Collage

Borgin gefur ríkinu út næstu viku til að borga 8,7 milljarða króna, annars mun hún höfða mál

Reykjavíkurborg telur að hún hafi verið útilokuð frá því að hljóta framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga árum saman og að sú útilokun sé bæði andstæð lögum og stjórnarskrá. Hún fer fram á 8,7 milljarða króna auk vaxta og dráttarvaxta vegna framlaga sem hún fékk ekki á árunum 2015-2019.

Reykja­vík­ur­borg mun höfða mál á hendur íslenska rík­inu, og krefj­ast greiðslu á 8,7 millj­örðum króna, ef ríkið sam­þykktir ekki að greiða upp­hæð­ina, með vöxtum og drátt­ar­vöxt­um, fyrir 4. des­em­ber næst­kom­andi. Þetta kemur fram í bréfi sem Ebba Schram borg­ar­lög­maður sendi Ein­ari Karli Hall­varðs­syni rík­is­lög­manni 5. nóv­em­ber síð­ast­lið­inn og Kjarn­inn hefur undir hönd­um.

Sig­urður Ingi Jóhanns­son, sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráð­herra, gerði bréfið á umtals­efni í ávarpi sínu á árs­fundi Jöfn­un­ar­sjóðs sveit­ar­fé­laga í síð­ustu viku. Þar tal­aði hann meðal ann­ars um það sem hann kall­aði „óskilj­an­lega aðför Reykja­vík­ur­borg­ar“ og átti þar við ofan­greinda kröf­u. 

Sig­urður Ingi sagði að kröf­unni hafi verið hafnað og að hún væri frá­leit. „Ég hef tekið málið upp við borg­ar­stjóra og átti eig­in­lega von á því að þetta mál yrði dregið til bak­a[...]Mér varð hins vegar ekki að óski minni því fyrir um tveimur vikum barst rík­is­lög­manni ítrek­un­ar­bréf frá borg­inni um þessa kröfu­gerð. Mik­il­vægt er að borg­ar­full­trúar í Reykja­vík sem og allt sveit­ar­stjórn­ar­fólk geri sér grein fyrir því að þess­ari kröfu er ekki beint gegn rík­is­sjóði – henni er beint gegn sveit­ar­fé­lög­unum í land­inu. Rík­is­sjóður borgar ekki kröfur sem verða dæmdar á rík­is­sjóð vegna Jöfn­un­ar­sjóðs, það verður Jöfn­un­ar­sjóður að gera sjálf­ur.“

Hann hvatti svo borg­ina til að draga kröf­una til bak­a. 

Auglýsing

Dagur B. Egg­erts­son, borg­ar­stjóri Reykja­vík­ur, svar­aði fyrir kröf­una í stöðu­upp­færslu á Face­book í kjöl­far­ið. Þar sagði hann að borgin væri ekki að biðja um sér­reglur fyrir sig heldur að hún yrði metin eftir sömu reglum og aðr­ir. „Eng­inn hefur getað útskýrt sann­girn­ina í núver­andi fyr­ir­komu­lagi og það eru von­brigði ef ekki tekst að ná sam­komu­lagi um eðli­legar leið­rétt­ingar á þessu.“

En um hvað snýst þetta mál eig­in­lega?

Ríkið lagt í Hæsta­rétti í fyrra

Jöfn­un­ar­sjóður sveit­ar­fé­laga hefur það hlut­verk að jafna mis­mun­andi útgjalda­þörf og skatt­tekjur sveit­ar­fé­laga með fram­lög­um. Honum eru tryggðar fastar tekjur á ári hverju með fram­lagi úr rík­is­sjóði, hlut­deild í útsvars­tekjum sveit­ar­fé­laga og vaxta­tekj­u­m. 

Stöðuuppfærsla borgarstjóra í síðustu viku.
Mynd: Skjáskot

Allar reglur sjóðs­ins byggja á þeim grunni að sveit­ar­fé­lög eigi ekki rétt til jafnra fram­laga heldur fari úthlut­anir fram á grund­velli mál­efna­legra og hlut­lægra reglna sem fela í sér útreikn­inga eða mögu­lega lækkun eða nið­ur­fell­ingu á fram­lög­um. Í grein­ar­gerð sem fylgdi laga­breyt­ingu á lögum um tekju­stofna sveit­ar­fé­laga þar sem sér­stak­lega var fjallað um for­sendur úthlut­unar úr Jöfn­un­ar­sjóði, og voru sam­þykkt á Alþingi í lok árs í fyrra, sagði að regl­urnar væru settar til að ná þeim mark­miðum að „jafna stöðu sveit­ar­fé­laga með lægri tekjur í sam­an­burði við sam­bæri­leg sveit­ar­fé­lög þannig að allir íbúar lands­ins fái notið sams konar þjón­ustu frá sínu sveit­ar­fé­lagi, sama hvar þeir búa.“

Í maí í fyrra féll dómur í Hæsta­rétti sem sagði að það væri brot gegn stjórn­ar­skrá að fella niður jöfn­un­ar­fram­lag til Gríms­nes- og Grafn­ings­hrepps úr Jöfn­un­ar­sjóð sveit­ar­fé­laga. Rík­inu var enn fremur gert að greiða sveit­ar­fé­lag­inu 234,4 millj­ónir króna auk vaxta og drátt­ar­vaxta. For­­saga máls­ins er sú að ríkið gerði breyt­ingar á reglu­­gerð um úthlutun úr Jöfn­un­­ar­­sjóði sveit­ar­fé­laga, þar sem kveðið var um að þau sveit­­ar­­fé­lög sem hefðu heild­­ar­skatt­­tekjur af útsvari og fast­­eigna­skatti, sem teld­ist veru­­lega umfram lands­­með­­al­tal, skyldu ekki njóta til­­­tek­inna fram­laga úr sjóðn­­­um.

Þágild­andi reglu­­gerð um Jöfn­un­­ar­­sjóð sveit­­ar­­fé­laga nr. 960/2010 var svo breytt á grund­velli fram­an­­greindrar heim­ildar með reglu­­gerð nr. 1226/2012. Var þar mælt fyrir um nýja grein í stofn­­reglu­­gerð­inni en sam­­kvæmt henni skyldu fram­lög til þeirra sveit­­ar­­fé­laga þar sem heild­­ar­skatt­­tekjur væru að minnsta kosti 50 pró­­sent umfram lands­­með­­al­tal, það er útsvar og fast­­eigna­skattur á hvern íbúa miðað við full­nýt­ingu þeirra tekju­­stofna, falla nið­­ur. 

Auglýsing

Gríms­­nes- og Grafn­ings­hreppur var eitt þeirra fimm sveit­­ar­­fé­laga sem sættu nið­­ur­­fell­ingu jöfn­un­­ar­fram­laga af þessum sök­­um. Höfð­aði hrepp­­ur­inn málið á þeim for­­send­um, og krafð­ist greiðslu sem svar­aði til þeirra fjár­­hæðar sem hann hefði fengið á árunum 2013 til 2016 ef ekki hefði komið til ákvörðun ráð­herra um nið­­ur­­fell­ingu greiðsln­anna. 

Og vann.

Úti­loka greiðslur til borg­ar­innar vegna barna af erlendum upp­runa

Reykja­vík er langstærsta sveit­ar­fé­lag lands­ins og greiðir lang­mest allra sveit­ar­fé­laga í Jöfn­un­ar­sjóð­inn, en um 12 pró­sent af útsvari borg­ar­innar fer í hann árlega. Það gera rúm­lega ell­efu millj­arðar króna. Borgin fær til baka um átta millj­arða króna vegna mála­flokks fatl­aðs fólks og rekst­urs Kletta­skóla.  

Reykja­vík­ur­borg telur með hlið­sjón af Hæsta­rétt­ar­dómnum sem féll í maí í fyrra að hún hafi verið úti­lokuð með ólög­mætum hætti frá því að eiga mögu­leika á að fá ákveðin fram­lög úr Jöfn­un­ar­sjóði sem borgin fær ekki í dag, og krefst þess að ríkið greiði sér sem nemur tekju­jöfn­un­ar­fram­lög­um, jöfn­un­ar­fram­lögum vegna rekst­urs grunn­skóla og fram­lögum til nýbúa­fræðslu. Sam­an­lagt metur borgin þá upp­hæð  sem hún inni á 8,7 millj­arða króna auk vaxta vegna tíma­bils­ins 2015-2019.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í maí í fyrra að það væri brot gegn stjórnarskrá að fella niður jöfnunarframlag til Grímsnes- og Grafningshrepps úr Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Dagur B. Egg­erts­son, borg­ar­stjóri í Reykja­vík, sagði í stöðu­upp­færslu á Face­book í síð­ustu viku að deil­urnar snúi að uppi­stöðu að reglum sem úti­loki borg­ina frá fram­lögum í skóla­mál­um, t.d. vegna barna af erlendum upp­runa, en þau eru lang­flest í Reykja­vík. 

Dagur benti á að öll önnur sveit­ar­fé­lög á land­inu fái greiddar 130 þús­und krónur með hverju barni af erlendum upp­runa úr sjóðnum vegna kennslu. Sömu sögu væri að segja um almennt jöfn­un­arumar­fram­lag vegna grunn­skóla þar sem um hærri upp­hæðir væri að ræða. „Borgin er ekki að biðja um sér reglur fyrir sig heldur þvert á móti að vera metin eftir sömu reglum og aðr­ir. Eng­inn hefur getað útskýrt sann­girn­ina í núver­andi fyr­ir­komu­lagi og það eru von­brigði ef ekki tekst að ná sam­komu­lagi um eðli­legar leið­rétt­ingar á þessu.“

Úthlut­un­ar­reglum breytt til að und­an­skilja Reykja­vík

Eftir að dóm­ur­inn féll lagði Sig­urður Ingi Jóhanns­son fram frum­varp um breyt­ingu á lögum um tekju­stofna sveit­ar­fé­laga og sveit­ar­stjórn­ar­lög­um, og sér­stak­lega um for­sendur úthlut­ana úr Jöfn­un­ar­sjóði.

Í grein­ar­gerð sagði að frum­varpið hefði verið lagt fram af Sig­urði Inga til að „að styrkja ann­ars vegar for­sendur og grund­völl úthlut­ana úr Jöfn­un­ar­sjóði og hins vegar skýra heim­ildir lög­gjaf­ar­innar til að fella niður fram­lög úr sjóðnum í sam­ræmi við dóm Hæsta­réttar frá 14. maí 2019.“

Í þessu fólst meðal ann­ars að úthlut­un­ar­reglum var breytt þannig að bætt var við sér­stökum við­mið­un­ar­flokki fyrir sveit­ar­fé­lög sem hafa 70.000 íbúa eða fleiri. Eitt sveit­ar­fé­lag er nægi­lega stórt til að falla í þann flokk, Reykja­vík­ur­borg. 

Auglýsing

Þá var gerð breyt­ing á úthlut­unum grunn­skóla­fram­laga, ann­ara en þeirra sem byggja á sér­stökum samn­ingi, sem komu í veg fyrir að slík renni til Reykja­vík­ur­borgar og sér­stakir útreikn­ingar á fram­lagi vegna jöfn­unar á tekju­tapi sveit­ar­fé­laga vegna lækk­unar fast­eigna­skatts­tekna í kjöl­far breyt­inga á álagn­ing­ar­stofni mann­virkja lög­fest­ir, þar sem slíkt fram­lag var reiknað út frá fast­eignum í Reykja­vík.

Allar ofan­greindar reikn­ings­reglur og tak­mark­anir á fram­lögum fela í sér að fram­lög til Reykja­vík­ur­borgar úr Jöfn­un­ar­sjóði sveit­ar­fé­laga lækka eða falla nið­ur.

Laga­breyt­ingin í des­em­ber 2019 virð­ist hafa verið gerð sér­stak­lega með það fyrir augum að hindra að Reykja­vík gæti sótt auknar greiðslur í jöfn­un­ar­sjóð­inn. Þau lög tóku gildi þegar þau voru sam­þykkt 17. des­em­ber 2019. Krafa Reykja­vík­ur­borgar er, líkt og áður sagði, vegna áranna 2015-2019.

Hafa rúma viku

Í bréfi borg­ar­lög­manns segir að regl­urnar sem voru í þágild­andi lögum hafi úti­lokað hana frá því að hljóta áður­nefnd fram­lög úr Jöfn­un­ar­sjóði eða skertu þau. Fyrir því hafi skort laga­stoð enda væru regl­urnar í and­stöðu við lög um tekju­stofna sveit­ar­fé­laga, jafn­ræð­is­reglu stjórn­ar­skrár og rétt­mæt­is­reglu.

Í nið­ur­lagi bréfs­ins segir að með vísan til inni­halds þess ítreki Reykja­vík­ur­borg þær kröfur og sjón­ar­mið sem hún hafi sett fram í bréfi sem var upp­haf­lega sent vegna máls­ins 20. des­em­ber 2019. „Komi ekki til greiðslu á fram­an­greindri fjár­hæð [8,7 millj­örðum króna], ásamt vöxtum og drátt­ar­vöxt­u­m[...]eða við­ur­kenn­ingar af hálfu íslenska rík­is­ins á greiðslu­skyldu fyrir 4. des­em­ber 2020 mun Reykja­vík­ur­borg höfða mál á hendur íslenska rík­inu fyrir Hér­aðs­dómi Reykja­vík­ur.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar