ar­leg fækkun hefði orðið á fjölda ferða­manna sem hingað mun koma í ár hvort sem gjaldið hefði verið fellt niður eða ekki, en það er 300 krónur á hverja gistinótt. Því til stuðn­ings voru ferða­menn í júní aðeins þrjú pró­sent af fjöld­anum í fyrra. 

Forsætisráðherra kynnti ætlað umfang annars aðgerðarpakka ríkisstjórnar sinnar 21. apríl 2020.
Mynd: Bára Huld Beck

Þá átti að eyða 1,5 millj­örðum króna í alþjóð­legt mark­aðsá­tak fyrir Ísland sem áfanga­stað. Það verk­efni verður lík­lega sett á ís á meðan landið er nán­ast lokað fyrir komu erlendra ferða­manna. 

Útvíkkun á „Allir vinna“: Átti að vera átta millj­arðar en eru um hálfur millj­arður

Meðal þeirra ráð­staf­ana sem stjórn­­völd hafa gripið til í kjöl­far kór­ón­u­veiru­far­ald­­ur­s­ins er að hækka end­­ur­greiðslu virð­is­auka­skatts tíma­bundið úr 60 pró­­sentum upp í 100 pró­­sent vegna end­­ur­­bóta á íbúð­­ar­hús­næði sem og að útvíkka end­­ur­greiðslu­heim­ild­irn­­ar. 

Nú fæst til dæmis virð­is­auka­skattur sem greiddur hefur verið vegna vinnu við bíla­við­­gerðir og heim­il­is­hjálp og -þrif að fullu end­­ur­greidd­­ur.

Áætluð áhrif aðgerð­ar­innar voru metin á átta millj­arða króna. 

Kjarn­inn greindi frá því í síð­ustu viku að búið væri að afgreiða 1.631 umsóknir vegna bíla­við­gerða upp 25 millj­ónir króna, en alls hafa rúm­lega 5.200 umsóknir borist. 

Vegna end­ur­bóta og við­halds á hús­næði hafði Skatt­ur­inn greitt út um 470 millj­ónir króna vegna 3.434 afgreiddra umsókna, en alls höfðu borist um átta þús­und umsóknir frá 1. maí. 

Annar pakk­inn:

Lok­un­ar­styrkir: Átti að vera 2,5 millj­arðar en eru 197 millj­ónir

Þegar stjórn­­völd kynntu annan aðgerða­­pakka sinn vegna efna­hags­á­hrifa heims­far­ald­­urs kór­ón­u­veiru var kynntur til leiks sér­­stakur pakki fyrir lítil fyr­ir­tæki. 

Í honum voru meðal ann­ars svo­­kall­aðir lok­un­­ar­­styrkir sem áttu að greið­­ast til fyr­ir­tækja eða ein­yrkja sem þurftu að loka starf­­semi sinni vegna lög­­­boðs stjórn­­­valda í tengslum við sótt­­varn­­ar­að­­gerðir vegna útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúk­­dómn­­um.

Styrkirnir voru í boði fyrir þau fyr­ir­tæki sem gátu sýnt fram á að minnsta kosti 40 pró­­sent tekju­­fall og að þau væru með opin­ber gjöld í skil­­um. Hver aðili myndi geta fengið allt að 800 þús­und krónur fyrir hvern starfs­­mann en 2,4 millj­­óna króna styrk að hámarki. Áætlað var að styrkirnir myndu geta náð til allt að tvö þús­und fyr­ir­tækja og að þeir myndu kosta 2,5 millj­arða króna.

28. ágúst höfðu 170 umsóknir borist með reikn­uðum styrk upp á 196,5 millj­­ónir króna. Af þeim hafa 125 umsóknir verið sam­­þykktar og útgreiðslur nema 137 millj­­ónum króna.

Stuðn­ings­lán: Áttu að vera 28 millj­arðar en er 3,1 millj­arður

Hitt megin úrræðið í aðgerð­­ar­­pakka stjórn­­­valda fyrir lítil fyr­ir­tæki voru svokölluð stuðn­­ings­lán, einnig kölluð sér­­­stök lán til lít­illa fyr­ir­tækja. Til að telj­­ast til slíkra fyr­ir­tækja þurfti að vera með tekjur undir 500 millj­­ónum króna á ári. Lán­in, sem njóta 100 pró­­sent rík­­is­á­­byrgð­­ar, standa ein­ungis fyr­ir­tækjum sem hafa orðið fyrir að minnsta kosti 40 pró­­sent tekju­­falli til boða, sem er sama skil­yrði og gildir fyrir hin svoköll­uðu brú­­ar­lán til stærri fyr­ir­tækja sem kynnt voru til leiks mán­uði áður.

Lánin til fyr­ir­tækj­anna átti að verða hægt að sækja um með ein­­földum hætti á Island.is en þau nema að hámarki sex millj­­ónir krónur á hvert fyr­ir­tæki. Heild­­ar­um­­fang lán­anna átti að geta orðið allt að 28 millj­­arðar króna í heild, að mati stjórn­­­valda. 

Þann 28. ágúst höfðu alls 714 umsóknir um stuðn­­ings­lán borist og heild­­ar­fjár­­hæð umsókna var 6,2 millj­­arður króna. Búið var að afgreiða 430 umsóknir og greiða út alls 3,1 millj­­arð króna í stuðn­­ings­lán. 

Styrkir til fjöl­miðla: Átti að vera 350 millj­ónir en eru 400 millj­ónir

Ákveðið var að salta frum­varp um að koma upp árlegum styrkja­greiðslum til einka­rek­inna fjöl­miðla og búa þess í stað til ein­skipt­is­að­gerð undir hatti neyð­ar­að­gerða vegna COVID-19. Upp­haf­lega átti að greiða 350 millj­ónir króna til þeirra sem upp­fylltu sett skil­yrði en sú upp­hæð var síðar hækkuð upp í 400 millj­ónir króna. 

Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmála, ákvað í reglugerð sinni að auka verulega á styrktargreiðslur til þriggja stærstu einkareknu fjölmiðla landsins, sem mun skerða greiðslur til minni fjölmiðla.
Mynd: Bára Huld Beck

Stuðn­­ing­­ur­inn verður að hámarki 25 pró­­sent af stuðn­­ings­hæfum rekstr­­ar­­kostn­aði umsækj­enda en stuðn­­ingur til hvers umsækj­enda getur ekki orðið hærri en sem nemur 25 pró­­sent af þeirri fjár­­veit­ingu sem Alþingi hefur úthlutað til sér­­staks rekstr­­ar­­stuðn­­ings, eða 100 millj­ónir króna. Umsóknir áttu að afgreið­ast fyrir 1. sept­­em­ber 2020.

Alls sóttu 25 aðilar um styrki og sam­kvæmt heim­ildum Kjarn­ans er heild­ar­upp­hæð umsókna hærri en sú upp­hæð sem er til útdeil­ing­ar. Því mun greiðsla til hvers fjöl­mið­ils verða lægri en sem nemur 25 pró­sentum af stuðn­ings­hæfum rekstr­ar­kostn­aði en þó liggur fyrir að uppi­staðan af upp­hæð­inni mun fara til þriggja stærstu einka­reknu fjöl­miðla­fyr­ir­tækja lands­ins: Árvak­urs, Torgs og Sýn­ar. 

Þótt 1. sept­em­ber sé á þriðju­dag þá hafa fjöl­miðlar sem upp­fylla sett skil­yrði enn ekki fengið upp­lýs­ingar um hversu háan styrk þeir fá, né hvenær hann muni ber­ast. 

Þriðji pakk­inn: 

Upp­sagn­ar­styrkir: Átti að vera 27 millj­arðar en eru 3,9 millj­arð­ar 

Þann 28. apr­íl var til­­­kynnt um að rík­­­is­­­stjórnin ætl­­­aði að veita ákveðnum fyr­ir­tækj­um, sem hefðu orðið fyrir umfangs­­­miklu tekju­tapi, eða að minnsta kosti 75 pró­­sent, styrki til að eyða ráðn­­­ing­­­ar­­­sam­­­böndum þeirra við starfs­­­fólk sitt. 

Þegar frum­varp um upp­­sagn­­ar­­styrki var lagt fram um miðjan maí var gert ráð fyrir því að bein útgjöld rík­­is­­sjóðs vegna úrræð­is­ins yrðu 27 millj­­arðar króna. Enn sem komið hefur því um 14 pró­­sent af áætl­­uðum kostn­aði vegna upp­­sagn­­ar­­styrkja fallið til.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lagði fram frumvarp um uppsagnarstyrkina.
Mynd: Bára Huld Beck

Þann 7. ágúst síð­­ast­lið­inn höfðu alls 332 umsóknir borist um svo­­kall­aða upp­­sagn­­ar­­styrki úr rík­­is­­sjóði, en um slíka geta fyr­ir­tæki sem orðið hafa fyrir veru­­legu tekju­­falli sótt um til að standa straum af 85 pró­­sent af kostn­að­inum við að segja upp fólki. 

Þegar er búið að afgreiða 265 umsóknir vegna 158 rekstr­­ar­að­ila og af þeim umsóknum sem afgreiddar hafa verið nemur greiddur stuðn­­ingur um 3,7 millj­­örðum króna vegna launa og 160 millj­­ónir króna vegna orlofs. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar