Baldur Kristjánsson

Borgarstjóri: Getum ekki beðið – breyta verður lögum og tryggja öryggi leigjenda

„Eldsvoðinn á Bræðraborgarstíg hafði mjög mikil áhrif á mig persónulega og ég fann fyrir mikilli frústrasjón og sorg,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og stjórnarformaður slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. „Hvernig getur svona gerst?“ Þrátt fyrir húsnæðisátak í Reykjavík sé veruleikinn engu að síður sá að fólk búi í húsnæði sem ekki er ætlað til búsetu.

 Fjölmargar spurningar hafa leitað á mig eftir eldsvoðann á Bræðraborgarstíg. Og ég held að það sé algjört lágmark að í kjölfar svona atburðar sé ekki aðeins staldrað við þennan hörmulega bruna og hvort um íkveikju var að ræða – og ábyrgð eigenda sem er alveg skýr og afdráttarlaus í lögum þegar eldvarnir eru annars vegar – heldur verði farið yfir allt regluverk og spurt spurninga. Er þetta svona sem við viljum hafa þetta? Að ekki sé hægt að hafa eftirlit með íbúðarhúsnæði sem er í langtímaleigu? Að eftirlitsaðilar séu algjörlega háðir samstarfi við eigendur þegar komi að eldvarnareftirliti? Mitt svar er afdráttarlaust nei.“

Þetta segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, um brunann sem varð á Bræðraborgarstíg 1 í sumar. Þrjár ungar manneskjur frá Póllandi, sem allar voru hingað komnar til að vinna, létust í eldsvoðanum. Tveir slösuðust alvarlega og fjöldi fólks missti húsnæði sitt. Húsið var í eigu félags sem leigði herbergi þess út, aðallega til erlendra verkamanna. Kjarninn birti nýverið umfangsmikla úttekt um brunann þar sem m.a. var rætt við eftirlifendur sem flestir misstu allt sitt og hafa verið að reyna að fóta sig í tilverunni á ný eftir áfallið sem mun fylgja þeim allt lífið.


„Þessi atburður var algjörlega skelfilegur,“ segir Dagur. „Í mínu minni hafa ekki farist svona margir í einum eldsvoða í Reykjavík. Eldsvoðinn hafði mjög mikil áhrif á mig persónulega og ég fann fyrir mikilli frústrasjón og sorg. Hvernig getur svona gerst?  Ég sem borgarstjóri er einnig stjórnarformaður slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu. Í gegnum árin höfum við fjallað töluvert um búsetu í óleyfishúsnæði á atvinnusvæðum. Við erum í miklu uppbyggingarátaki í húsnæðismálum en engu að síður er veruleikinn sá að fjöldi fólks hefur búið í húsnæði sem er ekki ætlað til búsetu.

Við höfum staðið frammi fyrir mjög erfiðri spurningu í því efni. Á meðan það er ekki til nægjanlegur fjöldi íbúða, hvað á að gera með búsetu í óleyfishúsnæði? Leiðin sem við höfum farið er að herða eftirlit með atvinnuhúsnæði með það að markmiði að bæta öryggi þeirra sem þar kunna að búa.“ 

Margt svipar til aðstæðna í óleyfishúsnæði

Þegar kemur að atvinnuhúsnæði er afl eldvarnaeftirlits býsna skýrt. Slíkt húsnæði er hægt að skoða, hægt er að gera kröfur um úrbætur, hægt er að loka því, beita sektum og kæra til lögreglu í alvarlegustu tilvikunum. „Og allt þetta hefur slökkviliðið verið að gera á undanförnum árum,“ segir Dagur.

„En það sem maður situr svolítið eftir með í kjölfar brunans á Bræðraborgarstíg, þar sem margt svipaði til þeirra aðstæðna sem er að finna í óleyfishúsnæði og búsetu í atvinnuhúsnæði, er að þar sem um íbúðarhúsnæði var að ræða er ábyrgðin samkvæmt lögum og reglugerðum fyrst og fremst eigandans. Löggjafinn nánast ætlast ekki til aðkomu eldvarnaeftirlits og slökkviliðs þegar íbúðarhúsnæði er annars vegar nema þegar sótt er um að gera breytingar á eldra húsnæði.   

Utan þess eru eftirlitsaðilar algjörlega háðir samstarfi við eigendur íbúðarhúsnæðis, jafnvel þótt að þar fari fram umfangsmikil leigustarfsemi og að eigandinn búi einhvers staðar allt annars staðar. Þaðan þarf beiðni um skoðun á húsnæðinu að koma, frá eiganda eða húsráðendum. Án slíkrar beiðni þarf slökkviliðið að krefjast dómsúrskurðar til að komast inn en það er flókið, tafsamt, dýrt og viðamikið ferli.“

Auglýsing

Löggjöfin um gististaði, þ.e. skammtímaleigu, var tekin til gagngerrar endurskoðunar fyrir nokkrum árum. Nýr veruleiki með tilkomu heimagistingar á höfuðborgarsvæðinu og víðar kallaði á uppstokkun. „En við erum hins vegar enn með umhverfi í eldvörnum og húsaleigulögum sem gerir eiginlega aðeins ráð fyrir því að fólk leigi frá sér eitt herbergi í íbúðinni sinni, eina hæð í húsinu sínu eða eitthvað í þá veru. Og að eigandinn búi sjálfur á staðnum. Það má segja að ekki sé gert ráð fyrir því að einhver stundi þá atvinnustarfsemi að leigja út til mjög margra í langtímaleigu eða að koma hópi fólks fyrir í íbúðarhúsnæði, til dæmis erlendum verkamönnum, án þess að eigandinn búi þar sjálfur.“  

Dagur segir að svo virðist sem hugsunin að baki þessari gömlu löggjöf sé sú að eigandinn búi sjálfur í því húsnæði sem hann leigir út að hluta og hljóti því að huga að öryggi húsnæðisins. „En að mörgu leyti finnst mér að sömu sjónarmið hljóti að eiga við um skammtíma gistingu, sem skýr rammi er nú kominn utan um, og íbúðarhúsnæði sem er í útleigu til langs tíma ef eigandinn býr þar ekki sjálfur.“ 

Að mati Dags þarf að endurskoða allt þetta lagaumhverfi. Ekki sé nægjanlegt að frumskyldan og ábyrgðin sé hjá húseiganda. Einnig þurfi að huga að því með hvaða hætti réttindi og skyldur eftirlitsaðila eigi að vera gagnvart íbúðarhúsnæði almennt og leiguhúsnæði sérstaklega. 


Við getum ekki beðið eftir því að aukin uppbygging fjölbreytts almenns og félagslegs húsnæðis leysi þessi mál sem snúa að öryggi leigjenda. Sagan hefur því miður kennt okkur það.
Brunarústirnar á lóðinni við Bræðraborgarstíg 1 standa enn.
Golli

Fyrir fimm árum sagði heilbrigðisfulltrúi Reykjavíkur í viðtali að hann hefði ekki heimildir til að skoða aðbúnað íbúa á Bræðraborgarstíg 1 en þá hafði fyrrverandi leigjandi í húsinu lýst þeim slæmu aðstæðum sem hann bjó þar við. 

Hvað hefur verið gert í þessum efnum síðustu fimm ár fyrst heimildir yfirvalda til að skoða íbúðarhúsnæði, sérstaklega það sem er í útleigu, eru ekki enn fyrir hendi?

„Á þessum fimm árum hefur verið farið í mikla vinnu er lítur að gististöðum og því að skapa lagaumhverfi utan um Airbnb og aðra skammtímagistingu. Þar hefur mjög margt verið fært til betri vegar en þegar kemur að langtímaleigu og íbúðarhúsnæði og eldvarna-, heilbrigðis- og byggingareftirliti með því hefur frekar lítið breyst. Mér finnst mjög brýnt, að þegar niðurstaða rannsóknar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á brunanum á Bræðraborgarstíg liggur fyrir, hafi sú stofnun forystu í því að fara yfir þetta regluverk með það að meginmarkmiði að tryggja öryggi leigjenda. Ég vil að þú eigir að geta treyst því þegar þú tekur herbergi eða íbúð á langtímaleigu að þar sé búið að huga að eldvörnum og öryggi, eða þú eigir að geta með auðveldum hætti kallað eftir eldvarnarskoðun, á kostnað leigusala, þér að kostnaðarlausu.  

Þessi staða, bæði þeirra sem leigja í íbúðarhúsnæði og í óleyfishúsnæði, hefur þróast mjög hratt á undanförnum árum. Þetta tiltekna mál, bruninn á Bræðraborgarstíg, sýnir að löggjöfin og regluverkið hefur ekki náð að taka utan um þennan veruleika. Athyglin hefur verið á atvinnuhúsnæðinu og óleyfisbúsetu þar en síður á íbúðarhúsnæði og það er eitt af því sem þetta mál verður að vekja alla til umhugsunar um.“


Auglýsing

En hvernig skapaðist þessi húsnæðisskortur í höfuðborginni sem hefur á síðustu árum orðið til þess að óleyfisbúseta hefur færst í vöxt?

„Reykjavík dró vagninn í hagvexti og uppgangi eftir hrun. Ferðaþjónustan gerir mikið út frá Reykjavík og borgin varð auk þess mjög eftirsóttur áfangastaður ferðamanna. Allt þetta skapaði margfaldan þrýsting á húsnæðismarkaðinn. Á sama tíma er íbúum að fjölga, fjölmargt fólk kemur svo til lengri eða skemmri tíma til að vinna á Íslandi og það vill ódýrt húsnæði. Hinn hlutinn af þessum þrýstingi á húsnæðismarkaðinn er svo vöxtur í Airbnb og annarri skammtímagistingu. 

Allir þessir kraftar hafa verið að verki á sama tíma. Það var því ekkert óeðlilegt að við hjá borginni kölluðum eftir skýrari ramma utan um ferðamannagistinguna til þess að draga úr þrýstingi á húsnæðismarkaðinn. Það tók tíma að breyta lögum en þetta hefur gengið eftir allra síðustu ár þó enn sé þar verk að vinna.“

Ákalli eftir fjölbreyttara húsnæði mætt af vantrú

Þegar horft er á uppbyggingu húsnæðismarkaðar, og þá sérstaklega á uppbyggingu fjölbreytts húsnæðismarkaðar, hefur Reykjavík að sögn Dags skorið sig mjög úr miðað við önnur sveitarfélög. „Hér er verið að fjölga félagslegum íbúðum miklu hraðar en annars staðar og við erum að vinna með uppbyggingarfélögum verkalýðshreyfingarinnar á miklu stærri skala. Einnig erum við eina sveitarfélagið sem er að byggja hundruð stúdentaíbúða, íbúðir fyrir aldraða og svo fyrir almenna markaðinn. 

Ekki má svo gleyma því að fyrst þegar við fórum að kalla eftir aukinni húsnæðisuppbyggingu og eftir fleiri litlum og meðalstórum íbúðum, þá var okkur mætt af vantrú af uppbyggingaraðilum og bönkum sem lögðu höfuðáherslu á að koma stórum eignum í útjaðri höfuðborgarsvæðisins í verð. Okkur tókst hins vegar að snúa algjöru frosti í uppbyggingu í stærsta uppbyggingarskeið í sögu borgarinnar. Þetta mikla uppbyggingarátak mun bæta stöðuna hjá mjög mörgum en það þarf að byggja áfram af miklum krafti. Það tekur tíma. Og við getum ekki beðið eftir því að aukin uppbygging fjölbreytts almenns og félagslegs húsnæðis leysi þessi mál sem snúa að öryggi leigjenda. Sagan hefur því miður kennt okkur það.“

Borgastjóri segir einnig þörf á að skoða lagarammann, réttindi fólks, réttindi leigjenda, skyldur eftirlitsaðila og réttindi þeirra til að rækja þær skyldur gagnvart öllum tegundum húsnæðis. „Þar staðnæmist ég sérstaklega við þessa tegund leiguhúsnæðis þar sem eigendur búa ekki sjálfir.“

Öll herbergi Bræðraborgarstígs 1 voru í útleigu en eigandi hússins bjó ekki á staðnum. Dagur vill lög og reglur um slíka atvinnustarfsemi í íbúðarhúsnæði.
Golli


Að sögn Dags tengist þetta síðan öðru stóru og brýnu máli sem varðar réttindi fólks og sérstaklega innflytjenda á vinnumarkaði. „Við þurfum að tryggja þau réttindi miklu betur og meðal annars það að dvalarleyfi byggi ekki á ráðningasambandi við einn tiltekinn vinnuveitenda. Þarna þarf stefnubreytingu og samtal við verkalýðshreyfingu og atvinnulífið. Veik staða á einu sviði, eins og á vinnumarkaði, getur nefnilega leitt af sér veika stöðu á öðru sviði, eins og á leigumarkaði. Það er í það minnsta augljóst í þeim tilvikum sem atvinnurekandi og leigusali er einn og sami aðili.“ 

Frá Hvítá til Hvítár

Dagur segir að mörg sveitarfélög megi gera betur þegar kemur að því að byggja fjölbreytt húsnæði. „Í því felst enginn dómur um annarra störf heldur er ég einfaldlega að vísa til greiningar á þörf. Ég held að það sé ekki betra fyrir samfélagið að það sé fyrst og fremst Reykjavík sem sé að byggja húsnæði fyrir alla tekjuhópa. Allt stór-höfuðborgarsvæðið, í raun frá Hvítá til Hvítár, þarf að hugsa sem eina heild í þessu sambandi. Og allir á þessu svæði þurfa að setja fram skýra sýn um hvernig við sjáum þetta fyrir okkur út frá ýmsum þáttum; út frá húsnæðismálum, út frá þeim sem eru á jaðrinum í samfélaginu, í samhengi við samgöngur og kostnað fólks í því sambandi sem og umhverfisþáttinn.“ 


Á skilti við Bræðrarborgarstíg 1 er minnt á að allir hafi sína sögu að segja, sínar tilfinningar og sín réttindi.
Golli

Finnst þér þetta komið á dagskrá hjá öllum þessum sveitarfélögum?

„Mér fannst mikið framfaraskref þegar sett var í lög að sveitarfélögum bæri að gera húsnæðisáætlanir. Fleiri sveitarfélög eru núna að leggja kerfisbundið mat á húsnæðisþarfir og setja fram sín plön. Þetta hefur borgin gert í áraraðir. Það sem vantar hins vegar er að allar þessar húsnæðisáætlanir séu lagðar saman og skoðað til dæmis hvort að það geti verið að það sé Reykjavík sem sé fyrst og fremst að byggja af nægilegum krafti fyrir stóra hópa á húsnæðismarkaði. Það er ótvírætt staðan í dag. Og þá má hugsa hvort að það þurfi að setja inn einhverja hvata fyrir önnur sveitarfélög eða gefa út tilmæli til þeirra til að bæta úr því.

Þó að við tölum oft um húsnæðismarkað þá er húsnæði líka grunnþörf og í raun mannréttindi. Og við sjáum það svo oft hjá einstaklingum sem lenda á jaðrinum, lenda í miklu tekjufalli eða eru í neyslu, að ef þeir hafa ekki öruggt þak yfir höfuðið eru þeir svo berskjaldaðir og varnarlausir gagnvart svo mörgu öðru. Það tengist auðvitað umræðunni um erlent verkafólk. Fólk sem talar ekki tungumálið, fær ekki upplýsingar um réttindi sín. Þarna mættum við á mörgum sviðum líka gera betur.“


Auglýsing

Var nóg gert að þínu mati í viðbrögðum borgarinnar gagnvart því fólki sem lifði brunann af en missti heimili sitt og aleiguna?

„Það er auðvitað góð spurning. Rauði krossinn veitir fyrstu hjálp og hefur verið í frábæru samstarfi við slökkviliðið í mörgum brunum árum saman. Þeir hafa þó allir verið minni og ekki eins afdrifaríkir. Það sem gerist yfirleitt í eldsvoðum á Íslandi er að eftir fyrstu hjálp í sólarhring eða tvo er fólk gripið af sínu félagslega neti í samfélaginu. En í þessu tilviki var því ekki til að dreifa. Þannig að Þjónustumiðstöð miðborgar steig inn á virkari hátt en í öðrum brunum og veitti meiri aðstoð, til dæmis húsnæðisstuðning í tvær vikur, og reyndi að komast í samband við alla. Það hefði verið mjög gott að gera það strax í upphafi og átta sig fyrr á því að þessi bruni væri öðruvísi en aðrir. En ég fann mjög sterkt fyrir því að þjónustumiðstöðin var að reyna að gera sitt allra besta. 

Ég hef hins vegar átt fund með eftirlifendum úr brunanum sem fannst þetta ekki nógu skipulega gert og hefðu viljað finna fyrir þéttari stuðningi og meira samtali strax frá upphafi. Og það er eitthvað sem við verðum að taka til okkar. Við verðum að tryggja að aðstæður séu metnar hverju sinni og koma inn með þann stuðning sem þarf að teknu tilliti til aðstæðna þeirra sem í hlut eiga.

Það sem við verðum líka að hafa í huga er að flestir sem bjuggu á Bræðraborgarstíg 1 voru vinnandi fólk sem er ekki vant því að leita sér aðstoðar eða stuðnings frá hinu opinbera og vita jafnvel ekki hvert það á að snúa sér. Eitthvað sem við gerum kannski of mikið ráð fyrir að allir viti í íslensku samfélagi. Þá þurfum við að vera fljót á vettvang og kynna okkar stuðningskerfi.

Annað sem er mjög umhugsunarvert er að bæði þegar slökkvilið kemur á staðinn og þegar Þjónustumiðstöðin kemur að málum eru yfir sjötíu manns skráðir þarna til heimilis. En raunin var sú að miklu færri bjuggu þarna og að einhverjum hluta annað fólk en var þar með skráð lögheimili.“

Dagur hefur átt fundi með eftirlifendum brunans og segir þá hafa bent á að viðbrögð borgarinnar hafi ekki verið nógu skipulögð.
Golli

Í kjölfar fundar með einum eftirlifenda úr brunanum á Bræðraborgarstíg síðsumars boðaði Dagur til fundar með slökkviliðsstjóra, byggingarfulltrúa, þjónustumiðstöðinni, heilbrigðiseftirlitinu og velferðarsviði borgarinnar til að fara yfir þessi mál. Bæði ábendingar íbúanna um hvað hefði mátt gera betur í þjónustunni og til að fara yfir það hvort að það væru mörg hús í borginni sem væri svipað ástatt um. 

„Í framhaldi af þessum fundi var ákveðið að beina erindum til eigenda húsa þar sem annað hvort margir eru skráðir til heimilis eða borist hafa margar ábendingar um og fylgja þannig eftir fyrri erindum um þau. Í þessum erindum var óskað eftir samvinnu við eigendur, meðal annars um að fá að fara í eftirlitsferðir. Við viljum láta á samvinnu við eigendur reyna og auðvitað standa vonir okkar til þess að þessir eigendur séu búnir að átta sig á því eldvarnareftirlit getur leiðbeint og bent á mjög mikilvæga hluti. En þetta er líka hluti af ákveðinni gagnaöflun hjá okkur til að eiga í framhaldinu samtal við löggjafann. Ef það kemur nú í ljós í einhverjum tilteknum tilvikum að ekki fæst samvinna, sem er ekki fullreynt á þessari stundu, verður auðvitað sú spurning áleitnari hvað eigi þá til bragðs að taka.“

Telur þú ástæðu til þess að fara yfir viðbrögð borgarinnar gagnvart fólki sem lifði af og jafnvel veita því einhverja frekari aðstoð?

„Það var það sem við ákváðum að gera á þessum fundi snemma í haust. Þjónustumiðstöð miðborgar fór strax í það mál. Við erum meðvituð um það að sumt fólkið þarf aðstoð. Sumt hefur fengið stuðning frá sínum stéttarfélögum sem ég er mjög ánægður með. Annað, eins og sálfræðiþjónustu, er hægt að sækja í gegnum heilsugæsluna. Það sem ég held að við verðum að velta fyrir okkur er hvernig við tryggjum að við atburði sem þessa þá komum við markvisst upplýsingum til fólks sem ekki er vant að þurfa á þjónustu að halda. Við sem samfélag þurfum í mínum huga að passa upp á að fólk sem á ekki stuðningsnet hér eða þekkir ekki hefðbundnar leiðir eða sinn rétt á auknum stuðningi fái upplýsingar um hann.“


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiViðtal