EPA

Framundan er stór krísa en við höfum val

„Okkar lærdómur af heimsfaraldrinum er sá að við höfum gengið of hart fram gagnvart náttúrunni og það er ekki víst að leiðin sem við vorum á sé besta leiðin,“ segir Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur. „Á sama tíma lærðum við að stjórnvöld geta beitt vöndum – jafnvel mjög harkalega – ef að fólk skilur þörfina.”

Þrír froskar standa á vatns­bakka. Tveir ákveða að stökkva út í vatn­ið. Hvað eru margir froskar eftir á bakk­an­um?

Stefán Gísla­son, umhverf­is­stjórn­un­ar­fræð­ing­ur, byrjar á að leggja gátu fyrir blaða­mann sem er kom­inn í heim­sókn á skrif­stofu hans í Borg­ar­nesi að fræð­ast um mögu­leg áhrif heims­far­ald­urs kór­ónu­veirunnar á umhverf­ið.

Einn, svarar blaða­maður í flýti, líkt og hann sé að svara hraða­spurn­ingum í Gettu bet­ur.

„Kannski,“ svarar Stefán og kím­ir, „ef hinir tveir fram­fylgdu þess­ari ákvörðun sinni. En það getur líka verið að þeir hafi allir stokkið og eins að eng­inn hafi gert það. Það er að minnsta kosti ekki sjálf­sagt að svarið sé einn.“

Aaah, segir blaða­maður og fer hjá sér vegna frum­hlaups­ins. Því þegar þú hefur ákveðið eitt­hvað þá er ekki víst að þú fram­kvæmir það...

„Einmitt,“ svarar Stef­án. „Og þannig er það með allar breyt­ingar á hegð­un. Það eitt að vilja gera eitt­hvað þýðir ekki að þú gerir það. Í umræð­unni um umhverf­is­mál hefur marg­sinnis verið sagt að allt snú­ist þetta um að breyta við­horfum fólks. Ég segi hins veg­ar: Jú, það er fínt að breyta við­horf­um, en þetta snýst um að breyta hegðun fólks. Gjána þarna á milli verður að brú­a.“



Auglýsing

Þegar Himala­ja-­fjöllin birt­ust íbúum í nágrenni þeirra út úr meng­un­ar­ský­inu, aðeins nokkrum dögum eftir að fjöl­mörgum verk­smiðjum hafði verið lokað og veru­lega dregið úr sam­göngum vegna heims­far­ald­urs COVID-19, reyndu sumir að líta á það sem huggun harmi gegn að afleið­ingar far­ald­urs­ins væru að minnsta kosti jákvæðar fyrir umhverf­ið. Til langs tíma er alls óvíst að svo verði og reyndar eru þegar vís­bend­ingar um að ofnýt­ing nátt­úru­auð­linda muni aukast frekar en hitt og að afsláttur verði gef­inn í lofts­lags­mál­um. Hvað sem verður minnir Stefán á að þegar það birti til í stór­borg­unum og endur fóru aftur að synda á síkj­unum í Fen­eyjum fengum við að minnsta kosti inn­sýn í ver­öld sem var og gæti orðið aft­ur. Kannski ver­öld sem við vorum búin að gleyma að væri mögu­leg. 

Og þá vaknar spurn­ing­in: Ætlum við að stökkva til grænni vega eða ekki?

Mitt á milli

Stefán býr og starfar í Borg­ar­nesi. Hann er af Ströndum og Borg­ar­nes er svona nokkurn veg­inn miðja vegu milli æsku­slóð­anna og höf­uð­borg­ar­inn­ar. Hann seg­ist hafa skellt sér í fram­halds­nám í umhverf­is­stjórnun á „gam­als­aldri“ eða um fer­tugt og árið 2000 stofn­aði hann svo fyr­ir­tækið UMÍS ehf. Environ­ice sem veitir ráð­gjöf um umhverf­is­mál og sjálf­bæra þró­un. Í nógu hefur verið að snú­ast í þessum mála­flokki síð­ustu ár og verk­efni Environ­ice m.a. verið fyrir sveit­ar­fé­lög og fyr­ir­tæki.

Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur: Við erum á krossgötum. Hvaða leið ætlum við að velja?
Aðsend

Á síð­asta ári var umræðan um lofslags­mál, þá fyr­ir­séðu ógn sem stafar af hlýnun jarðar af manna­völd­um, orðin mikil og almenn. Til marks um það má nefna að bæði BBC og breska blaðið Guar­dian ákváðu að árið 2020 yrði ár umfjöll­unar um lofts­lags­vána.

En í byrjun þessa árs lofts­lags­mál­anna fóru að ber­ast af henni frétt­ir, örsmárri veiru sem lík­lega hafði kom­ist úr leð­ur­blökum eða belt­is­dýrum í menn. Fréttir um að hún væri bráðsmit­andi og lífs­hættu­leg. Og þjóðir heims gripu til for­dæma­lausra aðgerða til að hefta útbreiðsl­una og sam­fé­lög fóru í hæga­gang.

„Við vitum auð­vitað ekki hvernig heim­ur­inn verður eftir að þessum far­aldri lýk­ur,“ segir Stef­án, „en mér hefur aldrei dottið í hug að við verðum betur sett eftir hann en fyr­ir. Hitt er lík­legra að ástandið í umhverf­is­mál­unum versni.“

Lífið fyrir COVID ekki endi­lega það besta

Almenn­ingur virð­ist, að minnsta kosti stór hluti hans, vera til­bú­inn í breyt­ing­ar. Fólk hefur kom­ist að því síð­ustu mán­uði að lífið fyrir COVID-far­ald­ur­inn var ekki endi­lega það besta sem hugs­ast get­ur. Það hefur lært að kom­ast af án ýmissa hluta, hvort sem það eru vörur eða þjón­usta, sem það taldi sig vart geta lifað án áður. Að lífs­gæði felist ekki í hlut­um. Þetta seg­ist Stefán bæði skynja hjá fólki og sjá vís­bend­ingar um í könn­un­um. „En það eru fleiri leik­endur á þessu leik­svið­i,“ segir hann spurður um hvað þurfi til að úrbætur verði að veru­leika. Hinir tveir stóru leik­end­urnir eru atvinnu­lífið og stjórn­völd. „Þó að stjórn­völd stjórn­ist að ein­hverju leyti af vilja fjöld­ans þá held ég að stjórn­völd þjóða heims séu síður til­búin í breyt­ingar en hinir leik­end­urn­ir.“

Stef­áni finnst atvinnu­lífið hins vegar vera til­búið og að það sé þróun sem hafi verið í gangi í nokkur ár. Dæmi eru um að stór­fyr­ir­tæki séu að ýta á stjórn­völd að skerpa á reglum en áður voru þau flest hver að biðja um til­slak­anir á öllum svið­um. Ýmis­legt skýrir þetta. Eitt atriðið er að mörgum fyr­ir­tækjum stýrir fram­sýnt fólk. Ólíkt stjórn­mála­mönnum hugsar það ekki í kjör­tíma­bilum heldur til ein­hverrar fram­tíð­ar. Annað er það að ekk­ert fyr­ir­tæki í ákveð­inni grein getur breytt mjög miklu sem hefur áhrif á rekstr­ar­um­hverfi þess nema að aðrir í sömu grein séu látnir gera það líka. „Það tel ég vera lyk­il­at­rið­ið,“ segir Stef­án. „Fyr­ir­tækin vilja gera þetta, en geta það ekki ein því þá tapa þau í sam­keppn­inni. Því vilja þau reglur sem gilda um allt atvinnu­líf­ið.“



Mér hefur aldrei dottið í hug að við verðum betur sett eftir faraldurinn en fyrir. Hitt er líklegra að ástandið í umhverfismálunum versni.
Á nokkrum dögum varð loftið í Delí á Indlandi hreinna.
EPA

En stjórn­völd glíma við sama vand­ann og fyr­ir­tæk­in. Eitt ríki á erfitt með að skera sig mikið úr án þess að tapa í alþjóð­legri sam­keppni með einum eða öðrum hætti. Þetta á að sögn Stef­áns líka við um ríkja­sam­bönd eins og Evr­ópu­sam­band­ið. Þó að sam­bandið leiði að flestra mati umbætur í umhverf­is­málum þá eru vanda­málin aug­ljós. Rót­tækar aðgerðir geta orðið til þess að atvinnu­greinar láti sig hverfa. Dæmi um þetta eru los­un­ar­heim­ildir sem stór­iðju­fyr­ir­tæki þurfa að kaupa í við­skipta­kerfi ESB til að starfa í Evr­ópu. Að sögn Stef­áns er hug­mynda­fræðin góð en ekki hefur verið hægt að fara hratt í þessa gjald­töku því þegar komið er að ákveðnum sárs­auka­mörkum fara fyr­ir­tækin ein­fald­lega með starf­semi sína þangað sem þau þurfa ekki að kaupa slíkar heim­ild­ir, s.s. til Kína eða Sádi-­Ar­ab­íu. „Þannig verður það til sem í þessu sam­hengi er kallað kolefn­isleki,“ segir Stef­án. „Það er að segja, það er þrengt að ein­hverjum meng­un­ar­valdi í ákveðnu ríki en þá ákveður hann að hætta starf­semi þar og fara eitt­hvað annað þar sem hann getur haldið áfram að menga.“

Á heims­vísu telur Stefán þessa ósam­stöðu þjóða stærsta vanda­mál­ið. „Í stuttu máli: Það er nán­ast ekki hægt að gera neinar rót­tækar kerf­is­breyt­ingar nema að allar þjóðir heims séu sam­mála um að gera þær.“

Leið­togar stóru ríkj­anna vilja ekki vera með

Þar sem engin lýð­ræð­is­lega kjörin alheims­stjórn er til stað­ar, þó að Sam­ein­uðu þjóð­irnar sinni ákveðnu sam­ein­ing­ar­hlut­verki, geta ákveðin ríki ein­fald­lega valið að vera ekki með í stórum ákvörð­un­um. Gott dæmi um þetta er Par­ís­ar­sátt­mál­inn frá árinu 2015. Ein­stakir vald­hafar vildu ekki taka þátt og aðrir drógu sig síðar út úr sam­komu­lag­inu. „Og ef við horfum á stöð­una eins og hún er núna, hvernig við komum út úr þess­ari kreppu, þá eru nátt­úr­lega mjög stór ríki, mjög stór hag­kerfi, sem ætla ekk­ert að vera með í því að nota tæki­færið og breyta um stefn­u.“

Banda­ríkin eru ef til vill aug­ljós­asta dæm­ið. En ríkin eru fleiri. Brasil­ía, Rúss­land, Kína og Ind­land eru heldur ekki á þeim bux­unum að taka þátt í ein­hverri stór­kost­legri stefnu­breyt­ingu í umhverf­is­mál­um. „Í þessum löndum býr tæp­lega helm­ingur mann­kyns,“ bendir Stefán á og „að á meðan þau, eða rétt­ara sagt leið­togar þeirra, vilja ekki vera með í því að grípa til sam­eig­in­legra aðgerða til að stöðva lofts­lags­vá­na, geta aðrir gert ósköp lít­ið. Það eru því alls konar inn­byggðar hindr­anir í vegi þess að það verði miklar breyt­ingar – jafn­vel þó að meiri­hluti jarð­ar­búa væri alveg til í það.“

Barn gengur yfir ruslahaug. Lífshættir okkar á 21. öldinni valda mengun á landi, í lofti og í hafi.
EPA

Stef­án, þetta er flókin staða sem þú lýsir og fyllir mann satt að segja ekki mik­illi bjart­sýn­i...

Hann hlær og það birtir sam­stundis yfir orðum hans.

„Sko,“ segir hann og tekur sér sopa úr teboll­anum sín­um. „Í bar­átt­unni fyrir því að flestu fólki geti liðið sem best og verið sem lengst á jörð­inni eru tvö lið: Svart­sýna liðið og bjart­sýna lið­ið. Það getur vel verið að bjart­sýna liðið tapi en svart­sýna liðið tapar örugg­lega. Þess vegna hef ég ákveðið að vera í bjart­sýna lið­in­u,“ segir hann ákveð­inn. „Af því að ég veit að það er hægt að snúa til betri veg­ar. Ég veit að það er hægt að búa til algjör­lega nýja leið og nota til dæmis þennan heims­far­aldur til að varða leið­ina þang­að. Við erum á kross­götum og við höfum val. Og við getum alveg valið hvað sem við vilj­um. En við þurfum að gera það að ein­hverju leyti sam­an.“

Hefnd belt­is­dýrs­ins

Síð­ustu mán­uðir hafa kennt okkur margt. Far­sóttin afhjúpaði til dæmis hvernig við höfum umgeng­ist nátt­úr­una. Hvernig við höfum þrengt að villtum dýrum, eyði­lagt búsvæði þeirra og hag­nýtt okkur svo mörg þeirra að teg­undir nálg­ast útrým­ingu. Að sama skapi hefur ræktun dýra í miklum þrengslum orðið að risa­vöxnum iðn­aði um allan heim þar sem dýra­vel­ferð er ekki í hávegum höfð.

„Sumir hafa talað um þetta, kannski í gam­an­sömum tóni, sem hefnd belt­is­dýrs­ins,“ segir Stef­án, „því að einn mögu­leik­inn er að veiran hafi upp­haf­lega komið úr belt­is­dýr­um.“ Þó að það virð­ist langsótt, að nátt­úran sé bein­línis að hefna sín, þá var það engu að síður fyr­ir­séð að skæðar veirur bær­ust úr dýrum í menn við þær aðstæður sem skap­ast hafa á 21. öld­inni.



Í baráttunni fyrir því að flestu fólki geti liðið sem best og verið sem lengst á jörðinni eru tvö lið: Svartsýna liðið og bjartsýna liðið.
Við höfum gengið mjög nærri náttúrunni og villtum dýrum. Sumir tala um hefnd beltisdýrsins, segir Stefán.
EPA

En það er fleira sem við höfum lært, til dæmis að hægt er að end­ur­heimta á mjög stuttum tíma lífs­gæði sem voru talin töp­uð. Að sjá til fjalla. Að endur og fiskar syndi í síkj­unum í Fen­eyj­um. Finna hvernig loft­gæði bötn­uðu til muna. „Fólk var búið að gleyma að þetta væri mögu­leik­i,“ segir Stef­án. „Það hvernig far­ald­ur­inn byrj­aði kenndi okkur sitt­hvað, þó að við vitum ekki öll smá­at­riði í því, og við lærðum líka hversu stuttan tíma það tekur að vinda ofan af ein­hverjum vand­ræðum sem við erum búin að koma okkur í. Við fengum sýn inn í ver­öld sem var og ver­öld sem gæti orðið aft­ur.“

Fræðsla og menntun

Allt annað mál er hins vegar hvort að við drögum ein­hvern raun­veru­legan lær­dóm af þessu og veljum leið í átt að þess­ari ver­öld sem gæti orð­ið; með minni mengun og nær­gætni í umgengni okkar við nátt­úr­una. Þar skilur á milli fræðslu og mennt­un­ar. „Fræðsla er þegar þú veist eitt­hvað en menntun er þegar þú veist eitt­hvað og notar þá þekk­ing­u.“

Á milli orða og gjörða getur því verið gjá. Til að skilja sam­hengið þar á milli betur kemur gátan um froskana, sem sögð var hér að fram­an, sér vel. „Við höfum lært heilan hell­ing og senni­lega hafa við­horf okkar breyst. Það þýðir að við erum til­búin að breyta hegðun okk­ar, en það þýðir ekki að hegð­unin muni breyt­ast.“



Auglýsing

Hvað ein­stak­ling­ana varð­ar, hvað þeir geti gert, séu vilj­ugir til að gera og lík­legir til að gera, segir Stefán að það sama gildi um þá og atvinnu­lífið og stjórn­völd. Það er erfitt að vera sá sem sker sig mikið úr. Það er ekki væn­legt til árang­urs að einn „fórni sér“ en aðrir haldi sínu strik­i.  

Stjórn­völd hafa nokkur tæki til að hafa áhrif á hegðun fólks. Þau þrjú sem oft­ast eru nefnd eru boð og bönn, hag­ræn stjórn­tæki og upp­lýs­ing­ar. Að mati flestra sér­fræð­inga er best að blanda þessu sam­an. „En þá komum við að því að menn eru mikið fyrir boð en mjög lítið fyrir bönn.“

Stundum er talað um gul­rætur og vendi, útskýrir Stef­án, að beita annað hvort gul­rót til að lokka asnann úr spor­unum eða vendi til að reka hann áfram. „Og stjórn­völd eru hrifin af gul­rótum en þau eru ekki mikið fyrir vendi. Þau eru til­búin að styðja það sem vel er gert en að sama skapi ekki áfram um að stöðva það sem illa er gert.“

Ef nauð­syn krefur

Enn eitt höfum við hins vegar að mati Stef­áns lært í far­aldr­inum og það er það sama og við lærðum í síð­ari heims­styrj­öld­inni: Ef almenn­ingur er með­vit­aður um nauð­syn breyt­inga þá geta stjórn­völd gengið mjög langt og notað harka­lega vendi. „Upp á síðkastið hafa allir barir í bænum verið lok­að­ir,“ tekur hann sem dæmi. „Sú ákvörðun var tekin á auga­bragði. Víða erlendis var útgöngu­bann í langan tíma. Þetta eru ótrú­lega miklar skerð­ingar á frelsi fólks. Auð­vitað eru ekki allir kátir en merki­legt nokk þá lætur flest fólk þetta yfir sig ganga.“

Það sama gerð­ist í síð­ari heims­styrj­öld­inni. Í Banda­ríkj­unum til dæmis fékk fólk ein­föld skila­boð: Það var komið stríð og allir urðu að gera hitt en ekki þetta. „Þannig að með vöndum er hægt að gera stór­tækar breyt­ingar á sam­fé­lagi á nokkrum dögum en aðeins,“ segir Stefán með áherslu, „ef fólk skilur nauð­syn­ina og aðeins ef stjórn­völdum tekst að koma upp­lýs­ingum þar um til almenn­ings og atvinnu­lífs­ins.“



Stjórnvöld eru of hrædd við að beita vendinum, þó að þau viti núna að hann virki, en ætla þess í stað að bæta þremur lífrænum gulrótum við kerfið sem fyrir er.
Stefán nýtur þess að hlaupa upp um fjöll og firnindi.
Aðsend

Á meðan fólk upp­lifir lofts­lags­breyt­ingar ekki sem raun­veru­lega ógn við öryggi sitt á sama hátt og far­sótt­ina er það ekki til­búið til rót­tækra breyt­inga. Þegar far­sótt geisar er ógnin gagn­vart hverjum og einum aug­ljós. Ef við hegðum okkur með ákveðnum hætti, förum á ákveðna staði, þá aukum við líkur á alvar­legum sjúk­dómi. En lofts­lags­váin er öðru­vísi. „Hún hefur ekki meiri áhrif á þann sem ákveður að fara á bar­inn en þann sem ákveður að vera heima. Hún hefur sömu áhrif á alla.“

Og lofts­lags­váin er ekki eins áþreif­an­leg. Milljón manns hafa dáið úr COVID-19 og nöfn þeirra eru þekkt. Um 7-8 millj­ónir jarð­ar­búa deyja árlega vegna loft­meng­unar en sú tala er fengin út frá dán­ar­tölum á ákveðnu tíma­bili við ákveðnar aðstæður á ákveðnum svæð­um. Í spjald­skrám sjúkra­húsa segir ekki að við­kom­andi hafi dáið eftir að hafa andað að sér meng­uðu and­rúms­lofti í mörg ár. Þetta er þó fólk sem margt hvert dó fyrir aldur fram. Sem hefði lifað lengur ef loftið væri hreinna. En þetta er að sögn Stef­áns svo óáþreif­an­legt, svo fjar­lægt, að það snertir okkur ekki á sama hátt og fjöldi per­sónu­grein­an­legra dauðs­falla vegna far­sóttar sem öll heims­byggðin er að glíma við.  

Bætt við gamla kerfið

Stjórn­völd víða í Evr­ópu hafa talað um græna end­ur­reisn í kjöl­far COVID. Ef aðgerðir þeirra hingað til og áætl­anir um fram­haldið eru skoð­aðar kemur hins vegar í ljós að stór­kost­leg stefnu­breyt­ing er lík­lega ekki í far­vatn­inu. Jú, það eru grænar áhersl­ur, en þær eru hugs­aðar sem við­bót við gamla kerf­ið. „Gamla kerfið var 100 ein­ingar og við bætum fimm grænum ein­ingum við,“ útskýrir Stefán með ein­földum hætti. „Sú leið er ekki farin að breyta gamla kerf­inu yfir í grænt kerfi. Það er ekki þrengt að því sem fyrir er.“

Þetta er eins og að ákveða að fara í megrun til að létta sig um nokkur kíló, segir Stef­án. „Ég ákveð að breyta um lífs­stíl og bæta þremur líf­rænum gul­rótum við matar­æð­ið. En held samt áfram að borða jafn­mikið af ham­borg­urum og frönskum í öll mál.“

„Þetta mun ekki virka,“ segir Stef­án. Aug­ljós­lega. „En ég ótt­ast að þetta verði raunin hér á landi og víð­ar. Stjórn­völd eru of hrædd við að beita vend­in­um, þó að þau viti núna að hann virki, en ætla þess í stað að bæta þremur líf­rænum gul­rótum við kerfið sem fyrir er.“



Í krísuástandi er hætta á að stjórnvöld gefi afslátt í loftslagsmálum.
EPA

Í Banda­ríkj­unum má segja að gul­rót­unum þremur hafi verið sleppt og að í stað­inn sé verið að blása gamla kerfið út með rík­is­stuðn­ingi og áfram­hald­andi upp­bygg­ingu meng­andi iðn­aðar og orku­vinnslu. Fá skil­yrði eru sett fyrir styrkjum í þessu krísu­á­standi. Fyr­ir­tækin sem fá styrki geta verið í hvaða starf­semi sem er. Þeim hefur jafn­vel vegnað illa síð­ustu árin en gætu staðið betur eftir krepp­una en fyrir hana. Stór olíu- og gas­fyr­ir­tæki fá leyfi til fram­kvæmda sem áður voru á bið vegna mik­illa umhverf­is­á­hrifa. Í valdi stærðar sinnar eru þau líka í betri stöðu en mörg önnur fyr­ir­tæki til að beita stjórn­völd þrýst­ingi og fá aðstoð. „Það er auð­veld­ara fyrir stjórn­völd að taka ákvörðun um að við­halda ein­hverju sem er en að styðja við eitt­hvað nýtt sem tekur lengri tíma að koma á fót og efla,“ segir Stefán um þá hættu sem efna­hags­á­standið nú um stundir getur skap­að.

Kjörið tæki­færi til að skil­yrða stuðn­ing

Stefán seg­ist hafa skiln­ing á því að íslensk stjórn­völd hafi þurft að grípa til aðgerða með hraði til að bregð­ast við aðsteðj­andi vanda. En þegar litið er til baka hafi stjórn­völd haft kjörið tæki­færi til að skil­yrða rík­is­stuðn­ing út frá umhverf­is­sjón­ar­mið­um, til dæmis umhverf­is­legri frammi­stöðu eða birt­ingu loft­lags­bók­halds. En þetta tæki­færi var ekki nýtt. „Í krísu­á­standi er mikil hætta á því að afsláttur verði gef­inn í lofts­lags­mál­um. Og við að rýna í aðgerðir stjórn­valda á Íslandi, í Sví­þjóð og í Evr­ópu­sam­band­inu þá finnst mér þær ein­kenn­ast af því að það á að bæta líf­rænum gul­rótum við mat­seð­il­inn okk­ar. Ekki end­ur­skoða hann í heild.“



Auglýsing

En hvaða ráð myndir þú gefa stjórn­völdum hér á landi um fram­hald­ið?

„Það er fyrst og fremst að átta sig á að lofts­lags­mál eru ekki kafli í bók­inni heldur bókin sjálf. Að frá og með deg­inum í dag verði engar ákvarð­anir teknar nema að menn séu með lofts­lags­gler­augun á nef­in­u,“ svarar Stef­án. „Framundan er stór krísa. Eins ömur­legt og þetta ástand er núna vegna COVID þá er það að mínu mati smá­mál í sam­an­burði við lofts­lags­vána. Ef menn eru í vand­ræðum með hug­myndir þá er hérna skýrsla í hill­unni hjá mér sem er sjálf­sagt líka til í ein­hverjum skúffum á skrif­stofum Alþing­is, Efl­ing græns hag­kerf­is, áætlun sem þing­heimur sam­þykkti ein­róma í formi þings­á­lykt­unar 20. mars 2012, en var ekki hrint í fram­kvæmd. En hún er til og þarfn­ast aðeins lít­ils­háttar end­ur­skoð­un­ar. Dustið af henni ryk­ið, brettið upp ermar og byrj­ið.”



Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiViðtal