NOAA

Óléttan sem allir þrá en enginn þorir enn að fagna

Það treystir sér varla nokkur maður að segja það upphátt. Þó að hún sé mikil um sig. Þyngri á sér en venjulega. Þó að hún sé einmitt á réttum aldri. En, er hvíslað í þröngum hópi, getur það mögulega verið að hún sé ólétt?

Sjaldan hafa verið bundnar jafn miklar vonir við eina ljós­mynd. Að minnsta kosti ekki meðal þeirra sem fylgj­ast með líf­inu í sjónum undan vest­ur­ströndum Was­hington-­rík­is. Það var Britt­any Phil­bin sem náði henni. Hún var úti að sigla er vatnið fyrir framan hana fór allt í einu að rísa og risa­stór svört og hvít skepna birt­ist upp úr sjónum aðeins nokkrum metrum frá bátn­um. Phil­bin smellti af í gríð og erg. Um hana fór unaðs­straum­ur. Þetta er einn af þeim, hugs­aði hún. Einn úr hinum örsmáa stofni suð­lægu, stað­bundnu háhyrn­ing­anna sem hafa átt erfitt upp­dráttar í mörg ár. 

Suð­lægu, stað­bundnu háhyrn­ing­arnir halda til undan vest­ur­strönd Kanada og Banda­ríkj­anna á haf­svæði á milli Brit­ish Col­umbia og Was­hington-­rík­is. Þeir lifa helst á laxi en hann er nú af skornum skammti á svæð­inu af ýmsum ástæð­um, m.a. að því er talið er vegna ofveiði, hávaða­meng­unar frá bátum og stíflna sem reistar hafa verið í ám í Brit­ish Col­umbia.Auglýsing

Þegar háhyrn­ing­ur­inn var horf­inn sjónum horfði Phil­bin undr­andi á mynd­ina í mynd­vél­inni sinni. Var dýrið ekki helst til belg­mik­ið? Hún sendi hana umsvifa­laust til vinar síns sem fór þegar að grensl­ast fyrir um mál­ið. Vel hefur verið fylgst með suð­lægu, stað­bundnu háhyrn­ing­unum síð­ustu ár. Þeir eru nú aðeins 74. Þetta eru þrjár fjöl­skyldur sem vís­inda­menn þekkja undir bók­stöf­unum J, K og L. Nokkrir vís­inda­menn sem þekkja vel til fengu mynd­ina senda. Og hófu að grennsl­ast fyrir um hver væri á mynd­inni. Þeir þekkja háhyrn­ing­ana alla í sundur og hafa gefið þeim númer og nöfn en þetta var snú­ið. Því dýrið var snúið á mynd­inni. En myndin dugði til að bera kennsl á fyr­ir­sæt­una: Þetta var Star, í skrám vís­inda­manna þekkt undir heit­inu J-46. Hún er að verða ell­efu ára og því á besta aldri til að eign­ast afkvæmi.

En vís­inda­menn­irnir eru tregir til að stað­festa ólétt­una. Þeir vilja kanna málið bet­ur. Sjá Stjörnu með eigin aug­um, eða fá af henni fleiri mynd­ir. Er Stjarna ólétt? Myndin sem Brittany Philbin náði af henni í vikunni virðist benda til þess.
Brittany Philbin

Ástæðan fyrir þess­ari tregðu er aug­ljós. Suð­lægu, stað­bundnu háhyrn­ing­arnir fjölga sér hægt. Um ára­bil komu þeir ekki einum ein­asta kálfi á legg. Heims­byggðin fylgd­ist hrygg með því er ein kýrin úr hópn­um,Ta­hlequ­ah, synti um með hræ kálfs síns í sautján sól­ar­hringa áður en hún sleppti af því tak­inu, senni­lega örmagna. Hann hafði aðeins lifað í hálf­tíma. Háhyrn­ings­kýr ýta kálfum sínum upp á yfir­borðið eftir fæð­ing­una. Þeir verða að anda. En hjarta þess stutta hætti að slá. Móð­irin var hins vegar ekki til­búin að gef­ast upp. 

Þetta var árið 2018. 

En hin skýr­ingin á því að vís­inda­menn­irnir vilja vera algjör­lega vissir í sinni sök áður en þeir gefa út þung­un­ar­vott­orð fyrir Stjörnu er sú að fyrr á þessu ári kom í ljós að Tahlequah var ólétt á ný. Þó að það hafi vakið gríð­ar­legan fögnuð voru allir pass­lega bjart­sýn­ir. Reynsla síð­ustu ára hefur sýnt að litlu kálfarnir eiga svo erfitt upp­drátt­ar. Þeir ótt­uð­ust hvaða afleið­ingar það myndi hafa á Tahlequah ef hún myndi aftur missa kálf. 

Hafrannsóknarstofnun Bandaríkjanna staðfesti með drónamyndum í sumar að Tahlequah væri ólétt.
NOAA

En þessar áhyggjur voru ástæðu­laus­ar. Því í byrjun sept­em­ber fæddi Tahlequah kálfinn sinn, heil­brigt og orku­mikið lítið karl­dýr. Og enn lifir hann og syndir við hlið móður sinnar og ann­arra í J-fjöl­skyld­unni, nokkuð bratt­ur. 

Þetta voru hins vegar ekki einu góðu frétt­irnar af suð­lægu, stað­bundnu háhyrn­ing­unum sem bár­ust í haust. Í lok sept­em­ber, innan við mán­uði eftir að Tahlequah eign­að­ist sinn kálf, fæddi önnur kýr í J-fjöl­skyld­unni, Eclipse (J-41), kálf. Rann­sókn­ar­mið­stöðin í Seattle sem stýrir eft­ir­liti og rann­sóknum á háhyrn­inga­hópnum greindi frá þessu skömmu eftir fæð­ing­una en lét fylgja að of snemmt væri að fagna þar sem kálf­ur­inn hefði fæðst innan haf­svæðis Kanada og þó að mikið og gott sam­starf væri við vís­inda­menn þar væri ekki hægt að kanna málið betur vegna ferða­tak­mark­ana út af kór­ónu­veiru­far­aldr­in­um. 

Nátt­úru­fræð­ing­ur­inn Talia Goodyear varð vitni að und­ar­legri hegðun Eclipse í lok sept­em­ber. Hún var stöðugt að koma upp á yfir­borðið og virt­ist ýta ein­hverju á undan sér. Goodyear tók and­köf. Var harm­leik­ur­inn að end­ur­taka sig? Var Eclipse með dauðan kálf sinn á sundi? En svo sá hún litla kálfinn koma sjálfan upp til að anda. Móðir hans hafði aðeins verið að hjálpa honum að taka fyrsta and­ar­drátt­inn. Hann virt­ist ætla að plumma sig.Tahlequah og fjörkálfurinn hennar.
NOAA

Vís­inda­menn­irnir hjá rann­sókn­ar­mið­stöð­inni segja að þó að Stjarna virð­ist sann­ar­lega ólétt þá vilji þeir ekki stað­festa það strax. 

Stjarna missti móður sína fyrir fjórum árum. Síðan þá hefur hún fylgt frænku sinni Tahlequ­ah. Hún mun því fá stuðn­ing reyndrar móður við upp­eldið en háhyrn­ings­kýr bæði aðstoða hverja aðra í fæð­ingu og við upp­eldi kálf­anna í fjöl­skyld­unn­i. 

Háhyrn­ingar eru greindar og félags­lyndar skepn­ur. Þeir mynda sterk tengsl sín á milli, sér­stak­lega við afkvæmi sín. Margir vís­inda­menn telja engan vafa leika á að þeir geti orðið sorg­mæddir og að sama skapi glaðir þegar allt leikur í lyndi.

Afkoma háhyrn­ing­anna byggir á fæðu­fram­boði. Þeirra helsta fæða á þessum slóðum er Chin­ook-­lax­inn en það eru fleiri en háhyrn­ingar sem eru sólgnir í hann – aðal­lega menn. Lax­inn hefur líka breytt hegðun sinni vegna stíflna sem reistar hafa verið í ám sem hann áður gekk upp í. Einnig er talið að hann eigi sjálfur erf­ið­ara en áður að finna fæðu. Þetta er hin marg­um­tal­aða fæðu­keðja sem búið er að spilla – sem endar að því að stóru dýrin á toppn­um, háhyrn­ing­arnir í þessu til­viki – tapa í lífs­bar­átt­unni.Auglýsing

Það er svo annað sem hefur áhrif á líf þeirra. Meng­un, bæði í sjónum sjálfum og vegna hávaða. Hávað­inn stafar af mik­illi skipa­um­ferð um búsvæði þeirra sem hefur færst í auk­ana síð­ustu ára­tugi. Skipin menga einnig sjó­inn, heim­ilið þeirra. 

Skipa­um­ferð um svæðið hefur hins vegar dreg­ist lít­il­lega saman síð­ustu mán­uði. Það er tvennt sem þar kemur til. Í fyrsta lagi mikil umfjöllun um áhrif umferð­ar­innar á þessar stór­kost­legu skepnur og aðgerðir yfir­valda til að vernda þær fyrir áreiti og í öðru lagi blessuð kór­ónu­veir­an. Færri skemmti­bátar eru á ferð. 

Það er meira næði á heim­ili háhyrn­ing­anna. Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar