„Við ætlum að fara með hann aftur heim“
Hópur fólks kom inn á safn í París í sumar, tók forngrip traustataki og var á útleið er öryggisverðir stöðvuðu hann. Fólkið segist ekkert hafa tekið ófrjálsri hendi því ekki sé hægt að stela frá þjófi. Gripurinn eigi ekki heima í Frakklandi.
Þann 12. júní komu fjórir karlar og ein kona inn í safnið Quai Branly-Jacques Chirac í París. Þaðan tóku þau svo forngrip sem á rætur að rekja til Afríku og höfðu hann með sér á brott. Athæfið tóku þau upp á myndband. „Við ætlum að fara með hann heim,“ sögðu þau.
Hópurinn komst þó ekki langt og var stöðvaður af öryggisvörðum inni í safninu. Gripurinn var tekinn af þeim, öll voru þau handtekin og fyrr í vikunni voru þau dæmd til sektargreiðslna.
Þau hefðu getað endað í fangelsi, jafnvel í áratug. En það var áhætta sem þau voru tilbúin að taka.
Ástæðan er gripurinn sjálfur. Og allir gripirnir sem geymdir eru og hafðir til sýnis í Quai Branly-safninu. Í huga hópsins tákna þeir og sýning þeirra á þessum stað í veröldinni kúgunina sem þjóðir Afríku og fleiri heimsálfa urðu fyrir á nýlendutímanum. Kúgunina sem enn viðgengst því þrátt fyrir fögur fyrirheit hefur gripunum sem Frakkar og aðrar þjóðir tóku með sér frá nýlendunum enn ekki öllum verið skilað.
Gripurinn sem aktívistinn Mwazulu Diyabanza og samverkamenn hans tóku er útfararstöng frá átjándu öld, upprunnin á svæði sem í dag er innan landamæra Tjad. Slíkar stangir, sem eru úr viði og oft útskornar fagurlega, þekkjast í menningu margra Afríkuþjóða. Hlutverk þeirra er að hýsa sál hins látna.
Það var því ekki tilviljun að hópurinn valdi einmitt þennan grip úr safninu í aðgerð sem fyrst og fremst var táknræn. Og það var heldur ekki tilviljun að Quai Branly-safnið varð fyrir valinu. Í því eru geymdir yfir milljón gripir sem margir komust í hendur Frakka á nýlendutímanum. Opinbert hlutverk safnsins er þó sagt það að sýna menningu og list frumbyggja í Afríku, Asíu, Eyjaálfu og Ameríku.
„Við ætluðum aldrei að stela þessum grip en við munum halda áfram þar til bætt hefur verið fyrir óréttlætið sem fólst í gripdeildum [nýlenduþjóða] í Afríku,“ sagði Kongómaðurinn Diyabanza eftir að hann var leystur úr haldi. „Nýlendustefnan rændi Afríku sérstöðu sinni og sjálfsmynd. Ég mun færa Afríku aftur það sem stolið var frá henni.“
Diyabanza og hópurinn sem hann er í forsvari fyrir kallar sig Les Marrons Unis Dignes et Courageux (Eining, virðing og hugrekki) og hlutverk hans er að berjast fyrir frelsi og umbreytingu í Afríku.
Hópurinn lýsti verknaði sínum ekki sé þjófnaði heldur sögðu hann „virkt lýðræði“ til að vekja athygli á því að auður Afríku eigi heima þar og sé eign Afríkubúa. Hann hefur áður staðið að svipuðum aðgerðum, m.a. í Hollandi og Marseille í Suður-Frakklandi.
Við réttarhöldin í París í september vakti það athygli að dómarinn sagði viðstöddum að þeir myndu verða vitni að tveimur réttarhöldum. Annað væri hið augljósa – að dæma hópinn fyrir verknaðinn – en hitt fjallaði um „sögu Evrópu, um sögu Frakklands og Afríku.“ Hann sagði nýlendustefnuna því einnig fyrir dómi sem og misnotkun á menningararfleifð þjóða.
Kúgun fyrri alda, sem enn eimir af í kerfum og vitund samfélaga víða um heim, var í brennidepli er Diyabanza og hópur hans framdi verknaðinn í safninu í París. Aðeins þremur vikum fyrr hafði lögreglumaður í Bandaríkjunum þrengt svo að hálsi George Floyd að hann lést og fjöldamótmæli hófust í landinu og víðar um heiminn þar sem þess var krafist að líf svartra yrðu metin til jafns við líf hvítra.
Árið 1444 er talið að fyrsta opinbera salan á Afríkubúum til þrælkunar hafi farið fram í Lagos í Portúgal. Portúgalar voru nokkrum árum síðar orðnir umfangsmiklir í viðskiptum með fólk frá Afríku sem og Spánverjar sem fluttu þaðan fólk til nýlenda sinna í Suður-Ameríku þegar í byrjun sextándu aldar.
Frá því á fyrri hluta sextándu aldar og til seinni hluta þeirrar nítjándu er talið að í það minnsta 12,5 milljónir manna hafi verið fluttar nauðugar frá Afríku til Evrópu og Suður- og Norður-Ameríku. Til að setja þessa miklu nauðungarflutninga í samhengi er talið að tæplega fjórir af hverjum fimm sem höfðu verið fluttir yfir Atlantshafið til Ameríku um árið 1820 hafi verið Afríkumenn. Þrælaverslunin grimmilega byggði á því að fá ódýrt (ókeypis) vinnuafl til að byggja upp samfélag manna í hinum svokallaða nýja heimi. Fjölskyldum var splundrað til að veikja samstöðu. Þess var gætt að fólk af sama þjóðerni væri aðskilið – einnig til að veikja samstöðuna.
Þrælahaldarar í Suður- og Norður-Ameríku, m.a. á eyjum Karíbahafsins, eignuðu sér margir hverjir yfir 150 manns hver. Dæmi eru um að þúsund Afríkubúar hafi verið í haldi sumra plantekrueigenda.
Danir voru fyrstir af Evrópuþjóðum til að banna verslun með fólk frá Afríku til nýlenda sinna í Vestur-Indíum. Bannið tók gildi árið 1803, meira en áratug eftir að ákvörðunin var tekin. Bretar fylgdu í kjölfarið nokkrum árum síðar, þó með ákveðnum fyrirvörum, líkt og Danir. Þá var komið að Spánverjum, Svíum og Hollendingum sem fetuðu sömu slóðir um svipað leyti. Frakkar voru seinni til. Þó að þeir hefðu ákveðið að banna viðskipti með fólk frá Afríku árið 1917 tók bannið ekki gildi fyrr en 1826. Tæpum áratug síðar gengu Bretar lengra í viðskiptabanni sínu en þeir höfðu gert mörgum árum fyrr og samþykktu að stöðva þrælahald almennt en þó í skrefum. Plantekrueigendur í Vestur-Indíum fengu greiddar bætur vegna þess tjóns sem þeir urðu fyrir með lagasetningunni.
Því allt snérist þetta um peninga. Að hafa ódýrt eða ókeypis vinnuafl til að efnast. Og þegar þrælasalan var orðin ólögleg voru Evrópubúar ekki tilbúnir að sleppa takinu á Afríku, álfunni við miðbaug þar sem lífríkið er eitt það fjölskrúðugasta á jörðu og hægt er að rækta nánast allt það sem hugurinn girnist. Það var þó fleira en bananar og ananas sem Evrópuþjóðirnar, sem þá höfðu skipt Afríku bróðurlega á milli sín, girntust. Góðmálmar og aðrar nytsamlegar gersemar lágu í jörðu engum til gagns.
Heimsálfa gleypt á nokkrum áratugum
Valdhafar í Evrópu höfðu komið sér nokkuð vel fyrir í Afríku þegar þrælasalan var hvað umfangsmest og árið 1870 höfðu þeir yfir um 10 prósent álfunnar að ráða – aðallega við ströndina. Það var hentugt til að geta flutt timbur og gúmmí, svo dæmi séu tekin, innan úr álfunni og með ám til verslunarmiðstöðva sinna.
Til að komast hjá átökum (sín á milli) höfðu þeir um þetta leyti sammælst um að samnýta mörg stórfljótin sem flutningsleiðir fyrir góss sitt. Hinn formlegi nýlendu tími var hafinn og árið 1914 réðu Evrópuþjóðir yfir um 90 prósentum Afríku allrar.
Eftir tvær heimsstyrjaldir, sem íbúar nýlendanna voru látnir taka þátt í, fóru Evrópumenn að slaka á klónni í Afríku og næstu ár og áratugi fékk hvert landið á fætur öðru sjálfstæði. Landamærin höfðu í mörgum tilfellum verið dregin upp af nýlenduherrunum en fólkið sem innan þeirra bjó var skilgreint sem þjóð og átti að taka við stjórnartaumunum og byggja upp sitt samfélag. Það var misjafnt hvernig nýlenduherrarnir skyldu við. Óhætt er að segja að þó Evrópubúar hafi litið á Afríkuþjóðirnar sem þær einingar sem landakortið sýndi var raunin allt önnur. Upphófst ólgutímabil í álfunni sem víða sér ekki fyrir endann á.
Nú, á 21. öldinni, er uppgjör arðránsins í Afríku – rótin að misskiptingunni – enn óuppgert. Það sýnir sig bersýnilega í þeirri mótmælaöldu sem sprottið hefur upp í Bandaríkjunum og víðar.
Mwazulu Diyabanza, forsvarsmaður hópsins sem greip útfararstöngina í Quai Branly-safninu, kærði franska ríkið í sumar fyrir þjófnað og fyrir að hafa tekið við þýfi. Um stórfelldan þjófnað á löngu tímabili – nýlendutímanum – er að ræða, segir Diyabanza. „Það sem drífur okkur áfram er okkar lögmæti réttur til að hafa aðgang að menningu okkar og endurheimta sögu okkar,“ hefur Diyabanza sagt.
Umræðan um að Evrópuríki skili menningarverðmætum sem þau komust yfir á nýlendutímanum er ekki ný af nálinni, langt frá því. Mörg söfn hafa sætt harðri gagnrýni fyrir að slá eign sinni á gripi frá öðrum löndum og hafa þá til sýnis. Skiptar skoðanir eru meðal safnstjóra og stjórnmálamanna í Evrópu á því hvort og þá hvenær eigi að skila ákveðnum gripum. Og kannski ekki síst hver eigi þá að taka við þeim.
Engu enn verið skilað
Emmanuel Macron, forseti Frakklands, skipaði nefnd árið 2017 til að rannsaka hvort og þá hvaða munum sem eru í vörslu franskra stofnana ætti að skila til fyrrum nýlenduríkja. Í nefndinni sátu Felwine Sarr, hagfræðingur frá Senegal, og franski sagnfræðingurinn Bénédicte Savoy. Skýrsla þeirra var gefin út árið 2018 og var niðurstaða hennar sú að frönsk söfn ættu að skila um 90 þúsund gripum til ríkja í Afríku ef þau myndu sækjast eftir því. Macron ákvað þegar í stað að hefjast handa og fyrsta verkefnið var að koma 26 gripum sem stolið hafði verið frá Benín á nítjándu öld er Frakkar rændu þar völdum af hörku.
Gripirnir voru geymdir í Quai Branly-safninu. Og þar eru þeir enn. Engum gripum sem tilteknir voru í skýrslu rannsóknarnefndarinnar hefur enn verið skilað.
Savoy segir í viðtali við Time að hann telji að hin lága upphæð sektarinnar sem hópurinn sem fjarlægði útfararstöngina í Quai Branly-safninu í sumar fékk, hafi verið táknræn og til marks um að dómurinn hafi áttað sig á pólitísku vægi gjörningsins.
Svipað andóf hefur verið að eiga sér stað víðar í Evrópu síðustu mánuði. Breska listasafnið ákvað í byrjun árs að fjarlægja nokkra muni sem upprunnir eru í Afríku og voru til sýnis eftir að gestur helti sér yfir starfsmenn safnsins. Um verðmæta fornmuni frá Benín er að ræða sem taldir eru vera allt frá tólftu öld.
Frönsk stjórnvöld hafa gripið til þess að vakta styttur í landinu en á síðustu árum hefur verið reynt að steypa þeim sem og öðrum er tengjast nýlendutímanum af stalli bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum. „Franska lýðveldið mun ekki þurrka út slóð eða nöfn úr sögunni,“ sagði Macron í sumar. „Engar styttur verða teknar niður.“
Emmanuel Kasarhérou, sem tók við stjórn Quai Branly-safnsins nýverið, sagði í viðtali við New York Times í sumar að hann væri ekki hlynntur því að senda gripi „út í heim þar sem þeir verða látnir rotna“.
Mwazulu Diyabanza segir gjörninginn á safninu í sumar ekki hafa verið ólöglegan. „Þú spyrð ekki þjóf um leyfi áður en þú tekur til baka það sem hann stal.“
Hann og hópurinn sem hann er forsvari fyrir muni halda áfram að berjast fyrir réttlæti, endurheimt menningarverðmæta og sjálfsmynd þjóða Afríku.