EPA

„Klasi 5“ ógnar lýðheilsu dönsku þjóðarinnar

Þegar í sumar greindist minkur á dönsku búi með kórónuveiruna. Í haust var stökkbreytt afbrigði minkaveirunnar greint en það var ekki fyrr en í fyrradag að ákveðið var að aflífa alla minka og einangra sveitarfélögin þar sem það hefur greinst í mönnum.

Ekki er grunur um að kórónuveirusmit hafi komið upp á minkabúum á Íslandi en í ljósi smita af stökkbreyttu afbrigði kórónuveiru úr minkum í fólk í Danmörku ætlar Matvælastofnun að hefja skimun meðal dýranna fyrir veirunni á íslenskum minkabúum.


Þegar fregnir bárust af kórónuveirusmiti úr fólki í minka í sumar sendi Matvælastofnun tilmæli til íslenskra minkabænda um hertar sóttvarnir á búunum og að einstaklingar með sjúkdómseinkenni haldi sig fjarri þeim. Tilkynna skal grun um veikindi í minkum til Matvælastofnunar. Reglulega hefur verið minnt á þessi tilmæli en engar tilkynningar hafa borist.


Auglýsing

Danir hafa ákveðið að aflífa alla minka á búum í landinu, um 15-17 milljónir talsins, vegna kórónuveirusmita sem bárust úr minkum í fólk. Um stökkbreytt afbrigði veirunnar er að ræða sem talið er að hafi borist upprunalega úr fólki í minka. Hætta er á að þau bóluefni sem eru í þróun gegn kórónuveirunni virki ekki á stökkbreytt afbrigði veirunnar.


214 manns á Jótlandi hafa greinst með kórónuveiru sem rakin er til minkanna frá því í sumar og hafa dönsk yfirvöld hert aðgerðir í norðurhluta landsins af þessum sökum. Eru íbúar sjö sveitarfélaga á Norður-Jótlandi beðnir að halda sig innan sinna sveitarfélaga og sömuleiðis eru aðrir beðnir að ferðast ekki til þeirra. Íbúar í sveitarfélögunum sjö verða allir skimaðir fyrir veirunni.


Sýkingin á svæðinu er kölluð „klasi 5“ og segir forsætisráðherrann Mette Frederiksen „örlagastund“ runna upp, rétt eins og hún sagði um 11. mars síðastliðinn er gripið var til hörðustu aðgerða sem þá höfðu þekkst í kórónuveirufaraldrinum.


Minkalæður eignast um 65 þúsund hvolpa árlega á íslenskum minkabúum.
EPA

Danir eru stærstu framleiðendur minkaskinna í heiminum og á dönskum búum eiga um 40 prósent heimsframleiðslunnar uppruna sinn. Í fyrri bylgjum COVID-19 voru um 1,2 milljónir dýra aflífaðar á um 400 búum en í Danmörku eru 1.139 minkabú og þar starfa um 2.600 manns.


Tage Pedersen, formaður sambands loðdýraframleiðenda í Danmörku, segir að aðgerðirnar nú muni ganga að greininni dauðri. „Þetta er svartur dagur fyrir okkur öll. Auðvitað viljum við ekki valda öðrum faraldri en ákvörðun stjórnvalda er skelfileg fyrir okkar iðnað í Danmörku.“ Sagði hann aðgerðirnar í raun marka „endalok skinnaiðnaðarins“.


Frá júní til nóvember


Í júní greindist kórónuveiran í mink í Danmörku. Allir minkar á því búi voru aflífaðir. Fleiri tilfelli greindust, aðallega á Norður-Jótlandi en einnig á Vestur-Jótlandi, bæði í minkum og mönnum.


Í september var „sérstakt minkaafbrigði“ veirunnar greint í fólki á Norður-Jótlandi. Meðal sýktra var barn sem tengdist einu búinu.


Milljónir minka verða felldar í Danmörku á næstu dögum.
EPA

Tveimur vikum síðar var hið nýja afbrigði veirunnar greint í fólki og minkum á sex minkabúum. Nokkrum dögum síðar skrifuðu sérfræðingar við Háskólann í Kaupmannahöfn skýrslu þar sem fram kom að hið stökkbreytta afbrigði veirunnar gæti „hugsanlega“ haft í för með sér að bóluefni gegn COVID-19 virki ekki á það.


Á blaðamannafundi 1. október sagði Kåre Mølbak, framkvæmdastjóri hjá dönsku sóttvarnastofnuninni, að það væri hættulegra að vera minkaræktandi en að starfa í heilbrigðiskerfinu hvað smithættu varðaði. „Við vitum fyrir víst að menn geta smitað minka og minkarnir svo menn.“ Smit hafði þá verið staðfest á 41 minkabúi.


Um miðjan október kom það í fyrsta sinn fram opinberlega að hið stökkbreytta afbrigði gæti verið ónæmt fyrir þeim bóluefnum sem eru í þróun. Áhyggjur yfirvalda af því að afbrigðið gæti orðið „lýðheilsuógn“ voru orðnar miklar. Í áhættumati heilbrigðisráðuneytisins var komist að þeirri niðurstöðu að „áframhaldandi minkarækt á meðan faraldur COVID-19 gengur yfir hafi í för með sér verulega áhættu“.


Í fyrradag tilkynnti svo forsætisráðherrann loks að ákveðið hefði verið að fella alla minka í landinu.


Auglýsing

Hollendingar felldu minka í 68 búum í júní og tilkynntu í kjölfarið að lokun allra búa fyrir fullt og allt, sem stefnt var að árið 2024, hefði verið flýtt til vorsins 2021. Rannsókn leiddi í ljós að um helmingur starfsmanna á minkabúum í Hollandi hafði smitast af afbrigði kórónuveirunnar sem var að finna í minkunum og sú ályktun var dregin að þeir hefðu smitast af dýrunum.

Banvænt gas


Níu minkabú eru enn starfrækt á Íslandi. Á þeim eru 15 þúsund eldisdýr og eignast læðurnar um 65 þúsund hvolpa á ári. Þegar þeir hafa náð ákveðnum aldri eru þeir drepnir í sérútbúnum aflífunarkössum með banvænu gasi. Er það gert í samræmi við kröfur í reglugerð um vernd dýra við aflífun. Að því loknu eru þeir „pelsaðir“ eins og það er kallað, og skrokkum þeirra fargað, t.d. með urðun.


„Ef í ljós kæmi smit af COVID-19 á íslensku minkabúi yrðu aðgerðir ákveðnar í samráði við sóttvarnaryfirvöld,“ segir Sigríður Gísladóttir, dýralæknir loðdýrasjúkdóma hjá MAST, við Kjarnann. Spurð hvort skrokkunum verði fargað án þess að skinnin verði tekin segir hún að upplýsingar séu enn ekki fyrirliggjandi um hvaða ráðstafanir verða hjá Dönum varðandi hræ af sýktum dýrum „en að öllum líkindum verður þeim fargað líkt og öðrum sóttmenguðum dýraafurðum“.


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar