EPA

Framundan er stór krísa en við höfum val

„Okkar lærdómur af heimsfaraldrinum er sá að við höfum gengið of hart fram gagnvart náttúrunni og það er ekki víst að leiðin sem við vorum á sé besta leiðin,“ segir Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur. „Á sama tíma lærðum við að stjórnvöld geta beitt vöndum – jafnvel mjög harkalega – ef að fólk skilur þörfina.”

Þrír froskar standa á vatnsbakka. Tveir ákveða að stökkva út í vatnið. Hvað eru margir froskar eftir á bakkanum?

Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur, byrjar á að leggja gátu fyrir blaðamann sem er kominn í heimsókn á skrifstofu hans í Borgarnesi að fræðast um möguleg áhrif heimsfaraldurs kórónuveirunnar á umhverfið.

Einn, svarar blaðamaður í flýti, líkt og hann sé að svara hraðaspurningum í Gettu betur.

„Kannski,“ svarar Stefán og kímir, „ef hinir tveir framfylgdu þessari ákvörðun sinni. En það getur líka verið að þeir hafi allir stokkið og eins að enginn hafi gert það. Það er að minnsta kosti ekki sjálfsagt að svarið sé einn.“

Aaah, segir blaðamaður og fer hjá sér vegna frumhlaupsins. Því þegar þú hefur ákveðið eitthvað þá er ekki víst að þú framkvæmir það...

„Einmitt,“ svarar Stefán. „Og þannig er það með allar breytingar á hegðun. Það eitt að vilja gera eitthvað þýðir ekki að þú gerir það. Í umræðunni um umhverfismál hefur margsinnis verið sagt að allt snúist þetta um að breyta viðhorfum fólks. Ég segi hins vegar: Jú, það er fínt að breyta viðhorfum, en þetta snýst um að breyta hegðun fólks. Gjána þarna á milli verður að brúa.“


Auglýsing

Þegar Himalaja-fjöllin birtust íbúum í nágrenni þeirra út úr mengunarskýinu, aðeins nokkrum dögum eftir að fjölmörgum verksmiðjum hafði verið lokað og verulega dregið úr samgöngum vegna heimsfaraldurs COVID-19, reyndu sumir að líta á það sem huggun harmi gegn að afleiðingar faraldursins væru að minnsta kosti jákvæðar fyrir umhverfið. Til langs tíma er alls óvíst að svo verði og reyndar eru þegar vísbendingar um að ofnýting náttúruauðlinda muni aukast frekar en hitt og að afsláttur verði gefinn í loftslagsmálum. Hvað sem verður minnir Stefán á að þegar það birti til í stórborgunum og endur fóru aftur að synda á síkjunum í Feneyjum fengum við að minnsta kosti innsýn í veröld sem var og gæti orðið aftur. Kannski veröld sem við vorum búin að gleyma að væri möguleg. 

Og þá vaknar spurningin: Ætlum við að stökkva til grænni vega eða ekki?

Mitt á milli

Stefán býr og starfar í Borgarnesi. Hann er af Ströndum og Borgarnes er svona nokkurn veginn miðja vegu milli æskuslóðanna og höfuðborgarinnar. Hann segist hafa skellt sér í framhaldsnám í umhverfisstjórnun á „gamalsaldri“ eða um fertugt og árið 2000 stofnaði hann svo fyrirtækið UMÍS ehf. Environice sem veitir ráðgjöf um umhverfismál og sjálfbæra þróun. Í nógu hefur verið að snúast í þessum málaflokki síðustu ár og verkefni Environice m.a. verið fyrir sveitarfélög og fyrirtæki.

Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur: Við erum á krossgötum. Hvaða leið ætlum við að velja?
Aðsend

Á síðasta ári var umræðan um lofslagsmál, þá fyrirséðu ógn sem stafar af hlýnun jarðar af mannavöldum, orðin mikil og almenn. Til marks um það má nefna að bæði BBC og breska blaðið Guardian ákváðu að árið 2020 yrði ár umfjöllunar um loftslagsvána.

En í byrjun þessa árs loftslagsmálanna fóru að berast af henni fréttir, örsmárri veiru sem líklega hafði komist úr leðurblökum eða beltisdýrum í menn. Fréttir um að hún væri bráðsmitandi og lífshættuleg. Og þjóðir heims gripu til fordæmalausra aðgerða til að hefta útbreiðsluna og samfélög fóru í hægagang.

„Við vitum auðvitað ekki hvernig heimurinn verður eftir að þessum faraldri lýkur,“ segir Stefán, „en mér hefur aldrei dottið í hug að við verðum betur sett eftir hann en fyrir. Hitt er líklegra að ástandið í umhverfismálunum versni.“

Lífið fyrir COVID ekki endilega það besta

Almenningur virðist, að minnsta kosti stór hluti hans, vera tilbúinn í breytingar. Fólk hefur komist að því síðustu mánuði að lífið fyrir COVID-faraldurinn var ekki endilega það besta sem hugsast getur. Það hefur lært að komast af án ýmissa hluta, hvort sem það eru vörur eða þjónusta, sem það taldi sig vart geta lifað án áður. Að lífsgæði felist ekki í hlutum. Þetta segist Stefán bæði skynja hjá fólki og sjá vísbendingar um í könnunum. „En það eru fleiri leikendur á þessu leiksviði,“ segir hann spurður um hvað þurfi til að úrbætur verði að veruleika. Hinir tveir stóru leikendurnir eru atvinnulífið og stjórnvöld. „Þó að stjórnvöld stjórnist að einhverju leyti af vilja fjöldans þá held ég að stjórnvöld þjóða heims séu síður tilbúin í breytingar en hinir leikendurnir.“

Stefáni finnst atvinnulífið hins vegar vera tilbúið og að það sé þróun sem hafi verið í gangi í nokkur ár. Dæmi eru um að stórfyrirtæki séu að ýta á stjórnvöld að skerpa á reglum en áður voru þau flest hver að biðja um tilslakanir á öllum sviðum. Ýmislegt skýrir þetta. Eitt atriðið er að mörgum fyrirtækjum stýrir framsýnt fólk. Ólíkt stjórnmálamönnum hugsar það ekki í kjörtímabilum heldur til einhverrar framtíðar. Annað er það að ekkert fyrirtæki í ákveðinni grein getur breytt mjög miklu sem hefur áhrif á rekstrarumhverfi þess nema að aðrir í sömu grein séu látnir gera það líka. „Það tel ég vera lykilatriðið,“ segir Stefán. „Fyrirtækin vilja gera þetta, en geta það ekki ein því þá tapa þau í samkeppninni. Því vilja þau reglur sem gilda um allt atvinnulífið.“


Mér hefur aldrei dottið í hug að við verðum betur sett eftir faraldurinn en fyrir. Hitt er líklegra að ástandið í umhverfismálunum versni.
Á nokkrum dögum varð loftið í Delí á Indlandi hreinna.
EPA

En stjórnvöld glíma við sama vandann og fyrirtækin. Eitt ríki á erfitt með að skera sig mikið úr án þess að tapa í alþjóðlegri samkeppni með einum eða öðrum hætti. Þetta á að sögn Stefáns líka við um ríkjasambönd eins og Evrópusambandið. Þó að sambandið leiði að flestra mati umbætur í umhverfismálum þá eru vandamálin augljós. Róttækar aðgerðir geta orðið til þess að atvinnugreinar láti sig hverfa. Dæmi um þetta eru losunarheimildir sem stóriðjufyrirtæki þurfa að kaupa í viðskiptakerfi ESB til að starfa í Evrópu. Að sögn Stefáns er hugmyndafræðin góð en ekki hefur verið hægt að fara hratt í þessa gjaldtöku því þegar komið er að ákveðnum sársaukamörkum fara fyrirtækin einfaldlega með starfsemi sína þangað sem þau þurfa ekki að kaupa slíkar heimildir, s.s. til Kína eða Sádi-Arabíu. „Þannig verður það til sem í þessu samhengi er kallað kolefnisleki,“ segir Stefán. „Það er að segja, það er þrengt að einhverjum mengunarvaldi í ákveðnu ríki en þá ákveður hann að hætta starfsemi þar og fara eitthvað annað þar sem hann getur haldið áfram að menga.“

Á heimsvísu telur Stefán þessa ósamstöðu þjóða stærsta vandamálið. „Í stuttu máli: Það er nánast ekki hægt að gera neinar róttækar kerfisbreytingar nema að allar þjóðir heims séu sammála um að gera þær.“

Leiðtogar stóru ríkjanna vilja ekki vera með

Þar sem engin lýðræðislega kjörin alheimsstjórn er til staðar, þó að Sameinuðu þjóðirnar sinni ákveðnu sameiningarhlutverki, geta ákveðin ríki einfaldlega valið að vera ekki með í stórum ákvörðunum. Gott dæmi um þetta er Parísarsáttmálinn frá árinu 2015. Einstakir valdhafar vildu ekki taka þátt og aðrir drógu sig síðar út úr samkomulaginu. „Og ef við horfum á stöðuna eins og hún er núna, hvernig við komum út úr þessari kreppu, þá eru náttúrlega mjög stór ríki, mjög stór hagkerfi, sem ætla ekkert að vera með í því að nota tækifærið og breyta um stefnu.“

Bandaríkin eru ef til vill augljósasta dæmið. En ríkin eru fleiri. Brasilía, Rússland, Kína og Indland eru heldur ekki á þeim buxunum að taka þátt í einhverri stórkostlegri stefnubreytingu í umhverfismálum. „Í þessum löndum býr tæplega helmingur mannkyns,“ bendir Stefán á og „að á meðan þau, eða réttara sagt leiðtogar þeirra, vilja ekki vera með í því að grípa til sameiginlegra aðgerða til að stöðva loftslagsvána, geta aðrir gert ósköp lítið. Það eru því alls konar innbyggðar hindranir í vegi þess að það verði miklar breytingar – jafnvel þó að meirihluti jarðarbúa væri alveg til í það.“

Barn gengur yfir ruslahaug. Lífshættir okkar á 21. öldinni valda mengun á landi, í lofti og í hafi.
EPA

Stefán, þetta er flókin staða sem þú lýsir og fyllir mann satt að segja ekki mikilli bjartsýni...

Hann hlær og það birtir samstundis yfir orðum hans.

„Sko,“ segir hann og tekur sér sopa úr tebollanum sínum. „Í baráttunni fyrir því að flestu fólki geti liðið sem best og verið sem lengst á jörðinni eru tvö lið: Svartsýna liðið og bjartsýna liðið. Það getur vel verið að bjartsýna liðið tapi en svartsýna liðið tapar örugglega. Þess vegna hef ég ákveðið að vera í bjartsýna liðinu,“ segir hann ákveðinn. „Af því að ég veit að það er hægt að snúa til betri vegar. Ég veit að það er hægt að búa til algjörlega nýja leið og nota til dæmis þennan heimsfaraldur til að varða leiðina þangað. Við erum á krossgötum og við höfum val. Og við getum alveg valið hvað sem við viljum. En við þurfum að gera það að einhverju leyti saman.“

Hefnd beltisdýrsins

Síðustu mánuðir hafa kennt okkur margt. Farsóttin afhjúpaði til dæmis hvernig við höfum umgengist náttúruna. Hvernig við höfum þrengt að villtum dýrum, eyðilagt búsvæði þeirra og hagnýtt okkur svo mörg þeirra að tegundir nálgast útrýmingu. Að sama skapi hefur ræktun dýra í miklum þrengslum orðið að risavöxnum iðnaði um allan heim þar sem dýravelferð er ekki í hávegum höfð.

„Sumir hafa talað um þetta, kannski í gamansömum tóni, sem hefnd beltisdýrsins,“ segir Stefán, „því að einn möguleikinn er að veiran hafi upphaflega komið úr beltisdýrum.“ Þó að það virðist langsótt, að náttúran sé beinlínis að hefna sín, þá var það engu að síður fyrirséð að skæðar veirur bærust úr dýrum í menn við þær aðstæður sem skapast hafa á 21. öldinni.


Í baráttunni fyrir því að flestu fólki geti liðið sem best og verið sem lengst á jörðinni eru tvö lið: Svartsýna liðið og bjartsýna liðið.
Við höfum gengið mjög nærri náttúrunni og villtum dýrum. Sumir tala um hefnd beltisdýrsins, segir Stefán.
EPA

En það er fleira sem við höfum lært, til dæmis að hægt er að endurheimta á mjög stuttum tíma lífsgæði sem voru talin töpuð. Að sjá til fjalla. Að endur og fiskar syndi í síkjunum í Feneyjum. Finna hvernig loftgæði bötnuðu til muna. „Fólk var búið að gleyma að þetta væri möguleiki,“ segir Stefán. „Það hvernig faraldurinn byrjaði kenndi okkur sitthvað, þó að við vitum ekki öll smáatriði í því, og við lærðum líka hversu stuttan tíma það tekur að vinda ofan af einhverjum vandræðum sem við erum búin að koma okkur í. Við fengum sýn inn í veröld sem var og veröld sem gæti orðið aftur.“

Fræðsla og menntun

Allt annað mál er hins vegar hvort að við drögum einhvern raunverulegan lærdóm af þessu og veljum leið í átt að þessari veröld sem gæti orðið; með minni mengun og nærgætni í umgengni okkar við náttúruna. Þar skilur á milli fræðslu og menntunar. „Fræðsla er þegar þú veist eitthvað en menntun er þegar þú veist eitthvað og notar þá þekkingu.“

Á milli orða og gjörða getur því verið gjá. Til að skilja samhengið þar á milli betur kemur gátan um froskana, sem sögð var hér að framan, sér vel. „Við höfum lært heilan helling og sennilega hafa viðhorf okkar breyst. Það þýðir að við erum tilbúin að breyta hegðun okkar, en það þýðir ekki að hegðunin muni breytast.“


Auglýsing

Hvað einstaklingana varðar, hvað þeir geti gert, séu viljugir til að gera og líklegir til að gera, segir Stefán að það sama gildi um þá og atvinnulífið og stjórnvöld. Það er erfitt að vera sá sem sker sig mikið úr. Það er ekki vænlegt til árangurs að einn „fórni sér“ en aðrir haldi sínu striki.  

Stjórnvöld hafa nokkur tæki til að hafa áhrif á hegðun fólks. Þau þrjú sem oftast eru nefnd eru boð og bönn, hagræn stjórntæki og upplýsingar. Að mati flestra sérfræðinga er best að blanda þessu saman. „En þá komum við að því að menn eru mikið fyrir boð en mjög lítið fyrir bönn.“

Stundum er talað um gulrætur og vendi, útskýrir Stefán, að beita annað hvort gulrót til að lokka asnann úr sporunum eða vendi til að reka hann áfram. „Og stjórnvöld eru hrifin af gulrótum en þau eru ekki mikið fyrir vendi. Þau eru tilbúin að styðja það sem vel er gert en að sama skapi ekki áfram um að stöðva það sem illa er gert.“

Ef nauðsyn krefur

Enn eitt höfum við hins vegar að mati Stefáns lært í faraldrinum og það er það sama og við lærðum í síðari heimsstyrjöldinni: Ef almenningur er meðvitaður um nauðsyn breytinga þá geta stjórnvöld gengið mjög langt og notað harkalega vendi. „Upp á síðkastið hafa allir barir í bænum verið lokaðir,“ tekur hann sem dæmi. „Sú ákvörðun var tekin á augabragði. Víða erlendis var útgöngubann í langan tíma. Þetta eru ótrúlega miklar skerðingar á frelsi fólks. Auðvitað eru ekki allir kátir en merkilegt nokk þá lætur flest fólk þetta yfir sig ganga.“

Það sama gerðist í síðari heimsstyrjöldinni. Í Bandaríkjunum til dæmis fékk fólk einföld skilaboð: Það var komið stríð og allir urðu að gera hitt en ekki þetta. „Þannig að með vöndum er hægt að gera stórtækar breytingar á samfélagi á nokkrum dögum en aðeins,“ segir Stefán með áherslu, „ef fólk skilur nauðsynina og aðeins ef stjórnvöldum tekst að koma upplýsingum þar um til almennings og atvinnulífsins.“


Stjórnvöld eru of hrædd við að beita vendinum, þó að þau viti núna að hann virki, en ætla þess í stað að bæta þremur lífrænum gulrótum við kerfið sem fyrir er.
Stefán nýtur þess að hlaupa upp um fjöll og firnindi.
Aðsend

Á meðan fólk upplifir loftslagsbreytingar ekki sem raunverulega ógn við öryggi sitt á sama hátt og farsóttina er það ekki tilbúið til róttækra breytinga. Þegar farsótt geisar er ógnin gagnvart hverjum og einum augljós. Ef við hegðum okkur með ákveðnum hætti, förum á ákveðna staði, þá aukum við líkur á alvarlegum sjúkdómi. En loftslagsváin er öðruvísi. „Hún hefur ekki meiri áhrif á þann sem ákveður að fara á barinn en þann sem ákveður að vera heima. Hún hefur sömu áhrif á alla.“

Og loftslagsváin er ekki eins áþreifanleg. Milljón manns hafa dáið úr COVID-19 og nöfn þeirra eru þekkt. Um 7-8 milljónir jarðarbúa deyja árlega vegna loftmengunar en sú tala er fengin út frá dánartölum á ákveðnu tímabili við ákveðnar aðstæður á ákveðnum svæðum. Í spjaldskrám sjúkrahúsa segir ekki að viðkomandi hafi dáið eftir að hafa andað að sér menguðu andrúmslofti í mörg ár. Þetta er þó fólk sem margt hvert dó fyrir aldur fram. Sem hefði lifað lengur ef loftið væri hreinna. En þetta er að sögn Stefáns svo óáþreifanlegt, svo fjarlægt, að það snertir okkur ekki á sama hátt og fjöldi persónugreinanlegra dauðsfalla vegna farsóttar sem öll heimsbyggðin er að glíma við.  

Bætt við gamla kerfið

Stjórnvöld víða í Evrópu hafa talað um græna endurreisn í kjölfar COVID. Ef aðgerðir þeirra hingað til og áætlanir um framhaldið eru skoðaðar kemur hins vegar í ljós að stórkostleg stefnubreyting er líklega ekki í farvatninu. Jú, það eru grænar áherslur, en þær eru hugsaðar sem viðbót við gamla kerfið. „Gamla kerfið var 100 einingar og við bætum fimm grænum einingum við,“ útskýrir Stefán með einföldum hætti. „Sú leið er ekki farin að breyta gamla kerfinu yfir í grænt kerfi. Það er ekki þrengt að því sem fyrir er.“

Þetta er eins og að ákveða að fara í megrun til að létta sig um nokkur kíló, segir Stefán. „Ég ákveð að breyta um lífsstíl og bæta þremur lífrænum gulrótum við mataræðið. En held samt áfram að borða jafnmikið af hamborgurum og frönskum í öll mál.“

„Þetta mun ekki virka,“ segir Stefán. Augljóslega. „En ég óttast að þetta verði raunin hér á landi og víðar. Stjórnvöld eru of hrædd við að beita vendinum, þó að þau viti núna að hann virki, en ætla þess í stað að bæta þremur lífrænum gulrótum við kerfið sem fyrir er.“


Í krísuástandi er hætta á að stjórnvöld gefi afslátt í loftslagsmálum.
EPA

Í Bandaríkjunum má segja að gulrótunum þremur hafi verið sleppt og að í staðinn sé verið að blása gamla kerfið út með ríkisstuðningi og áframhaldandi uppbyggingu mengandi iðnaðar og orkuvinnslu. Fá skilyrði eru sett fyrir styrkjum í þessu krísuástandi. Fyrirtækin sem fá styrki geta verið í hvaða starfsemi sem er. Þeim hefur jafnvel vegnað illa síðustu árin en gætu staðið betur eftir kreppuna en fyrir hana. Stór olíu- og gasfyrirtæki fá leyfi til framkvæmda sem áður voru á bið vegna mikilla umhverfisáhrifa. Í valdi stærðar sinnar eru þau líka í betri stöðu en mörg önnur fyrirtæki til að beita stjórnvöld þrýstingi og fá aðstoð. „Það er auðveldara fyrir stjórnvöld að taka ákvörðun um að viðhalda einhverju sem er en að styðja við eitthvað nýtt sem tekur lengri tíma að koma á fót og efla,“ segir Stefán um þá hættu sem efnahagsástandið nú um stundir getur skapað.

Kjörið tækifæri til að skilyrða stuðning

Stefán segist hafa skilning á því að íslensk stjórnvöld hafi þurft að grípa til aðgerða með hraði til að bregðast við aðsteðjandi vanda. En þegar litið er til baka hafi stjórnvöld haft kjörið tækifæri til að skilyrða ríkisstuðning út frá umhverfissjónarmiðum, til dæmis umhverfislegri frammistöðu eða birtingu loftlagsbókhalds. En þetta tækifæri var ekki nýtt. „Í krísuástandi er mikil hætta á því að afsláttur verði gefinn í loftslagsmálum. Og við að rýna í aðgerðir stjórnvalda á Íslandi, í Svíþjóð og í Evrópusambandinu þá finnst mér þær einkennast af því að það á að bæta lífrænum gulrótum við matseðilinn okkar. Ekki endurskoða hann í heild.“


Auglýsing

En hvaða ráð myndir þú gefa stjórnvöldum hér á landi um framhaldið?

„Það er fyrst og fremst að átta sig á að loftslagsmál eru ekki kafli í bókinni heldur bókin sjálf. Að frá og með deginum í dag verði engar ákvarðanir teknar nema að menn séu með loftslagsgleraugun á nefinu,“ svarar Stefán. „Framundan er stór krísa. Eins ömurlegt og þetta ástand er núna vegna COVID þá er það að mínu mati smámál í samanburði við loftslagsvána. Ef menn eru í vandræðum með hugmyndir þá er hérna skýrsla í hillunni hjá mér sem er sjálfsagt líka til í einhverjum skúffum á skrifstofum Alþingis, Efling græns hagkerfis, áætlun sem þingheimur samþykkti einróma í formi þingsályktunar 20. mars 2012, en var ekki hrint í framkvæmd. En hún er til og þarfnast aðeins lítilsháttar endurskoðunar. Dustið af henni rykið, brettið upp ermar og byrjið.”


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiViðtal