Óléttan sem allir þrá en enginn þorir enn að fagna
Það treystir sér varla nokkur maður að segja það upphátt. Þó að hún sé mikil um sig. Þyngri á sér en venjulega. Þó að hún sé einmitt á réttum aldri. En, er hvíslað í þröngum hópi, getur það mögulega verið að hún sé ólétt?
Sjaldan hafa verið bundnar jafn miklar vonir við eina ljósmynd. Að minnsta kosti ekki meðal þeirra sem fylgjast með lífinu í sjónum undan vesturströndum Washington-ríkis. Það var Brittany Philbin sem náði henni. Hún var úti að sigla er vatnið fyrir framan hana fór allt í einu að rísa og risastór svört og hvít skepna birtist upp úr sjónum aðeins nokkrum metrum frá bátnum. Philbin smellti af í gríð og erg. Um hana fór unaðsstraumur. Þetta er einn af þeim, hugsaði hún. Einn úr hinum örsmáa stofni suðlægu, staðbundnu háhyrninganna sem hafa átt erfitt uppdráttar í mörg ár.
Suðlægu, staðbundnu háhyrningarnir halda til undan vesturströnd Kanada og Bandaríkjanna á hafsvæði á milli British Columbia og Washington-ríkis. Þeir lifa helst á laxi en hann er nú af skornum skammti á svæðinu af ýmsum ástæðum, m.a. að því er talið er vegna ofveiði, hávaðamengunar frá bátum og stíflna sem reistar hafa verið í ám í British Columbia.
Þegar háhyrningurinn var horfinn sjónum horfði Philbin undrandi á myndina í myndvélinni sinni. Var dýrið ekki helst til belgmikið? Hún sendi hana umsvifalaust til vinar síns sem fór þegar að grenslast fyrir um málið. Vel hefur verið fylgst með suðlægu, staðbundnu háhyrningunum síðustu ár. Þeir eru nú aðeins 74. Þetta eru þrjár fjölskyldur sem vísindamenn þekkja undir bókstöfunum J, K og L. Nokkrir vísindamenn sem þekkja vel til fengu myndina senda. Og hófu að grennslast fyrir um hver væri á myndinni. Þeir þekkja háhyrningana alla í sundur og hafa gefið þeim númer og nöfn en þetta var snúið. Því dýrið var snúið á myndinni. En myndin dugði til að bera kennsl á fyrirsætuna: Þetta var Star, í skrám vísindamanna þekkt undir heitinu J-46. Hún er að verða ellefu ára og því á besta aldri til að eignast afkvæmi.
En vísindamennirnir eru tregir til að staðfesta óléttuna. Þeir vilja kanna málið betur. Sjá Stjörnu með eigin augum, eða fá af henni fleiri myndir.
Ástæðan fyrir þessari tregðu er augljós. Suðlægu, staðbundnu háhyrningarnir fjölga sér hægt. Um árabil komu þeir ekki einum einasta kálfi á legg. Heimsbyggðin fylgdist hrygg með því er ein kýrin úr hópnum,Tahlequah, synti um með hræ kálfs síns í sautján sólarhringa áður en hún sleppti af því takinu, sennilega örmagna. Hann hafði aðeins lifað í hálftíma. Háhyrningskýr ýta kálfum sínum upp á yfirborðið eftir fæðinguna. Þeir verða að anda. En hjarta þess stutta hætti að slá. Móðirin var hins vegar ekki tilbúin að gefast upp.
Þetta var árið 2018.
En hin skýringin á því að vísindamennirnir vilja vera algjörlega vissir í sinni sök áður en þeir gefa út þungunarvottorð fyrir Stjörnu er sú að fyrr á þessu ári kom í ljós að Tahlequah var ólétt á ný. Þó að það hafi vakið gríðarlegan fögnuð voru allir passlega bjartsýnir. Reynsla síðustu ára hefur sýnt að litlu kálfarnir eiga svo erfitt uppdráttar. Þeir óttuðust hvaða afleiðingar það myndi hafa á Tahlequah ef hún myndi aftur missa kálf.
En þessar áhyggjur voru ástæðulausar. Því í byrjun september fæddi Tahlequah kálfinn sinn, heilbrigt og orkumikið lítið karldýr. Og enn lifir hann og syndir við hlið móður sinnar og annarra í J-fjölskyldunni, nokkuð brattur.
Þetta voru hins vegar ekki einu góðu fréttirnar af suðlægu, staðbundnu háhyrningunum sem bárust í haust. Í lok september, innan við mánuði eftir að Tahlequah eignaðist sinn kálf, fæddi önnur kýr í J-fjölskyldunni, Eclipse (J-41), kálf. Rannsóknarmiðstöðin í Seattle sem stýrir eftirliti og rannsóknum á háhyrningahópnum greindi frá þessu skömmu eftir fæðinguna en lét fylgja að of snemmt væri að fagna þar sem kálfurinn hefði fæðst innan hafsvæðis Kanada og þó að mikið og gott samstarf væri við vísindamenn þar væri ekki hægt að kanna málið betur vegna ferðatakmarkana út af kórónuveirufaraldrinum.
Náttúrufræðingurinn Talia Goodyear varð vitni að undarlegri hegðun Eclipse í lok september. Hún var stöðugt að koma upp á yfirborðið og virtist ýta einhverju á undan sér. Goodyear tók andköf. Var harmleikurinn að endurtaka sig? Var Eclipse með dauðan kálf sinn á sundi? En svo sá hún litla kálfinn koma sjálfan upp til að anda. Móðir hans hafði aðeins verið að hjálpa honum að taka fyrsta andardráttinn. Hann virtist ætla að plumma sig.
Vísindamennirnir hjá rannsóknarmiðstöðinni segja að þó að Stjarna virðist sannarlega ólétt þá vilji þeir ekki staðfesta það strax.
Stjarna missti móður sína fyrir fjórum árum. Síðan þá hefur hún fylgt frænku sinni Tahlequah. Hún mun því fá stuðning reyndrar móður við uppeldið en háhyrningskýr bæði aðstoða hverja aðra í fæðingu og við uppeldi kálfanna í fjölskyldunni.
Háhyrningar eru greindar og félagslyndar skepnur. Þeir mynda sterk tengsl sín á milli, sérstaklega við afkvæmi sín. Margir vísindamenn telja engan vafa leika á að þeir geti orðið sorgmæddir og að sama skapi glaðir þegar allt leikur í lyndi.
Afkoma háhyrninganna byggir á fæðuframboði. Þeirra helsta fæða á þessum slóðum er Chinook-laxinn en það eru fleiri en háhyrningar sem eru sólgnir í hann – aðallega menn. Laxinn hefur líka breytt hegðun sinni vegna stíflna sem reistar hafa verið í ám sem hann áður gekk upp í. Einnig er talið að hann eigi sjálfur erfiðara en áður að finna fæðu. Þetta er hin margumtalaða fæðukeðja sem búið er að spilla – sem endar að því að stóru dýrin á toppnum, háhyrningarnir í þessu tilviki – tapa í lífsbaráttunni.
Það er svo annað sem hefur áhrif á líf þeirra. Mengun, bæði í sjónum sjálfum og vegna hávaða. Hávaðinn stafar af mikilli skipaumferð um búsvæði þeirra sem hefur færst í aukana síðustu áratugi. Skipin menga einnig sjóinn, heimilið þeirra.
Skipaumferð um svæðið hefur hins vegar dregist lítillega saman síðustu mánuði. Það er tvennt sem þar kemur til. Í fyrsta lagi mikil umfjöllun um áhrif umferðarinnar á þessar stórkostlegu skepnur og aðgerðir yfirvalda til að vernda þær fyrir áreiti og í öðru lagi blessuð kórónuveiran. Færri skemmtibátar eru á ferð.
Það er meira næði á heimili háhyrninganna.