Borgin gefur ríkinu út næstu viku til að borga 8,7 milljarða króna, annars mun hún höfða mál
Reykjavíkurborg telur að hún hafi verið útilokuð frá því að hljóta framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga árum saman og að sú útilokun sé bæði andstæð lögum og stjórnarskrá. Hún fer fram á 8,7 milljarða króna auk vaxta og dráttarvaxta vegna framlaga sem hún fékk ekki á árunum 2015-2019.
Reykjavíkurborg mun höfða mál á hendur íslenska ríkinu, og krefjast greiðslu á 8,7 milljörðum króna, ef ríkið samþykktir ekki að greiða upphæðina, með vöxtum og dráttarvöxtum, fyrir 4. desember næstkomandi. Þetta kemur fram í bréfi sem Ebba Schram borgarlögmaður sendi Einari Karli Hallvarðssyni ríkislögmanni 5. nóvember síðastliðinn og Kjarninn hefur undir höndum.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, gerði bréfið á umtalsefni í ávarpi sínu á ársfundi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í síðustu viku. Þar talaði hann meðal annars um það sem hann kallaði „óskiljanlega aðför Reykjavíkurborgar“ og átti þar við ofangreinda kröfu.
Sigurður Ingi sagði að kröfunni hafi verið hafnað og að hún væri fráleit. „Ég hef tekið málið upp við borgarstjóra og átti eiginlega von á því að þetta mál yrði dregið til baka[...]Mér varð hins vegar ekki að óski minni því fyrir um tveimur vikum barst ríkislögmanni ítrekunarbréf frá borginni um þessa kröfugerð. Mikilvægt er að borgarfulltrúar í Reykjavík sem og allt sveitarstjórnarfólk geri sér grein fyrir því að þessari kröfu er ekki beint gegn ríkissjóði – henni er beint gegn sveitarfélögunum í landinu. Ríkissjóður borgar ekki kröfur sem verða dæmdar á ríkissjóð vegna Jöfnunarsjóðs, það verður Jöfnunarsjóður að gera sjálfur.“
Hann hvatti svo borgina til að draga kröfuna til baka.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, svaraði fyrir kröfuna í stöðuuppfærslu á Facebook í kjölfarið. Þar sagði hann að borgin væri ekki að biðja um sérreglur fyrir sig heldur að hún yrði metin eftir sömu reglum og aðrir. „Enginn hefur getað útskýrt sanngirnina í núverandi fyrirkomulagi og það eru vonbrigði ef ekki tekst að ná samkomulagi um eðlilegar leiðréttingar á þessu.“
En um hvað snýst þetta mál eiginlega?
Ríkið lagt í Hæstarétti í fyrra
Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefur það hlutverk að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum. Honum eru tryggðar fastar tekjur á ári hverju með framlagi úr ríkissjóði, hlutdeild í útsvarstekjum sveitarfélaga og vaxtatekjum.

Allar reglur sjóðsins byggja á þeim grunni að sveitarfélög eigi ekki rétt til jafnra framlaga heldur fari úthlutanir fram á grundvelli málefnalegra og hlutlægra reglna sem fela í sér útreikninga eða mögulega lækkun eða niðurfellingu á framlögum. Í greinargerð sem fylgdi lagabreytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga þar sem sérstaklega var fjallað um forsendur úthlutunar úr Jöfnunarsjóði, og voru samþykkt á Alþingi í lok árs í fyrra, sagði að reglurnar væru settar til að ná þeim markmiðum að „jafna stöðu sveitarfélaga með lægri tekjur í samanburði við sambærileg sveitarfélög þannig að allir íbúar landsins fái notið sams konar þjónustu frá sínu sveitarfélagi, sama hvar þeir búa.“
Í maí í fyrra féll dómur í Hæstarétti sem sagði að það væri brot gegn stjórnarskrá að fella niður jöfnunarframlag til Grímsnes- og Grafningshrepps úr Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Ríkinu var enn fremur gert að greiða sveitarfélaginu 234,4 milljónir króna auk vaxta og dráttarvaxta. Forsaga málsins er sú að ríkið gerði breytingar á reglugerð um úthlutun úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, þar sem kveðið var um að þau sveitarfélög sem hefðu heildarskatttekjur af útsvari og fasteignaskatti, sem teldist verulega umfram landsmeðaltal, skyldu ekki njóta tiltekinna framlaga úr sjóðnum.
Þágildandi reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga nr. 960/2010 var svo breytt á grundvelli framangreindrar heimildar með reglugerð nr. 1226/2012. Var þar mælt fyrir um nýja grein í stofnreglugerðinni en samkvæmt henni skyldu framlög til þeirra sveitarfélaga þar sem heildarskatttekjur væru að minnsta kosti 50 prósent umfram landsmeðaltal, það er útsvar og fasteignaskattur á hvern íbúa miðað við fullnýtingu þeirra tekjustofna, falla niður.
Grímsnes- og Grafningshreppur var eitt þeirra fimm sveitarfélaga sem sættu niðurfellingu jöfnunarframlaga af þessum sökum. Höfðaði hreppurinn málið á þeim forsendum, og krafðist greiðslu sem svaraði til þeirra fjárhæðar sem hann hefði fengið á árunum 2013 til 2016 ef ekki hefði komið til ákvörðun ráðherra um niðurfellingu greiðslnanna.
Og vann.
Útiloka greiðslur til borgarinnar vegna barna af erlendum uppruna
Reykjavík er langstærsta sveitarfélag landsins og greiðir langmest allra sveitarfélaga í Jöfnunarsjóðinn, en um 12 prósent af útsvari borgarinnar fer í hann árlega. Það gera rúmlega ellefu milljarðar króna. Borgin fær til baka um átta milljarða króna vegna málaflokks fatlaðs fólks og reksturs Klettaskóla.
Reykjavíkurborg telur með hliðsjón af Hæstaréttardómnum sem féll í maí í fyrra að hún hafi verið útilokuð með ólögmætum hætti frá því að eiga möguleika á að fá ákveðin framlög úr Jöfnunarsjóði sem borgin fær ekki í dag, og krefst þess að ríkið greiði sér sem nemur tekjujöfnunarframlögum, jöfnunarframlögum vegna reksturs grunnskóla og framlögum til nýbúafræðslu. Samanlagt metur borgin þá upphæð sem hún inni á 8,7 milljarða króna auk vaxta vegna tímabilsins 2015-2019.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, sagði í stöðuuppfærslu á Facebook í síðustu viku að deilurnar snúi að uppistöðu að reglum sem útiloki borgina frá framlögum í skólamálum, t.d. vegna barna af erlendum uppruna, en þau eru langflest í Reykjavík.
Dagur benti á að öll önnur sveitarfélög á landinu fái greiddar 130 þúsund krónur með hverju barni af erlendum uppruna úr sjóðnum vegna kennslu. Sömu sögu væri að segja um almennt jöfnunarumarframlag vegna grunnskóla þar sem um hærri upphæðir væri að ræða. „Borgin er ekki að biðja um sér reglur fyrir sig heldur þvert á móti að vera metin eftir sömu reglum og aðrir. Enginn hefur getað útskýrt sanngirnina í núverandi fyrirkomulagi og það eru vonbrigði ef ekki tekst að ná samkomulagi um eðlilegar leiðréttingar á þessu.“
Úthlutunarreglum breytt til að undanskilja Reykjavík
Eftir að dómurinn féll lagði Sigurður Ingi Jóhannsson fram frumvarp um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og sveitarstjórnarlögum, og sérstaklega um forsendur úthlutana úr Jöfnunarsjóði.
Í greinargerð sagði að frumvarpið hefði verið lagt fram af Sigurði Inga til að „að styrkja annars vegar forsendur og grundvöll úthlutana úr Jöfnunarsjóði og hins vegar skýra heimildir löggjafarinnar til að fella niður framlög úr sjóðnum í samræmi við dóm Hæstaréttar frá 14. maí 2019.“
Í þessu fólst meðal annars að úthlutunarreglum var breytt þannig að bætt var við sérstökum viðmiðunarflokki fyrir sveitarfélög sem hafa 70.000 íbúa eða fleiri. Eitt sveitarfélag er nægilega stórt til að falla í þann flokk, Reykjavíkurborg.
Þá var gerð breyting á úthlutunum grunnskólaframlaga, annara en þeirra sem byggja á sérstökum samningi, sem komu í veg fyrir að slík renni til Reykjavíkurborgar og sérstakir útreikningar á framlagi vegna jöfnunar á tekjutapi sveitarfélaga vegna lækkunar fasteignaskattstekna í kjölfar breytinga á álagningarstofni mannvirkja lögfestir, þar sem slíkt framlag var reiknað út frá fasteignum í Reykjavík.
Allar ofangreindar reikningsreglur og takmarkanir á framlögum fela í sér að framlög til Reykjavíkurborgar úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga lækka eða falla niður.
Lagabreytingin í desember 2019 virðist hafa verið gerð sérstaklega með það fyrir augum að hindra að Reykjavík gæti sótt auknar greiðslur í jöfnunarsjóðinn. Þau lög tóku gildi þegar þau voru samþykkt 17. desember 2019. Krafa Reykjavíkurborgar er, líkt og áður sagði, vegna áranna 2015-2019.
Hafa rúma viku
Í bréfi borgarlögmanns segir að reglurnar sem voru í þágildandi lögum hafi útilokað hana frá því að hljóta áðurnefnd framlög úr Jöfnunarsjóði eða skertu þau. Fyrir því hafi skort lagastoð enda væru reglurnar í andstöðu við lög um tekjustofna sveitarfélaga, jafnræðisreglu stjórnarskrár og réttmætisreglu.
Í niðurlagi bréfsins segir að með vísan til innihalds þess ítreki Reykjavíkurborg þær kröfur og sjónarmið sem hún hafi sett fram í bréfi sem var upphaflega sent vegna málsins 20. desember 2019. „Komi ekki til greiðslu á framangreindri fjárhæð [8,7 milljörðum króna], ásamt vöxtum og dráttarvöxtum[...]eða viðurkenningar af hálfu íslenska ríkisins á greiðsluskyldu fyrir 4. desember 2020 mun Reykjavíkurborg höfða mál á hendur íslenska ríkinu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.“
Lestu meira:
-
16. ágúst 2022Bjarni segir rangt að hann „vilji Sósíalistaflokkinn feigan“
-
16. ágúst 2022Saga tekjutengingar ellilífeyris almannatrygginga frá 1946
-
16. ágúst 2022Segir Bjarna vilja ýkja völd Sjálfstæðisflokks umfram fylgi og draga úr áhrifum annarra
-
16. ágúst 2022Segir ASÍ hafa beinlínis unnið gegn nýjum öflum innan verkalýðshreyfingarinnar
-
16. ágúst 2022Villimenn við borgarhliðið: Kreppa íslensku verkalýðshreyfingarinnar I
-
15. ágúst 2022Enn ein tilraun gerð til að semja um verndun úthafanna
-
15. ágúst 2022Bensínlítrinn lækkaði í fyrsta sinn á þessu ári en hlutdeild olíufélaganna í hverjum seldum lítra eykst
-
15. ágúst 2022Kaupfélag Skagfirðinga hefur hagnast um 18 milljarða króna á fjórum árum
-
13. ágúst 2022Færri atvinnulausir en fleiri fastir í langtímaatvinnuleysi
-
13. ágúst 2022Gömlu blokkirnar brotna í breyttu pólitísku landslagi