Af vef Great Barrington-yfirlýsingarinnar.

Skálað í kampavíni fyrir „hættulegum rökvillum“

Svokölluð Great Barrington-yfirlýsing, um markvissa vernd viðkvæmra hópa á meðan að veiran fengi að breiðast út á meðal hraustra, hefur verið til umræðu víða að undanförnu. Í bréfi sem birtist í Lancet í gær er nálgunin sögð byggja á „hættulegri rökvillu“, framkvæmdastjóri WHO segir siðlaust að leyfa veirunni að dreifast og íslenska þríeykið minnir á að allavega 20 prósent þjóðarinnar teljast til viðkvæmra hópa.

Á blaðamannafundi hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) á mánudagskvöld, 12. október, ræddi Tedros Adhanom Ghebreyesus framkvæmdastjóri stofnunarinnar þær hugmyndir um hjarðónæmi sem hafa verið nokkuð fyrirferðamiklar í umræðunni að undanförnu. Í stuttu máli var svarið: „Þetta er ekki valmöguleiki.“

„Að leyfa hættulegri veiru sem við höfum ekki fullan skilning á leika lausum hala er einfaldlega siðlaust,“ sagði Tedros og bætti síðan við að vísindin væru slíkum hugmyndum ekki hliðholl. Hann minnti á að það er margt óljóst varðandi ónæmi gegn kórónuveirunni og enn væri lítið vitað um langtímaáhrif sýkingar á einstaklinga. 

Einnig sagði hann að talið væri að innan við 10 prósent fólks í flestum ríkjum hefðu smitast og því væri yfirgnæfandi meirihluti enn móttækilegur fyrir veirunni. „Að láta veiruna berast óhindrað þýðir því að við værum að leyfa ónauðsynlegar sýkingar, þjáningar og dauða,“ sagði Tedros.

Auglýsing

Hugmyndir um að leyfa veirunni að ganga í gegnum samfélög, en þó verja viðkvæma hópa sérstaklega og ná fram hjarðónæmi, hafa verið áberandi í umræðunni undanfarnar vikur. Þetta eru jaðarhugmyndir í heimi faraldsfræðanna en hafa þó fengið töluvert vægi í almennri umræðu, núna þegar veiruþreytu gætir víða.

Umræðan varð háværari eftir fund sem fram fór í litlum skíðabæ í Massachusetts í Bandaríkjunum fyrstu helgi mánaðarins. Hann var á vegum hugveitunnar American Institute for Economic Research (AIER) og þar komu saman ýmsir fræðimenn á sviði bæði heilbrigðismála og hagfræði og ræddu heimfaraldur COVID-19 í áheyrn blaðamanna sem fengu boð á fundinn. 

Helsta afurð þessa fundar varð yfirlýsing þriggja nafntogaðra vísindamanna um nýja stefnumörkun í sóttvarnaraðgerðum, sem kennd er við skíðabæinn sjálfan, Great Barrington. 

Scott Atlas, sem leiðir kórónuveiruteymi Hvíta hússins, hefur tekið undir nálgunina sem felst í Great Barrington-yfirlýsingunni.
EPA

Yfirlýsingin var sett saman af þeim Sunetru Gupta við Oxford-háskóla, Martin Kulldorff við Harvard-háskóla og Jay Bhattacharya við Stanford-háskóla. Þríeykið skálaði saman í kampavíni eftir undirritunina og fékk síðan boð um að mæta í Hvíta húsið til þess að hitta ráðamenn í Trump-stjórninni daginn eftir. 

Eðlilegt líf fyrir þá sem eru ekki í áhættuhópum 

Í stuttu máli þá gengur yfirlýsingin út á að víkja þurfi frá þeirri bælingarstefnu sem flest ríki hafa beitt til þess að reyna að hemja útbreiðslu kórónuveirunnar, þar sem hún sé að valda meiri skaða en hún kemur í veg fyrir.

Bælingarstefnan felst í að takmarka samneyti fólks og þar með smitleiðir með boðum og bönnum þegar veiran er til staðar í samfélögum í miklum mæli. Í Great Barrington-yfirlýsingunni segir að þessi stefna muni valda óafturkræfum skaða á fjárhag og langtíma heilsu fólks og bitni verst og mest á tekjulægra fólki og þeim sem yngri eru. 

Lagt er til að í stað bælingarstefnunnar, sem gildi um samfélagið allt, verði ráðist í „markvissa vörn“ á viðkvæmum hópum. Þeir sem eru ekki í áhættuhópum ættu hins vegar „samstundis að fá leyfi til þess að lifa eðlilegu lífi á ný“. Leyfa ætti veirunni að breiðast út í þeirra hópi, þrátt fyrir að fólk ætti áfram að huga að handþvotti og halda sig heima þegar það væri veikt. Hjarðónæmi myndi þannig nást á endanum. 

Auglýsing

Flestir helstu fjölmiðlar heims hafa sagt frá Great Barrington-yfirlýsingunni og efni hennar hefur smitast inn í samfélagsumræðuna víða, meðal annars hér á Íslandi. Boðskapurinn hefur verið endurómaður í leiðaraskrifum útbreiddasta dagblaðs landsins og fleiri skoðanagreinum í fjölmiðlum. 

Það hefur þó ekki alltaf fylgt sögunni – og raunar sjaldnast – að hugveitan sem hafði veg og vanda að fundinum hefur afgerandi hugmyndafræðilega sýn. „AIER sér fyrir sér heim þar sem samfélög eru skipulögð samkvæmt lögmálum ósvikins frelsis – þar sem hlutverk stjórnvalda er skarplega afmarkað við úthlutun almannagæða og einstaklingar geta blómstrað á frjálsum markaði og í frjálsu samfélagi,“ segir í lýsingu hugveitunnar á sjálfri sér.

Einnig hefur verið greint frá því að AIER hefur fengið fjárhagslegan stuðning frá Charles Koch-stofnuninni. Charles er annar hinna þekktu Koch-bræðra, milljarðamæringa sem hafa á undanförnum áratugum látið mikið fé renna til rannsókna þar sem efast er um loftslagsbreytingar eða lítið gert út áhrifum þeirra, þvert á almennan samhljóm í vísindasamfélaginu um hið gagnstæða. Slíkum sjónarmiðum hefur verið hampað í skýrslum AIER um loftslagsmál.

En það þýðir ekki að vísa efnislegu inntaki Great Barrington-yfirlýsingarinnar á bug á þeim grunni, enda ekkert sem gefur til kynna að vísindamennirnir þrír og aðrir sem styðja við yfirlýsinguna séu að tala gegn betri vitund í þágu einhverra sérstakra hagsmuna, þó að vissulega hafi því verið velt upp í umræðunni hvers vegna virt vísindafólk á borð við höfunda yfirlýsingarinnar vill tengja skilaboð sín hugveitu sem hefur jafn skýra hugmyndafræðilega afstöðu og AIER.

John Snow-minnisblaðið

Yfirlýsingin hefur fengið yfir sig ýmsa efnislegra gagnrýni frá sérfræðingum sem telja hana ekki standast. Sú gagnrýni er ágætlega samandregin í annarri læknayfirlýsingu, John Snow-minnisblaðinu, sem birtist fyrst í læknisfræðiritinu Lancet miðvikudaginn 14. október. Þau sem að henni standa segjast vera að endurspegla vísindalega samhljóminn um hvernig skuli nálgast veiruna.

Þar er hjarðónæmisleiðin sem lögð er til í Great Barrington-yfirlýsingunni sögð „hættuleg rökvilla, óstudd vísindalegum sönnunargögnum“ og að allar áætlanir um að takast á við faraldurinn með því að treysta á hjarðónæmi vegna náttúrulegra sýkinga séu gallaðar.

Auglýsing

Bent er á að óheft útbreiðsla veirunnar á meðal yngra fólks hafi í för með sér hættu á mikilli sjúkdómsbyrði og dauðsföllum þvert á samfélagið. Til viðbótar kostnaðinum sem mældur er í mannslífum myndi þessi leið hafa áhrif á vinnuaflið sem heild og keyra getu heilbrigðiskerfa til þess að veita hefðbundna bráðaþjónustu og aðra þjónustu í kaf. 

Einnig er bent á að það eru engin sönnunargögn fyrir því að ónæmi gegn COVID-19 eftir sýkingu sé varanlegt og að landlæg útbreiðsla sem yrði afleiðing dvínandi ónæmis myndi ógna viðkvæmum hópum til framtíðar. Hjarðónæmisleiðin myndi þannig ekki stöðva COVID-19 faraldurinn, heldur leiða af sér síendutekna faraldra, „rétt eins og raunin var með marga smitsjúkdóma áður en bólusetning kom til sögunnar.“ 

Þá segir að flókið sé að skilgreina þá viðkvæmu hópa sem eigi að vernda sérstaklega á meðan að veirunni yrði leyft að grassera og bent á að viðkvæmt fólk geti verið allt að 30 prósent af heildaríbúafjöldanum á ákveðnum svæðum. „Langvarandi einangrun stórs hluta mannfjöldans er nær ómöguleg í framkvæmd og afar siðlaus,“ og því bætt við að sérstakar aðgerðir til að vernda viðkvæma hópa séu nauðsynlegar, en verði að takast í hendur við margþættar aðgerðir sem ná yfir samfélagið allt.

Við höfum ekki efni á truflunum sem grafa undan árangursríku viðbragði, það er bráðnauðsynlegt að við grípum til aðgerða án tafar á grundvelli vísindalegra sönnunargagna.

Í John Snow-minnisblaðinu eru ríki heims hvött til þess að grípa til margþættra aðgerða til þess að takast á við faraldurinn og lagfæra kerfin sem notuð eru til smitrakningar. Þá þurfi ekki að grípa til þess að skella öllu í lás. Bent er á ríki á borð við Japan, Víetnam og Nýja-Sjáland, svo einhver séu nefnd, hafi sýnt fram á að öflugt lýðheilsusvar geti stemmt stigu við útbreiðslu og leyft lífinu að nálgast það sem eðlilegt er.


„Við höfum ekki efni á truflunum sem grafa undan árangursríku viðbragði, það er bráðnauðsynlegt að við grípum til aðgerða án tafar á grundvelli vísindalegra sönnunargagna,“ segja sérfræðingarnir að baki John Snow-minnisblaðinu.

Þríeykið rýkur inn á ritvöllinn

Þau Alma D. Möller, Víðir Reynisson og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir ræða einnig um hjarðónæmishugmyndir í aðsendri grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag, 15. október. Það er þeirra mat að fórnarkostnaður við að fara leið hjarðónæmis verði „allt of hár“ og setja upp reikningsdæmi.„Smitstuðull veirunnar er talinn vera 2,5-6. Ef hann er 2,5 þurfa 60% þjóðarinnar að smitast til að ná hjarðónæmi, ef smitstuðull er 6, þá 83%. Ef 60% þjóðarinnar (219.000 manns) sýkjast þá gætu 7.000 einstaklingar þurft innlögn á sjúkrahús, um 1.750 innlögn á gjörgæsludeild og 660 látist, miðað við hlutfallstölur frá fyrstu bylgju. Ef veiran fengi að ganga nokkuð óáreitt er augljóst að heilbrigðiskerfið myndi engan veginn ráða við fjöldann og að þessar tölur yrðu mun hærri. Í nýju, finnsku spálíkani er gert ráð fyrir 88 þúsundum smita næstu tvo og hálfan mánuð hérlendis, ef engar sóttvarnaaðgerðir væru í gangi og myndu allt að 3.000 einstaklingar greinast daglega seinni hluta nóvember,“ skrifa þau Alma, Víðir og Þórólfur. 

Þau ræða Great Barrington-yfirlýsinguna sérstaklega í grein sinni og segja vert að nefna að líklega séu aldraðir og áhættuhópar sem þyrftu að halda sig alveg til hlés minnst fimmtungur Íslendinga, 20 prósent, lauslega áætlað.

Víðir, Þórólfur og Alma segja fórnarkostnaðinn við hjarðónæmisleiðina of háan.
Mikilvægt er að þjóðin standi áfram saman, þá mun okkur farnast best. Í ákalli um samstöðu felst þó ekki krafa um gagnrýnislausa umræðu, þvert á móti er mikilvægt að mismunandi sjónarmiðum sé velt upp þegar um er að ræða takmarkanir á borgaralegum réttindum.

„Óumdeilt þykir að harðar sóttvarnaaðgerðir geta verið skaðlegar og því hefur verið áhersla á að hafa sóttvarnaaðgerðir sem mildastar hérlendis. Þannig var lífið í landinu með næsta eðlilegum hætti áður en þriðja bylgjan hófst og grípa þurfti til hertra aðgerða til þess að fletja kúrfuna vegna álags á heilbrigðiskerfið. Það er vísbending um að leið Great Barrington-hópsins kunni að vera nánast óframkvæmanleg, ef vilji er til þess að halda innviðum heilbrigðiskerfisins starfandi,“ skrifar þríeykið. 

Þau segja nauðsynlegt að áfram verði unnið samkvæmt bestu þekkingu og reynslu og að áherslan verði áfram á einstaklingsbundnar sóttvarnir, vernd áhættuhópa, vandaða og samræmda upplýsingamiðlun og snörp viðbrögð þegar smit koma upp; snemmgreiningu, einangrun, smitrakningu og sóttkví ásamt sem minnst íþyngjandi, staðbundnum aðgerðum eins og þarf.

„Mikilvægt er að þjóðin standi áfram saman, þá mun okkur farnast best. Í ákalli um samstöðu felst þó ekki krafa um gagnrýnislausa umræðu, þvert á móti er mikilvægt að mismunandi sjónarmiðum sé velt upp þegar um er að ræða takmarkanir á borgaralegum réttindum. Bannfæring gagnrýnisradda er aðeins til þess fallin að sundra þeirri dýrmætu einingu sem við þörfnumst á þessum einstæðu og erfiðu tímum. Það er okkar bjargfasta skoðun að yfirvegun og samstaða er besta sóttvörnin,“ skrifar þríeykið.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar